23.01.2017 11:10

B. v. Hávarður Ísfirðingur ÍS 451. LBKV / TFIC.

Hávarður Ísfirðingur ÍS 451 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1919. 314 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 885. Hét fyrst Daniel McPherson og var í eigu breska flotans. Fékk svo nafnið Lord Halifax H 79 árið 1920. Skipið var selt í janúar árið 1925, Togarafélagi Ísfirðinga h/f á Ísafirði, fékk nafnið Hávarður Ísfirðingur ÍS 451. 18 febrúar 1936 er skráður eigandi h/f Hávarður á Ísafirði, sama nafn og númer. Selt 29 desember 1938, h/f Val á Ísafirði, hét Skutull ÍS 451. Selt 20 mars 1942, Hlutafélaginu Aski í Reykjavík, hét Skutull RE 142. Ísfirðingar tóku togarann Þorfinn RE 33 upp í kaupin. Árið 1948 stóð til að selja Skutul til Oddsson & Co í Hull, (Jón Oddsson skipstjóri) en þau kaup gengu til baka. Mun togarinn hafa legið í höfn í Hull þar til hann var rifinn í brotajárn árið 1952.


B.v. Hávarður Ísfirðingur ÍS 451.                                                            Mynd á gömlu póstkorti.

Haustið 1939 felldu bretar niður allar innflutningstakmarkanir á sjávarafurðum sem höfðu verið í gildi frá árinu 1932. Í kjölfar þess hófst mikill útflutningur á ísvörðum fiski frá Íslandi til Englands sem stóð öll stríðsárin. Togarinn Skutull ÍS 451 var fyrstur Íslenskra togara til að selja afla sinn í Englandi eftir að síðari heimstyrjöldin hófst. Hann lagði af stað í söluferð frá Ísafirði, 12 október árið 1939 og seldi afla sinn í Fleetwood fimm dögum síðar. Fjöldi fólks safnaðist saman á Norðurtangabryggjunni til að kveðja skip og áhöfn þegar togarinn sigldi út fjörðinn. Myndin hér að ofan var tekin þegar togarinn lagði af stað frá Ísafirði.                         (C) Haraldur Ólafsson.


             Skutull bjargar áhöfn Atos

Hinn 3. ágúst sl. var togarinn Skutull staddur norðaustan við ísland á leið til Fleetwood. Veður var gott, en lítið skyggni vegna þoku. Sáu þá skipverjar tvo báta með mönnum. Reyndust þetta björgunarbátar af 3500 smálesta gufuskipi frá Helsingborg í Svíþjóð, Atos að nafni. Í bátunum voru 27 manns, 26 karlar og ein kona. Skutull lagði að bátunum og tók skipbrotsmennina. Voru þeir mjög klæðalitlir, margir hverjir, berfættir sumir og á nærfötunum. Fengu allir föt og vistir og alla aðhlynningu svo sem bezt var hægt í té að láta. Skipið Atos hafði látið úr höfn í Glasgow í Skotlandi á leið til Petsamo í Finnlandi. Voru á skipinu 22 skipverjar og 6 farþegar. Farþegarnir voru sænskur verkfræðingur og kona hans, bæði á leið heim til Svíþjóðar frá London og skipstjóri og þrír aðrir skipverjar af sænsku skipi, sem skotið hafði verið tundurskeyti fyrir skemmstu og öll skipshöfnin farizt nema þessir fjórir menn. Þýzkur kafbátur hafði skotið tundurskeyti á Atos. Bátsmaðurinn hafði verið á afturþiljum við að ganga frá einhverju. Allt í einu flugu lestarhlerarnir í loft upp og strókur stóð upp úr lestinni. Fórst þarna bátsmaðurinn, og var þetta í 6. skipti, sem skip, sem hann var á, varð fyrir tundurskeyti. Fjórum sinnum hafði hann lent í skipreka vegna tundurskeyta á árunum 1914-18, og einu sinni í þessari styrjöld áður en hann kom á Atos. Skipverjar komust í bátana, en aðeins 6 mínútum eftir að skipið varð fyrir tundurskeytinu, var það sokkið. Ílla var skipbrotsmönnunum við það að vera undir þiljum á Skutli, og höfðust margir þeirra við í göngum, eldhúsi og bræðsluhúsi. Óttuðust þeir nýja árás, og einkum brá þeim, þegar Skutull lét hvína í eimpípunni vegna þoku. Skipbrotsmönnunum var skilað á land í Fleetwood. Orð höfðu þeir á því, að frekar hefðu þeir kosið, að Skutull hefði verið á leið tíl Íslands. Þar mundi vera gott að búa á þessum hinum verstu tímum.

Skutull. 17 ágúst 1940.


