16.12.2016 11:50

122. Ingvar Guðjónsson EA 18. TFJS.

Ingvar Guðjónsson EA 18 var smíðaður hjá Rödsunds Batvarv í Karlsborg í Svíþjóð árið 1948. Eik. 183 brl. 540 ha. Polar díesel vél. Eigandi var Hlutafélagið Hervör í Kaupangi í Eyjafirði frá 7 júlí árið 1948. Skipið var selt 30 nóvember 1961, Hlutafélaginu Hervöru á Sauðárkróki, hét þar Ingvar Guðjónsson SK 99. Ný vél (1963) 500 ha. Wichmann díesel vél. Skipið var selt árið 1967, Haraldi Jónssyni og Jóni Hafdal í Hafnarfirði, sama nafn og númer. Skipið brann við bryggju í Hafnarfirði, 27 mars 1968 og var talið ónýtt eftir brunann. Skipið var tekið af skrá 2 október árið 1970.

Ingvar Guðjónsson EA 18.                                                                        Ljósmyndari óþekktur.

Ingvar Guðjónsson EA 18 í erlendri höfn.                                                  Ljósmyndari óþekktur.


           Ingvar Guðjónsson EA 18

Í morgun sigldi hér í höfn, fánum skrýtt, eitt glæsilegasta skip íslenzka fiskiskipaflotans, Ingvar Guðjónsson. Skipið er 186 smálestir, byggt í Svíþjóð og búið öllum nýjustu tækjum. Vistarverur skipverja eru allar hinar ákjósanlegustu. Í skipinu er hydroliskt botnvörpuspil, sem er það fyrsta þeirrar gerðar, er kemur hingað til lands. Ingvar Guðjónsson er stærsta skip, sem siglt hefur gegnum Gautakanal, frá Wetter til Wener. Skipið kemur hingað á 60 ára fæðingarafmæli Ingvars heitins Guðjónssonar, er það heitir eftir.
Í morgun kom hingað til Siglufjarðar nýtt og glæsilegt fiskiskip. Skipið heitir Ingvar Guðjónsson og er eign hlutafélagsins Hervör. Það er í alla staði hið vandaðasta, byggt í Sviþjóð í skipasmíðastöðinni Rödesunds Bátvard Karlsborg. Það er búið 600 ha. Polar Diesel aflvél. auk þess er 60 ha. vél, sem knýr spil skipsins og 30 ha. ljósavél. Vistaverur skipverja eru allar hinar ákjósanlegustu. Frammi í skipinu er hásetaklefi fyrir 12 menn, en afturí er káeta fyrir 4 menn og tveir klefar, annar fyrir stýrimann, en hinn fyrir vélstjóra. Undir stjórnklefa skipsins er íbúð skipstjóra, auk matsals og eldhúss. Allar íbúðirnar eru innréttaðar með maghony. Skipið er hitað upp með olíukyndingu, en í öllum vistarverum er renanndi heitt og kalt vatn. Einnig er í skipinu baðklefi.
Samningar um smíði skipsins voru undirritaðir 27. júní 1946 og átti það að afhendast í fyrrahaust. Miklar tafir urðu þó á afhendingu skipsins, svo að það kemur nú um 8 mánuðum seinna til landsins en til var ætlazt. Barði Barðason skipstjóri hefur um skeið dvalizt úti og séð um smíði skipsins. Eigandi þess er h.f. Hervör, en Ingvar heitinn Guðjónsson var stofnandi þess ásamt Barða Barðasyni. Það kostar nú fullsmíðað um 1 milljón króna.
Í Ingvari Guðjónssyni er svo nefnt hydroliskt trollspil, sem er ný tegund af dragnótaspilum, og er þetta það fyrsta, er hingað kemur til lands, en þau eru framleidd í Englandi. Þessi tegund spila er talin sérstaklega hagkvæm og kraftmikil. Spilið í Ingvari lyftir t.d. 12 tonnum.
Frá Svíþjóð hélt skipið til Bergen í Noregi, en þar tók það nýja fullkomna nótabáta og annan nauðsynlegan útbúnað. Frá Bergen og hingað til Siglufjarðar var skipið rúma 3 sólarhringa og gekk að meðaltali 10 mílur, en í reynsluför gekk skipið rúmar 11 mílur. Það reyndist í alla staði vel á leiðinni til landsins og lætur skipstjórinn hið bezta af því.
Ingvar Guðjónsson er fullbúinn til síldveiða og mun hefja þær eftir 2 til 3 daga. Skipstjóri verður hinn kunni aflamaður, Barði Barðason, sem lengst af hefur verið skipstjóri á Gunnvör, sem er eign sama félags.

Siglfirðingur. 17 júlí 1948.

