06.12.2019 19:01

272. Álftanes GK 51. TFMO.

Vélskipið Álftanes GK 51 var smíðað í Furstenberg í Austur-Þýskalandi árið 1957. 75. brl. 280 ha. Mannheim vél. Eigandi var Íshús Hafnarfjarðar hf. frá nóvember sama ár. Smíðað eftir teikningum Hjálmars R Bárðarsonar. Selt 31 janúar 1966, Karli Símonarsyni, Jóhönnu Sigurðardóttur og Þórkatli Árnasyni í Grindavík. Skipið fórst 12 apríl árið 1976 út af Hópsnesi við Grindavík. 2 menn fórust en 6 mönnum var bjargað um borð í Hrafn Sveinbjarnarson ll GK 10 á síðustu stundu.


272. Álftanes GK 51 á landleið með síldarfarm.  (C) Snorri Snorrason.      Úr safni Atla Michelsen.

         Nýr bátur til Hafnarfjarðar

Um síðast liðna helgi bættist nýr bátur í vélbátaflota Hafnfirðinga. Er það báturinn Álftanes, en eigandi hans er Ingólfur Flygenring framkvæmdastjóri Hinn nýi bátur er smíðaður í Furstenberg í Austur-Þýzkalandi og er af sömu gerð og vélbátarnir Húni frá Skagaströnd og Kambaröst frá Stöðvarfirði, en þeir eru báðið nýkomnir til landsins. Álfanesið er 75 smálestir, smíðað eftir teikningu Hjálmars Bárðarsonar. Er báturinn mjög vel byggður og hinn heppilegasti til þeirra veiða ,er honum eru ætlaðar. Vistarverur skipverja eru rúmgóðar og eru þær hitaðar upp með rafmagni. Þá er báturinn búinn dýptarmæli og talstöð, en hún var sett í hann í Kaupmannahöfn. Ganghraði bátsins reyndist 10 sjómílur í reynsluför.
Álftanesið hreppti slæmt veður á heimleiðinni, en reyndist í alla staði hið bezta sjóskip. Var það 6 ½ sólarhring frá Kaupmannahöfn til Hafnarfjarðar. Það voru hafnfirzkir sjómenn, sem sigldu Álftanesinu heim. Voru það þeir Guðmundur Ársæll Guðmundsson skipstjóri, Sigurður Þórðarson stýrimaður, Kristján Sigurðsson 1. vélstjóri, Þorkell Kristmundsson 2. vélstjóri og Bjarni Sumarliðason matsveinn. Álftanesið mun nú til að byrja með hefja reknetaveiðar héðan frá Hafnarfirði.

Hamar. 12 tbl. 21 október 1957.


Fyrirkomulagsteikning af skipi smíðuðu í Furstenberg 1957.       (C) HRB.


   Tveir menn fórust með Álftanesi
             út af Hópsnesi í gær
            sex mönnum bjargað

Vélbáturinn Álftanes GK-51 frá Grindavík fórst um kl. 16 í gær 2.7 mílur suðaustur af Hópsnesi. Tveir af átta manna áhöfn bátsins fórust, Karl Símonarson skipstjóri og Óttar Reynisson stýrimaður. Hrafn Sveinbjarnarson ll GK-10 frá Grindavík bjargaði skipverjunum sex. Voru fjórir þeirra á kjöl Álftaness, en tveir héldu sér í rekhald á sjónum. Álftanesið sökk aðeins 3-4 mínútum eftir að síðasti maðurinn var kominn um borð í Hrafn Sveinbjarnarson. Skipstjðri á Hrafni Sveinbjarnarsyni ll er Pétur Guðjónsson. Skipverjar á Álftanesi segja, að báturinn hafi lagst skyndilega á hliðina og ekki náð að rétta sig við aftur. Hafi honum hvolft á nokkrum sekúndum. Talið er að Karl skipstjóri hafi aldrei komist út úr brúnni, en Óttar stýrimaður drukknaði er hann var að synda í sjónum rétt hjá flakinu. Þegar óhappið átti sér stað var veður af SV, 4-5 vindstig. Þegar Álftanesinu hvoldi var Hrafn Sveinbjarnarson aðeins ½ sjómílu á eftir því og segja skipverjar beggja skipanna, að enginn hefði komist lífs af, ef ekki hefði verið svona skammt á milli skipa. Slysavarnafélagi Íslands barst tilkynning um slysið um kl. 16 í gær. Þá voru nokkrir bátar að koma á slysstaðinn til að taka við leit af Hrafni Sveinbjarnarsyni, og munu ein 6-8 skip hafa leitað mannanna tveggja án árangurs fram í myrkur í gær. Þá var einnig haft samband við Varnarliðið, sem sendi þyrlu til leitar. Menn úr björgunarsveitinni í Grindavík gengu síðan fjörur á Hópsnesi í gær en þangað hafði rekið brak úr bátnum.
Álftanesið var byggt í Furstenberg í A-Þýzkalandi árið 1957. Það var 75 lestir að stærð og eigandi þess var Sæborg h.f. í Grindavík. Það var systurskip Hafrúnar frá Eyrarbakka, sem fórst á svipuðum slóðum fyrir röskum mánuði.

