16.09.2018 08:09

29. Bláfell. TFPJ. Olíuflutningaskip.

Olíuflutningaskipið Bláfell var smíðað hjá Neorion & Miehanourghia. S.A. á eynni Syros í Grikklandi árið 1961. Hét áður Anno Syros. 148 brl. 280 ha. Alpha díesel vél, 206 Kw. Eigandi var Olíufélagið hf í Reykjavík frá október 1962. Skipið kom til landsins hinn 9 október sama ár. Skipið var talið ónýtt og rifið í Daníelsslippnum í Reykjavík um árið 2000.


Olíuskipið Bláfell.                                                                                        Ljósmyndari óþekktur.

     Anno Syros verður nú Bláfell

Í dag lagðist nýja olíuflutningaskipið Anno Syros við bryggju í Reykjavík, en því er ætlað það hlutverk, sem olíuflutningaskipið L. W. Haskell gegndi áður en það fórst í Hvalfirði s.l. sumar. Skipið er eign Olíufélagsins h.f. Það er byggt árið 1961 í skipasmíðastöð Neorion & Miehanourghia S.A. á eynni Syros undan Grikklandsströndum og keypt þaðan ónotað hingað til lands. Það hefur verið skírt að kaþólskum sið með blessan préláta, en verður nú skírt upp og nefnt Bláfell. Skipið er byggt samkvæmt kröfum American Bureau of Shipping, lestar um 200 smálestir af brennsluolíu, og sjálft er það 225 smálestir að þyngd. Lengdin er 35,2 m., breidd 6 m. og djúprista 2,3 m. fulllestað. Vélin er 280 ha. Alpha-diesel frá Burmeister & Wain, sett niður af starfsmönnum framleiðenda. Ganghraði skipsins er 10-11 sjómílur á klukkustund. Kaupverð skipsins var rúmar .5 millj. kr. Sama áhöfn verður á Bláfelli og var á L.W. Haskell. Skipstjóri Gunnar Magnússon, en hann sigldi skipinu heim við sjötta mann og tók það þrjár vikur. Það eru einkum afgreiðslur til skipa í Reykjavíkur- og Hafnarfjarðarhöfnum og flutningar í hvalveiðistöðina og til annarra staða í nágrenni Reykjavíkur, sem Bláfell mun annast.

Tíminn. 9 október 1962.


Anno Syros (Bláfell) við komuna til landsins hinn 9 október árið 1962.            Ljósmyndari óþekktur.


Olíuskipið Bláfell á siglingu.                                       (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.


Bláfell á leið niður úr slipp.                                                                                  (C) Gunnar Richter.


Endalok skipsins, rifið í Daníelsslippnum í Reykjavík.                                          (C) Gunnar Richter.

               Reykjavíkurhöfn
  Árekstur skipa við hafnarmynnið

Olíuskipið Bláfell og strandferðaskipið Askja rákust saman skammt utan við hafnarmynnið í Reykjavíkurhöfn um miðjan dag í gær. Stjórnborðssíður skipanna skullu saman. Askja varð fyrir litlum skemmdum en Bláfell skemmdist nokkuð mikið. Brúarvængur lagðist inn að hluta, skemmdir komu á brú skipsins og einnig skemmdist skipið neðan sjólínu. Skipin voru að koma úr gagnstæðri átt, Askjan var að fara frá Reykjavík en Bláfellið á leið til Reykjavíkur. Yfirheyrslur yfir áhöfnum skipanna áttu að hefjast í morgun og sjópróf verða væntanlega eftir hádegi í dag.

Dagblaðið Vísir. 16 febrúar 1988.


Flettingar í dag: 33
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 601
Gestir í gær: 161
Samtals flettingar: 1925000
Samtals gestir: 488283
Tölur uppfærðar: 16.7.2020 00:28:40