05.05.2019 10:56

V. s. Óðinn LBQT / TFOA.

Strandvarnarskipið Óðinn var smíðaður hjá Kjöbenhavns Flydedok & Skibsværft í Kaupmannahöfn árið 1926 fyrir landsjóð Íslands. 466 brl. 1.200 ha. 3 þennslu gufuvél. Skipið var lengt veturinn 1926-27 í Kjöbenhavns Flydedok í Kaupmannahöfn, mældist þá 512 brl. Skipið var selt í mars 1936, sænsku tollgæslunni, hét þá Odin. Sænski sjóherinn tók Odin í þjónustu sína í seinni heimstyrjöldinni og notaði hann sem fallbyssuskip með einkenninu H-43. Selt árið 1950, Sten A Olsson í Svíþjóð. Skipið var selt í brotajárn til Belgíu og rifið þar árið 1951.


Strandvarnarskipið Óðinn í Reykjavíkurhöfn. Á myndinni er búið að lengja skipið.    Mynd í minni eigu.

       Strandvarnarskipið "Óðinn"

Óðinn, hið nýja strandvarnaskip, kom hingað laust fyrir kl. 10 ½  að kveldi 23. júni 1926, og lagðist að austurbakkanum, en þar hafði safnast fjöldi fólks. Fjármálaráðherra Jón Þorláksson fór út í skipið, ásamt alþingismönnum og nokkrum gestum, og flutti hann ræðu af stjórnpalli skipsins, sagði stuttlega sögu strandvarnarmálsins og bauð velkominn skipstjórann, Jóhann P. Jónsson, ásamt skipshöfn og skipi. Áheyrendur tóku undir ræðuna með fjórföldu húrrahrópi. Að því loknu skoðuðu gestir skipið og þágu góðgerð hjá skipstjóra, og þar héldu þeir stuttar ræður Sigurður Eggerz og Jón Þorláksson. Hér fer á eftir Iýsing á skipinu:
Skipið er að lengd 155 ft, breidd 27'6", dýpt 51'9", ristir með 215 smálesta þunga (145 smál. kola, 50 smál. veitivatns, 20 smál. neysluvatns, vistum og skipverjum) 13'4", allt talið í ensku máli. Hraði skipsins með þessum þunga á að vera 13,1/4  míla ensk. Skipið er áþekkt stórum togara með einu þilfari og hvalbak fram á. Stafn skipsins er sérstaklega sterkur, til þess að þola ís og fullnægja í því efni kröfu Germanischer Lloyd. Einnig á skipið að fullnægja kröfu danskra skipaskoðunarlaga. Frá kyndisstöð, nálega miðskipa, fram að skotfærarúmi, er tvöfaldur botn til vatnsgeymslu, sumpart til kjölfestu og sumpart til veitivatns á ketilinn. Þilfar allt er úr stálplötum, en klætt með 2,5" þykkum plönkum úr rauðfuru. Bátaþilfar nær yfir allan afturhluta skipsins. Vélin er þríþensluvél, 1.100 hestafla, og katlar 2. Er eimþrýstingur 14 kg. á cm 2. Vélin er útbúin með Schmits yfirhitun, og á að vera mjög sparneytin, nota aðeins 0,6 kg. á hestaflsstund, en það samsvarar 14,4 smálestum á sólarhring með fylstu ferð. Gert er ráð fyrir að skipið noti að meðaltali um 7 smálestir enskra kola á sólarhring. Skipið er vopnað með tveimur 47 mm. fallbyssum; er önnur á hvalbaknum, en hin á bátaþilfari. 2 björgunarbátar fylgja skipinu, og er annar þeirra með vél sömuleiðis fylgja vikabátar vel búnir. Skipið er vel búið ýmiskonar hjálparvélum, og til alls vandað.
Það er smíðað hjá Köbenhavns Flydedok & Skibsværft. Skipið virðist hið vandaðasta, en um fyrirkomulag á þilfari eru ýmsir dómar og sumir koma frá þeim, sem vart hafa á þilfar stigið. Eitt virðist þó athugavert, og er það staður sá, sem snattbát skiþsins er komið fyrir. Starfsviði þess er þannig farið, að það þarf nálega hvernig sem veður er, á ýmsum tímum að fara með fullri ferð gegn sjó og vindi, er það eltir lögbrjóta þá, er á vegi verða, og þá má búast við miklum sjó á þilfari, sem auðveldlega gæti losað bátinn, og hann brotnað. Vel getur "Óðinn" verið slíkt sjóskip, að aldrei saki þetta fyrirkomulag, en haföldur kringum Íslandsstrendur eru miklar og stórar og "Óðinn" á eftir að berjast við þær, þess vegna er þessi athugasemd gerð. "Óðinn" kom að hafnarbakkanum hér í fyrsta sinni 23. júní kl. 10 ½  að kveldi, Honum var fagnað og ræður haldnar. Á sömu stundu hné dauður niður á æskustöðvum sínum á Norðfirði, forsætisráðherra Jón Magnússon, sá góði maður, sem bar björgunarmálin fyrir brjósti og vildi sjómönnum þessa lands hið bezta.
Strandvarnarskipið "Óðinn", sem er hér nú, er til kominn í byrjun fyrir forgöngu Sigurðar Sigurðssonar lyfsala, síðan fyrir framtakssemi Vestmanneyinga að leggja til fé, kaupa og halda "Þór" úti, sem var hið fyrsta strandvarnarskip. Því næst yfirmönnum "Þórs", sem þráfaldlega hafa sýnt, að þeim var trúandi fyrir verki því, er þeir í byrjun áttu að inna af hendi, björgun og gæzlu veiðarfæra Eyjabúa. Síðan komu strandvarnirnar, sem þeir einnig sýndu, að þeir gátu gætt á lítilli fleytu, engu síður en þeir, sem á stærri skipum voru. Framkvæmdir á sjó hafði hinn vinsæli og ötuli varðskipsforingi Jóhann Jónsson, sem var svo heppinn að fá þá Friðrik V. Ólafsson og Einar Einarsson fyrir stýrimenn. Varðskipsforingi á "Þór" er nú Friðrik V. Ólafsson, sem við honum tók 1. sumardag s. l, en Einar Einarsson er fyrsti stýrimaður á "Óðni". Allt þetta studdi Jón Magnússon til hinztu stundar, og hvað sem hver segir, er ekki annað að sjá, en að forsjónin, sem stundum tekur í taumana, hafi hagað því svo, að honum hafi með þessum atvikum, að hann deyr á þeim sömu mínútum sem "Óðinn" lendir, verið reist hið veglegasta minnismerki, sem nokkrum íslenzkum manni hefir verið reist, og minnismerkið er Strandvarnarskipið "Óðinn" og velkominn veri hann. Skipherra á "Óðni" er, eins og kunnugt er, Jóhann P. Jónsson, sem var með "Þór". l. stýrimaður er Einar Einarsson. II. Magnús Björnsson frá Laufási, III. Þórarinri Björnsson. I. vélstjóri er Þorsteinn Loftsson, II. Aðalsteinn Björnsson og III. Magnús Jónsson. Bryti er Elías Dagfinnsson. Kyndarar eru fjórir. Hásetarúm er fyrir 10 menn, en ekki er víst að svo margir verði þeir, að minsta kosti fyrst í stað. Skipið er hið vistlegasta undir þiljum, klefar vel útbúnir og rúmgóðir. Borðsalur háseta og kyndara er að framanverðu, á þilfari, en yfirmanna skipsins að aftanverðu, undir þiljum, og er mjög vel útbúinn, sama er að segja um klefa yfirmanna. Þeir eru prýðilega búnir. Tveir baðklefar eru í skipinu, annar fyrir skipherra, innar af klefa hans, en hinn fyrir skipshöfn alla. Tveir farþegaklefar eru á "Óðni", hvor fyrir tvo farþega, og eru þeir klefar ágætlega búnir að öllu leyti.