Morgunblaðið. 13 apríl 1976.


Vélskipið Álftanes GK 51 í Hafnarfjarðarhöfn.                                 (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

      "Héldum að þetta væri okkar                        síðasta stund"

"Við héldum allir að þetta væri okkar síðasta stund, því allt gerðist á nokkrum sekúndum. Og ef Hrafn Sveinbjarnarson ll hefði ekki verið rétt á eftir okkur værum við ekki hér til að segja frá þessu," sögðu Magnús Ólafsson, Ísleifur Haraldsson og Gunnar Sigurðsson í samtali við Morgunblaðið í gær, en þeir björguðust ásamt þrem öðrum skipsfélögum sínum þegar Álftanesi GK 51 hvolfdi skyndilega og sökk skammt suðaustur af Hópsnesi í gær. Þeir félagar sögðu, að Álftanesið hefði verið á leið í land úr róðri og slysið hefði átt sér stað þegar báturinn var staddur um 3 sjómílur SA af Hópsnesi. "Við vitum ekki gjörla hvað gerðist, en ólag lagði bátinn á stjórnborðshliðina og á örfáum sekúndum valt hann yfir á kjölinn." ,,Það voru fjórir aftur í og fjórir frammi," sagði Ísleifur. "Við reyndum allir að koma okkur út þegar báturinn lagðist á hliðina, þ.e. þeir sem á annað borð komust út. Við komumst fjórir á kjölinn, en tveir lentu í sjónum. Skyndilega skaut upp belg og tveir okkar ætluðu að synda að honum og halda sér í hann. Magnús var annar þeirra, en hann sneri fljótlega við þegar hann sá hvað belginn rak hratt frá Hann gat synt að bátnum aftur og ég henti til hans stakknum mínum til að draga hann upp á kjölinn. Ég verð að játa, að ég hef aldrei tekið eins mikið á um ævina og við að draga Magnús upp á kjölinn til mín. Hinn maðurinn, sem synti í átt að belgnum var Óttar stýrimaður Hann sneri seinna við, reyndi að synda í átt að bátnum og átti hann ekki nema 3- 4 metra ófárna að bátnum, þegar honum fataðist sundið og hann sökk." Skipbrotsmennirnir á Álftanesinu vissu að Hrafn Sveinbjarnarson var skammt frá þegar óhappið átti sér stað. Þeir sögðu, að þegar báturinn hefði átt skammt ófarið að þeim, hefðu skipverjar þar sett út gúmmíbát, en hann hefði slitnað frá Hrafni og rekið burtu skammt frá Álftanesinu. "Sem betur fer lagði enginn okkar í það að synda í átt að gúmmíbátnum, þó svo að fjarlægðin hafi ekki verið nema um 20 metrar, við hefðum ekki orkað það og sjórinn hefði einnig haldið okkur niðri. Við héngum á kjölnum, allt þar til að skipverjar á Hrafni gátu kastað til okkar björgunarhring, sem þeir síðan drógu okkur á að skipshlið. Við höfðum allir á tilfinningunni að þetta væri okkar síðasta og við værum að fara yfir í annan heim.
Gunnar var einn þeirra manna, sem var frammi í lúkar. Hann var sofandi ásamt öðrum manni þegar Álftanesið fór á hliðina "Ég vaknaði við það að báturinn var alveg að leggjast á hliðina og tveir okkar voru þegar að leggja af stað upp stigann. Ég rauk fram úr, en þegar ég kom að stiganum kom sjórinn á móti mér með gífurlegum þunga. Mér tókst þó að brjótast upp stigann með herkjum og þegar ég kom upp á lunninguna bakborðsmegin fór hún í kaf Reynir