27.06.2016 09:42

Hrímfaxi GK 2. TFPB.

Hrímfaxi GK 2 var smíðaður í Middlesborough í Englandi árið 1918. 641 brl. 700 ha. 3 þjöppu gufuvél. Skipið rak upp í Rauðarárvíkina í Reykjavík í ofsaveðri þann 27 febrúar 1941. Var þá Portúgalskt og hét Ourem. H/f Sviði í Hafnarfirði og h/f Hrímfaxi í Reykjavík keyptu skipið á strandstað, náðu því út og létu gera við það út í Englandi. Fékk nafnið Hrímfaxi GK 2. Skipið var síðan í flutningum með ísvarinn fisk til Englands og í almennum vöruflutningum. Í nokkra mánuði á árinu 1943 og fram á árið 1944 var Hrímfaxi í strandferðum í stað Súðinnar sem var þá í viðgerð eftir árás þýskrar herflugvélar á Skjálfandaflóa. Haustið 1946 og fram á vor 1947 var Hrímfaxi í síldarflutningum frá Reykjavík til Siglufjarðar (Hvalfjarðarsíldin). Að þeim flutningum loknum var skipinu lagt. Skipið var selt 10 október 1950, Kjartani Guðmundssyni í Reykjavík, hét Auðhumla GK 2. Skipið var selt til Indlands í mars árið 1951.

Hrímfaxi GK 2 í Vestmannaeyjum árið 1943.                                                           Mynd í minni eigu. 

E/S HRÍMFAXI TFPB-GK 2 Stálskip með 700 ha. gufuvél. Stærð: 641 brúttórúml. og 313 nettórúml. Aðalmál: Lengd: 52,44 m. Breidd: 9,17 m. Dýpt: 4,68 m. Smíðað i Middlesbourough í Englandi árið 1918 fyrír brezka sjóherinn sem eyðingarskip þýzkra kafbáta. Var skipið smíðað stefnislaga að aftan til þess að villa kafbátsmönnum sýn um á hvaða leið það væri. Þá var það vel búið vélum og gat gengið 16 sjómilur. Skip þetta kom fyrst hingað til Íslands sem leiguskip og hét þá Ourem frá Portúgal. Í ofsaveðri þann 27. febrúar 1941 sleit Ourem upp hér á Reykjavíkurhöfn og rak á land í  Rauðarárvikinni ásamt danska flutningaskipinu Sonju Mærsk. Að ári liðnu var skipinu náð út og gert við það í Grimsby í Englandi, og hlaut það þá nafnið Hrímfaxi. Eigendur þess urðu hf. Sviði í Hafnarfirði og Hf. Hrímfaxi í Reykjavík. Hrímfaxi hóf siðan og siglingar til Bretlands með ísaðan fisk undir stjórn Kristjáns Kristjánssonar skipstjóra. Flutti skipið um 7500 kit í ferð. Árið 1943 var Hrímfaxi leigður Skipaútgerð ríkisins til strandferða og var í Þeim næstu fimm árin. Siðla árs 1950 var skipið tekið í notkun á ný eftir tveggja ára legu inni á Sundum og hét þá Auðhumla. Auðhumla fór síðan nokkrar ferðir til Bretlands og meginlandshafna, unz það var selt Indverjum og afhent í Bretlandi árið 1951. Myndin af Hrímfaxa er tekin í Vestmannaeyjum 1943. Skipið er málað grárri stríðsmálningu, eins og öll íslensku flutningaskipin, sem voru í millilandasiglingum á þeim tíma.

Heimild: Æskan. 2 tbl. 1 feb 1972. / Íslensk skip. Guðmundur Sæmundsson.


Flettingar í dag: 215
Gestir í dag: 55
Flettingar í gær: 1646
Gestir í gær: 169
Samtals flettingar: 746308
Samtals gestir: 56287
Tölur uppfærðar: 11.5.2024 04:32:48