08.08.2019 12:49

Keflvíkingur GK 400. TFBL.

Vélskipið Keflvíkingur GK 400 var smíðaður af Pétri Vigelund í Innri Njarðvík árið 1940 fyrir Samvinnuútgerðarfélag Keflavíkur. Eik. 70 brl. 180 ha. Alpha vél. Frá 24 nóvember 1944 var Keflvíkingur hf. í Keflavík eigandi skipsins. Hét Keflvíkingur KE 44 frá árinu 1950. Skipið brann og sökk um 80 sjómílur norðvestur af Garðskaga 16 júlí árið 1951. Áhöfnin, 9 skipverjar, bjargaðist í léttbát. Það var svo Vélskipið Skíðblaðnir ÍS 1 frá Þingeyri sem bjargaði mönnunum eftir 19 klukkustunda hrakninga og fór með þá til hafnar í Keflavík.


Keflvíkingur GK 400 með fullfermi af síld á Siglufirði.                           Ljósmyndari óþekktur.

             M.b. "Keflvíkingur" 

28. febrúar síðastl. hljóp vélskipið "Keflvíkingur" af stokkunum í skipasmíðastöð P. Vigelunds í Innri Njarðvík. Skipið er með 68 feta kjöl, 17 ½  fet á breidd, 9 fet á dýpt og mælir 70 smálestir. Í hásetaklefa eru hvílur fyrir 12 menn, en í káetu fyrir 4 menn. Handlaugar með rennandi vatni eru í báðum klefum. Vélin er Burmeister & Wain Alfa Diesel 3ja cylindra, af nýjustu gerð og hraði skipsins er 10 mílur. Ennfremur er í skipinu trollspil smíðað í Vélsmiðjunni "Héðinn" í Reykjavík, og er það hið fullkomnasta spil af þessari stærð, sem hér hefir sést og fyllilega samkeppnisfært við útlend spil. "Keflvíkingur" er smíðaður úr eik, undir eftirliti skipaskoðunar ríkisins, eins og öll skip eru nú, sem smíðuð eru hérlendis. Efni allt og frágangur er hinn vandaðasti. Eigendur bátsins er Samvinnuútgerðarfélag Keflavíkur. Stjórn þess skipa: Danival Danivalsson, form., Guðni Guðleifsson, Kristinn Jónsson, Jón G. Pálsson, stýrimaður og Valgarð þorkelsson, skipstjóri. Félagið fékk styrk frá Fiskimálanefnd til byggingar skipsins. P. Wigelund, skipasmiður, gerði alla uppdrætti að skipinu og sá um smíði þess.

Sjómannablaðið Víkingur. 9-10 tbl. 1 júní 1940.

