17.08.2016 11:36

E. s. Gullfoss l LCDM / TFGA.

Gullfoss var smíðaður hjá Kjöbenhavns Flydedok & Skibsværft í Kaupmannahöfn árið 1915. Smíðanúmer 124. Skipið var sjósett 23 janúar sama ár og gefið nafnið Gullfoss. 1.414 brl. 1.200 ha. 3 þennslu gufuvél. Gullfoss var afhentur eigendum sínum, h/f Eimskipafélagi Íslands í marsmánuði 1915 og var það fyrsta skip félagsins og kom til hafnar í Vestmannayjum 15 apríl. Gullfoss var fyrsta vélknúða skipið sem smíðað var fyrir Íslendinga og jafnframt fyrsta íslenska skipið sem búið var frystirými.
 Gullfoss var í siglingum bæði til Vesturheims og meginlandsins auk strandsiglinga við Ísland. Við hernám Danmerkur, 9 apríl 1940 var Gullfoss staddur í Kaupmannahöfn og var þá hertekinn af Þjóðverjum. Var skipið undir stjórn Þjóðverja allt til stríðsloka. Er bandamenn hertóku Kiel í maí 1945 fannst skipið þar, þá mjög illa farið, en það hafði verið notað sem spítalaskip. Vátryggjendur skipsins létu draga það til Kaupmannahafnar. Eimskipafélagið var þá búið að fá greitt út vátryggingafé skipsins, en þar sem mikill skortur var á skipum, var sá möguleiki kannaður, hvort ekki væri unnt að fá skipið aftur. Frá því var þó horfið, þar sem skipið þótti vera í svo slæmu ástandi að ekki kæmi til greina að kaupa það á ný.
Keyptu þá tveir Íslendingar skipið, þeir Baldvin Einarsson og Pétur Guðmundsson, og komu því til Gautaborgar í Svíþjóð til viðgerðar. Að viðgerð lokinni árið 1947 seldu þeir p/f Skipafélag Föroya í Þórshöfn skipið og fékk það nafnið Tjaldur. Skömmu áður en Tjaldur var seldur til niðurrifs var nafni hans breytt í Gamla Tjaldur. Var skipið selt Eisen & Metall K.G. - Lehr & Co í Hamborg til niðurrifs árið 1953 og kom það þangað 6 október sama ár.

Gullfoss við komuna til landsins í apríl 1915.                                                     Ljósmyndari óþekktur.

 
Gullfoss í erlendri höfn á tímum fyrri heimstyrjaldar.                          (C) Handels & Söfartsmuseets.dk


Tjaldur ex Gullfoss.                                                                       (C) Handels & Söfartsmuseets.dk

Heimild: Eimskipafélag Íslands í 100 ár. Útg. 2014.
Flettingar í dag: 222
Gestir í dag: 79
Flettingar í gær: 426
Gestir í gær: 129
Samtals flettingar: 2392266
Samtals gestir: 622007
Tölur uppfærðar: 21.9.2021 13:34:00