22.02.2018 07:12

1351. Sléttbakur EA 304. TFBY.

Sléttbakur EA 304 var smíðaður hjá Söviknes Verft A/S í Syvikgrend í Noregi árið 1968. 781 brl. 2.200 ha. MWM díesel vél, 1.618 Kw. Skipið hét áður Stella Kristina KG 320 og var í eigu p/f Stellu í Klaksvík í Færeyjum frá árinu 1968. Smíðanúmer 70. Selt í september 1973, Útgerðarfélagi Akureyringa h/f á Akureyri, fékk nafnið Sléttbakur EA 304. Skipið var lengt og breytt í frystiskip hjá Slippstöðinni á Akureyri árið 1987. Mældist þá 902 brl. Einnig var sett ný vél í skipið, 2.996 ha. Bergen díesel vél, 2.205 Kw. Frá árinu 2000 hét skipið Sléttbakur EA 4. Selt í september 2002, Samherja h/f á Akureyri, hét Akureyrin EA 110. 27 maí árið 2006 kom upp mikill eldur í skipinu þegar það var að grálúðuveiðum um 75 sjómílur vestur af Látrabjargi. Náðu skipverjar að slökkva eldinn og héldu síðan til Hafnarfjarðar. Tveir skipverjar létust. Skipið var endurbyggt eftir brunann og hóf veiðar í mars árið 2009 undir nýju nafni, Snæfell EA 310. Skipið er gert út af Samherja h/f og gert út frá Akureyri í dag.


1351. Sléttbakur EA 304.                                                    (C) Snorri Snorrason. Mynd í minni eigu.

        Útgerðarfélag Akureyringa hf
         fær togarana frá Færeyjum

Landsstjórnin í Færeyjum veitti í gær útflutningsleyfi fyrir skuttogurunum tveim, sem Útgerðarfélag Akureyrar var búið að festa kaup á í Klakksvík. Togararnir, sem fá nöfnin Svalbakur EA 302 og Sléttbakur EA 304 ættu því að koma til landsins eftir 10-12 daga. Jogvan Arge, fréttaritari Morgunblaðsins í Færeyjum, sagði í gær, að miklar umræður hefðu Verið um þessi mál í Landsstjórninni, en endirinn hefði orðið sá, að veitt var útflutningsleyfi fyrir togurunum Stella Karira og Stella Kristina, sem fram til þessa hafa verið fullkomnustu togarar Færeyja. Í Færeyjum voru uppi raddir um að færeyska landsstjórnin ætti að kaupa annað skipið og nota það sem rannsóknarskip, en þegar til kom þótti það ekki henta. Það er fyrirtækið Stella í Klakksvik, sem selur Akureyringum togarana. Framkvæmdastjóri félagsins er Erling Laksafoss, einn mesti athafnamaður Færeyja. Talið er að hann ætli nú að kaupa minni togara. Meðal annars vegar þess, að togararnir tveir eru verksmiðjuskip og fengu ekki tilslakanir til að veiða innan 50 sjómílna markanna við Ísland.
Gísli Konráðsson, framkvæmdastjóri útgerðarfélags Akureyringa, sagði í gær, að þeir hjá ÚA hefðu alltaf verið sannfærðir um þessi málalok. Nú ætti aðeins eftir að búa togarana til heimferðar, og tæki það sennilega um vikutíma. Því ættu togararnir, sem hljóta nöfnin Svalbakur EA 302 og Sléttbakur EA 304, að vera komnir heim eftir 10-12 daga.
Kaupverð togarana er 11.42 milljónir norskra króna, sem er um 178 milljónir ísl. kr.


