05.03.2017 11:11

346. Gotta VE 108. LBGD / TFEH.

Gotta VE 108 var smíðuð í Faxe í Danmörku árið 1916. Eik og fura. 35 brl. 48 ha. Alpha vél. Hét fyrst Sigurður l RE 188. Eigandi var Lárus Fjeldsted í Reykjavík frá 18 ágúst sama ár. Skipið var selt 14 október 1916, Fiskveiðahlutafélaginu Neptúnusi í Reykjavík. Selt 25 apríl 1922, Verslun Böðvarsbræðra í Hafnarfirði, skipið hét Sigurður l GK 501. Selt 8 febrúar 1928, Árna Böðvarssyni í Vestmannaeyjum, hét Gotta VE 108. Ný vél (1929) 65 ha. Saffe vél. Skipið var selt 11 janúar 1935, Björgvin Jónssyni í Vestmannaeyjum. Ný vél (1938) 135 ha. Delta vél. Selt 28 desember 1946, Hásteini h/f í Vestmannaeyjum. Ný vél (1952) 170 ha. Caterpillar díesel vél. Selt 17 janúar 1957, Sæmundi Ólafssyni, Friðrik Ólafssyni og Bjarna Hannessyni á Bíldudal, skipið hét Sigurður Stefánsson BA 44. Selt 15 janúar 1960, Halldóri Snorrasyni og Valdimar Einarssyni í Reykjavík, hét Blakkur RE 335. 14 október 1960 er Valdimar Einarsson einn skráður eigandi. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá í desember árið 1964 og síðan brennt.
Sumarið 1929 var Gotta VE tekin á leigu af nokkrum Grænlandsáhugamönnum sem stofnuðu félagið Eirík rauða. Var ætlun þeirra að fara til Grænlands og veiða þar Sauðnaut og flytja þau lifandi heim í þeim tilgangi að bæta dýralíf í flóru landsins. Greinin hér að neðan birtist í Lesbók morgunblaðsins 23 júní árið 1979 og var tekin saman af Gísla Sigurðssyni, blaðamanni Morgunblaðsins.


Gotta VE 108 á Reykjavíkurhöfn í júlí 1929.                                         (C) Þorleifur K Þorleifsson.

       Á GOTTU TIL GRÆNLANDS

      Ellefu hraustir menn fóru sumarið 1929 á 35 lesta báti í fræga                    ævintýraför til Grænlands, en tilgangurinn var að ná lifandi               sauðnautum, flytja þau til Íslands og koma hér upp sauðnautastofni. 


Nú þegar draumurinn um bætta hagsæld stendur um nýtízku tölvuvæddan iðnað, fullvinnslu á sjávarafla í lystilegar pakkningar, ellegar hugsanlega framleiðslu á vetni eða öðru, sem gæti komið í staðinn fyrir olíu og bensín, er fróðlegt að virða fyrir sér það sem menn töldu að horft gæti til framfara fyrir 50 árum. Árið 1929 er ekki að neinu leyti tengt stóratburðum í sögu lands og þjóðar. Þá var stund milli stríða, efnahagslífið eitthvað farið að jafna sig eftir verðfallið mikla upp úr 1920, sem kom í kjölfar fyrra heimsstríðsins,. Framundan, og það skammt framundan var heimskreppan mikla, sem var í hámarki á árunum 1931 - 1933, og nákvæmlega 10 ár þar til blásið yrði í ófriðarlúðurinn að nýju. Mönnum þótti að vísu sem miklar framfarir hefðu orðið, þegar litið var aftur í tíðina. Þær framfarir höfðu ekki hvað sízt orðið á sjónum. Eftir þann merka áfanga, sem náðist í sjálfstæðisbaráttunni 1918, var eðlilegt að menn hugleiddu í vaxandi mæli, hvað gæti orðið mannlífi á Íslandi til framdráttar. Um þessar mundir fór stjórn Tryggva Þórhallssonar með völdin, en áhrifamesti maðurinn í stjórn landsins var að flestra dómi Jónas Jónsson frá Hriflu.
Meðal þess sem mönnum þótti að gæti horft til framfara, var að auka við dýralíf landsins með því að flytja hingað sauðnaut frá Grænlandi. Þar var merkileg skepna, sem hafði aðlagast frábærlega harðræði og lifði á fjallagrösum, mosa og skófum. Þessar skepnur verða stærri en venjulegir nautgripir hjá okkur og sauðnautakjöt þótti að minnsta kosti ágætur matur. Allar líkur voru á því, að hér gætu sauðnautin lifað á landinu og orðið dágott búsílag. En það var stórmál að ná þeim til landsins. í því sambandi er vert að minnast þess, hversu auðvelt verk það væri nú. Nýlega var skýrt frá því hér í Lesbók, að vísindamenn merkja bjarndýr með því að skjóta þau úr þyrlu með svefnlyfi, sem svæfir þau um stundarsakir. Þannig mætti svæfa heilu hjarðirnar af sauðnautum og lyfta þeim á augabragði yfir í skip. Ísinn við Grænland er ennþá samur og jafn, en stendur síður fyrir nútíma ísbrjótum en Gottu litlu, sem ekki hafði einu sinni sprengiefni með í förinni, vegna þess að embættismannavaldið á Íslandi vildi ekki leyfa það.


