21.04.2019 11:39

B. v. Surprise GK 4. TFRD.

Nýsköpunartogarinn Surprise GK 4 var smíðaður hjá John Lewis & Sons Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1947 fyrir Einar Þorgilsson & Co í Hafnarfirði. 661 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 204. Kom til landsins hinn 28 október sama ár. Togarinn strandaði á Landeyjasandi 5 september árið 1968. Áhöfninni, 29 mönnum, var bjargað á land af björgunarsveitum úr Landeyjum og frá Hvolsvelli. Nokkrar tilraunir voru gerðar til að ná togaranum út en þær reyndust árangurslausar. Örlög Surprise urðu eins og hjá fjölda annara skipa sem strandað hafa við suðurströnd landsins, að hverfa í sandsins djúp.


B.v. Surprise GK 4 á siglingu.                                                             (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

     Nýsköpunartogarinn Surprise                        kom í morgun

Nýsköpunartogarinn "Surprise", eign Einars Þorgilssonar og Co" kom til Hafnarfjarðar um fimmIeytið í morgun. "Surprise" er smíðaður í Aberdeen, og er svipaður nýsköpunartogurunum, sem áður eru komnir. Í Hafnarfirði verða væntanlega sett lýsisbræðslutæki í togarann og að því loknu mun hann halda á veiðar. Geta má þess, að í reynsluferð gekk togarinn 13 1/2 sjómílu á klst. skipstjóri er Jónbjörn Elíasson.

Vísir. 28 október 1947.


B.v. Surprise GK 4.                                                (C) Snorri Snorrason.  Úr safni Atla Michelsen. 


B.v. Surprise GK 4 að landa afla sínum.                                                         Ljósmyndari óþekktur.

        Maður drukknar af Surprise
              Skipið hlaut áfall á heimleið  

Togarinn Surprise frá Hafnarfirði fékk áfall í gærkvöldi, er hann var á heimleið af miðunum. Tók einn skipsverjanna út og drukknaði hann. Auk þess missti skipið báða bátana. Togarinn Surprise hafði verið á veiðum á Halamiðum. Var hann á leið til Hafnarfjarðar í gær. Vont var í sjó og hvasst. Hlaut skipið þá áfall og tók út einn skipverja, Guðmund Jóhannsson til heimilis að Austurgötu 29 í Hafnarfirði, og drukknaði hann. Guðmundur var ungur maður, aðeins 31 árs að aldri. og lætur eftir sig ekkju og þrjú börn ung. Surprise misti einnig báða bátana í þessum brotsjó. Einari Þorgilssyni & Co., sem á togarann, barst skeyti frá skipstjóranum um þetta slys í gærkvöldi.

Tíminn. 10 nóvember 1947.


Úr Hafnarfjarðarhöfn. Maí GK 346 við bryggjuna, þá Surprise GK 4, Vonin VE 113 og Glaður SH 144. Ljósmyndari óþekktur.


B.v. Surprise GK 4 á leið til hafnar í Vestmannaeyjum.                       Málverk Ketils B Bjarnasonar.

       Reynt að ná Surprise út í dag

  Giftusamleg björgun áhafnarinnar

Togarinn Surprise GK 4, strandaði klukkan hálf sex í gærmorgun á Landeyjarsandi, beint niður undan bænum Sigluvík. Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins í Landeyjum og á Hvolsvelli komu á vettvang og tókst greiðlega að bjarga mönnunum. Voru 24 þeirra dregnir í land í björgunarstóli á hálftíma, en 3 yfirmenn seinna, eftir að þeir höfðu gengið frá um borð. Varðskipið Ægir kom um hádegi að strandstað, en gat ekkert aðhafzt þar því veður hafði versnað er leið á morguninn. í gærkvöldi höfðu varðskipsmenn kannað aðstæður á léttabáti, og töldu sig geta komizt í 300 faðma fjarlægð frá togaranum, en þaðan væri kannski hægt að skjóta kaðli yfir í togarann, þegar veðrið lægði. Veðurspá var góð og átti að freista þess að bjarga togaranum í dag. Þegar togarinn strandaði í gærmorgun, mun hann hafa verið 40-50 metra frá landi. Nokkurt brim var við sandinn, en ekki mikill sjór.


B.v. Surprise GK 4 á strandstað á Landeyjasandi.                                                (C) Ottó Eyfjörð. 

