18.02.2018 10:25

623. Skálafell RE 20. TFOK.

Vélskipið Skálafell RE 20 var smíðað af Júlíusi Nyborg í Skipasmíðastöð Hafnarfjarðar árið 1943. Eik. 53 brl. 193 ha. Allen díesel vél. Smíðanúmer 5. Eigandi var Sigurjón Sigurðsson útgerðarmaður í Reykjavík frá 10 júní sama ár. Báturinn hét Súgandi RE 20 í nokkrar vikur eftir sjósetningu. Seldur 26 febrúar 1946, Jóni Guðmundssyni í Reykjavík, sama nafn og númer. Ný vél (1948) 215 ha. Polar díesel vél. Seldur 31 október 1951, Nikulási Jónssyni og Jóhanni Péturssyni í Reykjavík, hét Sandfell RE 20. Seldur 21 nóvember 1953, Emil Andersen í Vestmannaeyjum, hét þá Júlía VE 123. Ný vél (1958) 280 ha. Alpha díesel vél. Seldur 1983-84, Grímni h/f á Kópaskeri, sama nafn og númer. Báturinn var talinn ónýtur og tekinn af skrá 22 september árið 1987. Endaði svo á áramótabrennu í Njarðvík sama ár.


Skálafell RE 20 sjósett frá Skipasmíðastöð Hafnarfjarðar 1 júní 1943.      (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


                 Skálafell RE 20

Þann 1. júní síðastliðinn hljóp nýr bátur af stokkunum úr Skipasmíðastöð Hafnarfjarðar. Bátur þessi heitir Skálafell og hefur einkennisstafinn RE 20. Teikningar af Skálafelli gerði Júlíus V Nyborg, eigandi skipasmíðastöðvarinnar. Ýmislegt í fyrirkomulagi skipsins ofan þilja er gert samkvæmt tillögum Sigurðar heitins Guðbrandssonar skipstjóra. Vistarverur skipverja voru einnig gerðar samkvæmt fyrirmælum Sigurðar, en hann mátti vel vita, hvað bezt hentaði í þessum efnum, því að hann hafði verið skipstjóri og stýrimaður á togurum í 27 ár. Skálfell er 53 rúmlestir brúttó að stærð og hefur 200 hestafla Allen-Dieselvél. Hraði bátsins er um 10 sjómílur, og er því meiri en flestra hérlendra togara. Sjálfritandi bergmálsdýptarmælir er í bátnum og talstöð. Allar vistarverur skipverja eru hitaðar með miðstöðvarkyndingu frá eldavél. Vistarverur skipverja eru allar mjög vandaðar. Skálfell er beinlínis smíðað með það fyrir augum að stunda togveiðar og er útbúnaður og fyrirkomulag skipsins sniðið eftir því. Þess má t. d. geta, að skrúfan er sérstaklega smíðuð í því augnamiði. Sennilega hefur aldrei verið smíðaður bátur hér á landi, þar sem fyrirkomulag og útbúnaður allur hefur eins verið miðaður við þá veiðiaðferð, sem báturinn á að stunda, og í Skálafelli.
Skálfell er skrásett í Reykjavik, og er það eina nýja fiskiskipð, sem bætzt hefur þar í flotann nú um átta ára skeið. Eigandi Skálafells er Sigurjón Sigurðsson útgerðarmaður í Reykjavík. Skipstjóri var ráðinn faðir eigandans, Sigurður Guðbrandsson, en hann lézt af slysförum, skömmu eftir að báturinn hafði byrjað veiðar, og er þess nánar getið á öðrum stað í blaðinu.

Tímaritið Ægir. 1 júní 1943.


Skálafell RE 20 í smíðum hjá Júlíusi Nyborg í Hafnarfirði.                  (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Skálafell RE 20 á siglingu eftir sjósetninguna.                                        (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

 Skipstjóri Skálafells RE lést af slysförum

Sigurður Guðbrandsson skipstjóri andaðist af slysförum 22. júni. Vildi það til með þeim hætti, að þegar hann ætlaði að fara í land úr skipinu Skálafelli, er lá við bryggju í Hafnarfirði, sporðreistist stíginn og féll hann við það og lenti milli bryggju og báts. Náðist hann skjótt og var fluttur meðvitundarlaus í Hafnarfjarðarspítala, en þar andaðist hann skömmu síðar. Talið er, að hann hafi lent með höfuðið á borðstokknum, áður en hann féll í sjóinn.
Sigurður var fæddur að Gafli í Flóa 25. Apríl 1886. Þaðan fluttist hann kornungur að Eyrarbakka, en 16 ára gamall hélt hann til Reykjavíkur og dvaldi þar upp frá því. Sigurður var kvænlur Eyrúnu Árnadóttur frá Stakkarhúsum í Flóa. Lifir hún mann sinn ásamt 5 börnum. Strax um fermingu byrjaði Sigurður að stunda sjó. Fyrst var hann á skútum og síðar á togurum. Árið 1915 réðist Sigurður til h/f Kveldúlfs og varð þá stýrimaður á Snorra gamla Sturlusyni. Alls starfaði hann hjá Kveldúlfi í 25 ár, tuttugu ár sem skipstjóri og 5 ár sem stýrimaður. Þegar Sigurður lézt, hafði hann nýverið tekið við skipstjórn á Skálafelli, en það er nýr vélbátur, sem Sigurjón sonur hans á.
Sigurður þótti duglegur sjómaður og mikill aflamaður. Hann var víkingur til verka og krafðist þess að aðrir ynnu vel. Hann var allmikill skapmaður og gat verið stórorður á stundum. En jafnan slóð slíkt ekki djúpt. Sigurður sinnti öllum störfum, er hann tók að sér með mikilli alúð og eigi skorti hann kappið. Því vann hann sér traust þeirra, er við hann áttu að skipta. Að honum gengnum er íslenzkri sjómannastétt mikill sjónarsviftir.

Tímaritið Ægir. Júní 1943.Flettingar í dag: 1533
Gestir í dag: 391
Flettingar í gær: 798
Gestir í gær: 301
Samtals flettingar: 1963985
Samtals gestir: 497385
Tölur uppfærðar: 12.8.2020 14:36:31