14.02.2017 17:29

B. v. Júní GK 345. TFPD.

Júní GK 345 var smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1951 fyrir Bæjarútgerð Hafnarfjarðar, hét Höfrungur á smíðatíma. Smíðanúmer 735. 732 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Togarinn var seldur til Grikklands 26 júní árið 1964.

129. Júní GK 345.                                                                                      (C) George Wiesman. 


B.v. Júní GK 345.                                                                             (C) Sigurgeir B Halldórsson.


          Hinn nýi togari Bæjarútgerðarinnar

          Júní kominn til Hafnarfjarðar

Júní, hinn nýi togari Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar lagðist í fyrsta skipti að bryggju í Hafnarfirði s.l. þriðjudag. Þessi nýi togari Hafnfirðinga er eitt hið glæsilegasta fiskiskip, sem til bæjarins hefir komið, enda var bæjarbúum tíðförult niður á gömlu bryggju, til að skoða hið myndarlega skip. Eins og kunnugt er, er Júní einn þeirra 10 togara, sem ríkisstj. Stefáns Jóh. Stefánssonar samdi um smíði á í Bretlandi á sínum tíma. Hann er smíðaður hjá skipasmíðastöðinni Alexander Hall Ltd. í Aberdeen og er líkur að gerð og Júlí, nema hvað hann er 10 fetum lengri, en breidd og dýpt hin sama. Er Júní um 30 tonnum stærri en eldri nýsköpunartogararnir. Ganghraði skipsins mun vera 13-14 mílur. Júní er útbúin hinum beztu og fullkomnustu tækjum. Það sem gerir Júní verulega frábrugðin eldri nýsköpunartogurunum er fiskimjöls verksmiðja. Mun hún eiga að geta unnið úr 25 tonnum af hráefni á sólarhring, og tryggir þannig betri og fullkomnari hagnýtingu aflans. Nokkrir byrjunarörðugleikar hafa komið í ljós í sambandi við fiskimjölsvélar skipsins, en góðar vonir standa til þess að hægt verði að bæta úr því fljótlega.
Júní hafði fengið heldur slæmt sjóveður frá Aberdeen til Hafnarfjarðar, og létu skipstjóri og skipverjar vel yfir sjóhæfni skipsins og virtust hinir ánægðustu með þetta fríða fley, enda má hiklaust fullyrða, að Júní sé nú einn vandaðasti togarinn í íslenzka fiskiskipaflotanum. Skipstjóri á Júní er Benedikt Ögmundsson, sem áður var skipstjóri á Júlí. Fyrsti stýrimaður er Árni Sigurðsson og fyrsti vélstjóri Reynir Guðmundsson, en þeir voru báðir einnig á Júlí. Þá munu flestir aðrir skipverjar Benedikts af Júlí fara með honum á Júní. Mestur hluti skipshafnar Eyjólfs Kristinssonar af togaranum Maí fór með honum á Júlí, þegar hann tók þar við skipstjórn fyrir skömmu.
Með kaupum hins nýja togara hefir Bæjarútgerð Hafnarfjarðar sýnt myndarlegt átak við að auka skipastól sinn og skapa aukinn grundvöll fyrir vaxandi atvinnu í bænum. Bæjarbúar fagna því innilega, að þessum nýja áfanga í atvinnu og útgerðarmálum bæjarins skuli vera náð. Það vildi svo til, að þann sama dag og Benedikt Ögmundsson, skipstjóri sigldi hinu glæsilega skipi í fyrsta sinn í höfn í Hafnarfirði 13. marz s.l., átti hann 20 ára skipstjórnarafmæli. En eins og bæjarbúum er kunnugt, varð Benedikt skipstjóri á fyrsta Bæjarútgerðartogaranum Maí, þegar hann var keyptur í bæinn 1931. Hefir hann þannig verið skipstjóri á skipum Bæjarútgerðarinnar í samfleytt 20 ár.
Hann hefir aflað sér álits og trausts sem fengsæll aflamaður og dugmikill skipstjóri, og ávallt verið mjög vel látinn meðal þeirra sjómanna, sem unnið hafa undir hans stjórn. Bæjarútgerðin sýndi þessum reynda skipstjóra og aflamanni það traust, að fela honum skipstjórn á hinum nýja og dýra togara Hafnfirðinga. Það má vissulega með sanni segja, að á hinum fyrstu og erfiðu árum Bæjarútgerðarinnar, hafi það verið fyrst og fremst atorka, dugnaður, þekking og útsjónarsemi forstjórans Ásgeirs G. Stefánssonar, og fengsælni og dugnaður skipstjórans á Maí, Benedikts Ögmundssonar, sem fleyttu Bæjarútgerð Hafnarfjarðar yfir þær torfærur og næstum óyfirstíganlega erfiðleika, sem á vegi hennar voru, á fyrstu starfsárunum. Þótt lengi vel hafi staðið nokkur styr um Bæjarútgerðina og bæjarbúar þar ekki allir á einu máli, þá mun það nú vafalaust gleðja alla bæjarbúa, að nýr og glæsilegur togari hefir nú bæzt í fiskiskipaflota Hafnfirðinga. Og óhætt er að fullyrða að bæjarbúar hefðu ekki kosið sér aðra afmælisgjöf frá Bæjarútgerðinni á 20 ára afmælinu en einmitt hinn nýja og fullkomna togara.

Alþýðublað Hafnarfjarðar. 17 mars 1951.

Flettingar í dag: 879
Gestir í dag: 275
Flettingar í gær: 408
Gestir í gær: 137
Samtals flettingar: 1920932
Samtals gestir: 487102
Tölur uppfærðar: 10.7.2020 21:00:30