01.09.2018 23:32

L. W. Haskell. Olíubátur.

Olíubáturinn L.W. Haskell var smíðaður hjá Osbourne, Graham & Co Ltd. North Hylton í Sunderland á Englandi árið 1915. 132 brl. (48 n.h.p. 1x4 cyl. 4SCSA díesel Engine single shaft 1 screw, smíðuð hjá L. Gardner & Sons í Canterbury á Englandi) Var í eigu Southern Oil Co Ltd í Manchester á Englandi, tók m.a. þátt í innrás bandamanna í Gallipoli á Ítalíu árið 1916. Haskell kom hingað til landsins á vegum Olíufélagsins hf árið 1950, en var aldrei skráður á Íslandi því íslensk lög heimiliðu ekki skipum eldri en 12 ára íslenska skráningu. Haskell var því skráður hjá Esso Export Ltd í London. Báturinn var notaður til að flytja olíu í togara og önnur skip í Reykjavíkurhöfn og fleiri höfnum við Faxaflóa og til birgðastöðvarinnar og Hvalstöðvarinnar í Hvalfirði. Haskell var hinsvegar lítið sjóskip og hæggengur og kom því að litlum notum í vondum veðrum. Endalok Haskells urðu þau að hann sökk út af Hvammsvík í Hvalfirði 4 júlí árið 1962. Var hann þá á leið til Hvalstöðvarinnar með um 200 tonn af svartolíu. Stuttu áður hafði Haskell tekið niðri á Laufagrunni, skammt undan Bakka á Kjalarnesi og sökk svo undan Hvammsvík í Hvalfirði eins og áður segir. Áhöfnin, þrír menn, björguðu sér á léttbáti til lands.


L. W. Haskell á Reykjavíkurhöfn.                                                                   Ljósmyndari óþekktur.

         Olíubátur sökk í Hvalfirði
  Áhöfnin bjargaðist í land á skektu

Olíubáturinn L. W Haskell sökk í gærdag út af Hvammsvík við Hvalfjörð. Á bátnum var þriggja manna áhöfn og björguðust mennirnir á land á báti. Haskell var að fara með fuel olíu til Hvalstöðvarinnar í Hvalfirði þegar þetta gerðist. Olíubáturinn L. W. Haskell kom hingað til lands fyrir allmörgum árum á vegum Olíufélagsins h f" en fékkst ekki skráður hér vegna þess að þá var hann orðinn eldri en tólf ára. Samkvæmt Íslenzkum lögum má ekki skrá hér skip, sem keypt eru gömul erlendis frá séu þau eldri en 12 ára. Haskell var því skráður í London. Öll björgunartæki á Haskell munu hafa verið samkvæmt íslenzkum reglugerðum, þó svo væri ekki skylt, þar eð skipið var skráð í Englandi.
Haskell sökk um hálf sex leytið í gærdag út af Hvammsvík í Hvalfirði. Hann var með 190 tonn af fuel olíu, sem átti að fara til Hvalstöðvarinnar. Talið er að skilrúm fremst í bátnum hafi brostið, og olía komist fram í hásetaklefann. Báturinn seig skyndilega að framan og stakkst svo í djúpið. Skipsmenn björguðust í land í Hvammsvík á skektu. Þar sem báturinn sökk mun vera um 20 faðma dýpi. Olíubáturinn Haskell var einkum notaður til þess að flytja olíu upp í Hvalfjörð og stundum til Hafnarfjarðar, einnig var hann mikið notaður við að setja olíu á skip hér í höfninni. Áður en Haskell var keyptur hingað mun hann hafa verið notaður til að flytja soyabaunir, og var ekki skipt um nafn á honum er hann kom hingað til lands. Skipstjóri á Haskell var Gunnar Magnússon. Alvarleg hætta steðjar að öllu fuglalífi á stóru svæði við Hvalfjörð komist eitthvað af olíunni sem var í Haskell upp á yfirborðið. 

Alþýðublaðið. 5 júlí 1962.


Olíubáturinn L. W. Haskell að dæla olíu á bandarískan kafbát í Reykjavíkurhöfn árið 1956.

 Tímanum og Olíufélaginu ber ekki        saman við skipaskrá Lloyds
    Segja Olíufélagið eiga Haskell       Lloyd segir eiganda í London farið              í kringum Íslenzk lög

