21.04.2018 08:15

55. Fjarðarklettur GK 210. TFZP.

Vélskipið Fjarðarklettur GK 210 var smíðaður í Sverre skipasmíðastöðinni í Gautaborg í Svíþjóð árið 1946 fyrir Ríkissjóð Íslands. Hét fyrst Ágúst Þórarinsson SH 25. Eik. 103 brl. 265 ha. Alpha díesel vél. Skipið var selt 12 febrúar 1950, Sigurði Ágústssyni í Stykkishólmi, sama nafn og númer. Skipið var selt 21 nóvember 1953, Fiskakletti hf í Hafnarfirði, hjét Fjarðarklettur GK 210. Ný vél (1960) 365 ha. Kromhout díesel vél. Skipið var talið ónýtt vegna fúa og tekið af skrá 16 september árið 1970.


55. Fjarðarklettur GK 210.                                              (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

  100 smálesta bátur til Stykkishólms

Í fyrrinótt kom til Stykkishólms nýr bátur frá Svíþjóð. Heitir báturinn "Ágúst Þórarinsson", SH 25, og er eign Sigurðar Ágústssonar kaupmanns í Stykkishólmi. Hann er 100 smálestir að stærð, smíðaður hjá Sverre skipasmíðastöðinni í Gautaborg. Gekk heimferð bátsins í alla staði vel. Báturinn er hinn vandaðasti að öllum útbúnaði. Er hann betur búinn að vistarverum skipverja en aðrir bátar, sem undanfarið hafa komið frá Svíþjóð. Sérstaklega má geta þess, að í bátnum er borðsalur, þar sem 16 manns geta matast í einu. Báturinn hefur 265 hestafla Alfa-dieselvjel. Björn Hansson, skipstióri, frá Reykjavík, sigldi bátnum heim og verður með hann á síldveiðum í sumar.

Morgunblaðið. 9 ágúst 1946.


Fjarðarklettur GK 210. Líkan Gríms Karlssonar.                                            (C) Þórhallur S Gjöveraa.

     Við fylltum olíugeymana af sjó til
          að fyrirbyggja sprengingu

    Rætt við skipstjórann á Fjarðarkletti

Eldur kom upp í vélarrúmi vélbátsins Fjarðarkletts GK 210 frá Hafnarfirði um hálfníuleytið í fyrrakvöld. Var báturinn þá að veiðum skammt vestur af Eldey. Eldurinn komst einnig í káetuna og brenndi gat á dekkið, en ekkert tjón varð á mönnum. Vélbáturinn Elding kom Fjarðarkletti til aðstoðar og dró hann til Hafnarfjarðar. Komu bátarnir þangað á níunda tímanum í gærmorgun. Við náðum tali af skipstjóra Fjarðarkletts, Kristjáni Kristjánssyni, í gær og sagðist honum svo frá: Við vorum að veiðum skammt vestur af Eldey í fyrrakvöld, þegar eldur kom upp í vélarrúmi. Klukkan mun hafa verið um hálfníu. Gaus þegar upp mikill reykur og varð báturinn fljótt rafmagnslaus, þannig að ekki reyndist hægt að nota sjódæluna við slökkvistarfið. Við notuðum þessi litlu handslökkvitæki, sem við höfðum, en þau höfðu lítið að segja, vegna þess að ógjörningur var að komast niður í vélarrúmið.
Eldurinn breiddist síðan út aftur í káetuna. Við byrgðum strax allt og fylltum olíugeymana af sjó til að fyrirbyggja sprengingar. Þá höfðum við strax samband við næsta skip, sem var Sæljónið og kom það fljótlega til okkar. Einnig náðum við sambandi við varðskip, en það var of langt í burtu, um níu tíma siglingu. Skömmu seinna kallaði vélbáturinn Elding í okkur, en hann var á leið frá Sandgerði til hjálpar öðrum bát, skammt norður af Eldey, sem hafði fengið vörpuna í skrúfuna. Biðum við svo eftir Eldingunni og kom hún til okkar um kl. 11. Hófum við þá aftur slökkvistarfið en Eldingin hafði meðferðis stór kolsýruslökkvitæki og tókst okkur fljótlega að ráða niðurlögum eldsins. Stuttu síðar sviðnaði þó gat á dekkið, hafði leynst glóð í dekkbita. Sprautuðum við þá með sjóslöngu niður um gatið og niður í vélarrúm og tókst okkur þá endanlega að slökkva glóðina, sem einnig var í káetu og aftast í vélarrúmi. Síðan dró Eiding okkur til Hafnarfjarðar og komum við hingað um hálfníu í gærmorgun. Varð tjónið tilfinnanlegt?  Ja, það get ég nú ekki sagt um eins og er. En af verksummerkjum að dæma er tjónið nokkuð og kemur til með að stöðva bátinn um stundarsakir, að minnsta kosti.

Morgunblaðið. 19 ágúst 1967.


Flettingar í dag: 396
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 1186
Gestir í gær: 63
Samtals flettingar: 724928
Samtals gestir: 53765
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 06:20:27