Var skipið á siglingu austur með landi, og flestir í koju nema þeir sem áttu vakt. Surprise sneri í fyrstu stefninu í land og hjó svolítið í briminu. Er leið á morguninn herti veðrið og "hækkaði á sér", eins og þeir sögðu fyrir austan, þ.e. snerist heldur til landáttar. Kaðall, sem festur hafði verið í stefni skipsins frá jeppum í landi héldu því ekki, svo það tók að snúast og var komið næstum þvert fyrir, þegar fréttamenn Mbl. fóru af staðnum um miðjan dag. Þá var komið háflóð og skipið tekið að hallast nokkuð. Varðskipið Ægir beið fyrir utan, og björgunarsveitarmenn ætluðu að hafa vakt á staðnum. Yfir daginn hafði togarinn færzt mun nær landi á flóðinu. Ef togarinn fer þvert fyrir og hallast, þá leggur hann sig í ölduna, sögðu karlarnir. Þá er búið með hann. Og skipstjórinn fór í síma, til að ráðast við eigendur og tryggingarfélag um ráðstafanir til að fá þangað ýtu niður á sandinn, ef hún gæti haldið við kaðla er festir yrðu í skipið. Surprise er 20 ára gamall togari, sem hefur verið mesta happaskip. Hann hafði farið í fullkomna klössun í fyrra og í síðasta mánuði var hann í slipp til viðgerðar og hreinsunar, enda er skipið fallegt og nýmálað, þar sem það vaggaði í briminu á strandstað. Það fór í fyrstu veiðiferð eftir snyrtinguna s.l. laugardag, og var aflinn orðinn 70 tonn, sem fengizt höfðu út af Reykjanesi. Nú var hann á leið austur með landi.
Eigandi skipsins er Einar Þorgilsson & Co í Hafnarfirði og er þetta þriðja skipið með þessu nafni. Togarinn er tryggður hjá Samtryggingu íslenskra botnvörpunga.

Morgunblaðið. 6 september 1968.


B.v. Surprise GK 4 á strandstað.                                                                 (C) Guðrún Indriðadóttir.

                        Á strandstað

            Öllum bjargað á hálftíma
            Enginn vöknaði í fæturna

Skipverjar af togaranum Surprise voru að koma upp að Hvolsvelli í áætlunarbíl, þegar fréttamann Mbl. bar þar að snemma í gærmorgun. Það gekk ljómandi vel að komast í land, sögðu þeir. Enginn svo mikið sem vöknaði í fæturna. Við vorum að veiðum í gær og var nokkuð hvasst, en í nótt vorum við á siglingu austur með landi. Flestir sváfu, þeir sem ekki voru á vakt. Það var fyrsti stýrimaður, sem var á vaktinni. Við vöknuðum ekki fyrr en skipið tók niðri og tíndum á okkur garmana. Þegar við komum upp, hallaði skipið dálítið á stjórnborða, en snerist svo nokkuð, þannig að stefnið sneri til lands. Við biðum svo átekta. Björgunarsveitin í Landeyjum kom fyrst og við skutum línu til hennar, Það gekk fljótt og vel, enda var þetta stutt haf. Og strax niður í fjöru er nokkur kambur, svo stóllinn dróst ekki niður í sjó, þegar þeir drógu okkur í land. Þá var björgunarsveitin á Hvolsvelli komin líka. Voru allir komnir í land kl. 8.30. Björgunarsveitarmenn sögðu okkur, að það hefði tafið þá að fá staðarákvörðun togarans miklu austar, eða nálægt Markarfljóti, og voru þeir lagðir af stað þangað. En Lóðsinn frá Vestmannaeyjum hafði miðað togarann út og þá hefði þetta leiðrétzt, enda sendi togarinn upp rakettur.


B.v. Surprise GK 4. Maður á leið út í skipið.                                            (C) Guðrún Indriðadóttir. 