Gotta VE 108 á ytri höfninni.                                                                      Ljósmyndari óþekktur.

Aftur á móti hefur áhugi á innflutningi sauðnauta ekki gert vart við sig í seinni tíð og meira kappsmál að draga úr ágangi og ofbeit en auka kjötframleiðslu, sem nóg er fyrir. Þetta og margt annað tengt sauðnautainnflutningi var rætt heima hjá Kristjáni Kristjánssyni skipstjóra á Grímsstaðaholtinu. Kristján var skipstjóri á Gottu, en hann og Gunnar tvíburabróðir hans eru nú þeir einu, sem eftir lifa af leiðangursmönnum, liðlega 81 árs gamlir. Gunnar var kominn til fundar við bróður sinn austan af Selfossi, þar sem hann hefur búið uppá síðkastið hjá dóttur sinni, en báðir eru þeir bræður vel á sig komnir eftír því sem eðlilegt má telja á þessum aldri og muna harla vel eftir Gottuleiðangrinum. Þeir bræður eru fæddir í Efra Vaðli á Barðaströnd í apríl 1898, en fluttust ungir með foreldrum sínum vestur í Arnarfjörð og vöndust þar sjósókn, bæði á árabátum og skútum. Kristján fékk skipstjórnarréttindi og var alla starfsævi sína á sjónum; um árabil til dæmis skipstjóri á Skaftfellingi og reyndist alla tíð farsæll. Gunnar varð aftur á móti vélstjóri; hann fór í Gottuleiðangurinn sem vélamaður og síðar setti hann upp og starfrækti vélaverkstæði í Reykjavík.


Gotta föst í Grænlandsísnum.                                                       (C) Einn leiðangursmanna.

Það var upphaf Gottuleiðangursins, að Kristján hafði ásamt fleiri Grænlandsáhugamönnum myndað félag, sem kallað var Eiríkur rauði og hafði á sinni stefnuskrá að flytja lifandi sauðnaut til Íslands. Hugmyndin mun einkum og sér í lagi hafa yerið komin frá tveimur mönnum: Ársæli Árnasyni bókbindara og bókaútgefanda frá Narfakoti í Njarðvíkum sem rak bókaverzlun við Laugaveginn og Þorsteini Jónssyni útgerðarmanni og kaupmanni frá Seyðisfirði. Að loknu námi í Möðruvallaskóla var Þorsteinn við nám í Noregi einn vetur, en hófst síðan handa um útgerð og verzlun á Borgarfirði eystra, en síðan bæði á Seyðisfirði og á Skálum á Langanesi. Hann fluttist til Reykjavíkur 1918 og gerðist einnig umsvifamikill þar, en verðfallið 1920 lék bæði hann og aðra grátt. Þorsteini var hugstæð náttúra Grænlands og dýralíf og vildi auðga dýralíf Íslands meö því að flytja sauðnaut til landsins. Sóttu þeir félagar um styrk til Alþingis og varð sú umsókn til þess að málið var rætt á þinginu 1928 og voru menn ekki á eitt sáttir. Þó fór svo að Alþingi samþykkti styrkveitingu að upphæð kr. 20.000 og skyldi nota hana til að greiða fyrir tíu lifandi sauðnaut komin á land. Með þá fjárvon í bakhöndinni var hafizt handa og segir gerla frá því í kveri Ársæls Árnasonar um Grænlandsför 1929, sem kom út sama ár og eins í ágætri og skilmerkilegri frásögn Sveins Sæmundssonar blaðafulltrúa, Á hættuslóðum, sem út kom 1970. Fleiri rit kunna að hafa komið út um þetta efni, þótt mér sé ekki kunnugt um þau. í viðræðum mínum við þá bræður Kristján og Gunnar kom fram, að ísinn við Grænland var það sem leiðangursmönnum stóð mestur stuggur af og reyndist enda mikill farartálmi. Vísindaleg hjálpargögn var engin að hafa; veðurstofan gat engan stuðning veitt, engar loftmyndir af ísbreiðunni en viss bjartsýni ríkjandi vegna þess að veturinn 1929 hafði verið sérstaklega mildur. Menn leiddu að líkum, að þá yrði ísinn gisinn og viðráðanlegur, en það reyndist alveg öfugt.


