28.01.2017 14:52

3. Akraborg EA 50. TFAL.

Akraborg EA 50 var smíðuð í Svíþjóð árið 1943. Eik. 178 brl. 160 ha. Bolinder vél. Valtýr Þorsteinsson útgerðarmaður og síldarsaltandi frá Rauðuvík keypti skipið árið 1946. Skipið var upphaflega þrímastrað seglskip með hjálparvél, en seinna að öllu vélbúið. Ný vél (1953) 400 ha. Alpha díesel vél. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá 7 nóvember árið 1979. Akraborgin lá lengi við Torfunefsbryggjuna á Akureyri og sökk þar í ágústmánuði árið 1980. Náðist skipið upp og var stuttu síðar dregið út fyrir Flatey á Skjálfanda og sökkt þar á svipuðum slóðum og Snæfelli EA 740 var sökkt á tveimur árum áður.


Akraborg EA 50.                                                                             (C) Hafsteinn Jóhannsson.

 Ms. Akraborg  EA-50, nýlega komin hingað frá Svíþjóð

Fyrir nokkru er komið hingað til bæjarins mótorskip, sem Valtýr Þorsteinsson, útgerðarmaður, hefir keypt til landsins frá Svíþjóð. Þetta er þrímastrað tréskip, 178 smálestir að stærð, knúið 160 hestafla Bolindervél. Það er svo að segja nýtt, byggt 1943 hjá kunnri, sænskri skipasmíðastöð, undir eftirliti Bureau Veritas og er mjög sterklega byggt úr eik, járnvarið að utan til varnar gegn ísi. Skipið er byggt sem flutningaskip og hyggst Valtýr nota það jöfnum höndum til flutninga og síldveiða. Mun það vera mjög álitlegt skip til síldveiða og lesta a. m. k. 2000 mál síldar. Skipið var í síldveiðiflota Svía hér við land sl. sumar. Skipið er búið öllum nýtízku öryggistækjum, svo sem talstöð, miðunarstöð og sjálfritandi dýptarmæli. Ganghraði þess er um 9 mílur. Nokkrar breytingar eru fyrirhugaðar á skipinu og er þegar byrjað að smíða skilrúm í lestarrúm. Þá er einnig fyrirhugað að gera nokkrar breytingar á mannaíbúðum og stækka þær og búa nýjum tækjum. Skipið hefir hlotið nafnið Akraborg og ber einkennisstafina EA 50. Heimahöfn þess er Akureyri. Valtýr Þorsteinsson er athafnasamur útgerðarmaður. Auk Akraborgar á hann mótorbátinn Gylfa frá Rauðuvík og gerir hann út frá Sandgerði í vetur. Þá er hann og þátttakandi í útgerð mótorbátsins Garðars frá Rauðuvík, sem er 50 smálesta Svíþjóðarbátur. Þetta myndarlega skip er góður fengur fyrir skipastól þann, sem héðan er gerður út og atvinnulíf bæjarmanna, og á Valtýr þakkir skildar fyrir dugnað sinn og framtak.

Dagur. 15 janúar 1947.


Akraborg EA 50 að landa síld á Skagaströnd.                                    (C) Guðmundur Guðnason.

        Valtýr Þorsteinsson útgerðarmaður

Sumarið 1949 saltaði Valtýr Þorsteinsson frá Rauðuvík 275 tunnur í skip sitt, Akraborg, og lét það liggja á Raufarhöfn meðan söltun stóð yfir. Valtýr tók síðan bryggju Kaupfélags Norður-Þingeyinga og saltaði á henni um árabil. Fyrirtæki sitt kallaði hann Norðursíld h/f. Árið 1958 reisti Valtýr svo nýja stöð fyrir botni hafnarinnar og flutti starfsemina þangað. Á árunum 1958-59, meðan flutningarnir stóðu yfir, saltaði hann á báðum stöðvunum og var hin nýja þá kölluð Norðurver.
Feðgarnir, Valtýr og Hreiðar sonur hans, voru þrautseigir og útsjónasamir við söltunina. Þegar síldin hvarf lengst norður í höf sumarið 1968 sátu þeir ekki með hendur í skauti heldur tóku á leigu Færeyska flutningaskipið Elísabeth Hentzner, innréttuðu það sem fljótandi síldarplan og sendu á eftir síldinni. Á þessari fljótandi söltunarstöð voru saltaðar 7.500 tunnur, en feðgarnir voru hinir einu sem fóru að með þessum hætti.      Heimild: Síldarsaga Íslendinga.


Akraborg EA 50. Líkan.                                                   (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

                  Enn fær Emil mótmælaskeyti

Skipverjar á síldveiðibátnum Akraborg EA 50 hafa sent Emil Jónssyni sjávarútvegsmálaráðherra mótmælaskeyti vegna gerðardómsins um skiptakjör síldveiðisjómanna. Skeytið er svohljóðandi: -

Herra sjávarútvegsmálaráðherra,  sjávarútvegsmálaráðuneytinu, Reykjavík. Þar sem þér hafið notað vald yðar og þar með stuðlað að stórkostlegri kjararýrnun sjómanna á síldveiðibátum á yfirstandandi vertíð,  fyrst með bráðabirgðalögum og síðan gerðardómi, þá mótmælum við harðlega niðurstöðum gerðardóms um skiptakjör og aðgerðum þessum í heild. Skipverjar vs. Akraborg EA 50.

Þjóðviljinn 9 ágúst 1962.


Akraborg EA 50. Líkan.                                                    (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


          Akraborgin tók sjálf af skarið

Um nokkurra ára skeið hefur gamalt tréskip, Akraborg EA 50, legið bundið við Torfunefsbryggju, mörgum til mikils ama, þar sem þeir hafa talið að skipið setti ekki mikinn fegurðarsvip á miðbæinn. Erfiðlega hefur gengið að fá skipið fjarlægt, en nú eru horfur á að af því verði, þar sem Akraborgin marar nú í hálfu kafi við bryggjuna og það verður vart látið viðgangast að skipið verði lengi þannig. Það mun hafa verið aðfararnótt s.l. laugardags að Akraborg fylltist af sjó. Skipið hefur lekið eins og gjarnt er um tréskip sem komin eru til ára sinna. Hefur þurft að dæla sjó úr skipinu, en að þessu sinni hefur ekki verið nóg að gert og því fór sem fór. Vafalaust verður erfiðleikum bundið að ná skipinu upp aftur og telja fróðir menn að það muni kosta milljónir.
Einnig hlýtur að hafa verið talsverður kostnaður því samfara að láta skipið liggja bundið við bryggju allan þennan tíma, því ef að líkum lætur þarf að greiða hafnargjöld fyrir aðstöðuna. Illa hefur gengið að taka ákvörðun um að fjarlægja Akraborg og því, eins og áður sagði, má segja að hún hafi sjálf tekið af skarið í þeim efnum með því að setjast á botninn. Akraborg mun hafa verið mikið aflaskip á velmektardögum sínum.

Dagur. 12 ágúst 1980.


Flettingar í dag: 1064
Gestir í dag: 310
Flettingar í gær: 798
Gestir í gær: 301
Samtals flettingar: 1963516
Samtals gestir: 497304
Tölur uppfærðar: 12.8.2020 04:12:16