05.01.2016 15:43

974. Gullver NS 12. TFLN.

Gullver NS 12 var smíði númer 410 hjá V.E.B. Elbe Werft í Boizenburg í A-Þýskalandi árið 1965 fyrir Gullberg h/f á Seyðisfirði. 264 brl. 660 ha. Lister díesel vél. 18 janúar 1972 fór fram nafnabreyting á skipinu, hét þá Gullberg NS 11. Skipið var þá endurmælt, mældist þá 207 brl. Selt 12 janúar 1974, Hauki Runólfssyni h/f Höfn í Hornafirði, hét Skógey SF 53. Skipið var selt 3 desember 1993, Njáli h/f í Garði, hét Bergur Vigfús GK 53. Skipið skemmdist mikið í eldi í júlímánuði árið 1995 og eyðilagðist m.a. allt rafkerfi skipsins og var þá ákveðið að úrelda hann og var að lokum seldur til Spánar í maí 1996. Skipið var gert út erlendis undir nafninu Bergur FD 400 en ekki veit ég hversu lengi það var og hvort skipið er enn í drift.

974. Gullver NS 12 á síldveiðum.                                                                    Ljósmyndari óþekktur. 

Hér fyrir neðan er grein úr tímaritinu Ægi frá árinu 1997. Þessi grein er hluti af viðtali við Grétar Mar Jónsson sem var skipstjóri á Bergi Vigfúsi GK 53. Ég vil benda á að ártöl eru ekki þau sömu í þessari grein og stangast á við þær upplýsingar sem ég skrifaði hér að ofan,"en skylt er að hafa það sem sannara reynist" sagði Ari fróði forðum. En hér kemur greinin.;


Austur-þýskur öldungur Bergur Vigfús GK er í rauninni fljótandi minnisvarði um síldarárin. Hann var smíðaður þegar síldveiði var mikil og bjartsýni ríkti um áframhaldandi miklar veiðar. Þjóðina vantaði stærri síldarbáta og gerði hiklaust stóra samninga um smíðar erlendis. Nýsmíði nr. 113 frá Veb Elbewerft í Boizenburg í Austur-Þýskalandi var afhent í mars 1965 til Gullbergs hf. á Seyðisfirði og hlaut nafnið Gullver NS 12. Gullver var gerður út frá Seyðisfirði til 1973 en frá 1971 undir nafninu Gullberg NS 11. 1973 var Gullbergið selt til Hornafjarðar þar sem Haukur Runólfsson hf. gerði það út undir nafninu Skógey SF 53 og þaðan var það síðan selt til Njáls hf. í Garði í desember 1993 og hlaut þá nafnið Bergur Vigfús GK 53. Njáll hf. gerir auk þess út bátana Sigurfara, Unu í Garði, Eldeyjar-Súlu, Benna Sæm og Baldur. Á árunum 1964 til 65 voru smíðuð 17 skip eftir þessari sömu teikningu, 10 í Boizenburg, 4 í Florö í Noregi og 3 í Zaandan í Hollandi. Árin 1966 til 1967 komu 10 skip til viðbótar 80 cm lengri en að öðru leyti eins og voru 8 byggð í Boizenburg en 2 í Hommelvik í Noregi. Árið 1988 var byggt yfir Skógeyna og 1986 var skipt um aðalvél og sett samkonar vél og áður, 660 hestafla Mirrlees Blackstone. Mesta lengd er 34,25 metrar og breiddin er 7.20. Báturinn er skráður 207 brúttórúmlestir en 302 brúttótonn. Grétar Mar Jónsson skipstjóri á Bergi segir að öldungurinn sé traust og gott skip við ágæta heilsu þó aldurinn sé auðvitað farinn að segja til sín. 


Flettingar í dag: 768
Gestir í dag: 63
Flettingar í gær: 1186
Gestir í gær: 63
Samtals flettingar: 725300
Samtals gestir: 53799
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 17:10:04