Á forsíðu "Tímans" í gær er skýrt frá því að oliupramminn L.W. Haskell sé eign Olíufélagsins. Í viðtali við Mbl. í gær staðfesti Guðni Hannesson, fulltrúi hjá Olíufélaginu, að skipið væri eign félagsins. Kemur þetta ekki heim við það sem segir um skipið í Lloyd's Register of Shipping, sem skráir eiganda þess Esso Export Ltd. í London, en svo sem skýrt hefur verið frá var Haskell skrásett þar. Hinsvegar hefur skráning skipverja á Haskell farið fram hjá lögskráningu skipshafna hjá tollstjóraembættinu, og skyldutryggingar og önnur gjöld hafa verið innheimt hjá Olíufélaginu hf. Úr því að "Tíminn" segir, og Olíufélagið staðfestir, að það eigi skipið, hlýtur að vakna sú spurning hvenær það hefur verið keypt, hvað kaupverðið hafi verið og síðast en ekki sízt, hvort það hafi verið með leyfi gjaldeyrisyfirvaldanna að Olíufélagið keypti skipið? Hjálmar Bárðarson, skipaskoðunarstjóri, tjáði Mbl. í gær að Haskell hefði komið til Íslands um 1950, áður en hann tók við embætti skipaskoðunarstjóra. Skipið, sem er byggt 1915, var þá of gamalt til þess að skrásetja mætti það á Íslandi, en samkvæmt íslenzkum lögum má eigi flytja inn og skrásetja skip eldri en 12 ára. Þarf til slíks sérstök lög frá Alþingi, líkt og með hvalbátana og Hæring á sínum tíma. Haskell hefur því aldrei verið skrásettur hér, heldur í London. Skipaskoðunarstjóri sagði að hann hefði aldrei haft afskipti af Haskell, sökum þess að skipið var ekki skrásett hér. Lögskráning skipshafna í Reykjavík tjáði Mbl. í gær að áhöfnin á Haskell væri skrásett hér. Hefðu venjulegar skyldutryggingar og önnur gjöld, sem fara í gegnum lögskráninguna, verið innheimt hjá Olíufétaginu hf. Það hlýtur að teljast í hæsta máta kynlegt, hversu högum þessa skips hefur verið háttað. Eigi Olíufélagið skipið, eins og það og "Tíminn" segja, virðast kaupin á því að hafa farið fram á ólöglegan hátt. Þá var skipið of gamalt til þess að mega flytjast inn hér, og er það því skiljanlegt að látið hafi verið líta út sem Esso Export í London ætti það.

Morgunblaðið. 6 júlí 1962.

         Reyna að ná olíubrákinni

Um klukkan fjögur í fyrrinótt kom v.b. Leó aftur ofan úr Hvalfirði, en eins og sagt var frá í gær fór hann með kafara upp eftir, þangað sem flakið af olíuprammanum L.W. Haskell liggur. Þegar á staðinn kom, varð ekki vart við að olía bærist frá flakinu, og þrátt fyrir nákvæma rannsókn gat kafarinn ekki fundið nein merki leka. Hins vegar er talsverð olía komin í fjörðinn, og er talið fullvíst, að það sé sú olía, sem komst í lúkarinn. Ekki er vitað, hvort hann hefur fyllzt alveg, en gizkað er á, að í honum hafi mest rúmazt 15 tonn. Flakið stendur upp á endann í sjónum og er stefnið á kafi í botnleðjunni. Lúkarinn er nú fullur af sjó, og er reiknað með að þrýstingur sjávarins sporni við því, að meiri olía berist úr lestinni fram í lúkarinn og þaðan upp á yfirborðið. Olíufélagið leggur nú sem fyrr allt kapp á að sporna við skemmdum af völdum olíunnar. M. a. er verið að útbúa tvo báta, sem eiga að dæla upp olíuflekkjunum, sem enn fljóta um sjóinn. Ekki er vitað, hvort reynt verður að ná flakinu upp, en það liggur á 18 faðma dýpi.
Tíminn hafði í gær tal af Samsyni Samsonarsyni, bónda í Hvammsvík, en flakið liggur beint fyrir framan hjá honum, og spurði hann um tjón af völdum olíunnar. Sagðist hann ekki hafa gengið fjörur og kynnt sér málið rækilega, en hélt að olían væri víða um fjörðinn komin í fjöruborðið, og í fyrrakvöld kvaðst hann hafa séð æðarunga koma að landi, ataða í olíu og deyja. Kvað hann alvarlega horfa með æðarvarpið, því að líklegt mætti telja að flestir unganna dræpust og jafnvel eitthvað af fullorðnu líka, þótt það þyldi olíuna fremur. Á stríðsárunum, sagði hann, var mikil olía hér á firðinum og fuglinn lagðist svo að segja alveg frá, en nú var varpið aftur komið í samt horf og fyrir stríð. Loftur Bjarnason í Hvalveiðistöðinni sagði að olían væri veltandi þar í fjöruborðinu og framan við bryggjuna, enda munar um það að fá 200 tonn af svartolíu í fjörðinn, sagði hann og dró ekki af. Komið var að landi með hval í fyrrakvöld og sagði Loftur að þeir reyndu að þvo hann og ná af honum olíunni, en ekki kæmi í ljós fyrr en farið væri að bræða, hvort lýsið væri skemmt. "Við þorum ekki að hirða rengið, og varla kjötið heldur" sagði hann einnig og virtist svartsýnn.
Þá spurði Tíminn Þorbjörn í Borg, formann Dýraverndunarfélags Íslands, hvort þeir hefðu gert einhverjar ráðstafanir til þess að bjarga fuglinum, en hann sagði, að það mál hafi ekki verið rætt enn, en yrði líklega gert um helgina. Sagði honum þunglega hugur um, að nokkuð yrði gert að gagni.

Tíminn. 7 júlí 1962.



Flettingar í dag: 356
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 418
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 697895
Samtals gestir: 52751
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 12:16:30