1351. Sléttbakur EA 304 á siglingu á Eyjafirði.                                                      (C) Páll A Pálsson.

     Tveir skuttogarar bættust í flota
                  Ú.A. á Akureyri

Það mun einsdæmi í hérlendri sjávarútvegssögu, að tveir nýkeyptir togarar komi samdægurs til heimahafnar sinnar í fyrsta sinn. En þetta gerðist á Akureyri á fimmtudaginn. Þá sigldu tveir 834 smálesta skuttogarar Ú. A. inn Eyjafjörð og fagnaði þeim mikill mannfjöldi á Akureyri, er þeir lögðust þar að Togararbryggjunni rúmlega hálf fimm síðdegis. Lúðrasveit lék á bryggjunni, Vilhelm Þorsteinsson lýsti togurunum, Jón G. Sólnes bauð skip og áhafnir velkomnar, Bjarni Einarsson flutti ræðu og Gísli Konráðsson flutti ávarp, þar sem hann meðal annars bauð starfsfólki Ú. A. í skemmti siglingu á nýju togurunum að tveim dögum liðnum. Stjórnarformaður Ú. A., Jakob Frímannsson, var ekki viðstaddur sökum veikinda. Nýju togararnir heita Svalbakur og Sléttbakur. Þeir voru byggðir í Noregi fyrir útgerðarmenn í Klakksvík í Færeyjum, er nú seldu þá hingað. Eru þeir fárra ára og líta út sem nýir, hvar sem á þá er litið. Kaupverð togaranna er samanlagt 340 milljónir og fylgja í kaupunum veiðarfæri og útbúnaður. Nú er af kappi unnið við þær breytingar á skipunum, sem þörf er á, en síðan fara þau á togveiðar. Áhöfn verður 24 menn á hvoru. Skipstjóri á Svalbak er Halldór Hallgrímsson, fyrsti vélstjóri Freysteinn Bjarnason og fyrsti stýrimaður Benjamín Antonsson.
Skipstjóri á Sléttbak er Áki Stefánsson, fyrsti vélstjóri Valur Finnsson og fyrsti stýrimaður Jón Pétursson. Yfir 400 manns þáðu boð í skemmtisiglinguna á laugardaginn og voru kaffi- og gosdrykkja veitingar fram bornar um borð. Blaðið spurði Áka Stefánsson skipstjóra um álit hans á nýju skipunum. Hann sagði, að á leiðinni frá Færeyjum til Noregs, en þangað fóru skipin til að sækja fiskikassa, hefði verið versta veður en skipin reynzt mjög vel. Ganghraði þeirra væri 12 mílur, Segja mætti, að tæki og búnaður allur í skipunum hefði reynzt í fullkomnu lagi, enda væri þar flest eða allt hið vandaðasta og sérlega vel við haldið, bæði smátt og stórt. Blaðið samfagnar Ú. A. og bæjarbúum komu hinna góðu skipa.

Dagur. 7 nóvember 1973.


Sléttbakur EA 304 á leið í slipp á Akureyri.                                                           (C) Páll A Pálsson.


                    Sléttbakur EA 304


Í desember s. l. komu tveir skuttogarar til heimahafnar sinnar, Akureyrar, í fyrsta sinn. Togara þessa keypti útgerðarfélag Akureyringa h.f. frá Færeyjum, og hétu þeir áður Stella Kristina og Stella Karina. Skipin voru byggð í Sovikens Verft A/S í Noregi á árunum 1968-1969, og útbúin sem verksmiðjuskip. í skipunum voru vinnslu- og frystitæki, þar sem fullvinna átti fiskinn um borð, en vinnslutæki hafa nú verið fjarlægð og sett í staðinn blóðgunarker, aðgerðarborð, þvottaker og færibönd eins og algengast er í skuttogurum þeim sem íslendingar hafa fengið undanfarið. Þar sem hér var um verksmiðjuskip að ræða var gert ráð fyrir stórri áhöfn, 48-50 mönnum, svo rúmt ætti að vera um þessa 23-24 menn sem á skipunum verða. Meðfylgjandi mynd sýnir fyrirkomulag í þessum skipum, sem eru systurskip. Eftirfarandi lýsing á tækjabúnaði á því við um hvort skipið sem er.
Aðalvél skipsins er frá MWM, gerð TBRHS 345 A, sem skilar 2.200 hö. við 500 sn/mín. Við vélina er niðurfærslugír (2:1) frá RENK, gerð AUSL 63, sem tengist 4ra blaða skiptiskrúfu frá Liaaen, gerð CP D71/4, um 2,8 m í þvermál. Framan á vélinni er aflúttak fyrir vökvadælur vindukerfisins. Hjálparvélar eru þrjár, allar eins, frá MWM, gerð RHS 518 A, sem gefa 166 hö. við 1000 sn/mín. Á vélunum eru rafalar frá Siemens, sem gefa 154 KVA, 380 V, 50 rið. Stýrisvél er frá Frydenbö, gerð HS 40, sem gefur maks. snúningsvægi 8000 kgm. Sjálfstýring er frá Anschútz. Vindukerfi skipsins er vökvaknúið (lágþrýst), og er það frá A/S Hydraulik Brattvág. Togvindur eru tvær (splitwinch), gerð D1A10U, sem gefa hvor um sig 6,5 tonna meðaltogkraft við 66 m /mín vírahraða. Víramagn á hvora tromlu er 1500 faðmar af 3 1/4" vír. Togvindurnar eru staðsettar aftarlega á togþilfari, sitt hvoru megin við skutrennu.