Áhöfn Gottu í Grænlandsleiðangrinum sumarið 1929. Fremri röð frá v: Finnbogi Kristjánsson, Markús Sigurjónsson, Gunnar Kristjánsson, Kristján Kristinsson og Þorvaldur Guðjónsson. Aftari röð frá v: Vigfús Sigurðsson, Ragnar Pálsson, Ársæll Árnason, Kristján Kristjánsson skipstjóri, Baldvin Björnsson og Edvard Fredriksen.                                           Ljósmyndari óþekktur.

Félagsmenn fengu í fyrstu augastað á 200 lesta skipi, sem hét Ameta og var smíðað sérstaklega til íshafsferða. Það var í eigu íslandsbanka á Ísafirði og fékkst ekki leigt til fararinnar; var aðeins til sölu fyrir 55 þúsund krónur. Ekki vildi fjármálaráðherra borga út styrkinn vegna slíkra skipakaupa; taldi sig ekki hafa heimild til þess og því varð niðurstaðan að taka á leigu sterkbyggðan 35 lesta bát frá Vestmannaeyjum og hét Gotta. Var hann tekinn á land og klæddur framanvert með galvaniseruðu blikki með það fyrir augum að verja hann skemmdum frá ísnum. "Færri komust í leiðangurinn en vildu", sagði Kristján skipstjóri, og voru þó margir sem töldu þetta mundi verða glæfraför og feigðarflan. Á öðrum stað er gripið niður í kver Ársæls Árnasonar, þar sem hann segir af leiðangursmönnum og vísast til þess. Einn þeirra, og raunar sá elzti í hópnum, var Vigfús Sigurðsson, kallaður Grænlandsfari vegna þess að hann haföi verið með í frægum Grænlandsleiðangri danska vísindamannsins J.P. Koch 1912-13 og komizt með miklu harðfylgi yfir þveran Grænlandsjökul. Vigfús var einn af stofnendum Eiríks rauða og þótti sjálfkjörinn til fararinnar. Hann var annars Þingeyingur og varð ungur vinnumaður í Möðrudal á Efra Fjalli og síðar póstmaður milli Grímsstaða og Seyðisfjarðar.


Markús Sigurjónsson og Vigfús Sigurðsson um borð í Gottu.                 (C) Einn leiðangursmanna.  