H. Hauksson var á eftir mér upp. Hann átti við meiri vanda að stríða en ég og meiddist lítillega á leiðinni, en honum skaut upp skömmu eftir að bátnum hvolfdi alveg. Náði hann þá í fleka úr úrgreiðsluborði og gat haldið sér við það, þangað til hann var dreginn um borð í Hrafn." Þremenningarnir sögðu, að það erfiðasta við að halda sér á kjölnum hefði verið að aldan gekk yfir þá. Þeir hefðu sopið nokkurn sjó og það sem verra var, olía hafði blandast sjónum og leið þeim mun verr af þeim ástæðum. Kuldinn hefði ekki verið það versta fyrr en þeir komu um borð í Hrafn Sveinbjarnarson. Þeir Ísleifur og Magnús sögðust hafa bjargað hvor öðrum í þessu volki. Fyrst hefði Gunnar dregið Magnús upp úr sjónum þegar hann sneri frá belgnum, er hann ætlaði að ná í, og síðar hefði Ísleifur verið kominn að því að detta út af kjölnum, en þá hefði Magnús kastað sér á lappirnar á honum og komið í veg fyrir að hann félli í sjóinn. "Ég var ákveðinn í að ná belgnum," sagði Magnús "En fljótlega áttaði ég mig á að það væri tilgangslaust að reyna það og sneri því við og komst með naumindum að bátnum. Stýrimaðurinn synti hinsvegar lengra og komst aldrei til baka." Þeir sögðu, að engum bjarghringjum né björgunarhringjum hefði skotið upp frá bátnum, aðeins hefði komið ein stíufjöl, fleki úr úrgreiðsluborði og lestarlúga
Það væri nauðsynlegt að búa skipin þannig, að einhverju skyti upp frá þeim, hvernig sem þau sykkju. Ísleifur, sem var aftur í þegar ólagið kom á bátinn, sagði að þegar það hefði komið hefði verið slegið af ferðinni fyrst, en síðan sett á fulla ferð og beygt í stjór Það hefði ekki dugað til og báturinn haldið áfram að leggjast og verið kominn á kaf í sjó áður en nokkur hefði vitað af "Það var hreinasta mildi að þremur af fjórum sem í brúnni voru skyldi takast að komast út og ekki síður að nokkur skyldi komast upp úr lúkarnum. Og við værum ekki hér, ef Hrafn Sveinbjarnarson hefði ekki verið rétt á eftir okkur. Enginn okkar hefur áður verið svona nálægt því að yfirgefa þennan heim og viljum við nota tækifærið til að þakka skipstjóra og áhöfn Hrafns Sveinbjarnarsonar ll fyrir það snarræði sem þeir sýndu er þeir björguðu okkur Það er ekkert launungarmál að við eigum þeim líf okkar að launa." Að lokum voru þeir spurðir hvort þeir hygðust fara á sjóinn aftur. "Já, við förum á sjóinn strax eftir páska. Við höfum ekki efni á að taka okkur frí. "Við vorum staddir um 3 mílur SA- frá Hópsnesi um kl. 15.30 í gær og þá sá ég og annar vélstjóri, sem var hjá mér í brúnni, hvar Álftanesið lagðist allt í einu á hliðina, undan kviku, og sáum við að stjórnborðsgangurinn fylltist.