Fyrirkomulagsteikning af Sléttbak EA 304.  

Grandaravindur eru tvær, gerð MA8/A8, sem gefa um 6 tonna togkraft. Þessar vindur eru staðsettar framarlega á togþilfari, og eru bobbingarennurnar í göngum sitt hvorum megin við þilfarshúsið. Vegalengd frá skutrennu og að vindum er um 45 m. Þá eru tvær samskonar vindur á bátaþilfari, en þær eru fyrir hífingar. Aftast á bátaþilfari er vinda, með 5 tonna togátaki, til að losa trollpokann og hífa hann aftur, þegar kastað er. Akkerisvindan er af gerðinni 3/B7-47. Vindum er stjórnað frá stjórnklefa, sem staðsettur er á togþilfari, aftan við þilfarshúsið. Af siglingatækjum um borð í skipinu má nefna: Loftskeytastöð: Dansk Radio. Ratsjár: Raytheon 1060/25, 10 cm, 48 sml. og Raytheon 1060/6X, 3 cm, 48 sml. Miðunarstöð: Taiyo TD-A 201, sjálfvirk. Loran: Furuno LC-1. Gyroáttaviti: Anschútz. Fiskleitartæki eru eftirfarandi: Asdik: Simrad Sonar SB 3 tengt fisksjá Simrad Sonar Scope CK 2. Dýptarmælar: Simrad EK 38 A og Simrad EK 50 A. Við þessa mæla er tengd fisksjá Simrad Echo Scope CB 2. Netsjá: Elac.
Stærð skipsins 834 brl.
Mesta lengd 61.74 m.
Lengd milli lóðlína 54.33 m.
Breidd 10.21 m.
Dýpt frá efra þilfari 7.00 m.
Dýpt frá neðra þilfari 4.80 m.
Djúprista 4.75 m.
Lestarrými undir neðra þilfari . . 820 m3
Lestarrými á milliþilfari 180 m3
Olíugeymar (skiptigeymar) ... . 398 m3
Ferskvatnsgeymar 41 m3
Lýsisgeymar 42 m3
Hraði í reynslusiglingu 13,9 sm
Skipstjóri á Sléttbak er Áki Stefánsson og fyrsti vélstjóri Valur Finnsson. Á Svalbak er Halldór Hallgrímsson skipstjóri og fyrsti vélstjóri er Freysteinn Bjarnason. Framkvæmdastjórar Útgerðarfélags Akureyringa eru Vilhelm Þorsteinsson og Gísli Konráðsson. Ægir óskar eigendum og áhöfnum til hamingju með þessi glæsilegu skip.

Tímaritið Ægir. 1 desember 1973.


Sléttbakur EA 304 í lengingu hjá Slippstöðinni árið 1987.                           (C) Páll A Pálsson.

         Sléttbakur "slitinn" í sundur

Sléttbakur EA, einn togara Útgerðarfélags Akureyringa, hefur nú verið "slitinn" í sundur hjá Slippstöðinni hf. hér á Akureyri eins og sést á meðfylgjandi mynd. Nú er unnið að lengingu skipsins og síðan verður því breytt í frystiskip. "Við lengjum Sléttbak um 8 metra, eftir breytinguna verður hann 89 metrar á lengd. Það má segja að við séum að byggja hann alveg upp á nýtt að innan; við erum að byrja á íbúðunum, vélarúminu og millidekkinu. Þetta er allt einn geymur eins og er," sagði Sigurður Ringsted, yfirverkfræðingur hjá Slippstöðinni, í samtali við Morgunblaðið í gær.
Sléttbakur var tekinn upp í slipp fyrir helgina. Sigurður sagði að eftir breytingarnar yrði Sléttbakur "fljótandi frystihús" um borð yrðu frysti-, flökunar- og pökkunartæki, þannig að varan verður fullunnin um borð. "Og ég veit ekki betur en Sléttbakur verði stærsti togari íslenska fiskiskipaflotans eftir breytinguna," sagði hann. Breytingum á skipinu verður lokið í júlí í sumar.

Morgunblaðið. 3 mars 1987.


Sléttbakur EA "slitinn" í sundur í Slippstöðinni.                                                     (C) Páll A Pálsson.


Skipið farið að taka á sig núverandi útlit.                                                             (C) Páll A Pálsson.


Sléttbakur EA 304. Glæsilegt skip að verða á ný.                                               (C) Páll A Pálsson.

