12.12.2017 04:38

S. t. Dhoon FD 54 strandar við Látrabjarg.

Dhoon FD 54 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1915 sem Armageddon H 319 fyrir Cargill Steam Trawling Co Ltd í Hull. 323 brl. 500 ha 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 636. Seldur 30 september 1921, Wyre Steam Trawling Co Ltd í Fleetwood. Fær nafnið Dhoon FD 348. Árið 1927-28 var togarinn gerður út af Hudson Bros Ltd í Hull, hét Dhoon H 396. Árið 1929 er togarinn aftur kominn í eigu Wyre Steam Trawling Co Ltd í Fleetwood, hét Dhoon FD 54. 18 október 1935 verður togarinn fyrir miklu áfalli vestur af St. Kilda í Skotlandi þegar brotsjór hreif með sér stjórnpall skipsins og olli miklu tjóni á honum. Dhoon var þá á heimleið af Íslandsmiðum. Ekkert manntjón varð. Togarinn strandaði við Látrabjarg 12 desember árið 1947. Í hönd fór eitt mesta björgunarafrek sem unnið hefur verið í Íslandssögunni fyrr og síðar.


Breski togarinn Dhoon FD 54 á siglingu.                                                             Mynd úr safni mínu.


Dhoon eftir áfallið sem hann fékk við St. Kilda í október 1935.                         Mynd úr safni mínu.


  Breskur togari strandar undir 200 m. háum                     hamravegg við Látrabjarg                          Ekki tókst að bjarga skipbrotsmönnum í gær 

