27.03.2020 17:37

B. v. Hannes ráðherra RE 268. LBCM / TFHC.

Botnvörpungurinn Hannes ráðherra RE 268 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1926 fyrir h/f Alliance í Reykjavík. 445 brl. 800 ha. 3 þennslu gufuvél. Hannes ráðherra mun hafa verið fyrsti íslenski togarinn sem stundaði veiðar á fjarlægum miðum í Norðurhöfum. Var það við Bjarnarey laust fyrir 1930. Togarinn strandaði á Músaskerjum við Brautarholt á Kjalarnesi 14 febrúar árið 1939. Áhöfnin, 18 menn, bjargaðist í skipsbát og þaðan um borð í björgunarskútuna Sæbjörgu. Togarinn var á heimleið frá Englandi eftir söluferð og villtist af leið til Reykjavíkur. Skipið eyðilagðist á strandstað.


B.v. Hannes ráðherra RE 268 á yrti höfninni í Reykjavík.                             Ljósmyndari óþekktur.

              "Hannes ráðherra"

Hinn nýi togari "Alliancefjelagsins", kom hingað í fyrramorgun, beina leið frá Englandi. Halldór Þorsteinsson skipstjóri hefir undanfarna mánuði verið erlendis, til þess að sjá um smíði togarans, og kom hann með hann hingað. Þessi nýi togari Alliancefjelagsins er hinn traustasti að allri gerð. Hann er 150 fet að lengd á kjöl, 25 ½ fet á breidd og 15 fet á dýpt. Stærðin er 451 bruttó smálestir, 153 smálestir netto. Hann er smíðaður í Beverley..

Morgunblaðið. 25 mars 1926.


B.v. Hannes ráðherra RE 268.                                                                Sígarettupakkamynd.

        Skip sem mættust á nóttu
         

Þegar ég fyrir skömmu rakst á erlenda frásögn af því, er vitaskipið Elbe I fórst, sem talið er meðal hinna minnisstæðustu sjóslysa, hvarflaði hugurinn til þessarar miklu óveðursnætur, þann 26. október 1936, er við á togaranum Hannesi ráðherra vorum að taka land við mynni Elbu-fljótsins, með fullfermi af fljótveiddum ufsa og karfa, er við hugðum landa í Cuxhaven með morgninum og gerðum okkur vonir um hina beztu sölu. Siglingar með ísaðan fisk til Þýzkalands höfðu aðeins staðið um nokkurra ára bil, byrjuðu ekki fyrr en um 1930. Þá var kvitfiskur á íslenzkum fiskimiðum mjög farinn að tregðast á ísfiski-tímabilinu, en Bretinn enn ekki farinn að kunna að meta ufsa og karfa til nokkurs verðs, er viðunandi væri. Það var eiginlega togarinn Hannes ráðherra, er fyrstur íslenzkra togara braut ísinn, hvað snerti að snúa bakinu við enska markaðinum, þegar mest var veiðivon í karfa og ufsa. Fyrstu sölur skipsins í Þýzkalandi báru langt af sölum í Englandi og gáfu góðar vonir um þennan nýja markað. Þjóðverjarnir voru fegnir að fá þennan góða fisk, sem þeir kunnu vel að meta og matbúa betur en allir aðrir. En á hinu furðuðu þeir sig mikið, hvað afli skipsins í hverri ferð var mikill að magni til og veiddur á skömmum tíma. Stundum, þegar veitt var fyrir Austfjörðum, á Hvalbak og við Berufjarðardjúp, var stundum landað fullfermi tvisvar í mánuði. Þeir ætluðu aldrei að trúa því, að þessi afli hefði allur veiðst á eitt skip í einni ferð, heldur væri þetta samandreginn afli fleiri skipa. Þegar þeir svo sannfærðust um, að skipið og mannskapurinn hefði eitt verið um veiðina og ekki einu sinni komið við í heimahöfn í sumum túrunum, sendu þýzkir útgerðarmenn nefndir togaraskipstjóra á fund Guðmundar Markússonar, skipstjóra, til að spyrja hann spjörunum úr, hvernig hann hagaði sér við að fá svona mikla veiði, og hvernig hægt væri að láta mannskapinn anna svona mikilli vinnu. Á þeim árum áttu Þjóðverjar aðeins litla og lélega togara, sem ekki í neinu gátu staðið íslenzkum togurum á sporði við veiðarnar.Trollið tekið um borð í togara.                                                      Ljósmyndari óþekktur.
  