   Nýr Sléttbakur á siglingu í Eyjafirði

Sléttbakur EA 304 fór í sína fyrstu veiðiferð á sunnudaginn. Skipið mun hafa stefnt að Grímsey en sökum ógæfta þar mun það hafa fært sig austar á miðunum. Er togarinn fór í tveggja daga prufusiglingu fyrir skömmu komu í ljós nokkrir annmarkar á vinnslusal sem lagfærðir voru í Slippstöðinni og ætti því allt að vera í lagi um borð í þessari fyrstu veiðiferð þessa fljótandi frystihúss. Áhöfn skipsins telur 26 menn.
Skipstjóri er Kristján Halldórsson. Búast má við að hver veiðiferð taki um mánaðartíma. Mynd þessi var tekin er gestum var boðið í skemmtisiglingu um Eyjafjörð er Slippstöðin afhenti skipið eigendum sínum, Útgerðarfélagi Akureyringa eftir nær árs endurbyggingu.

Morgunblaðið. 18 nóvember 1987.


1351. Sléttbakur EA 304 á siglingu á Eyjafirði eftir lenginguna 1987.            (C) Páll A Pálsson.

    Sléttbakur verður Akureyrin EA 110

Gamli Sléttbakur EA, sem áður var í eigu Útgerðarfélags Akureyringa hf., hefur nú fengið nafnið Akureyrin EA 110, auk þess sem skipt hefur verið um lit á skipinu. Samherji keypti Sléttbak fyrr í sumar og er ráðgert að skipið haldi til veiða á vegum fyrirtæksins í næsta mánuði. Unnið hefur verið að endurbótum á skipinu að undanförnu í Slippstöðinni á Akureyri og það m.a. verið málað hátt og lágt í Samherjalitunum.
Skipið er rúmlega 900 brúttólestir að stærð, smíðað í Noregi 1968. Skipið var lengt og því breytt í frystiskip árið 1987. Það er 69 metra langt, með 3.000 hestafla aðalvél og búið til flakavinnslu og heilfrystingar á karfa og grálúðu. Gamla Akureyrin EA hefur í staðinn verið seld til Onward Fishing Company, dótturfélags Samherja í Bretlandi og verður skipið afhent í næsta mánuði. Gamla Akureyrin EA, sem er 882 brúttólesta skip var smíðað í Póllandi á árinu 1974. Það var fyrsta skip í eigu Samherja og hefur verið gert út sem frystitogari frá árinu 1983. Akureyrin hefur verið afar farsælt skip og frá upphafi verið meðal aflahæstu fiskiskipa landsins ár hvert.

Morgunblaðið. 30 ágúst 2002.


1351. Akureyrin EA 110 við bryggju á Akureyri.                                              (C) Páll Jóhannesson.

      Unnu þrekvirki við erfiðustu aðstæður

Skipverjar á Akureyrinni EA 110 frá Akureyri unnu þrekvirki við erfiðustu hugsanlegu aðstæður þegar þeir náðu að ráða niðurlögum eldsins sem kom upp í íbúðum skipsins á laugardag. Skipið var þá við veiðar 75 sjómílur vestur af Látrabjargi. Tveir menn létu lífið í slysinu en aðrir skipverjar héldu norður á Akureyri í gærmorgun og eru komnir til fjölskyldna sinna. Höskuldur Einarsson hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins segir ljóst að gríðarlegur eldur hafi geisað í skipinu og hann hafi breiðst út á stuttum tíma.
"Áhöfnin var búin að slökkva allan meiriháttar eld þegar okkar menn komu um borð. Skemmdirnar eru alveg gríðarlegar og ég verð að segja að skipsverjar hafa gert algjört kraftaverk í að slökkva þennan eld. Þeir hafa gert hluti sem enginn gæti ætlast til af nokkrum manni við þessar aðstæður. Það er ljóst að menn hafi gengið mjög hart fram."
Höskuldur segir að margar íbúðir og eldhús sé stórskemmt eftir eldinn og það sem ekki brann sé verulega mikið sótskemmt þar sem sót hafi farið um allt skip. Akureyrin sigldi fyrir eigin vélarafli til lands og kom til hafnar í Hafnarfirði í gærmorgun þar sem skipið liggur nú. Lögreglan í Hafnarfirði, sem fer með rannsókn málsins, segir eldsupptök ekki ennþá kunn. Mikill viðbúnaður var hafður strax eftir að hjálparbeiðni barst frá Akureyrinni um klukkan tvö á laugardag. Björgunarþyrlan TF-LÍF fór með fjóra reykkafara frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins sem fóru um borð og aðstoðuðu við slökkvistarfið. Slökkvistarfið gekk vel og ekki þurfti frekari aðstoðar við. Þyrla af danska varðskipinu Triton fór með þrjá menn en var snúið til baka þegar þyrlan var að taka eldsneyti á Rifi. Varnarliðsþyrla var einnig kölluð til en var aðstoð hennar var afturkölluð um það leyti sem hún var að fara í loftið en tíu slökkviliðsmenn voru þá komnir um borð í hana.
Séra Arnaldur Bárðarson, sóknarprestur í Glerárkirkju, segir að allt samfélagið á Akureyri sé mjög slegið yfir þessum atburði. Arnaldur segir að áhöfnin hafi fengið fyrstu áfallahjálp á Landspítalanum í Fossvogi en kirkjan nyrðra og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri muni fylgja því starfi eftir með því að veita áhöfninni og þeirra nánustu áfallahjálp á næstu dögum. Skipverjarnir sem fórust hétu:
Hafþór Sigurgeirsson og
Birgir Bertelsen.

