21.11.2015 19:57

Ása RE 18.TF...

Ása RE 18 var smíðuð á Englandi árið 1926 fyrir Útgerðar og Verslunarfélagið H.P.Duus í Reykjavík árið 1926.Stærð ókunn,600 ha.3 þjöppu gufuvél.Kom til landsins í mars sama ár.Togarinn strandaði í sinni fyrstu veiðiferð austantil í Stórubót,rétt vestan Grindavíkur,2 apríl 1926.Grindvíkingar björguðu allri áhöfninni í land,en skipið eyðilagðist á strandstað.Þetta var þriðja skipið sem bar nafnið Ása og var í eigu H.P.Duus sem strandaði og eyðilagðist.Mannbjörg varð af öllum skipunum.Það má geta þess að Ása var fyrsta Íslenska skipið sem fékk miðunarstöð. 

                                                                                                                     Ljósmyndari óþekktur.
 
 
Eftir strand þessa nýja skips rifjaðist upp fyrir mörgum gömul saga. Upphaf þeirrar sögu gerðist árið 1917, en þá hóf Duus-verslunin að byggja fiskhús við Kaplaskjól. Hóll nokkur var þar sem húsið átti að standa, og þegar farið var að grafa grunninn í hólinn, dreymdi stúlku eina sem þarna bjó í nágrenninu að til hennar kæmi kona, og bæði hana að fara til Duus og segja honum að hún ætti heima í hólnum og hann yrði því að byggja hús sitt á öðrum stað. Stúlkan gerði það sem fyrir hana var lagt, en Duus hafði ekki trú á draumi þessum, og lét halda verkinu áfram. Konan hélt áfram að birtast stúlkunni í svefni, og eftir því sem verkinu miðaði áfram, þeim mun þungbúnari varð hún, og endaði þannig, að hún lét svo um mælt, að verk þetta yrði endalok velgengni Duus. Og einhverra hluta vegna fór upp frá þessu að halla undan fæti hjá fyrirtækinu. Slys hjá því voru tíð, og eftir að Ása hin þriðja strandaði og eyðilagðist, varð Duus fyrirtækið gjaldþrota.
                                         
                                                   Heimild: Úr bókaflokknum Þrautgóðir á raunastund 7. bindi. bls. 106.
Flettingar í dag: 530
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 1058
Gestir í gær: 85
Samtals flettingar: 726120
Samtals gestir: 53855
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 05:53:56