En litlu síðar komust Þjóðernissinnar til valda og stórfelld uppbygging í atvinnulífinu hófst, sú uppbygging náði ekki hvað sízt til aukins skipastóls og stórfelldrar útfærzlu fiskiveiðanna. Íslenzkir togaramenn frá þeim árum munu minnast þess, hvað Þjóðverjarnir á nýju togurunum fylgdust vel með íslenzku togurunum á miðunum og námu af þeim tilhögun og fangbrögð við veiðarnar. En lengi voru þeir ekki að verða þeim jafnknáir og nú byggðu þeir sér hvern togarann eftir annan, stærri og glæsilegri en íslendingar áttu. Þá kom fljótt að því, að þeir fluttu að landi, ekki einungis jafnmikinn afla og íslendingarnir, heldur jafnvel meiri og fljótfengnari, og þeir leituðu ekki upp í landsteina, eins og ensku togararnir, heldur út á djúpmiðin, þar sem aldrei áður hafði verið togað, á nýjum og fiskauðugum miðum í Grænlandshafi og víðar. Það var ekki sársaukalaust fyrir hina ötulu íslenzku sjómannastétt í þá daga, að sjá skip sín ganga úr sér með hverju ári sem leið og aldrei neitt nýtt bætast í hópinn. Hannes ráðherra var með stærstu og nýjustu íslenzku togurunum, þó var hann orðinn 11 ára, er hér var komið sögu, nóttina stormasömu í Helgolandsbugtinni. Þessi túr hafði gengið vel, eins og svo oft áður, þótt stormasamt væri við Íslandsstrendur. Skipstjóri hafði fundið aflasælan karfa og ufsablett innst í Kolluálnum á 200 metra dýpi út af Búlandshöfða á Breiðafirði, og innan um karfann og ufsann voru margar vænar ýsur. Þarna var hægt að athafna sig í flestum veðrum og gera góðan túr. Þá var þessi staður utan landhelginnar og ósóttur af landróðrabátum, en nú er hann kominn talsvert inn fyrir landhelgina, eins og margur góður blettur, vonandi öldnum og óbornum til góðs og framtíðar farsældar fyrir landið.


Um borð í togaranum Víði GK 450.                                               (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
  
