03.06.2023 15:37

1414. Vöttur SU 3. TFEV.

Vélbáturinn Vöttur SU 3 var smíðaður hjá Bátasmiðjunni Vör h.f. á Akureyri árið 1975 fyrir Fiskiðjuna Bjarg h.f. (Hilmar Einarsson) á Bakkafirði og Útgerðarfélagið Þór s.f. á Eskifirði. Eik. 29,04 brl. 11 nettó. 300 ha. Volvo Penta vél, 221 Kw. 17,47 x 4,30 x 1,85 m. Smíðanúmer 5. Seldur 23 febrúar 1978, Vini s.f. á Dalvík, hét þá Vinur EA 80. Hét Aðalbjörg ll RE 236 frá árinu 1983. Seldur 29 september 1986, Aðalbjörgu s.f. í Reykjavík, sama nafn og númer. Seldur 10 júní 1987, Sveini S Steinarssyni á Selfossi, hét Gulltoppur ÁR 321 og var gerður út frá Þorlákshöfn. Ný vél (1987) 367 ha. Volvo Penta, 221 Kw. Seldur 16 september 1997, Ólafi Ármanni Sigurðssyni (Uggi ehf) á Húsavík, hét þá Haförn ÞH 26. Ný vél (1999) Volvo Penta, 380 ha, 280 Kw. Frá árinu 2010 hét báturinn Ási ÞH 3, sama útgerð (Uggi ehf). Í dag heitir báturinn Áskell Egilsson og er í eigu bræðranna, Egils, Halldórs og Sævars Áskelssona og Stefáns Traustasonar á Akureyri. Þeir keyptu hann frá Húsavík í október árið 2015. Hann var endurbyggður á árunum 2016-17 á Akureyri. Báturinn er gerður út sem skemmti og hvalaskoðunarbátur á vegum Keli Seatours ehf á Akureyri.

Á haustdögum 2015 var bátinn að finna í Húsavíkurhöfn en 17. október 2015 var hann dreginn til Akureyrar til nýrra eigenda. Frá þessum tíma eru eigendur hans Egill Áskelsson, Halldór Áskelsson, Sævar Áskelsson og Stefán Traustason.
Segja má að eplið falli sjaldan langt frá eikinni því að þeir Áskelssynir eru synir Áskels Egilssonar eins af eigendum Bátasmiðjunnar Varar hf. sem bátinn smíðaði.
Stefán Traustason er mágur þeirra bræðra, sonur Trausta Adamssonar sem var annar eigandi að Bátasmiðju Gunnlaugs og Trausta sf. Akureyri. Hugmynd eigenda er að koma bátnum í upprunalegt horf og nota hann til eigin þarfa.
Heimildir: Haukur Sigtryggur Valdimarsson.
                   aba.is
                   Íslensk skip lV bindi.
 

Vélbáturinn Vöttur SU 3 á leið inn Eskifjörð í fyrsta sinn í febrúar 1975. (C) Vilberg Guðnason. Ljósmynd í minni eigu.




           4 fiskibátar af stokkunum á tveimur dögum


Akureyri 17. febrúar.
Fjórum fiskibátum var hleypt af stokkunum frá jafnmörgum skipasmíðastöðvum á Akureyri á aðeins tveimur dögum, fimmtudag og föstudag í síðustu viku. Stærstur þessara báta er Fróði SH 15, sem smíðaður var í Slippstöðinni fyrir Víglund Jónsson í Ólafsvik. Sá bátur er 150 lestir að stærð. Næstur er Sólrún EA 251, sem er 26 lestir, og er smíðaður í skipasmíðastöð KEA. Eigendur eru Konráð Sigurðsson og fleiri á Litla Árskógssandi. Frá skipasmíðastöðinni Vör kom 29 lesta bátur, Vöttur SU 3, smíðaður fyrir Hilmar Einarsson og fleiri á Bakkafirði. Loks er að nefna 9 lesta bát frá skipasmíðastöð Baldurs Halldórssonar á Hlíðarenda. Sá bátur heitir Ægir Adólfsson, ÞH 99. Eigandi er Björgólfur Björnsson, Raufarhöfn. Allir eru bátar þessir nærri því fullbúnir og munu fara einn af öðrum til heimahafna og hefja veiðar næstu daga. Þrír þeirra eru smiðaðir úr eik en Fróði SH 15 er stálskip.

