07.09.2016 09:48

677. Freyfaxi NK 101. TFGQ.

Freyfaxi NK 101 var smíðaður í Halsö í Svíþjóð árið 1946. Eik 89 brl. 215 ha. Polar díesel vél. Eigandi var Ríkissjóður Íslands frá 20 september árið 1946 (Lúðvík Jósepsson og fl í Neskaupstað ?). Skipið var selt 29 apríl 1950, Freyfaxa h/f í Neskaupstað. Ný vél (1953) 225 ha. June Munktell vél. Skipið var selt 10 desember 1957, Hauki Jóhannssyni, Jóhanni Sigfússyni og Kjartani Friðbjarnarsyni í Vestmannaeyjum, hét Faxi VE 67. Ný vél (1958) 350 ha. Völund díesel vél. Selt 3 október 1959, Willum Andersen og Knud Andersen í Vestmannaeyjum, hét Meta VE 236. Selt 19 nóvember 1971, Matthíasi Óskarssyni og Björgvin Ólafssyni í Vestmannaeyjum. Skipið var talið ónýtt í september árið 1973.


Freyfaxi NK 101 á Norðfirði árið 1946.                                                           Ljósm: Björn Björnsson.

                   Svíþjóðarbátarnir

Aldrei hefur fiskiskipaflota landsmanna bætzt jafn mörg skip og fyrstu níu mánuði þessa árs. Þegar á siðastl. vetrarvertíð tóku nýjir bátar að bætast i flotann og á öndverðu vori kom fyrsti Svíþjóðarbáturinn til landsins. Síðan hefur flotinn aukizt um fleiri og færri skip mánaðarlega. Um mánaðamótin september og október höfðu alls bætzt í flotann 72 skip frá þvi á áramótum, og voru þau samtals um 5000 rúmlestir. Af þessum bátum eru 53 nýir, 37 smíðaðir utanlands og 16 innanlands. Hinir 37 bátar, sem smíðaðir eru erlendis, eru samtals um 2607 rúml., en rúmlestatala íslenzku bátanna 16 er 479. Allir nýju bátarnir, sem komið hafa frá útlöndum, er smíðaðir í Svíþjóð að þremur undanteknum, sem smíðaðir eru í Danmörku. Nítján af þessum bátum eru 80 rúmlestir og stærri. Nítján fiskiskip hafa verið keypt frá útlöndum það sem af er þessu ári, og eru þau samtals um 1600 rúml. Langflest eru skip þessi smíðuð í Svíþjóð eða 15 talsins, og eru 13 þeirra smíðuð á árunum 1940-1946. Elzta aðkeypta skipið er 38 ára gamalt. Öll eru skip þessi innan við 100 rúmlestir að stærð, að þremur undanskildum, og er það stærsta þeirra um 215 rúmlestir. Heita má, að sú aukning, sem þegar hefur orðið á flotanum á þessu ári, skiptist niður á allar helztu verstöðvar landsins. Eftir landshlutum verður skiptingin þannig: Vestmannaeyjar 3 skip, Suðurnes 13, Hafnarfjörður 6, Reykjavík 9, Akranes 6, Borgarnes 1, Breiðifjörður 3, Vestfirðir 6, Norðurland 15 og Austfirðir 10. Siðasta fjórðung þessa árs mun enn bætast við nokkur ný skip. Eru það Svíþjóðarbátar svo og bátar, sem verið er að smíða innanlands. Talið er, að ólokið verði við sjö Sviþjóðarbáta um næstu áramót, þ. e. tvo af 45 bátapöntuninni og alla fimm bátanna, sem síðar var samið um smíði á og fara eiga til Reykjavíkur.
Svíþjóðarbátarnir eru svo að segja allir smíðaðir eftir teikningum tveggja manna, Bárðar Tómassonar og Þorsteins Daníelssonar. Allir 50 rúmlesta bátarnir eru smíðaðir eftir teikningu Bárðar svo og sjö 80 rúmlesta bátar. Tuttugu og fjórir bátar eru smiðaðir eftir teikningu Þorsteins, og eru þeir allir um og yfir 90 rúml. Fjórir bátar eru smíðaðir eftir teikningu, er fengin hefur verið frá tilraunastöð fyrir skipasmiðar, sem sænska ríkið rekur. Tilraunastöð þessari var komið á fót fyrir frjáls framlög sænskra útgerðarmanna. Forstöðumaður hennar er prófessor H. F. Nordström.

Ægir 39 árg. 1946. 10 tbl.





Flettingar í dag: 378
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 1186
Gestir í gær: 63
Samtals flettingar: 724910
Samtals gestir: 53765
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 05:58:11