05.11.2017 09:41

Breskir togarar stranda í Önundarfirði í nóvember 1912.

Mikið ofsaveður gekk yfir Vestfirði 6 nóvember árið 1912, sem stóð stutt yfir. Í kjölfar þess, leituðu margir togarar í var inn á firðina og lágu þar við akkeri á meðan veðurofsinn gekk yfir. Þrír þeirra, breskir, slitnuðu upp og ráku á land í Önundarfirði. Tveir þeirra komust á flot á næsta flóði, en sá þriðji, Hulltogarinn Crusader H 5 sat fastur rétt innan við þorpið á Flateyri. Björgunarskipið Geir var sent vestur til aðstoðar togaranna. Náði Geir að draga Crusader á flot þremur dögum síðar. Töluverðar skemmdir höfðu orðið á togaranum við strandið, sem gert var við til bráðabirða á Flateyri og dró síðan Geir togarann til Reykjavíkur.
Crusader H 5 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1904. 259 brl að stærð og var í eigu Marine Steam Fishing Company Ltd í Hull. 12 manna áhöfn var á togaranum og skipstjóri var Niels Madson.

Breski togarinn Crusader H 5 á strandstað rétt innan við þorpið á Flateyri í Önundarfirði í nóvember 1912. Lengst til vinstri er bærinn Hvilft. Neðan við bæinn var reist hvalveiðistöð eftir að Sólbakkaverksmiðjan brann 6 ágúst árið 1901. Þessi hvalveiðistöð var lítið sem ekkert notuð og flutti eigandinn, norðmaðurinn Hans Ellefssen starfsemi sína til Mjóafjarðar. Strompurinn og gufuketill standa enn sem minnisvarði um þessa gósentíð hvalveiðanna við Ísland.                       (C) Handels & Söfart museets.dk


Crusader H 5 á strandstað innan við Flateyri í Önundarfirði.   (C) Handels & Söfart museets.dk

Crusader H 5. Unnið við viðgerð á skipinu á strandstað.       (C) Handels & Söfart museets.dk


Hulltogarinn Crusader H 5 á siglingu.                                                   Mynd úr safni mínu.

          Botnvörpungar stranda

Aðfaranótt miðvikudags strönduðu 3 brezkir botnvörpungar á Önundarfirði, Geir kvaddur til hjálpar. Í fyrrinótt strandaði þýzkur botnvörpungur á útsigling frá Ísafirði. Búist við, að nást mundi út.

Ísafold. 9 nóvember 1912.

       Togaraströnd við Vestfirði

Fyrstu daga nóvembermánaðar árið 1912 var ríkjandi norðan og norðaustan hvassviðri við Vestfirði. Leituðu þá margir erlendir togarar í var inn á firðina þar. 6 nóvember gerði ofsaveður á þessum slóðum, sem stóð aðreins í nokkrar klukkustundir. Slitnuðu þá sex erlendir togarar upp og rak þá í srtand. Þrír þessara togara strönduðu við Önundarfjörð. Náði einn þeirra sér strax á flot aftur og sigldi þá til hafs. Annar komst á flot á næsta flóði, en nokkrar skemmdir höfðu orðið á honum svo hann var ósjálfbjarga. Þriðji togarinn sat fastur á strandstað sínum, en skipshöfnin komst í land á björgunarbátnum. Tveir breskir togarar strönduðu við Patreksfjörð.
Áhafnir þeirra komust hjálparlaust í land þegar óveðrinu tók að slota. Sjötti togarinn strandaði svo við Ísafjörð. Var sá þýskur. Dvaldi áhöfn hans um borð næsta sólarhring, en fór þá í land, þar sem útlit var á að veður versnaði aftur. Björgunarskipið Geir var sent frá Reykjavík til þess að aðstoða togaranna. Kom það vestur 9 nóvember. Dró Geir fyrst út togaranna sem strandað höfðu við Patreksfjörð, síðan togarann sem enn var fastur í Önundarfirði og loks togarann sem strandað við Ísafjörð.

Þrautgóðir á raunastund. X bindi.
Steinar J Lúðvíksson 1978. 


 
Flettingar í dag: 346
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 1625
Gestir í gær: 59
Samtals flettingar: 1189134
Samtals gestir: 83483
Tölur uppfærðar: 28.3.2025 22:48:07