            Eldur í Ingvari Guðjónssyni SK 99

                    Skipið mannlaust er eldur kom upp

Klukkan 5,35 í gærmorgun var Slökkvilið Hafnarfjarðar kvatt að m.b. Ingvari Guðjónssyni SK 99,  er lá við syðri hafnargarðinn í Hafnarfirði. Er slökkviliðið kom að skipinu var mikið reykkóf í vélarrúmi, svo að ekki sá handa sinna skil, og lagði reykinn um afturhluta skipsins. Eldurinn marg gaus upp aftur, en ógerningur reyndist lengi vel að fara niður í vélarrúmið, unnu slökkviliðsmennirnir þó með reykgrímum. Slökkvistarfið tók alls rúmar 2 klukkustundir, og urðu miklar skemmdir í vélarrúminu. Vaktmaður frá Olíustöðinni á Hvaleyrarholti, er var á verði við olíuskipið Stapafell er lá við olíubryggjuna skammt frá, varð þess var að óvenjumikinn reyk lagði frá Ingvari Guðjónssyni, og gerði hann slökkviliðinu aðvart. Enginn maður var þá um borð í Ingvari, en ljósavél skipsins var í gangi. Eigendur m.b. Ingvars Guðjónssonar eru Haraldur Jónsson og Jón G. Hafdal, báðir úr Hafnarfirði.

Alþýðublaðið. 28 mars 1968.

        Ingvar Guðjónsson útgerðarmaður

Það er ánægjuleg tilviljun, að m.s. Ingvar Guðjónsson skyldi koma á 60 ára fæðingarafmæli hins mikla athafnamanns, Ingvars heitins Guðjónssonar, sem er stofnandi fyrirtækis þess, er byggja lét skipið, ásamt Barða Barðasyni. Ingvar Guðjónsson var fæddur 17. júlí 1888 að Neðra-Vatnshorni í Húnavatnssýslu, sonur hjónanna Guðjóns Helgasonar, síðar fiskimatsmanns og Kritsínar Árnadóttur. Sökum fátæktar foreldra, varð Ingvar að fara úr foreldrahúsum fljótlega eftir að hann komst á legg, og upp frá því að bjargast af eigin rammleik. Mun hann oft hafa orðið að heyja harða lífsbaráttu árin 1894-1905. Sjómennska Ingvars hófst veturinn 1905 með því, að hann fór fótgangandi úr Húnavatnssýslu og suður í Hafnir, og réði sig þar til sjóróðra. Upp frá því var sjómennska hans aðalstarf til ársins 1920.
Fyrstu kynni sín af síld og síldveiðum mun Ingvar hafa hlotið sumarið 1910. Réðst hann þá ásamt vestfirzkum sjómönnum til norsks skipstjóra, Saxe að nafni. Hugðist Saxe stunda síldveiðar með landnót við Kúvík í Reykjafirði. Dvöldu leiðangursmenn þar frá júlíbyrjun þar til í september. Reiknað var með ca 3000 tunna sumarveiði, en veiðin varð ca. 30 tunnur. Kaupið, sem Saxe lofaði að greiða var kr. 35,00 pr. mánuð og auk þess 10 aura premiu af hverri uppsaltaðri tunnu Heildarþjónusta fiskimanna varð því ca. 70 kr. yfir sumarið, sem Norðmaðurinn gleymdi svo að greiða í vertíðarlok. Þessi viðskipti Ingvars við Norðmanninn og síldina mun hafa reynzt honum góður skóli. Formennsku hóf Ingvar 1911 á m.b. Hafliða, sem Helgi Hafliðason á Siglufirði átti, og lánaðist honum formennskan vel. Eftir það var Ingvar oftast formaður eða skipstjóri á sínum eigin skipum, eða annarra, allt til ársins 1920. Góður aflamaður var Ingvar talinn og mun ætíð hafa verið í hópi þeirra fengsælustu, mundi hann á nútímavísu vera kallaður góður og greindur fiskimaður.
Árið 1916 hóf Ingvar útgerð með því að láta byggja skipið Ingibjörgu í félagi við Ásgeir Pétursson. Árin 1922 til 1936 mun útgerð Ingvars hafa verið umfangsmest. Gerði hann þau árin út 6 til 9 skip og báta árlega, er hann átti sjálfur, fyrir utan leiguskip. Síldarsöltun og síldverzlun hóf Ingvar árið 1920 og rak til dauðadags eða í 23 ár. Megin hluta þessa tímabils var hann langsamlega stærsti síldarsaltandi og síldarútflytjandi hérlendis.
Alls mun hann hafa látið salta yfir þetta tímabil allt að 400.000 tn. Vart munu skiptar skoðanir um það, að Ingvar hafi verið einn ötulasti og glöggskygnasti maður, sem fengizt hefur við síldarframleiðslu. Þótt hugur Ingvars bindist einkum að sjónum, hafði hann einnig áhuga á landbúnaðarmálum. Árið 1927 keypti hann jörðina Kaupang í Eyjafirði, bætti hana mikið og hugðist hefja þar búskap á fardögum 1944, en entist ekki aldur. Mun fyrir honum hafa vakað, að sýna bændum landsins, að hægt væri að búa hallalaust á sæmilegu jarðnæði. Með Ingvari Guðjónssyni hneig í valinn einhver merkasti athafnamaður landsins. Í dag sigldi í höfn, eitt glæsilegasta skip íslenzka fiskiskipaflotans, sem ber nafn hins kunna framtaksmanns. Það er von og trú, að hið glæsta skip muni í góðra höndum halda nafni Ingvars á lofti, með þeim hætti, sem hann mundi sjálfur sennilega helzt hafa kosið.

Siglfirðingur. 17 júlí 1948.

Flettingar í dag: 1310
Gestir í dag: 444
Flettingar í gær: 1092
Gestir í gær: 456
Samtals flettingar: 2034144
Samtals gestir: 520383
Tölur uppfærðar: 29.9.2020 10:14:08