25.05.2016 09:50

B.v. Jón Ólafsson RE 279. TFWD.

Jón Ólafsson RE 279. ex Loch Seaforth, smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi fyrir Loch Fishing & Co Ltd í Hull árið 1933. Hann var fyrsti togarinn sem smíðaður var fyrir þetta útgerðarfélag. 425 brl. 700 ha. 3 þjöppu gufuvél. 154 ft.á lengd (47m). Seldur h/f Alliance í Reykjavík, 17 mars árið 1939. Fékk nafnið Jón Ólafsson RE 279. Togarinn fórst á leið frá Englandi til Íslands, 23 október 1942, með allri áhöfn,13 mönnum. Talið að togarinn hafi farist af hernaðarvöldum, en það er og verður óstaðfest.

Alliancetogarinn Jón Ólafsson RE 279 að veiðum.                                                                Ljósmyndari óþekktur.  

Togarinn Jón Ólafsson talinn af

Ekkert hefur til hans spurst í 14 daga. Á togaranum var 13 manna áhöfn.

Enn er höggvið stórt skarð í íslenzka sjómannastétt. Togarinn "Jón Ólafsson" er talinn af. Á honum var 13 manna áhöfn. í 14 daga hefur ekkert til skipsins spurzt. Er því talið að þessir 13 sjómenn vorir hafi orðið vörgum eða vítisvélum hafsins að bráð, eins og 'skipshafnirnar á Reykjaborg, Pétursey og öðrum þeim skipum, sem vér áður höfum misst. "Jón Ólafsson" fór frá Englandi 21. október, og eðlilegum tíma síðar mætti togarinn Karlsefni honum norðan við Skotland. Síðan hefur ekki til hans spurzt, þótt spurnum hafi verið haldið uppi. Lét því eigandi skipsins, Alliance h.f., tilkynna að- standendum skipshafnarinnar í gær að vonlaust væri talið, að skipið kæmi fram.

Á "Jóni Ólafssyni" var 13 manna áhöfn, og voru það þessir menn: Sigfús Kolbeinsson, skipstjóri, Hringbraut 64, f. 19. nóv. 1904, kvæntur. Helgi Kúld Eiríksson, 1. stýrimaður. Sóleyjargötu 12, f. '21. apríl 1906, ókvæntur. Haraldur Guðjónsson, 2. stýrimaður, Lokastíg 15, f. 27. apríl 1904, kvæntur. Guðmundur Óskarsson, loftskeytamaður, Reynimel 58, f. 5. ágúst 1918, ókvæntur. Ásgeir Magnússon, 1. vélstjóri, Vesturgötu 65, f. 30. marz 1903, kvæntur. Valentínus Magnússon, 2. vélstjóri, Hverfisgötu 82, f. 19. júní 1900, kvæntur. Þorsteinn Hjelm, kyndari, Höfðaborg 75, f. 5. okt. 1918, ókvæntur. Karel Ingvarsson, kyndari, Lambastöðum, Seltjarnarnesi, f. 24. janúar 1899, kvæntur. Gústaf Gislason, matsveinn, Fálkagötu 19; f 20 júlí 1905, kvæntur.  Sveinn Markusson, haseti,  Kárastíg 8, "f. 25. júní 1911, ' kvæntur. Erlendur Pálsson, háseti, Hjálmstöðum, Árnessýslu, f. 18. janúar 1910, ókvæntur. Vilhjálmur Torfason, netamaður, Höfðaborg 61, f. 25. apríl 1906, kvæntur. Jónas Bjarnason, háseti, Langholtsveg 12, f. 8. júní 1918, kvæntur. "Jón Ólafssorí' var einn af nýjustu togurunum, byggður 1933, var 425 tonn. Númer hans var R E 279.

Þjóðviljinn 6 nóvember 1942.

ATH. Ég setti inn færslu um Jón Ólafsson RE 279 hér á síðuna 14 sept. síðastliðinn, en þar sem mér hefur áskotnast betri mynd þá uppfærði ég færsluna ásamt því að setja inn nöfn áhafnarinnar.
Einnig set ég inn hér álit sem kom frá Sjöfn Rafnsdóttur í fyrri færslu en það hljóðar svo.;

Frá vísindavefnum: Þetta var einn af stærstu togurum okkar, alls 425 brl., vel búinn og mikið aflaskip. Því var mikil eftirsjá í honum. Í ljós kom að kafbáturinn U-383 undir stjórn Horst Kremsers hafði rambað á Jón Ólafsson á heimleið frá Bretlandi djúpt suður af Ingólfshöfða, líklega við hnitin 61°N, 15°V. Líkt og átti við um Jarlinn rúmu ári áður kom ekki í ljós fyrr en eftir stríð hver afdrif skipsins urðu. Jón Ólafsson reyndist eina fórnarlamb U-383 í stríðinu.

                              
Flettingar í dag: 1310
Gestir í dag: 444
Flettingar í gær: 1092
Gestir í gær: 456
Samtals flettingar: 2034144
Samtals gestir: 520383
Tölur uppfærðar: 29.9.2020 10:14:08