Þykir líklegt að sú póstleið hafi orðið honum góður skóli og komið að notum í Grænlandsförinni 1912. Skömmu eftir aldamót fluttist Vigfús til Reykjavíkur, kvæntist og fór að búa á Brekku á Álftanesi. Hann varð vitavörður á Reykjanesi 1915, en var nýlega fluttur til Reykjavíkur og vann þar við trésmíði, þegar Gottuleiðangurinn kom á dagskrá. Vigfús var þá 53 ára. Hásetar fengu greitt kaup. Forgöngumennirnir úr Eiríki rauða, þeir Kristján skipstjóri, Ársæll og Vigfús Grænlandsfari, fengu ekki neitt, ekkert varð afgangs handa þeim. Við blöðuðum í myndaalbúmi, sem Kristján á frá leiðangrinum; ræddum um undirbúninginn. Gunnar sagði, að þeir hefðu tekið með sér 60 olíutunnur í lest og einnig voru olíugeymar bátsins stútfylltir. Auk þess kvaðst hann hafa aflað sér þeirra varahluta, sem talið var að gæti komið sér vel að hafa með. Kristján: "Við héldum að bezt væri að leggja íann í júlí, en það er of snemmt. Þá er ísinn enn of þéttur. Við urðum að gera ráð fyrir þeim möguleika að teppast á Grænlandi og að við yrðum jafnvel að hafa þar vetursetu. En að sjálfsögðu vonaði maður í lengstu lög að til þess kæmi ekki. Um frystan mat var ekki að ræða, en við gátum ísað kjöt í kössum og við höfðum gnægð af mjölmat og brauðum. Þetta var umfangsmikill undirbúningur og við fengum aðstoð frá ýmsum verzlunum. Svo rann brottfarardagurinn upp: 4. júlí, 1929. Þá var bjartviðri og norðanátt og fegursta veður."


Gotta VE í ísnum.                                                                (C) Einn leiðangursmanna.

Kristján skipstjóri dró fram kort og við litum á leiðina, sem þeir þræddu norðaustur með ísbrúnni, óraleið norður með Grænlandi, a.m.k. fjórföld lengd Íslands frá austri til vesturs. Ég spurði Kristján, hvort ekki hefði verið hægt að komast beint yfir sundið út frá Horni; það er bara smáspölur á móti þessum ósköpum. En skipstjórinn brosti að landkrabbanum og sagði það af og frá. "Eina leiðin var að komast norður með ísbreiðunni og sigta upp á eyður til að komast ínn í vökina, sem verður meðfram strönd Grænlands". Þeim hafði miðað vel af stað, en fljótlega kom í Ijós, að loftskeytastöðin var gallagripur og nánast ónýt. Viðgerð á Ísafirði bar ekki árangur, samt var lagt í íshafið, þótt menn vissu að aungvum boðum yrði hægt að koma heim. Aftur á móti heyrðu þeir skeytasendingar. "Hinn 10. júlí varð fyrir okkur ókleifur ísveggur", segir í kveri Ársæls Árnasonar. Oðru hverju voru þeir að stefna Gottu inn í sund, sem urðu inn í jakaborgina og eitt sinn sigu jakarnir saman og lyftu skipinu hreinlega upp. Þeim fór að hætta að lítast á blikuna; allt í einu voru þeir þarna í hvítri auðninni, líkt og á þurru landi væri og til öryggis var farið með byssur og kúlnabirgðir út á ísinn. Að lítilli stundu liðinni gliðnuðu jakarnir í sundur á nýjan leik og án þess að nokkuð að ráði sæi á Gottu. Litlu síðar rákust þeir á norskan selfangara með sendistöð og gátu látið vita af sér.


Kristján Kristinsson stýrimaður á Gottu. Þessi mynd er máluð af Eiríki Smith listmálara í tilefni Gottuleiðangursins.