Fréttablaðið. 29 maí 2006.


1351. Snæfell EA 310 á siglingu á Eyjafirði.                                                           (C) Petrómyndir.

    Fengsælt fiskiskip aftur á Íslandsmið

Snæfell EA 310 bættist í flota Samherja hf. á dögunum og lét úr höfn á Akureyri eftir endurbyggingu. Raunar er vart hægt að segja að hér sé um nýtt skip að ræða í flota Samherja hf. heldur eldra skip sem fengið hefur nýtt og gamalgróið eyfirskt nafn. Skipið sem áður hét Akureyrin EA brann vorið 2006 og hefur síðan verið frá veiðum. Endurbætur þess voru viðamiklar en að þeim loknum er skipið búið til veiða fyrir frystingu og ísfisk. Skipstjóri á Snæfelli er Sigmundur Sigmundsson. Snæfellið á sér farsæla sögu í fiskipaflota Akureyringa.
Upphaflega keypti Útgerðarfélag Akureyringa skipið frá Færeyjum árið 1973 og hét það þá Stella Kristina. Raunar keypti félagið þarna tvö systurskip og mun einsdæmi að tveir nýir togarar hafi komið til heimahafnar í einu, líkt og gerðist þann 1. nóvember 1973 á Akureyri. Stella Kristina fékk nafni Sléttbakur EA 304 og var í flota Útgerðarfélags Akureyringa allt þar til Samherji hf. eignaðist skipið og fékk það þá nafnið Akureyrin. Raunar er fleira markvert við skipið því Sléttbakur var fyrsti frystitogari ÚA, eftir viðamikla endurbyggingu og lengingu árið 1987. Eins og áður segir skemmdist skipið mikið í eldi vorið 2006 en Samherji hf. ákvað að ráðast í endurbætur, sem unnar voru á þremur stöðum, þ.e. í Cuxhaven í Þýskalandi, hjá Morska skipasmíðastöðinni í Póllandi og lokahönd var svo lögð á verkið á Akureyri. Íbúðir skipsins voru endurbyggðar, sem og vélbúnaður. Jafnframt var frystigetan aukin þannig að skipið afkastar um 40 tonnum í frystingu á sólarhring. Fyrirkomulag í skipinu er með þeim hætti að það getur bæði stundað ísfiskveiðar og verið á frystingu en góð reynsla er af því hjá Samherja að skipin frysti afla í fyrri hluta veiðiferða en kæli aflann í síðari hluta veiðiferða. Ísfiskaflinn er síðan unninn í fiskiðjuveri Samherja á Dalvík.
Eins og áður segir voru endurbæturnar viðamiklar en Kælismiðjan Frost hafði með alla þá verkþætti sem sneru að frystibúnaði að gera en um raflagnavinnu sá Rafeyri. Bæði þessi fyrirtæki eru á Akureyri. Snæfellið hélt til grálúðuveiða í fyrsta túr eftir hlé frá veiðum í tæp þrjú ár. Átján manns eru í áhöfn. Eins og áður segir er Sigmundur Sigmundsson skipstjóri en yfirvélstjóri er Heimir Kristinsson.

Ægir. 3 tbl. 1 mars 2009.









Flettingar í dag: 698
Gestir í dag: 57
Flettingar í gær: 1186
Gestir í gær: 63
Samtals flettingar: 725230
Samtals gestir: 53793
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 15:39:35