Morgunblaðið. 19 febrúar 1975.
 

Vinur EA 80 á siglingu á Eyjafirði.                    (C) Jón Sveinbjörn Vigfússon.
 
Haförn ÞH 26 á Skjálfandaflóa.                  (C) Guðmundur St. Valdimarsson.
 
Ási ÞH 3 við bryggju á Húsavík.                                     (C) Keli Seatour ehf.

 

                     „Ekki bara bátur heldur ættardjásn“
 

Bræðurnir Egill, Halldór Ómar og Sævar Lárus Áskelssynir á Akureyri keyptu fyrir nokkrum misserum tæplega 30 tonna eikarbát. Enginn þeirra hefur réttindi til að sigla honum en með kaupunum heiðruðu þeir minningu föður síns og annarra sem smíðuðu bátinn og fleiri slíka í bátasmiðjunni Vör við Óseyri. Faðir bræðranna, Áskell Egilsson, var einn stofnenda og eigenda Varar, þar sem smíðaðir voru eikarbátar svo fallegir að bræðurnir fylgdust grannt með þeim lengi þar til langþráður draumur rættist og þeir keyptu einn gömlu Vararbátanna. Upphaflega hét sá Vöttur SU-3, smíðaður 1975, og fyrsta heimahöfn hans var Eskifjörður. Hann var síðast í eigu Ólafs Ármanns Sigurðssonar á Húsavík og notaður við veiðar allt þar til fyrir nokkrum árum að útgerðarmaðurinn fékk sér nýrri bát. Hét þangað til Haförn en nafninu var breytt í Ási þar sem Ólafur notaði Hafarnarnafnið á nýja bátinn. Til stóð að rífa þann gamla en þegar bræðurnir settu sig í samband við Ólaf var hann meira en til í að selja þeim gripinn.
„Við vorum búnir að hugsa mikið um þetta; það hefur lengi blundað í okkur að gaman væri að eignast einn af gömlu Vararbátunum,“ segir Halldór Áskelsson. „Við höfðum alltaf haft mikinn áhuga á eikarbátum, það gerir líklega uppeldið,“ bætir Egill við. „Við höfðum gjarnan þann starfa að hempa nagla; að festa tjöruhamp við hausinn á nöglunum sem voru svo notaðir til að festa eikarborðin.“ Egill segir þá bræður hafa reynt að vera viðstaddir í hvert einasta skipti sem bátur var sjósettur í Vör „og svo var maður mættur niður á bryggju alla daga þegar skólinn var búinn til að fara með í prufusiglingar.“ Halldór, sá kunni knattspyrnumaður á árum áður bætir við: „Þá var slegist um að vera fremst, það var svo spennandi að fá gusur í andlitið.“ Þannig atvikaðist að Halldór var staddur á Húsavík haustið 2015 vegna atvinnu sinnar og fór, eins og svo oft áður, niður á höfn að skoða báta! Þar eru einmitt margir afar glæsilegir eikarbátar, notaðir í hvalaskoðun. „Þar sá ég þennan og ræddi það við Egil strax og ég kom heim að nú væri tækifærið. Við komumst að því hver átti bátinn, Egill hringdi í hann og karlinn sagðist strax vilja selja okkur hann.
„Hann gaf mér upp verð, ég sagði að ef okkur litist á bátinn myndum við kaupa hann á þessu verði. Við fórum svo austur og þú veist hvernig þetta endaði!“ Þeir vilja ekki gefa upp kaupverð en segjast vitaskuld meira en að segja það að fara út í slíka fjárfestingu. „Við erum hins vegar að kaupa miklu meira en bát; fortíðarþráin er svo mikil og þessir bátar eru glæsilegar mublur. Við erum alls ekki bara að kaupa bát heldur ættardjásn.“ Stofnendur og eigendur Varar voru sex skipasmiðir sem starfað höfðu í Slippstöðinni hf. en hættu þar og stofnuðu eigið fyrirtæki. Þeir voru Kári Baldursson, Jón Steinbergsson, Gauti Valdimarsson, Áskell Egilsson sem áður er nefndur og náfrændur hans, Áskell Bjarnason og Hallgrímur Skaptason. Þrír síðarnefndu voru bræðrasynir, ættaðir frá Grenivík. Báturinn var dreginn til Akureyrar og bræðurnir tóku til við ýmsar lagfæringar. Hvalbak hafði verið bætt á bátinn og fyrst verk þeirra var að rífa hann af, því þeir vildu hafa bát sinn eins og hann var upprunalega.  Síðan var skrapað og málað og annað gert sem nauðsyn þótti. 