Ólafur Vignir Sigurðsson, loftskeytamaður, sagðist hafa verið sofandi, en vaknaði við kippinn, er skipið tók niðri. Þegar hann var að klæða sig, kallaði skipstjóri í hann, til að senda út kall á neyðarbylgju. Náði hann strax sambandi við Vestmannaeyjar, Neptúnus og Hallveigu Fróðadóttur, sem umsvifalaust sendu neyðarbeiðnina áfram til Hannesar Hafsteins í Slysavarnafélaginu. Skipstjórinn sendi samtímis á örbylgju og náði sambandi við Vestmannaeyjar. Vegna mótvinds hefði skipinu sennilega ekki miðað eins vel og talið var og staðarákvörðunin því verið of austarlega í fyrstu. Það er ákaflega þakkarvert hve þeir voru vel á verði á bylgjunum, sagði Ólafur Vignir og hve þeir brugðu skjótt við. Já, skipið var alveg heilt, þegar við komum upp. Og enginn sjór var í því er við yfirgáfum það, nema eitthvað smávegis, sem kom inn þar, sem dyr voru opnar, því fyrst gaf svolítið á. En eftir því sem togarinn festis betur og snerist, svo stefnið var í veðrið, þá braut minna yfir hann. Annars var veður betra þarna en úti. Við vorum í landvari, sagði Ólafur Vignir ennfremur. Hver var fyrst dreginn í land? spurðum við. Og allir bentu á 19 ára gamlan pilt, Pál Sigurðsson úr Reykjavík. Hann var þó ekki yngsti maður um borð. Yngstur var Guðjón Ingason, 17 ára, úr Kópavogi. Ég var á vakt niðri í vél, sagði Guðjón, og varð strax var við þetta. Togarinn hallaðist. Þeir hringdu á fulla ferð aftur á bak. Vélstjórinn framkvæmdi skipunina. Nei, mér varð ekkert ónotalega við, sagði Guðjón ennfremur. Ég hafði nýlega litið út og vissi að við vorum nálægt landi. Annar skipverji, sem var á vakt, var Hjalti Bergmann úr Reykjavík.


B.v. Surprise GK 4 á strandstað.                                                              (C) Guðrún Indriðadóttir.
  
Ég var við stýrið, sagði hann. Ég sé ekkert, fann bara þegar við tókum niðri. Stýrimaðurinn var þarna líka. Við reyndum að hringja aftur á bak, en það stoðaði ekki. Hve oft skipið tók niðri? Við fórum fyrst yfir eitt rif, reyndum að setja á aftur á bak. Svo stoppaði skipið á einhverju. Þá var ég sendur að vekja. Erlingur Axelsson kvaðst líka hafa verið á vaktinni. Hann var nýfarinn aftur á, er hann varð var við að skipið tók niðri. Ég hefi lent í strandi áður á Herðubreið við Skagafjarðartá og þekkti þetta. Mitt fyrsta verk var að fara upp í brú og fá skipun hjá skipstjóra. Hann lét mig fara til að vekja mannskapinn og segja mönnum að vera alveg rólegum. Og allir koma sér saman um, að það hafi menn einmitt verið. Loks hittum við þrjá elztu sjómennina í hópnum. Sófus Hálfdánarson, bátsmaður hefur verið 43 ár til sjós. Oft hefur hann lent í vondum veðrum, en aldrei neinu svona, sagði hann. Gunnar Ólafsson hefur verið á sjó síðan 1928. Hann var einu sinni á síldarbát, sem sökk undan honum. Það voru ekki eins mikil rólegheit og í þetta sinn, sagði hann.


Flak togarans í sandinum.                                                            Úr safni Tryggva Sigurðssonar.  

Björgvin Jónsson hefur verið á Surprise síðan skipið kom til landsins 1947, en hann hefur verið til sjós í 40 ár. Ekkert hefur fyrr komið fyrir hann á sjó, í 40 ár. Hann kvaðst vera úr Rangárvallasýslu, en ekki hefði hann samt ætlað svona beina leið til æskustöðvanna. Og hann sagði að sér fyndist nú hálf kjánalegt að fara á þennan hátt af Surprise eftir öll þessi ár. Kristján Andrésson, skipstjóri, Hilmar Þór, 1. stýrimaður, Finnur Steinþórsson, 2. stýrimaður, og vélstjórarnir Bjartur Guðmundsson og Salomon Loftsson, höfðu orðið eftir á strandstað og farið að fá sér kaffi í Sigluvík. Þeir voru nú aftur komnir niður á sand, þegar okkur bar að. Togarinn Surprise var þarna rétt fyrir utan. Það gljáði á nýmálaðan grænan skrokkinn, þar sem hann vaggaði léttilega, að því er virtist laus að framan og aftan. Hann líktist stórri lifandi skepnu. Stefnið sneri beint upp í fjöruna og enn var ekki mikið brim. Björgunartaug lá út í skipið. Rétt að láta hann ekki snúa sér, sögðu menn. Og fyrsti stýrimaður fór í stólnum út í skipið með taug, sem hann setti fasta. Síðan var hún fest við spilið í jeppa, sem hélt í og kom í veg fyrir að stefnið færðist til hliðar. Stýrimaður kom aftur í land. Allir biðu eftir varðskipi,, sem væntanlegt var undir hádegi. Menn voru heldur bjartsýnir. Þetta lítur sæmilega út, ef ekki breytist áður en varðskipið kemur, sögðu menn. En það var greinilegt að veður var að versna.