Það hafði verið stormasamt undanfarna daga. En þennan októberdag hafði hinn ókyrri Norðursjór hagað sér skaplega fram undir hádegið, og vonir stóðu til hjá okkur, að komast í sæmilegu veðri í höfn. Þó kvað nú við stormfregn frá ElbeWeser radio. Öll skip voru vöruð við því, bæði á tali og morse, að stórastormur væri í aðsigi með 100-120 km hraða á klukkustund, nálgaðist stormsveipurinn austur og upp Ermarsundið. Kl. um 20,00 um kvöldið var komið fárviðri í Helgolandsbugtinni, þar sem við vorum, sjórinn skófst í djúpa dali, og síðan hófu sig upp fjallháir öldutoppar með freyðandi brotfaldi. Öldudalirnir voru svo djúpir, að maður gat jafnvel búizt við, að skipið kenndi botns, þegar það rann niður í þá með ofsahraða, en mjög grunnt er á þessum slóðum. Nú var ekki um annað að gera en ná í höfn sem fljótast, enda stutt eftir. Ég var að enda við að taka síðustu radómiðunina frá Elbe-Weser radio, sem sýndi, að við nálguðumst óðum Elbe I vitaskipið, en það er dýpst liggjandi vitaskipið, um 18 sjómílur frá mynni Elbe-fljótsins. Þessi fjölfarna skipaleið er sérstaklega hættuleg vegna mikilla grynninga á bæði borð. Hættulegustu rifin eru Scharkörn og Grosse Vogelsand, en leiðin liggur á milli þeirra. Til öryggis siglingunum þarna voru á þessum tíma fjögur vitaskip, staðsett þarna við innsiglinguna. Yzta skipið var Elbe I, en hin þrjú voru Elbe II og Elbe III og Elbe IV, sem öll lágu nær landi með jöfnu millibili. Elbe IV var lagt niður eftir síðustu heimsstyrjöld, er umbætur voru gerðar á þessari siglingarennu. Þessi vitaskip hafa verið kölluð dyraverðir sjómannanna, því hverju skipi sem kemur, er kurteislega vísað inn. Það olli okkur því óblandinni ánægju, þegar við sáum hin auðkenndu ljós vitaskipsins birtast framundan, þótt það hyrfi öðru hvoru í öldurótinu, því að við vissum, að vitaskipið myndi nú vísa okkur leiðina í örugga höfn. Þegar við svo þutum fram hjá vitaskipinu, þar sem það byltist til og kippti í festarnar með miklum boðaföllum og sáum þess í milli sjóinn skafa undan því, eins og það væri á beinni leið niður, vorkenndum við þessum einöngruðu mönnum um borð í því, sem þarna voru bundir við skyldustörf sín og áttu þess ekki kost eins og við að vera komnir í rólega höfn eftir skamma stund. En ekki óraði okkur fyrir því, að þetta væri í síðasta sinni, sem við ættum eftir að sjá þessa öryggisvitaverði sjómannanna. Því um nóttina týndist þetta fræga vitaskip með allri áhöfn, 15 manns. Á leiðinni upp fljótið mættum við 10.000 smálesta hollenzku mótorskipi, Poelan Bras, sem kærði sig kollótt um allt óveður og hélt sínu striki út í stormveðrin stríð á leið sinni til Amsterdam. Þetta skip og 1000 smálesta brezkur flutningadallur, sem nálgaðist undan veðrinu utan úr Norðursjó, urðu sjónarvottar að þessum hryggilega atburði.


Um borð í breskum togara.                                                            Ljósmyndari óþekktur.
  
Þýzki hafnsögumaðurinn um borð í hollenzka skipinu átti að skilast yfir í hafnsögubátinn Ditmar Koel, sem átti að liggja utan á Elbe III vitaskipinu, en hann varð að vera kyrr um borð, því vegna veðursins gat hafnsögubáturinn ekki tekið við honum, hann varð því líka sjónarvottur að þessum afdrifum félaga sinna. , Bæði þessi skip nálguðust Elbe I vitaskipið sitt úr hvorri áttinni, en í svipaðri fjarlægð frá því. Hið mikla hollenzka kaupfar lá betur á öldunum og átti því betur með að fylgjast með vitaskipinu, sem aðeins sá ljósunum á því bregða fyrir meðan það reið upp á öldutoppunum. Allt í einu brá fyrir sérstaklega snörpum rokhviðum úr norðvestri, sem ráku á undan sér með óstjórnlegu afli þrjá brotsjói. Þegar fyrsta brotið skall á enska skipinu, héldu þeir um borð, að skip þeirra myndi undir engum kringumstæðum geta afborið hann, því skipið bókstaflega endasteyptist milli himinhárra öldufalda, sem svo aðeins andartaki síðar steypti sér yfir vitaskipið Elbe I, sem lá upp í norðrið og togaði í akkerisfestarnar og lá þannig flatt fyrir hinum aðsteðjandi brotum, sem með ólýsandi offorsi steyptu sér yfir vitaskipið, þar sem það hékk í festingunum, án þess að geta neitt látið undan. Með feiknaafli fleygði sjórinn því á stjórnborða, svo það lagðist á hliðina. Enginn getur staðfest, hvað gerðist á því augnabliki um borð í Elbe I, því enginn átti nokkurn tíma eftir að tala við neinn af þessum 15 hugrökku mönnum, sem um borð í því voru. Ekki einu sinni loftskeytamennirnir, sem dag og nótt héldu vörð við tækin, höfðu tíma til að láta vita, hvað var að gerast þar um borð á þessu hræðilega augnabliki.


