29.10.2016 09:03

Aldan EA 625. TFUK.

Aldan EA 625 var smíðuð í Lowestoft í Englandi árið 1919. Eik. 101 brl. 150 ha. 2 þennslu gufuvél. Eigandi var Hlutafélagið Unnur á Akureyri frá 30 júní árið 1939. Skipið var selt 3 september 1940, Bjarna Ólafssyni & Co á Akranesi, hét þá Þormóður MB 85. Ný vél (1941) 240 ha. Lister díesel vél. Selt 12 janúar árið 1942, Fiskiveiðahlutafélaginu Njáli á Bíldudal, skipið hét Þormóður BA 291. Skipið fórst út af Garðskaga 18 febrúar 1943 með 7 manna áhöfn og 24 farþegum, samtals 31 manns. Eitt hörmulegasta sjóslys í sögu þjóðarinnar fyrr og síðar.


Aldan EA 625 að landa síld á Siglufirði.                         Ljósmyndari óþekktur, mynd úr Íslensk skip.

             Þormóðsslysið 1943

 Eftir Guðrúnu Ástu Guðmundsdóttur: "Nú eru liðin 70 ár síðan vélskipið  Þormóður fórst og með því 24 farþegar og sjö manna áhöfn."

Hinn 16. febrúar 1943 lagði vélskipið Þormóður upp frá Patreksfirði og var ferðinni heitið til Reykjavíkur. Eftir að sóttar voru 30 lestir af kjöti á Húnaflóahöfn var komið við á Bíldudal og þar sóttir 22 farþegar. Í hópi farþega var móðursystir mín, Áslaug Jensdóttir, sem steig um borð í Þormóð á 17. afmælisdegi sínum.