Flakið af Surprise GK 4.                                                                     Úr safni Tryggva Sigurðssonar  

Togarinn tók stærri dýfur og rikkti í böndin. Sjórinn hækkaði nokkuð ört í fjöruborðinu og hvítt brimið skvettist hærra á togaranum. Hleri hafði losnað og dynkir heyrðust, þegar hann skall þungt í hliðinni Jú, um 12 leytið kemur reyndar varðskipið Óðinn og talar við, skipstjórann á Surprise í gegnum talstöðina í einum bílnum. Það er ráðgast fram og aftur. Okkur, sem hlustum við bílgluggana, heyrist að helst verði til ráða að láta eitthvað reka í land með kaðal frá varðskipinu. En þeir ætla að sjá til. Skipherra ætlar fyrst að borða og athuga málið. Þá er eins gott að þið fáið eitthvað í svanginn, sagði þá Ágúst Jónsson, bóndi í Sigluvík við yfirmenn togarans. Það er ekkert að vita hvað þið verðið hér lengi í dag. Drífið þið ykkur með mér í jeppanum heim í bæ. Og af mikilli riddaramennsku tók hann með blaðamann Mbl., líklega af því hann var eini kvenmaðurinn í pressuhópnum. Og við komum öll eins og hvirfilvindur heim á bæ í jeppa, sem dóttir hjónanna ók og gleyptum í okkur matinn hjá húsfreyjunni, Sigríði Lóu Þorvaldsdóttur. Helvíti er hann farinn að halla! Hann er að snúast! hrópuðu menn upp þegar við komum aftur niður í fjöru. Skipið hafði líka slitið af sér einn kaðalinn. Skipstjórinn átti aftur langar samræður við varðskipið í talstöðinni. Það sagðist ekki geta farið nær en á 10 faðma dýpi. Og í því hvassviðri, sem nú væri komið, þýddi ekki að reyna að koma kaðli á milli. Það yrði að bíða þar til lægði. Veðrið var ekkert orðið líkt því sem var um morguninn.+


Flakið af Surprise GK á Landeyjasandi.                                      Úr safni Tryggva Sigurðssonar. 

Brimið hafði stóraukizt, svo og hvassviðrið og sandurinn rauk svo dimmt var yfir. Hann má bara ekki snúast þvert, áður en hægt verður að koma á hann böndum og kippa í sögðu karlarnir. Þá leggst hann í ölduna. En hvað var hægt að gera? Jú, ef þarna væru komnar jarðýtur, þá mundu þær líklega ekki renna eins og bílarnir. Skipstjórinn ætlaði að ráðgast við tryggingarnar um það. Þarna var margt manna saman komið. Hjá krökkunum í sveitinni var þetta mikill viðburður. Og reyndar hjá flestum. Fulltrúi sýslumanns, Pálmi Eyjólfsson, hafði komið strax um morguninn, svo og fréttamenn, og auðvitað björgunarsveitir. Við hittum snöggvast Þorstein Þórðarson, formann björgunarsveitarinnar í Landeyjum. Hann kvaðst hafa verið ræstur rétt fyrir kl. 6. Hann kallaði út lið sitt, getur náð saman 20-30 mönnum í skyndi. Röng staðarákvörðun í upphafi tafði þá svoItið, en ekki að ráði. Og björgunarstarfið gekk fljótt og vel, sem fyrr er sagt.
Hér hafa ekki oft orðið mörg strönd, sagði hann. Fyrir nokkrum árum strandaði báturinn Frosti frá Vestmannaeyjum hér rétt á sama stað. Mannbjörg varð og seinna tókst að ná bátnum út með varðskipi. En á Austur-Landeyjasandi hafa oftar orðið strönd. Þar var það t.d. sem Wislock fórst.

Morgunblaðið. 6 september 1968.