Kristján skipstjóri dregur fram leiðarbókina, sem hann geymir ennþá heima hjá sér. Þar kemur í Ijós, að hver dagurinn hefur verið nokkuð öðrum líkur á leiðinni. Eftir viku færir Kristján í bókina: "Svamlað milli vaka án árangurs. Sáum bjarndýr og skutum það. Reynt að komast áleiðis en alls árangurslaust." Hitinn er þá 1,5 stig. Eftir tvær vikur frá brottför, 18., júlí, stendur í leiðarbókinni: "Skipinu þrengt í gegnum ísinn eftir mætti í austurátt". Enn látum við líða viku og þann 25. ágúst hefur ekki mikið gerzt; þeir berjast enn við ísinn. Í leiðarbók þann dag stendur: "Legið á sama stað alla vökuna og skotnir nokkrir selir og eitt bjarndýr. Kl. 8 fm er ísinn orðinn nokkuð greiðari, var þá lagt af stað og stýrt í austur. Þeirri stefnu haldið til kl. 12 á hádegi, þá ekki hægt að komast neitt, skipinu lagt milli tveggja sléttra jaka. Kl. 5 er ísinn dálítið sundurlaus, þá lagt af stað og oftast stýrt í NA. Logn allan daginn og hillingar." Og enn líður vika. Þann 4. ágúst, mánuði eftir brottför frá Reykjavík ná þeir Gottu inn úr ísnum og í "landrennuna", sem þeir nefndu svo. þar heitir Mývík, sem þeir náðu landi og var þá talið að íslenzkt skip hefði ekki komið að Grænlandsströndum í 6-7 aldir. Þeir hittu þar fyrir leið- angursskip, sem flutti vistir til veiðimanna á Grænlandi og var íslendingunum bent á, að sauðnaut mundi hægt að finna í Dúsensfirði á Ýmiseyju. Bæði í kveri Ársæls Árnasonar og bók Sveins Sæmundssonar er greint frá ferðinni í talsverðum smáatriðum, sem ekki er hægt að fara út í hér. "Hvað sem öllum hættum leið þá dofnaði glaðværðin aldrei allan tímann," segir Ársæll á einum stað. Það er líka nefnt, að aðstaða til hreinlætis hafi verið af skornum skammti; menn bjuggu og sváfu þröngt. Sumir höfðu eitthvað bókakyns að lesa, Baldvin gullsmiður úr Eyjum teiknaði myndir og stundum var hlustað á grammófón, sem Hljóðfærahúsið gaf til ferðarinnar af hugulsemi. Ársæll segir líka, að menn verði furðanlega lausir við "pjatt" á svona skipi. "Hve mjög sem menn vildu halda sér hreinum", segir hann, "þá er það ekki hægt. Þrengslin eru mikil og alstaðar óhreinindi, sót frá eldavélinni og mótornum, olía frá tunnum á þilfarinu, fita af dýrum, sem veitt eru o.fl."


Bræðurnir og tvíburarnir, Kristján skipstjóri og Gunnar Kristjánssynir. Þeir voru einir lifandi af leiðangursmönnum þegar viðtalið var tekið í júní 1979, þá 81 árs gamlir. (C) Morgunblaðið.

Greinilegt er, að menn hafa verið nokkuð veiðiglaðir og hafa kannski skotið ívið meira af bjarndýrum en þeir fengu torgað. Þegar á land kom á Grænlandi, skutu þeir héra og greifingja, sáu refi, heyrðu í úlfum og fundu hreindýrahorn. Lifandi hreindýr urðu aftur á móti ekki á þeirra vegi. Næsta furðulegt er, hvað náttúran þarna er rík að dýralífi, og dýrin virðast alls ekki lifa neinu sultarlífi. Fyrsta tilraun þeirra félaga til að ná lifandi sauðnautum var næsta grátbrosleg. Þeir gerðu sér Ijóst, að ekki þýddi að reyna við fullorðin dýr, en til þess að ná kálfunum, urðu þeir að drepa mæður þeirra. Dýrin taka annaðhvort á rás, þegar þau verða manna vör, ellegar þau mynda þéttan hnapp og snúa þá hausunum út í varnarstöðu. Sauðnaut eru frá á fæti og hlaupa eins og geitur um snarbrattar grjótskriður. Ekki var hægt að láta tilvonandi sauðnautastofn Íslendinga annarsstaðar en í lestina á Gottu. Nú þurfti að tæma hana; ná olíutunnunum á dekk og öðru var staflað í káetuna, sem loftskeytatækjunum var annars ætluð. Grjót var flutt um borð og látið undir í lestina, en síðan smíðað gólf yfir til þess að grjótið raskaðist ekki í sjógangi og jafnframt var það flór handa dýrunum að standa á. Ennfremur smíðuðu þeir beizlur og jötur. Síðar í leiðangrinum reyndu þeir að finna slægjur og afla dálítilla heyja í poka handa dýrunum.


Sauðnautskálfarnir á Austurvelli stuttu eftir komuna til landsins. (C) Morgunblaðið.