Trollið látið fara.                                                                              Ljósmyndari óþekktur.
  
Samt var ekki allt búið með skipið. Sjóhæfni þess var svo mikil, að einn sjór dugði ekki til að gera út af við það. Fyrsti sjórinn fleygði vitaskipinu um, svo það lagðist í sjó, en svo rétti það sig við aftur. En þá kastaðist það svo hroðalega ofan í öldudalinn, sem á eftir kom, að kjölur þess mun hafa snert botninn. Það er aðeins hægt að láta sér detta í hug, hvað gerðist á þessu örlagaríka augnabliki. Þeir, sem sáu þennan sorglega atburð úr fjarlægð, gátu ekki nánar skýrt frá einstökum atriðum, því þeir höfðu nóg að gera með að gæta síns eigin skips, og einnig var myrkt af nóttu, er þetta gerðist. Eitt er víst, að það var brotsjór nr. 2, sem skall á skipinu rétt á eftir, sem gerði út af við það. Hafnsögumaðurinn á hollenzka skipinu og stýrimaðurinn á brezka skipinu höfðu séð ljós vitaskipsins birtast eftir fyrsta brotsjóinn. Eitt andartak var greinlega hægt að sjá rauðu landternuna bakborðsmegin. Svo hurfu öll ljós vitaskipsins Elbe I. Enginn getur þó með vissu sagt, hvort það var annar eða þriðji sjórinn, sem hafði það af að hvolfa vitaskipinu og sökkva því. Stundarkorn áttuðu menn sig ekki, á hvorugu skipinu, að þarna hefði skeð hörmulegt sjóslys. Hellirigning hafði komið í kjölfar rokhviðunnar miklu og eyðilagt skyggnið. Eftir úrkomuna birti dálítið til og skimuðu þeir þá eftir vitaskipinu, því ljós þess var sönnunin um, hvar þeir voru, en ljós þess voru horfin með öllu. Hvað hafði orðið af vitaskipinu? Það var ekki nýtt fyrir sjómenn að skip færust í rúmsjó eða við klettótta strönd, en að sjá þetta fræga og trausta vitaskip í ramlegum múrningum, farast fyrir augunum á sér, var næstum því ótrúlegt. En hér var ekki um að villast. Elbe I, þessi verndarvættur sjómannanna, var með öllu horfið af yfirborði sjávar. Hafnsögumaðurinn um borð í hollenzka skipinu beindi sjónaukanum þangað, sem vitaskipið átti að vera, en sá ekkert. En hann gat ekki ímyndað sér, að það versta hefði gerzt.


Vitaskipið Elbe l.

