12.12.2019 21:53

B. v. Ingólfur Arnarson RE 201 í smíðum í Englandi.

Fyrsta Nýsköpunartogarnum Ingólfi Arnarsyni RE 201 var hleypt af stokkunum í Selby á Englandi hinn 18 maí árið 1946. Var togaranum gefið nafn við þetta tækifæri og var það eiginkona Jóns Axels Péturssonar borgarfulltrúa, Ástríður Einarsdóttir, sem það gerði. Útgerð Ingólfs var alla tíð farsæl. Nýsköpunartogararnir voru miklu stærri og betur búin skip en gömlu kolatogararnir sem flestir voru smíðaðir í Englandi á árunum eftir 1920. Þessi nýju skip voru afkastamikil, langt um meira en gömlu togararnir. Þeir höfðu olíukynntar gufuvélar í stað kolanna. Þessi nýju skip fiskuðu mikið, enda var sóknin á miðin mikil og hörð. Flestir voru þessir togarar góð sjóskip, en mörg þeirra þóttu blaut í meira lagi, meira en önnur. Ég hef það eftir föður mínum að Egill rauði hafi verið gott sjóskip í flesta staði og ekki tekið mikið inn á sig. Koma Nýsköpunartogaranna til landsins markaði mikil tímamót í atvinnusögu landsins, heimstyrjöldin ný afstaðin og það má segja að mörlandinn hafi endanlega skriðið þá út úr moldarkofunum og meðtekið nýja tíma og það sem mest um vert, ný atvinnutækifæri.


Nýsköpunartogarinn Ingólfur Arnarson RE 201 fyrir framan verksmiðju Charles D Holmes í Hull, sem smíðuðu vélina og ketilinn í togarann.         Ljósmyndari óþekktur.


B.v. Ingólfi Arnarsyni RE 201 hleypt af stokkunum 18 maí 1946.


Útlitsteikning af Ingólfi Arnarsyni RE 201.                                                        Teiknari óþekktur.

      Fyrsta nýja togaranum hleypt
         af stokkunum á Englandi

Á laugardaginn var hleypt af stokkunum í skipasmíðastöð í Selby á Englandi, fyrsta togaranum, sem þar er smíðaður á vegum íslenzku ríkisstjórnarinnar. Á togari þessi að fara til Reykjavíkur, og verður fyrsti togarinn, sem til landsins kemur af þeim 30, sem samið hefur verið um smíði á í Bretlandi. Meðal þeirra, sem viðstaddir voru þá athöfn er togaranum var hleypt af stokkunum, var Jón Axel Pétursson bæjarfulltrúi og kona hans frú Ástríður Einarsdóttir, og skírði hún togarann; hlaut hann nafnið "Ingólfur Arnarson". Jón Axel fór utan nýlega í erindum ríkisstjórnarinnar og fór kona hans með honum þeirra erinda að gefa hinum nýja togara nafn. Bæjarstjórn Reykjavíkur hefur ákveðið að gefa einstaklingum og félögum kost á því að ganga inn í kaupsamninga um togara þá, er bærinn fær, að undanskyldum tveimur beirra.

Alþýðublaðið. 21 maí 1946.



Flettingar í dag: 1904
Gestir í dag: 37
Flettingar í gær: 804
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1362896
Samtals gestir: 88786
Tölur uppfærðar: 6.7.2025 23:18:25