Tímaritið Ægir. 6 tbl. 1 júní 1926.


Strandvarnarskipið Óðinn.                                                                       Ljósmyndari óþekktur.


Óðinn í Reykjavíkurhöfn árið 1926. Fyrir innan hann er Gullfoss l og við bryggjuna er Goðafoss ll er sökkt var við Garðskaga 10 nóvember 1944. Ljósmyndari óþekktur.

             Varðskipið "Óðinn"

Hinn 17. nóvember lagði "Óðinn" á stað til útlanda og hreppti storma á milli Íslands og Shetlandseyja, en kom heilu og höldnu til Kaupmannahafnar hinn 24. s. m. Meðan skipið var á leiðinni var mikið talað um manna á milli og sást jafnvel í blöðum, að það væri hættugripur og er það fremur kuldalegt gagnvart ættingjum, vinum og venslamönnum þeirra, er á skipinu eru, að geta ekki beðið með þær sögur, þangað til slys hefir orðið eða skipið er komið fram, einkum þegar ekki er betur fylgst með ferðum þessa "hættugrips" en svo, að blöð hér í bæ skýra frá hinn 27. nóvember, "að skipið sé komið til Kaupmannahafnar fyrir 3-4 dögum og, að ferðin hafi gengið vel". Skipið fór til eftirlits í "Flydedokken" eins og ætlast var til frá upphafi.

Tímaritið Ægir. 11 tbl. 1 nóvember 1926.


Flettingar í dag: 1763
Gestir í dag: 380
Flettingar í gær: 3151
Gestir í gær: 437
Samtals flettingar: 1957571
Samtals gestir: 495493
Tölur uppfærðar: 7.8.2020 09:40:28