Tólf eða fjórtán breskir sjómenn börðust í allan gærdag og í nótt er leið, harðri baráttu fyrir lífi sínu, undir 200 metra háum hamravegg, Keflavíkurbjargs við Látrabjarg. Skip þeirra Dhoon frá Fleetwood, rúml. 170 smál. strandaði undir bjarginu í gærmorgun í myrkri og hríð. Gerðar voru tilraunir úr skipum til þess að bjarga skipbrotsmönnum, en þeim varð ekki við komið. Björgun úr landi var ekki möguleg í gær. Sögðu menn í gærkvöldi, litlar líkur til þess að þeim yrði bjargað, en björgunarsveit fer á vettvang í birtingu í dag.
Fyrstu frjettir er Slysavarnarfjelaginu bárust um strandið komu um kl. 10. Var það skeyti frá breskum togara, er sá hvar Dhoon var strandað undir bjarginu. Staðarákvörðun var mjög villandi.  Varðbáturinn Finnbjörn var staddur um það bil 3 klukkustunda siglingu frá strandstað og brá hann þegar við. Var varðbáturinn kominn á vettvang og búinn að finna skipið um kl. 2 í gær. Slysavarnarfjelagið hafði og gert aðvart að Hvallátrum. Fóru menn þaðan að leita hins strandaða skips. Var klukkan orðin um 3 er Hvallátramenn fundu skipið. Staður sá, er hinn breski togari hafði strandað á, heitir Geldingaskorardalur í Keflavíkurbjargi og er á milli Látrabjargs og Bæjarbjargs. Þar er fjöruborðið mjög Iítið, en af hamrabrúninni og þangað niður eru um 200 metrar. Er Hvallátramenn komu var að flæða að, og myrkur að skella á. Var því ekkert hægt að hafast að um björgun skipsbrotsmanna. Togarinn stóð kjölrjettur um 30 metra frá landi og töldu menn hann vera skorðaðan í stórgrýtisurð, sem þarna er. Tvo skipsmenn sáu þeir á hvalbak. Þegar varðbáturinn Finnbjörn kom, voru þar fyrir tveir breskir togarar. Skipsverjum á Finnbirni var það þegar ljóst, að útilokað var fyrir þá, að geta bjargað mönnunum af hinu strandaða skipi. Mikill sjógangur var og allt í kringum skipið braut himinháar öldur á grunnbrotum og sjálft lá skipið undir stöðugum áföllum. Var nú Finnbirni siglt eins nálægt og forsvaranlegt þótti, ef vera kynni, að takast mætti að skjóta af línubyssu að hinu strandaða skipi. En því miður var það ekki hægt. Skipverjar á Finnbirni tóku eftir því, er þeir komu á vettvang, að engan lífbát var að sjá á skipinu. Hefur hann sennilega tekið út skömmu eftir strandið.
Eins og skýrt hefur verið frá hjer að framan, var að flæða að. Um klukkan sex í gærkvöld var komið háflæði og var þá nokkuð af yfirbyggingu þess í kafi, einkum að aftan. Skipverjar voru þá ýmist frammi á hvalbak eða uppi í stjórnpalli. Því nær látlaust gengu sjóar yfir mennina á hvalbaknum, en þeir sem voru í stjórnpalli munu hafa haft þar eitthvert afdrep. Með einhverjum hætti tókst skipbrotsmönnum að kveikja bál á hvalbaknum. Sáu skipverjar á Finnbirni hina bresku sjómenn bera við að eldinum, eftir því sem þeir gátu. Í allan gærdag reyndu skipin þrjú, sem voru fyrir utan strandstaðinn, að hafa samband við skipið. Fyrst í stað voru talstöðvar skipanna notaðar en án árangurs. Þá var sent til þeirra á morse, en ekki var því heldur svarað. Sennilegt er að loftnetið hafi bilað skömmu eftir strandið. Í gærkvöldi náðu skipverjar á breska togaranum Brithis frá Grimsby, sem er annar hinna bresku togara, sem voru þarna, sambandi við skipbrotsmenn. Var það gert með ljósmerkjum. Skipbrotsmenn sögðu þá að einu staðirnir í skipinu, sem menn gætu haldið sig, væri frammi á hvalbak og í stjórnpalli. Ekki gátu þeir þess að neinn þeirra hefði farist í strandinu. Menn þeir er fóru á strandstaðinn í gær, sögðu að lítil von væri um að takast mætti að bjarga mönnunum, þó veður myndi ekki versna til muna. En  þegar þetta er skrifað fór veður versnandi þar um slóðir og versnaði í sjóinn. Menn voru einnig hræddir um að skipið myndi ekki þola hin látlausu og þungu áföll.
Allt björgunarstarf úr landi hefur verið skipulagt og að Hvallátrum voru í gærkvöldi komnir 15 menn er voru að undirbúa björgun skipbrotsmanna. Mun björgunarsveitin fara á vettvang í bíti í dag. Aðstæður allar til björgunarstarfsins eru erfiðar. Fyrst verður björgunarsveitin að klyfa 50 metra háa svellbungu, en er yfir hana er komið þurfa þeir að koma fyrir bjargsigsköðlum, til þess að komast niður í fjöruborðið, en bjargið sem síga þarf er um 150 metra hátt.
Á þessum sama stað strandaði breski togarinn Jeria árið 1936. Fórst togarinn með allri áhöfn og aðeins eitt líkanna rak á land. Þetta er einn allra versti strandstaður við strendur landsins.

Morgunblaðið. 13 desember 1947.


Strandstaður togarans Dhoon undir Látrabjargi.               Mynd úr þrautgóðum á raunastund lll bindi.


                 Síðustu fréttir

Um klukkan 11 í gærkvöldi átti Morgunblaðið tal við Harald Björnsson skipherra á varðbátnum "Finnbirni", sem heldur sig í námunda við strandstaðinn. Skipherrann sagði, að sjer væri ekki kunnugt um, að neinn skipbrotsmanna hefði farist. Sagði hann þá vera á stjórnpalli og nokkra undir hvalbak skipsins, en þar logaði enn eldur í báli því, sem þeir höfðu kveikt. Sjóar voru miklir og gengu enn nokkuð yfir skipið, en fjara var. Sagði skipherra skipið standa kjölrjett. Strekkingur var af SA og hafði hann aukist nokkuð með kvöldinu. Hann sagði það álit sitt, að björgun úr landi myndi reynast mjög erfið. Ekki vildi hann spá neinu um örlög skips eða skipshafnar.

Morgunblaðið. 13 desember 1947. 

Flettingar í dag: 399
Gestir í dag: 110
Flettingar í gær: 708
Gestir í gær: 231
Samtals flettingar: 1922777
Samtals gestir: 487651
Tölur uppfærðar: 13.7.2020 15:12:43