Honum fannst þetta þó kynlegt, og bað hollenzka loftskeytamanninn að kalla upp vitaskipið. Eftir dálítinn tíma kom loftskeytamaðurinn fram í brúna og yppti öxlum: "Ég fæ ekkert svar frá vitaskipinu." Nú varð hafnsögumaðurinn fyrst alvarlega hræddur. Hann kallaði upp Elbe-Weber radio, sem síðan reyndi að ná sambandi við vitaskipið, en allt reyndist árangurslaust. Elbe I, öðru nafni Burgmeister Oswald, var ekki lengur ofansjávar. Björgunarstöðvunum í landi var nú gert aðvart, og neyðarástandi var lýst yfir. Hollenzka skipið andæfði á staðnum, þar sem vitaskipið átti að vera, og beindi sterkum leitarljósum sínum yfir hafflötinn. Að lokum urðu þeir varir við ýmislegt smárekald á sjónum og kjölréttur, mannlaus björgunarbátur flaut fram hjá þeim. Það, sem þeir í Cuxhaven ekki vildu trúa, varð nú ekki lengur í móti mælt. Fréttin um slysið barst um allan heim og allir fylltust skelfingu yfir því sem hafði skeð og fundu til innilegrar hluttekningar með aðstandendum hinna hugdjörfu sjómanna, er látið höfðu lífið við skyldustörf sín, öðrum sjómönnum til öryggis. Þetta var á sinn hátt hliðstætt við hið hörmulega Hermóðsslys í vetur, áhafnir beggja skipanna gerðar út öðrum sjófarendum til hjálpar og verndar. Það var ekki fyrr en eftir tvo sólarhringa, að veður hafði lægt svo mikið, að hægt var að rannsaka staðinn, þar sem vitaskipið Elbe I lá. Kafari var sendur niður. Hann fann skipið á 7 metra dýpi, liggjandi á stjórnborðshlið. Skipið lá þar tjóðrað við akkerin. Ef aðeins akkerisfestarnar hefðu brostið á stundu hins mikla háska, hefði það sennilega orðið skipi og áhöfn til bjargar. Þetta skeði nefnilega á öðrum stað þessa sömu nótt. Norderney vitaskipið varð fyrir áfalli, sem hefði getað riðið því að fullu, en festingarnar hrukku á réttu augnabliki, og það varð áhöfn skipsins til bjargar.


B.v. Hannes ráðherra RE 268 á leið á síldveiðar.                              Ljósmynd úr safni mínu.
  
Botnvörpungurinn Hannes ráðherra fórst þremur árum eftir þennan atburð, eða fyrir réttum 20 árum, aðfaranótt 14. febrúar. Við vorum að koma frá Englandi. Fyrsti stýrimaður var skipstjóri þessa ferð, annar stýrimaður var fyrsti stýrimaður og netamaður var hækkaður upp í annars stýrimannsstarf. Að öðru leyti var áhöfnin eins og hún hafði verið árum saman. Þegar við nálguðumst landið var dimmviðri svo mikið, að hvergi sá til vita. Klukkan tæplega 8 um kvöldið fórum við fram hjá Reykjanesi eftir radíómiðunum, án þess að hafa aðra landkenningu og tókum stefnu norður með Rosmhvalnesi. Vindur og alda voru á eftir. Þetta mun hafa orsakað, að skipið hafði meiri yfirferð en vegmælirinn sýndi. Það reyndist síðar, að við hefðum farið dýpra fyrir Garðskaga en áætlað var, hin venjulega stefna til Reykjavíkur lá því norðar um bugtina en gert var ráð fyrir. Dimmviðrið hélzt óbreytt og sá varla út fyrir borðstokkinn. Veðurspáin hljóðaði upp á versnandi veður. Allir um borð voru búnir að klæða sig um, tilbúnir að hlaupa í land, þegar í höfn kæmi. Þegar dregið var úr ferðinni vegna dimmviðris, kurruðu allir. Netamaðurinn, sem var 2. stýrimaður, var að skila af sér vaktinni. Skipstjórinn, sem stóð í lyftingunni, sagði: "Við eigum að vera komnir á móts við Gróttu." Hann leit á dýptarmælinn og hringdi á hæga ferð. Áður en vélin hafði tekið við sér, lék skipið á reiðiskjálfi og allt lauslegt hentist til, stýrinu var snúið hart í borð, en allt kom fyrir ekkert. Skipið var fast í grjótinu og byltist um eins og óður foli, sem lagt hefur verið beizli á í fyrsta skipti. Fyrsti vélstjóri tilkynnti í vélsímann að sjór flæddi inn í vélarúmið og nauðsynlegt væri að raka eldinn út úr kötlunum til að fyrirbyggja ketilsprengingu.