Sjómannablaðið Víkingur. 1 janúar 2020.
 

Áskell Egilsson endurbyggður á Akureyri árið 2016.  (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.
 
Áskell Egilsson í slippnum á Akureyri í júlí 2016.   (C) Þórhallur S Gjöveraa.
 
Áskell Egilsson kominn á flot.            (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson


                        Saga báts


Ég þykist vita að margir lesendur Víkings séu gjörkunnugir bátasíðu Árna Björns Árnasonar, aba.is – nú ef ekki þá er fyllilega tímabært að menn heimsæki þessa heimasíðu Árna Björns. Ég kalla hana þrekvirki, ekkert minna, og hafi forseti Íslands ekki þegar hengt orðu um háls hans ætti hann að gera gangskör að því og hafa hraðar hendur. Við Íslendingar höfum verið býsna hirðulausir um að varðveita báta og skip sem hafa þó lengi verið grundvöllur byggðar í landinu. Ég heyri á skotspónum að minjasöfn landsins eigi báta sem liggja undir skemmdum - já að Þjóðminjasafn Íslands lúri jafnvel á tugum báta sem kúri í hirðuleysi. Auðvitað kostar skildinginn að gera upp gömul skip, því neitar enginn, en væri nú ekki ráð að Þjóðminjasafn auglýsti eftir mönnum á borð við þá bræður Egil, Halldór og Sævar Áskelssyni, og byði þeim að taka bát í fóstur? Já, hreinlega gæfi þeim farkostinn væri fram á það farið en gegn loforði um að hann yrði gerður upp.
Á meðan þetta er ekki gert og sagan grotnar niður á fjörukömbum og í húsasundum eru menn eins og Árni Björn Árnason gulls ígildi. Af áhuga einum saman hefur hann tekið sér fyrir hendur að varðveita sögu sem annars myndi fara í glatkistuna. Gleymdir bátar ganga í endurnýjun lífdaga á aba.is; líka gamlir sjóvíkingar og útgerðarmenn. Og ekki aðeins lætur Árni Björn sig varða gamla sögu, hann horfir líka til líðandi stundar og hjá honum er að finna þessa frásögn af framkvæmdasemi þeirra bræðra Egils, Halldórs og Sævars Lárusar, eftir að þeir höfðu hinn 17. október 2015 látið draga Ása ÞH-3 til Akureyrar:
„Fyrsta verk nýrra eiganda var að fjarlægja hvalbakinn af bátnum. Stýrishúsið, sem er úr stáli, var ryðbarið, sandblásið og málað. Allt var það síðan einangrað að innan og klætt með Fibo-Trespo og það innréttað á svipaðan hátt og áður var. Aftan á stýrishúsið var smíðaður ryðfrír stigi og ofan á þak þess rekkverk úr ryðfríum rörum og frá því gengið. Afgasrör vélar var endurnýjað og til verksins notað ryðfrítt rör. Lunningsplanki úr eik var endurnýjaður frá stefni að skut eða með öðrum orðum allan hringinn. Tveggja pila rekkverk úr ryðfríum stálrörum var smíðað og frá því gengið ofan á lunningu. Rafbúnaður bátsins var að mikum hluta endurnýjaður. Meðal annars voru rafmagnstöflur endurnýjaðar svo og siglingaljós. Annað í rafbúnaði bátsins sem betur mátti fara var lagfært. Allur var báturinn málaður frá kili að masturstoppum og honum gefið nafnið „Áskell Egilsson“ til minningar um föður þeirra sem að verkinu stóðu. Meiri hluti þessarar vinnu var framkvæmdur á hliðargörðum slippsins á Akureyri og var hann sjósettur 9. ágúst 2016. Endanlegum verklokum var náð í júní 2017. Um miðjan þann mánuð fór báturinn í sína fyrstu hvalaskoðunarferð en hugmynd eiganda er að nota hann til þeirra hluta. Þessi hugmynd eiganda hefur gengið eftir og er báturinn enn notaður til hvalaskoðunar árið 2020. Skráður eignaraðili bátsins frá árinu 2017 er Halldór Áskelsson ehf. Akureyri.“

Skapti Hallgrímsson.
Sjómannablaðið Víkingur. 1 janúar 2020.
 