           Sjómennska í sprengiregni

Matthías Björnsson, fyrrverandi loftskeytamaður, var í hópi þeirra sjómanna sem storkuðu örlögunum með úthafssiglingum á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Blaðamaður mbl ræddi við hann og komst að því að oft hefði hurð skollið nærri hælum;

Sjóflutningar voru og eru Íslendingum gríðarlega mikilvægir vegna legu landsins og mikilla milliríkjaviðskipta. En það var ekki alltaf tekið út með sældinni að sigla á milli landa, allra síst á árum heimsstyrjaldanna fyrri og síðari þegar flugvélar og kafbátar gerðu tilraunir til að granda hverju fleyi sem tilheyrði óvinaþjóðunum. Matthías Björnsson loftskeytamaður var ungur maður þegar hann réðst sem afleysingaloftskeytamaður á skip í millilandasiglingum þegar síðari heimsstyrjöldin stóð sem hæst og var, eins og aðrir sjómenn á þeim tíma, oft í lífshættu. Nokkrum sinnum skall hurð nærri hælum og Matthías varð vitni að því þegar þýskar orrustuvélar létu sprengjum rigna yfir Grimsby, þegar Dettifoss var sökkt í höfninni í Belfast 21. febrúar 1945 og Alcedo, sem var leiguskip Eimskipafélagsins, var sökkt við Stafnes aðeins sjö dögum síðar. Þarna horfði Matthías á ýmsa góða félaga sína hverfa í hafið.
Matthías er nú áttræður og býr á Akureyri. Sem ungur maður fékk hann áhuga á loftskeytamannsstarfi og innritaðist hann í Loftskeytaskóla Íslands haustið 1942. Loftskeytanámið tók einn vetur. Árið 1942 vantaði loftskeytamenn, sérstaklega í afleysingar, því fastir loftskeytamenn vildu öðru hvoru taka sér frí sem og aðrir sjómenn, frá þeim hildarleik sem seinni styrjöldin var. Matthías fór í afleysingatúr á síðutogaranum Hafsteini RE eftir áramótin 1943.
Ferðinni var heitið til Grimsby með viðkomu í Scrabster á Norður-Skotlandi þar sem tekin voru sjókort yfir tundurdufl á svæði við austurströndina. Á síðutogurunum var áhöfn um 30 manns meðan á veiðum stóð en um 14 manns í söluferðum. Matthías segir að siglingarnar hafi oft verið þreytandi, sérstaklega í skammdeginu þegar hvergi mátti sjást ljós vegna hættu á árásum.
 Sumarið 1943, þegar Matthías hafði lokið prófi sem loftskeytamaður, 22 ára gamall, réðst hann á togarann Skutul ÍS, sem áður hét Hávarður Ísfirðingur. Aðallega var siglt á Grimsby, Hull og Fleetwood. Eitt sinn að kvöldlagi var siglt að Humberfljóti og lagst þar fyrir ankerum úti fyrir höfninni. Morguninn eftir átti Skutull að landa. Skipverjar voru búnir að frétta af miklum loftárásum Þjóðverja á London, Hull og Grimsby. Um kl. 23 þetta kvöld, þegar Skutull ásamt fleiri skipum lá úti á höfninni hófust loftárásir.
Matthías segir að fyrst hafi flugvélar flogið yfir og hent niður stórum ljósblysum sem lýstu upp borgina og skipin. Nokkru seinna rigndi niður sprengjum og stóð árásin yfir í um tvo tíma. Það glumdi líka í loftvarnabyssum og sá Matthías eina flugvél skotna niður. "Á flestum togurunum voru hríðskotabyssur og sá stýrimaðurinn og skipstjórinn um þær. Þeir reyndu að skjóta niður flugvélar með þeim. Líklega hafa þeir fengið þjálfun á byssurnar hjá hernum enda byssurnar frá þeim komnar. Ekki var þó skotið af byssunni á Skutli," segir Matthías. Áhöfnin fór í land daginn eftir og sá þá afleiðingar loftárásarinnar en margir höfðu fallið í valinn. Ferðin heim gekk slysalaust og hefði margur ætlað að þessi reynsla hefði fælt kornungan Matthías frá sjómennskunni. En launin voru góð. Greidd var áhættuþóknun sem af mörgum var kölluð stríðspeningar.

Morgunblaðið. 20 janúar 2002.

       Togarinn Skutull seldur til Englands

Togarinn Skutull, eign h.f. Asks hér í Reykjavík, hefir verið seldur til Englands. Sem stendur er Skutull að veiðum, en fer væntanlega til Englands þegar búið er að veiða í hann og verður þar afhentur hinum nýju eigendum.

Vísir. 8 janúar 1948.

Flettingar í dag: 208
Gestir í dag: 67
Flettingar í gær: 998
Gestir í gær: 308
Samtals flettingar: 1921259
Samtals gestir: 487202
Tölur uppfærðar: 11.7.2020 05:08:47