Málverk Jóns Guðmundssonar af Hannesi ráðherra RE 268. Jón fórst ásamt bróður sínum og 4 öðrum í brimlendingu í Vík í Mýrdal 6 mars árið 1941.
  
Skipstjóri bað mig þá að senda út SOS og segja, að skipið væri strandað við Gróttu og að leki væri kominn í skipið. Loftskeytastöðin í Reykjavík svaraði strax og lét Slysavarnafélag Íslands og eigendur skipsins vita. Þótt komið væri miðnætti, hljóp fregnin eins og eldur í sinu um alla Reykjavík og ýmislegar björgunarráðstafanir voru gerðar. Eftir skamma stund dóu út öll ljós, er sjór flæddi inn í rafalana í vélarúminu, þar með missti ég rafstrauminn af loftskeytatækjunum. Á þeim árum var ekki skylda að hafa neyðarsenditæki á togurum óháðum aðalrafal skipsins. En ég hafði haft að tómstundagamni að smíða smátalstöðvar, er gengu fyrir þurrbatteríi, og nú greip ég til einnar af þeim. Áður hafði ég aðvarað loftskeytastöðina, að hlusta eftir mér á millibylgjum, ef loftskeytatækin þögnuðu, og fékk ég strax gott talsamband. En stuttu eftir, er það samband var komið á, slitnaði loftnetið og hrundi niður á þilfar. Skipstjóri bað þá hásetana að taka dýnurnar úr kojunum sínum og kveikja með þeim bál á hvalbaknum, ef vera mætti að það sæist úr landi. Fyrsti vélstjóri kom nú upp á stjórnpall og hjálpaði mér við að koma upp neyðarloftneti frá stjórnpalli upp í reykháfinn, og þótt erfitt væri um aðstöðu, tókst það svo, að það dugði á meðan við vorum í skipinu og slitnaði ekki sambandið úr því.


Áhöfnin á Hannesi ráðherra RE 268.                                           Úr safni Arnbjörns Jóhannessonar.


B.v. Hannes ráðherra á toginu í Jökuldýpi.                                   (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Þegar samband náðist aftur við land, var okkur sagt, að bálið hefði sézt frá Brautarholti á Kjalarnesi og værum við strandaðir á Músaskerjum. Ekki þótti okkur betra að heyra það, því allir vissu, að það var afleitur staður í vestanátt. Við fréttum, að hafnsögubáturinn Magni hefði verið sendur á stað, en snúið aftur vegna dimmviðris. Þá var okkur sagt, að við værum strandaðir of langt frá landi til að hægt væri að skjóta línu til okkar, en björgunarskipið Sæbjörg og varðskipið Ægir ætluðu að gera tilraun til að nálgast okkur frá sjó. Litlu síðar náðum við sambandi við bæði þessi skip, sem fikuðu sig í áttina til okkar. Meðan á þessu gekk, gat ég lítið fylgzt með hvað skipsfélagar mínir höfðust að úti á þiljum, nema hvað ég vissi, að allir gengu rólegir að þeim verkum, sem fyrir þá voru lögð. Nokkrir kyntu bál á hvalbak, en flestir unnu við að reyna að ná björgunarbátunum á flot, sem var erfitt viðfangs vegna sjógangs, einhvern ávæning heyrði ég af því, að annar báturinn væri þegar svo mikið brotinn, að hann væri ónýtur. Við munum hafa strandað á flóði, því þegar fjaraði út, stilltist skipið á skerinu, svo hægt var að koma hinum bátnum á flot, en illa gekk að hemja hann á síðunni meðan menn stukku um borð og hann varð strax þóttufullur af sjó. Sýnilegt var, að hann myndi ekki rúma alla áhöfnina, og var því afráðið að 10 af áhöfninni, sem var 18 menn, reyndu að komast yfir í Sæbjörgu, en þrír menn gáfu sig fram að koma með bátinn aftur, ef þessi ferð heppnaðist.