       Stingst óvænt upp úr sandi

Flakið af tog­ar­an­um Surprise GK 4 frá Hafnar­f­irði gæg­ist nú upp úr Land­eyjasandi neðan við bæ­inn Siglu­vík í Vest­ur-Land­eyj­um. Ný­sköp­un­ar­tog­ar­inn Surprise (sem merk­ir óvænt eða furða) var rúm­lega 20 ára og ný­kom­inn úr skver­ingu, græn­málaður og glæsi­leg­ur, þegar hann strandaði um klukk­an 05.30 að morgni 5. sept­em­ber 1968. Um borð var 23 manna áhöfn. Henni var bjargað á hálf­tíma og vöknuðu skip­verj­ar ekki í fæt­urna þegar þeir voru dregn­ir í land í björg­un­ar­stól.
Gerð var til­raun til að bjarga tog­ar­an­um en veðrið kom í veg fyr­ir það og Surprise komst aldrei aft­ur á flot. Fjar­an þar sem tog­ar­inn strandaði er sí­breyti­leg og stund­um hef­ur skips­flakið horfið í sand­inn jafn­vel árum sam­an. Svo fer fjar­an á flakk og svipt­ir hul­unni af Surprise, al­veg óvænt, líkt og nú er að ger­ast.
Georg Orms­son, vél­virkja­meist­ari í Kefla­vík, keypti flakið af Surprise og vann að því ásamt aðstoðarmönn­um að bjarga verðmæt­um úr skip­inu. Georg náði fljót­lega til baka því sem hann lagði í kaup­in með því að selja kop­ar og ýms­ar vél­ar og tæki. Hann sagði að það hefði verið tölu­verð vinna að hirða það sem nýti­legt var.


Flakið af Surprise GK og útlínur þess sjást vel á myndinni.   (C) Ragnar Axelsson. / Morgunblaðið.

"Ég hef verið að þessu í þrjú til fjög­ur ár þegar veður gaf," sagði Georg. "Ég tók mynd­ir til að sýna hvernig er með sand­inn þarna fyr­ir aust­an. Tog­ar­inn lá oft­ast nær á síðunni. Svo fór það eft­ir sand­in­um hvort hann var að graf­ast eða ekki. Sand­ur­inn er svo ólm­ur þarna. Það er al­veg met. Stund­um var tog­ar­inn al­veg hreint uppi og stund­um al­veg á kafi." Georg sagði að þegar þeir tóku skrúf­una af tog­ar­an­um hefði svo ört graf­ist að skip­inu að hann hefði þurft að saga öxul­inn, enda var hann bú­inn að selja skrúf­una.
"Ég tók fyrst eft­ir flak­inu fyr­ir rúm­um mánuði," sagði Gísli Matth­ías Gísla­son, þyrluflugmaður hjá Norður­flugi. Hann er ættaður úr Vest­manna­eyj­um og á oft leið með Suður­strönd­inni. Þá er Gísli af sjó­mönn­um kom­inn og er áhuga­sam­ur um sjó­ferðasög­una. Ragn­ar Ax­els­son ljós­mynd­ari var ein­mitt í flug­ferð með Gísla þegar stóra mynd­in hér á opn­unni var tek­in.


Flakið af Surprise GK 4 í flæðarmálinu. Gufuketillinn fyrir miðri mynd. (C) Guðni A Einarsson 2015.

Gísli sagði að fyrst hefði hann séð þegar gufu­ketill­inn fór að stinga koll­in­um upp úr sand­in­um. "Ég hélt að þarna væri bara ketill­inn. Svo er ég bú­inn að fara nokkr­ar ferðir síðan og það hef­ur alltaf komið meira og meira í ljós af skip­inu." Nú má greini­lega sjá móta fyr­ir út­lín­um skips­ins. Gísli sagði að flakið væri al­veg í fjöru­borðinu og út­lín­ur skrokks­ins sjást ekki nema á fjöru. Skrokk­ur­inn virðist vera nokkuð heil­leg­ur en yf­ir­bygg­ing­in er löngu horf­in. Hún var yfir þar sem ketill­inn var í vél­ar­rúm­inu.
Gísli merkti inn á kort staðsetn­ingu flaks­ins nokk­urn veg­inn. Hann setti einnig mynd af skips­flak­inu og færslu í umræðuhóp á Face­book, Göm­ul ís­lensk skip, hinn 3. júní sl.
Mik­il umræða spratt upp um hvaða skipi flakið til­heyrði og komu ýms­ar til­gát­ur þar um. Í gær höfðu verið skráðar 107 færsl­ur um flakið sem sýn­ir að tals­verður áhugi er á göml­um skips­flök­um.

Mbl.is 10 júní 2015.
Flettingar í dag: 761
Gestir í dag: 249
Flettingar í gær: 408
Gestir í gær: 137
Samtals flettingar: 1920814
Samtals gestir: 487076
Tölur uppfærðar: 10.7.2020 19:02:53