25.03.2018 06:58

Snæfugl SU 20. TFMQ.

Vélskipið Snæfugl SU 20 var smíðaður í Landskrona í Svíþjóð árið 1946 eftir teikningu Bárðar Tómassonar. Eik. 79 brl. 215 ha. Atlas díesel vél. Eigandi var Snæfugl h/f á Búðareyri (Reyðarfirði) frá október sama ár. Ný vél (1951) 240 ha. Lister díesel vél. Skipið sökk um 4 sjómílur út af Seley í mynni Reyðarfjarðar 30 júlí árið 1963. Áhöfnin, 10 menn, bjargaðist naumlega í gúmmíbjörgunarbát og var síðan bjargað um borð í vélskipið Guðmund Péturs ÍS 1 frá Bolungarvík. Snæfugl var á heimleið með um 800 tunnur af síld og talið var að stíur í lest hafi gefið sig.
Snæfugl SU 20 var einn af sjö bátum sem smíðaðir voru eftir þessari teikningu Bárðar. Fimm þeirra fórust á rúmsjó og einn þeirra brann.


Snæfugl SU 20 í Vestmannayjahöfn.           (C) Torfi Haraldsson.   Úr safni Tryggva Sigurðssonar.

       Svíþjóðarbátur til Búðareyrar

Í gær kom hingað til Búðareyrar einn Svíþjóðarbátur. Hann er rúmlega 80 smálestir, hefur 215 ha. Atlas-dieselvél. Ganghraði um 9 mílur. Hann fer væntanlega á síldveiðar í dag. Bátur þessi heitir Snæfugl, eign samnefnds útgerðarfélags. Skipstjóri á leiðinni upp var Júlíus Kemp, en skipstjóri í sumar verður Bóas Jónsson frá Eyri. Báturinn reyndist vel á leiðinni hingað. Var komu bátsins mjög fagnað og fánar dregnir að hún. Bátur þessi er smíðaður í Landskrona í Svíþjóð, en á leiðinni hingað kom hann við í Álaborg og tók þar sementsfarm.

Þjóðviljinn 17 júlí 1946.


Snæfugl SU 20 í höfn á Reyðarfirði með fullfermi síldar.                           (C) Geir Gunnlaugsson.

   Eitt af systurskipum Borgeyjar sent
       til Austurlands án rannsóknar

       Forseti Slysavarnafélagsins var á móti því,
      að báturinn færi áður en rannsókninni lýkur 

Snæfugl frá Reyðarfirði, eitt af systurskipum "Borgeyjar", fór í gær héðan frá Reykjavík með vörur til Austfiarðahafna; Voru um það skiptar skoðanir, hvort skipið skyldi leggja úr höfn áður en rannsókninni á sjóhæfni þessara báta er lokið. Var forseti slysavarnafélagsins eindregið á móti því, að báturinri fengi að fara úr höfn, en skipaskoðunarstjóri taldi ekki ástæðu til að stöðva bátinn.
Blaðið átti í gær tal við slysavarnafélagið um þetta mál og taldi það vítavert, að skipinu skyldi leyft að hlaða hér vörur og flytja þær til Austfjarða, áður en rannsókn á sjóhæfni skipsins hefur farið fram. Taldi það skyldu skipaskoðunarstjóra að stöðva skipið og sjá svo um, að systraskip "Borgeyjar'' væru ekki í förum fyrr en rannsókn á þeim hefði farið fram, en eins og kunnugt er hefur samgöngumálaráðherra skipað nýja rannsóknarnefnd í tilefni Borgeyjarslyssins, og á hún sem fyrst að ljúka rannsókn á sjóhæfni allra Svíþjóðarbátanna, sem eru af sömu gerð og Borgey var. Blaðið sneri sér síðan til Ólafs Sveinssonar skipaskoðunarstjóra og spurðizt fyrir um álit hans á þessu máli. Kvaðst skipaskoðunarstjóri ekki sjá ástæðu til að stöðva "Snæfugl" enda hefði hann farið um borð í skipið og fullvissað sig um hleðslu þess. Sagðist hann hafa bannað, að hafa dekklest á skipinu, og væri hleðslan ekki meiri en svo, að fríborðið væru tveir plankar. Sagðist skipaskoðunarstjóri að sjálfsögðu hafa leyfi til að stöðva skip, ef um ofhleðslu væri að ræða, eða ef hleðsla þeirra væri kærð; en um slíkt væri ekki að ræða í þessu sambandi.

Alþýðublaðið. 22 nóvember 1946.