B.v. Hannes ráðherra RE 268 á strandstað á Músaskerjum við Kjalarnes,. Ljósmyndari óþekktur.

Um þetta segir svo í dagbók björgunarskipsins Sæbjargar frá þessum tíma:
Sæbjörg hafði kl. 6.45 kvöldið áður komið inn með mb. Gunnar Hámundarson, sem var með bilað stýri. Þá var veður sunnan 5 og súld. "Þriðjudaginn 14. febrúar 1939. Kl. 01.05 landfestar leystar. Farið til hjálpar bv. Hannesi ráðherra, er var strandaður. Álitið var að strandið hefði orðið nálægt Gróttu. Kl. 01.20 tilkynnti loftskeytastöðin, að Hannes ráðherra hefði strandað á Kjalarnestöngum. Var nú stefnt til Kjalarness. Þegar komið var út fyrir Engey, sást bjarmi í áttina til Músarsunds. Var haldið á ljós þetta, er síðar reyndist vera bál, sem skipverjar á b.v. Hannesi ráðherra höfðu kveikt á hvalbak togarans. Dimmviðri var og því erfiðara um vik. Þegar nálgast tók "Hannes" voru gerðar stöðugar dýptarmælingar. Minnsta dýpi reyndist vera 4 m. Kl. 02.00 var lagzt á 12 metra dýpi fyrir Bb. akkeri 1 ½  lið af keðju í ca. 150-200 faðma fjarlægð frá "Hannesi". Kl. 03.00 tilkynnti loftskeytamaðurinn á b.v. Hannesi, að líkur væru til þess, að hægt yrði að koma út öðrum lífbátnum. Sagði hann skipið vera að stillast á skerinu með útfallinu. Stöðugt talsamband var haft við b.v. "Hannes". Þá var ljóskastarinn einnig látinn lýsa í áttina til togarans. Líka hafði lífbátur "Sæbjargar" verið losaður, fluglínutæki höfð tilbúin og annað, sem að gagni mætti koma. Kl. um 03.50 kom lífbátur "Hannesar" að síðu "Sæbjargar" með 10 mönnum. Sjö þeirra voru teknir um borð, en þrír fóru aftur yfir í "Hannes" og einnig tveir hásetar frá Sæbjörgu, þeir Jón Ingvarsson og Hans Ólafsson. Kl. laust eftir 04.00 yfirgaf loftskeytamaðurinn á "Hannesi" talstöðina, þar sem báturinn mun þá aftur hafa verið kominn að síðu "Hannesar". Kl. um 04.50 kom lífbátur "Hannesar" að síðu "Sæbjargar" úr seinni ferð með þá, sem eftir höfðu verið af skipbrotsmönnunum. Sama dimmviðrið hélzt. Var þá haldið kyrru fyrir til birtingar. Kl. 7.45 létt og siglt til Rvíkur." Þegar "Hannes ráðherra" var yfirgefinn, var skipið orðið fullt af sjó undir þiljum, en svo mikið hafði reynt á skipið um nóttina, að felling hafði brotnað í síðu þess. Á fjörunni lægði sjóinn og skipið kom hátt úr sjó og sást vel úr Reykjavík, þegar létti, en það þoldi aðeins eitt eða tvö flóð til, þá var það liðað í sundur og sást ekki meir. 

Sjómannadagsblaðið. 7 júní 1959.
Frásögn Henrys A. Hálfdánarsonar.

Flettingar í dag: 437
Gestir í dag: 111
Flettingar í gær: 771
Gestir í gær: 153
Samtals flettingar: 1866994
Samtals gestir: 480011
Tölur uppfærðar: 2.6.2020 20:23:05