Það skipti engum togum að skipið fór yfir á kjölinn," sagði Pétur Guðjónsson, skipstjóri á Hrafni Sveinbjarnarsyni ll, þegar Morgunblaðið ræddi við hann. Pétur sagði, að Álftanesið hefði verið um það bil ½  sjómílu á undan Hrafni og veður hefði alls ekki verið slæmt á þessum slóðum, 4- 5 vindstig og nokkur kvika "Þegar ég sá hvað hafði komið fyrir ræsti ég strax út allan mannskapinn, en flestir voru í koju. Við vorum komnir á staðinn, þar sem mennirnir héngu á kjölnum eða voru í sjónum eftir 2- 4 mínútur. Fyrst lagði ég að mönnunum tveim sem voru í sjónum Fyrst náðum við inn Ólafi Jóhannessyni matsveini sem hékk á fleka úr úrgreiðsluborði og síðan fullorðnum manni, sem lá á grúfu ofan á lestarlúgu og var meðvitundarlaus er hann kom um borð til okkar. Tveir skipverjar hófu strax lífgunartilraunir á honum og komst hann fljótt til meðvitundar." Þá sagði Pétur að þeir hefðu ætlað að láta gúmmíbát reka upp að flaki Álftaness, en hann hefði slitnað frá og rekið burt skammt frá Álftanesinu. "Þegar hér var komið ákvað ég að keyra með kinnunginn upp að Álftanesinu. Það tókst og tókst að henda bjarghring til skipbrotsmanna. Þrír þeirra voru síðan dregnir á honum yfir að síðunni á Hrafni og tókst strax að ná þeim um borð. Einn skipbrotsmanna var eftir á kili og stökk hann í sjóinn. Við gátum kastað til hans bjarghring og náði hann honum með naumindum. "Þetta mátti ekki tæpara standa, sagði Pétur, "Álftanesið sökk 3- 4 mínútum eftir að mennirnir komu um borð til okkar." Hann sagði að lokum, að Álftanesið hefði verið nýbúið að tilkynna komutíma til Grindavíkur er það lagðist á hliðina og átti að vera í höfn kl 16. Hrafn Sveinbjarnarson hélt síðan með skipbrotsmennina til hafnar, en aðrir bátar hófu leit að þeim, sem ekki fundust, án árangurs.
Við vorum allt í einu kallaðir upp á þilfar og þegar við komum þangað sáum við hvar Álftanesið var með kjölinn upp í loftið," sögðu þeir Ragnar Gunnarsson og Einar Jóhannesson skipverjar á Hrafni Sveinbjarnasyni ll. "Við náðum öðrum manninum um borð strax, en sá lá á lestarlúgu. Hinn flaut á grúfu ofan á fleka. Við ætluðum að ná honum með því að kippa í hann með haka, en það mistókst og vorum við næstum því búnir að missa manninn frá okkur, er við náðum að setja fiskisting í stakkinn hans og draga hann að okkur. Hann var orðinn helblár þegar hann kom um borð, en stýrimaðurinn og háseti hófu lífgunartilraunir, sem báru fljótt árangur. Þá var Hrafni Sveinbjarnarsyni siglt upp að Álftanesinu í þeirri von að mennirnir gætu stokkið yfir til okkar, en það reyndist ófært. Það er aðeins hægt í biómyndum. Þá hentum við hring til mannanna og bundu þeir sig við hann og við drógum þá yfir til okkar. Sá fjórði var eftir. Stökk hann í sjóinn, en var svo aðframkominn að hann gat vart synt. Þegar hann náði í björgunarhring sem við köstuðum til hans, vorum við að hugsa um að stinga okkur til hans." Einar og Ragnar sögðu, að skipbrotsmenn hefðu strax verið drifnir niður í klefa, þar sem skipt var um föt á þeim og síðan var þeim gefin heit súpa. Við það hresstust þeir mjög fljótt. Þeir sögðu að björgunaraðgerðirnar hefðu vart staðið lengur en í 10 mínútur.

Morgunblaðið. 13 apríl 1976.
Flettingar í dag: 1575
Gestir í dag: 346
Flettingar í gær: 3151
Gestir í gær: 437
Samtals flettingar: 1957383
Samtals gestir: 495459
Tölur uppfærðar: 7.8.2020 08:38:16