Snæfugl SU 20. Líkan Gríms Karlssonar.                                                  (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Snæfugl SU 20 í kröppum sjó.                                                     (C) Ljósmyndasafn Eskifjarðar.


Snæfugl SU 20. Síðasta kastið. Það var skipverji á Skagaröst KE sem tók þessa ljósmynd.


Snæfugl SU 20. Stutt í endalokin.                                                           Ljósmyndari óþekktur.


Vélskipið Guðmundur Péturs ÍS 1 bjargaði áhöfninni af  Snæfugli. Guðmundur Péturs var einn af hinum svokölluðu Tappatogurum, smíðaður í Stralsund í Austur Þýskalandi árið 1958 eftir teikningu Hjálmars R Bárðarsonar.   (C) Snorri Snorrason.  Úr safni Atla Michelsen.

          Vélskipið Snæfugl SU 20

                      Sökk á 5 mínútum
         Talað við skipstjóra björgunarskipsins

Vélbáturinn Snæfugl, SU 20, fórst klukkan 22 í kvöld um 4 mílur suðsuðaustur af Seley. Skipið var á leið inn með afla, er veður versnaði, og bar slysið mjög brátt að. Skipstjórinn gat rétt kallað út, að skipið væri að sökkva og gafst enginn tími til þess að gefa upp staðarákvörðun, en bað 250 tonna stálskip, sem væri ný farið fram hjá sér, að koma strax til hjálpar. Síðan heyrðist ekkert til Snæfuglsins, en skipstjórinn á 250 lesta stálskipinu hafði tekið vel eftir, er hann sigldi fram hjá Snæfuglinum og sneri þegar í stað við. Það var Trausti Gestsson á Guðmundi Péturs frá Bolungarvík og örskömmu síðar fann hann gúmbát Snæfugls á sjónum. Til allrar hamingju voru allir skipverjar Snæfugls heilir á húfi í bátnum og voru þeir teknir um borð í Guðmund Péturs. Guðmundur Péturs kallaði á Gunnar, SU 139, sem einnig er 250 lesta stálskip og leituðu bæði skipin nokkra stund á staðnum, sem Snæfugl sökk á, ef ske kynni, að nótin kæmi upp, en er Guðmundur Péturs lagði af stað til lands, hafði sú leit ekki borið árangur. Guðmundur Péturs var væntanlegur með skipbrotsmenn inn til Reyðarfjarðar um eitt leytið í nótt.
Snæfugl SU 20 var 79 tonna eikarbátur, byggður í Landskrona í Svíþjóð árið 1946, en systurskip hans hafa mjög týnt tölunni. Skipstjóri á Snæfugli var Bóas Jónsson frá Reyðarfirði, en eigandi Snæfugl h.f., Reyðarfirði. Við náðum tali af Trausta Gestssyni skipstjóra á Guðmundi Péturs, er hann átti eftir um klukkustundar siglingu til Reyðarfjarðar í nótt.  Ja, þetta fór vel úr því sem komið var, sagði Trausti. Það er orðið slæmt veður hérna, Snæfuglinn var á leið inn með um 700 tunnur en við vorum með svo gott sem tómt skip, aðeins 80 tunnur. Við vorum nýbúnir að fara fram hjá Snæfuglinum, þegar hann kallaði út, að hann væri að sökkva og snerum náttúrlega strax við. Við vorum svo nýfarnir framhjá honum, að við fundum mennina strax, þótt þeir hefðu engan tíma haft til að gefa upp staðarákvörðun. Þeir voru 10 á og komust allir í gúmbátinn heilu og höldnu, aðeins einn blotnaði í fæturna.
Það voru aðeins liðnar um tíu mínútur frá því að hann kallaði og þar til við fundum gúmbátinn og þá var Snæfugl steinsokkinn. Þetta hefur borið brátt að, en þó ekki meira en svo, að þeir hafa náð að komast upp og hafa þó sjálfsagt flestir verið niðri og a. m. k. sumir í kojunum. Annars vil ég ekki segja mikið um þetta, þeir segja frá því í sjóprófunum, hvað komið hefur fyrir. Við leituðum dálítið að nótinni, þar sem Snæfugl sökk, ásamt Gunnari SU, en hún var ekki komin upp, er við snerum inn til Reyðarfjarðar með mennina.

Tíminn. 31 júlí 1963.Flettingar í dag: 1515
Gestir í dag: 387
Flettingar í gær: 798
Gestir í gær: 301
Samtals flettingar: 1963967
Samtals gestir: 497381
Tölur uppfærðar: 12.8.2020 14:04:54