Áskell Egilsson á siglingu á Eyjafirði.                      (C) Hafþór Hreiðarsson.
 
Áskell Egilsson á siglingu á Eyjafirði.        (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


                                                Vöttur SU 3 
 

Skipasmíðastöðin Vör h. f. á Akureyri afhenti 27. febrúar s.l. nýtt 29 rúmlesta eikarfiskiskip sem hlotið hefur nafnið Vöttur SU 3, og er þetta 5 fiskiskipið sem stöðin afhendir. Skipið er af sömu stærð og gerð og 3 síðustu skipin sem stöðin hefur byggt, dýptin þó lítið eitt meiri (4 cm). Vöttur SU er í eigu Hilmars Einarssonar Bakkafirði og Þórs s.f. Eskifirði. Fremst í skipinu er lúkar með eldunaraðstöðu og hvílur fyrir 5 menn, fiskilest með áluppstillingu þar fyrir aftan og vélarúm aftast. Í vélarúmi eru brennsluolíugeymar í síðum, en ferskvatnsgeymar fremst í lest. Vélarreisn og stýrishús er úr stáli. Í stýrishúsi er salernisklefi.
Aðalvél er Volvo Penta, gerð TAMD-120 A, 300 hö við 1800 sn / mín. Við vélina er niðurfærslugír frá Twin Disc, gerð MG 514, niðurfærsla 3.5:1 og skrúfubúnaður frá Marine Propulsion, gerð J-14-1200 B. Skrúfa er 3ja blaða með fastri stigningu, þvermál 1200 mm. Skrúfustigningu er mögulegt að stilla innan ákveðins sviðs, en ekki er unnt að framkvæma slíka stillingu nema taka skipið upp. Framan á aðalvél er Marco aflúttak (1:1) og við það dæla fyrir vindubúnað. Á aðalvél er 24 V jafnstraumsrafall frá Alternator h.f., gerð A l, 7.0 KW. Hjálparvél er Samofa, gerð 85, 7.2 hö við 1800 sn/mín, og við vélina er 3.0 KW rafall. Rafkerfi er 24 V jafnstraumskerfi. Fyrir vélarúm er loftræstingarblásari frá Nordisk Ventilator A / S. Stýrisvél er Scan Steering (I. T. Radio), gerð MT 180.
Vindubúnaður er frá Vélaverkstæði Sig. Sveinbjörnssonar h.f. (háþrýstikerfi) og samanstendur af togvindu, línuvindu og bómuvindu. Togvinda er af svonefndri 5 t gerð með tveimur togtromlum (180 mm. x 720 mm. x 500 mm.), losunartromlu og tveimur koppum. Togtromlur eru gefnar upp fyrir 700 faðma og 1 ½  " vír, hvor tromla. Togátak vindu á miðja tromlu (450 mm. ) er 2.2 t miðað við 140 kg/cm2 þrýsting. Línuvinda er af 2 t gerð og bómuvinda 0.5 t. Dæla fyrir vindur er Denison TDC 31—17, tvöföld, drifin af aðalvél um aflúttak. Skipið er búið 7 rafdrifnum færavindum af gerðinni Elektra Maxi. Helztu tæki í stýrishúsi eru:
Ratsjá : Kelvin Hughes, gerð 17, 36 sml. langdrægni.
Miðunarstöð: Koden KS 510.
Sjálfstýring: Sharp Skipper.
Dýptarmælir: Simrad EX 38 D.
Fisksjá: Simrad CI.
Talstöð: Sailor T 121/R 104, 140 W SSB.
Örbylgjustöð: Kelvin Hughes, gerð Foreland.
Skipstjóri á Vetti SU er Þórir Björnsson.
Rúmlestatala 29 brl.
Mesta lengd 17.40 m
Lengd milli lóðlína 15.28 m
Breidd (mótuð) 4.18 m
Dýpt (mótuð) 2.02 m
Lestarrými 26.5 m3
Brennsluiolíugeymar 3.0 m3
Ferskvatnsgeymir 0.8 m3
Ganghraði (reynslusigling) 10.5 hn.

Ægir. 7 tbl. 15 apríl 1975.

Flettingar í dag: 493
Gestir í dag: 40
Flettingar í gær: 1186
Gestir í gær: 63
Samtals flettingar: 725025
Samtals gestir: 53776
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 08:14:26