Þormóður var 101 smálest að stærð og útbúinn öllum fullkomnustu tækjum þess tíma, þ.ám. nýrri 240 hestafla díselvél, nýrri hjálparvél, dýptarmæli, talstöð o.fl.
Lagt var af stað á þriðjudagsmorgni í sæmilegu veðri. Um nóttina skall á mikill veðurofsi. Næsta morgun sendi forstjóri skipaútgerðarinnar skeyti til Gísla Guðmundssonar skipstjóra til að vitja um komutíma til Reykjavíkur. Fékk hann það svar að ekki væri unnt að segja það með vissu vegna veðurs. Loftskeytastöðin hafði aftur samband við skipið um kl. 19 miðvikudaginn 17. febrúar til að grennslast fyrir um hvenær skipsins væri að vænta. Frá Þormóði barst svarið: "Slóum Faxabugt, get ekki sagt um það núna." Fréttist síðan ekkert af skipinu fyrr en kl. 22.35 um kvöldið er skipstjórinn sendi út neyðarkall: "Erum djúpt út af Stafnesi. Mikill leki kominn að skipinu. Eina vonin að hjálpin komi strax."
Daginn eftir slotaði veðrinu og var hafin skipulögð leit og komu að henni íslenskir togarar og flugvélar frá bandaríska hernum ásamt íslenskri vél undir stjórn Arnar Johnson. Leitarskipin fundu yfirbyggingu skipsins sjö mílur undan Garðskaga og var fast við hana eitt lík. Veiðiskip fann eitt lík í björgunarhring og tveimur dögum síðar fundust tvö lík rekin á Akranes og nokkru síðar lík af karlmanni. Var nú orðið ljóst að ms. Þormóður hafði farist með sínum dýrmæta farmi, þ.e.a.s. farþegum og áhöfn.
Það er erfitt að ímynda sér þá sorg sem ríkti á Bíldudal þar sem íbúar voru um þessar mundir milli 260 og 300 manns. Þessa örlaganótt misstu Bílddælingar helstu framámenn í plássinu. Meðal farþega voru Loftur Jónsson kaupfélagsstjóri, Ágúst Sigurðsson, verslunarstjóri hjá Maron, og kona hans, verkstjóri hraðfrystihússins, kona hans og sjö ára gamall sonur þeirra. Þá fórust með skipinu prestarnir sr. Jón Jakobsson, prestur á Bíldudal, og sr. Þorsteinn Kristjánsson, prestur í Sauðlauksdal.
Sr. Jón Ísfeld, prestur í Búðardal, hafði vígst til Hrafnseyrar í Arnarfirði árið áður en var nú kvaddur til Bíldudals til að tilkynna aðstandendum þessa þungbæru fregn. Þegar hann kom yfir á Bíldudal var marga farið að gruna hvað gerst hafði. Einhver hafði heyrt neyðarskeyti skipsins í gegnum talstöð. Eftir sr. Jóni er haft að hann hafi fundið að í sumum húsum var fregnin komin á undan honum.
Hann kom í hús afa míns, Jens Hermannssonar kennara, sem tók á móti honum og sagði: "Þetta eru þung spor fyrir þig, prestur minn. Nú skaltu hvíla þig." Móðursystir mín, Áslaug Jensdóttir, steig um borð í Þormóð á 17 ára afmælisdegi sínum. Hún hafði gert erfðaskrá þar sem hún ánafnaði systur sinni og vinkonum eigur sínar. Afi minn fór síðan og gekk með séra Jóni í húsin
og studdu þeir þannig hvor annan, presturinn og kennarinn. Alls létust í slysinu 22 Bílddælingar, þar af sjö konur og eitt barn. Fjársöfnun hófst í Reykjavík til aðstandenda þeirra sem fórust og tóku blöðin við framlögum. Þáverandi biskup, Sigurgeir Sigurðsson, allir prestar í Reykjavík, ráðherrar og borgarstjórinn í Reykjavík rituðu undir áskorun til stuðnings söfnuninni.
Hinn 5. mars var haldin minningarathöfn í Dómkirkjunni. Þá var mikið ritað um hina látnu. Hugurinn hvarflaði til Bíldudals og hugur þjóðarinnar var hjá þeim sem misst höfðu svo mikið. Herra Sigurgeir Sigurðsson biskup flutti ræðu og endaði hana á þessa leið: "Drottinn, réttu oss veikum börnum þínum almáttuga hönd þína. Kom huggari, mig hugga þú. Kom hönd og bind um sárin."
Hinn 16. mars var haldin minningarathöfn á Bíldudal í ofsaveðri og jarðsett þau lík sem fundust. Sr. Jón Ísfeld og sr. Einar Sturlaugsson, prófastur á Patreksfirði, fluttu ræðu. Jóhann Skaftason sýslumaður og Böðvar Bjarnason töluðu. Jens Hermannson las ljóð. Lesnar voru samúðarkveðjur og inn á milli voru sálmar sungnir.
Fyrir slysið var atvinnulífið á Bíldudal í blóma en nú voru helstu forystumenn staðarins horfnir og skaðinn mikill og óbætanlegur. Þrettándi hver þorpsbúi var látinn. Í kjölfar slyssins fluttu margir í burtu og erfitt var að fylla í skörðin. Fólk gerði sér grein fyrir að lífið varð að halda áfram. Skólinn starfaði, reynt var að halda uppi kirkjulífi og skotið var nýjum stoðum undir atvinnulífið. Söfnun fór fram til handa þeim sem misst höfðu sína. Slysið lét engan ósnortinn, hugur allra var hjá syrgjendum. Árið 1944 fluttist sr. Jón Ísfeld til Bíldudals og gegndi þar prestakallinu í 17 ár við miklar vinsældir þorpsbúa.
Það eru nú liðin 70 ár síðan ms. Þormóður sigldi í sína hinstu för. Slysið telst enn í dag til eins af verstu sjóslysum íslenskrar sjóferðasögu.

Mbl.is 16 febrúar 2013.

Flettingar í dag: 1533
Gestir í dag: 391
Flettingar í gær: 798
Gestir í gær: 301
Samtals flettingar: 1963985
Samtals gestir: 497385
Tölur uppfærðar: 12.8.2020 14:36:31