                     Við létum í haf

         Viðtal við Valgarð Þorkelsson 

Í þann mund, er nokkrir menn samankomnir á málfundi, ræddu útgáfu þessa blaðs, lagði vélskipið Keflvíkingur héðan frá landi áleiðis til Englands með ísfisk. Þetta var í fyrsta skipti, sem keflvískt vélskip hóf að leita sér »fjár og frama« á erlendum vettvangi, svo að vel þykir hlýða að birta hér í viðtalsformi, frásögn eins skipverja fararinnar.
Keflvíkingur, eign samvinnuútgerðarfélags Keflavíkur, er 70 tonn og hljóp af stokkunum í Innri-Njarðvíkum 29. febrúar s. l. Verkstjórn annaðist Peter Wigelund, skipasmíðameistari. Að áliðnu sumri var lest skipsins færð fram,, með það fyrir augum, að láta skipið sigla með ísaðan fisk. Fiskkaupin hófust hér 19. nóvember, en 22. sama mánaðar lét skipið úr höfn með 52 tonn af þorski og flatfiski. Í Reykjavík fékk skipið »vegabréf« sitt, en þaðan var svo förinni heitið til Englands, eins og fyrr getur.
Ég hitti Valgarð Þorkelsson að máli, en hann hafði verið skipstjóri á Keflvíking, og bað hann að segja blaði okkar frá þessari fyrstu siglingu þeirra til Englands.
- Við vorum. átta, skipverjarnir í þessari ferð, segir Valgarður, og var ég skráður sem háseti, þar sem ég hefi ekki siglingarréttindi. Skipstjóri okkar var Torfi Tímótheusson, sem í mörg ár hefur siglt skipum landa á milli. Við létum í haf aðfaranótt þess 23. nóvember s. l. Daginn eftir var sæmilega gott veður, 4 vindstig og vestan átt. Það veður hélst alla leið. og kl. 10 að morgni þess 28. vorum við út af Fleetwood og biðum eftir hafnsögumanninum. Kl. 12 sama dag var svo rent ínn í »dokkina«, en affermingin hófst ekki fyrr en á miðnætti. Henni var lokið klukkan 6 morguninn eftir, en salan í landi hófst tveim tímum síðar. Firmað Boston Deep Sea annaðist sölu aflans, útvegaði kost til skipsins og þess háttar. - Og þið selduð vel? - Já, farmurinn var 700 kítt, og seldist fyrir £ 3.596. Kaupendur virtust fremur vera fisksalar heldur en neytendur. Að hálftíma liðnum var aflinn horfinn. Þann dag seldu tvö íslenzk skip í Fleetwood. Svo; lögðum við af stað áleiðis heim eftir tæpa sólarhrings viðdvöl, og komum til Keflavíkur 6. desember. - Genguð þið ekki á land í Fleetwcod, að hætti farmanna, til þess að kynnast siðum og háttum landsbúa, þó að tíminn væri naumur?
 - Auðvitað stigum við fæti á enska grund, en þar var ekki mörgu hægt að kynnast, því að allt var í myrkri eftir kl. 6 að kveldi, sakir loftárásahættu. Við urðum líka að hafa hraðan á, því að klukkan 10 urðum við að vera komnir um borð. Þó gáfum við okkur tíma til að líta inn í krá eina, til þess að kynnast áhrifum enska bjórsins. - Urðu ekki enskar blómarósir til þess að fagna ykkur útlendingunum, þarna í kránni? - Blessaður vertu, þær voru mjög fáar, og þar að auki ískyggilega við aldur. Ölvun var þarna ekki áberandi undir tónaflóði dragspilsins. Vín var að sjálfsögðu selt þarna, en dýrara var það heldur en hér heima, og er þá kannske mikið sagt. - Okkur hér heima leikur forvitni á að vita, hvort þið urðuð ekki einhvers vísari um hrikaleik styrjaldarinnar? - Þó að við slippum sjálfir blessunarlega við alla þá morðtækni, sem mannsandinn hefir uppfundið, þá komumst við samt ekki hjá því að sjá loftárás, - ekki á Fleetwood -, heldur á Liverpool, sem er hér um bil 40 mílum sunnar. Raunar var fjarlægðin það mikil, að við heyrðum engar drunur, en við sáum samt leiftrin yfir borginni og ljós flugvélanna. Og á leiðinni heim um »Kanalinn« milli Írlands og Skotlands, sáum við skipalest, convoy, á að giska 15 skip.
Ennfremur sást til flutningaskips, sem var á leið frá Englandi. Það sigldi ljóslaust, og fór hið breiða haf í ótal krókum. Íslenzka máltækið segir: Betri er krókur en kelda. - Hvernig var líðan ykkar þarna á hættusvæðinu? - Í alla staði góð. Engan ótta eða kvíða var að sjá í svip manna, ekki einu sinni þeirra tveggja, er voru nýkvæntir, og áttu þarna sína »hveitibrauðsdaga«. Við gerðum að gamni okkar, og lifðum í vellystingum praktuglega eftir því sem aðstæður leyfðu. - Og þið fluttuð með ykkur kol heim? - Já, 40 tonn. Og mér virtist enginn hörgull vera á þeim eða öðrum vörum í Englandi, nema ávöxtum. Verð á vörum var heldur ekki hátt, miðað við verðlagið hér heima. - Hvernig reyndist skipið í ferðinni? - Vel, og mér virðist, að það sé vel fallið til siglinga, enda munu því vera ætlaðar siglingar í framtíðinni. Síðan samtal þetta átti sér stað, hefur Keflvíkingur farið aðra ferð til Englands og selt mjög vel. Væri vel, ef Keflvíkingar eignuðust fleiri skip til þess að hafa í förum milli landa með sjávarafurðir sínar.

Faxi. 2 tbl. 22 janúar 1941.


Keflvíkingur GK 400. Líkan.                                                             Ljósmyndari óþekktur.

    V.b. Keflvíkingur brann og sökk með                skjótum hætti í gærmorgun

Í gærmorgun kom upp eldur í v.b. KefIvíkingi í hafi, um 80 sjómílur norðvestur af Garðskaga, og brann hann og sökk á skammri stundu, en mannbjörg varð, með því að v.b. Skíðblaðnir frá Þingeyri tók skipverja um borð, en þeir höfðu komizt í skipsbátinn. V.b. Keflvíkingur hafði lagt upp í Iúðuveiðar frá Keflavík í fyrrakvöld, og mun hafa verið um 80 mílur nv. af Garðskaga, er eldur kom upp í vélarrúmi bátsins. Gerðist allt með skjótri svipan, að báturinn varð alelda, og tókst bátverjum ekki að senda út neyðarmerki. Skipverjar, sem eru 9 talsins, komust í björgunarbát heilir á húfi og mun engan mann hafa sakað, að því er skipstjórinn á Skíðblaðni, Þórhallur Vilhjálmsson, tjáði skrifstofu SVFÍ í talstöð í morgun. Segja má, að björgun hafi orðið með undursamlegum hotti, með því að um kl. 1.30 í nótt var Skíðblaðnir staddur um 16 sjómílur vestur af Malarrifi. Mugga var á, en þá sáu skipverjar á Skíðblaðni, hvar litlum björgunarbát var róið í áttina til þeirra. Voru þar komnir mennirnir af Keflvíkingi, Guðlaugur Ísleifsson skipsljóri hans og áhöfnin öll.
Björgun þessi var hin giftusamlegasta, þar eð Keflvíkingur var langt úti í hafi, er eldurinn kom upp, en veður var gott, enda óvíst hvernig farið hefði, ef stormur hefði brostið á, því að björgunarbátar vélbátanna eru litlir, eins og kunnugt er. Búizt er við Skíðblaðni til Keflavikur með skipbrotsmennina í kvöld.
V.b. Keflvíkingur var 70 lestir að stærð, smíðaður úr eik í Njarðvik árið 1940. Eigandi er h.f. Keflvíkingur. Þótti skipið fengsælt mjög og mikið happaskip.

Vísir. 17 júlí 1951.


Flettingar í dag: 1904
Gestir í dag: 37
Flettingar í gær: 804
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1362896
Samtals gestir: 88786
Tölur uppfærðar: 6.7.2025 23:18:25