Eitthvað gekk heyverkunin þó ekki sem bezt og varð úr þessu ruddi. Kristján: "Þarna var yfirleitt mjög fagurt og friðsælt. Sumstaðar var svo aðdjúpt, að við gátum lagt Gottu upp að landinu, líkt og að bryggju. Fjöllin voru svolítið græn uppeftir hlíðunum, en gróðurinn var allur mjög rýr." Dúsendsfjörður er álíka langur og Eyjafjörður og verður dalur innúr firðinum. Þar hófust sauðnautaveiðarnar. Heimferðin gekk að því leyti betur, að aðeins liðu 9 dagar frá því lagt var upp og þar til Gotta lagðist utan á Gullfoss á Reykjavíkurhöfn. Aungvu að síður var það erfiðasti hluti leiðangursins og kom til af því að þeir hrepptu hið mesta illvirði á leiðinni. Mátti telja mildi, að Gotta hélzt ofansjávar, veðurhæðin náði 10 vindstigum og varð þá að snúa skipinu til þess að verja það áföllum. Stóð veðrið í tvo sólarhringa og allan þann tíma var Gottu stefnt í vindinn fyrir fullu vélarafli og hrakti þó. Þá voru sett út rekakkeri; þrjár olíutunnur fylltar af sjó og bundnar við bátinn með vír, en allt slitnaði. Þilfarið hriplak í þessum ósköpum, mest þó yfir eldavélinni. Þó tókst að elda mjólkurvelling og sjóblautt skonrok höfðu þeir með. Allt endaði þó vel og þeim Gottumönnum var fagnað sem úr helju væru heimtir við heimkomuna.


Sauðnautskálfarnir á Austurvelli.                    Ljósmyndari óþekktur.

Gottuleiðangurinn var að öðrum þræði hugsjónastarf, en sumir tóku þátt í förinni af ævintýraþrá. Kristján skipstjóri segir, að tímakaupið hafi líklega verið í lægra lagi, þegar búið var að gera upp með þessum 20 þúsundum úr ríkiskassanum. En þar með voru sauðnautin orðin eign ríkisins og nú var að láta þau margfaldast og skila þúsundföldum arði. Austurvöllur var girtur um þessar mundir og þar voru dýrin sjö látin í fyrstu, svo bæjarbúar gætu barið augum þessa eign landsmanna allra, sem svo mikið haföi verið haft fyrir að ná í. Austurvöllur var ekki talinn sauðnautaland til frambúðar. Næsta skref var að flytja þau upp í Mosfellssveit og Vigfús Grænlandsfari tók að sér að gæta þeirra þar, en það var auðvelt, því sauðnautin voru orðin mannelsk og löbbuðu gjarna til Vigfúsar og þeirra félaga. Aftur á móti voru þau eitthvað styggari við ókunnuga. Eftir eina eða tvær vikur var þeim ekið austur í Gunnarsholt, sem þá var komið í eigu og umsjá ríkisins. þar var þeim sleppt á tún. Þá var mikil landeyðing í Gunnarsholti af völdum sandfoks og lítið um afdrep fyrir dýrin. Menn tóku eftir því að þau litu ekki við töðugresi á túnunum, en sóttu í móana og virtust yfirhöfuð ekki hafa í sig. Samt var ekkert gert annað en halda þeim þarna innan girðingar í umhverfi og á gróðri, sem hefur áreiðanlega verið þeim mjög framandi. Menn sáu hvert stefndi og Kristján skipstjóri og Þorsteinn Jónsson tóku sig til og gengu á fund Tryggva forsætisráðherra og kváðust uggandi um hag dýranna þar austurfrá. Tryggvi kvaðst aftur á móti ekkert geta gert. Sauðnautin fóru að drepast strax um haustið og í innyflarannsóknum, sem Níesl Dungal prófessor gerði, kom fram að orsökin var einfaldlega næringarskortur. Svo rótslitin voru þau úr sínu eðlilega umhverfi, að þarna gátu þau ekki lifað. Annað mál er hvað gerzt hefði ef sauðnautin hefðu þess í stað fengið að fara frjáls ferða sinna á fjöllum og öræfum. Þeim félögum í Eiríki rauða þótti sem of mikið hefði verið haft fyrir sauðnautunum til þess að öll tilraunin væri látin fara út um þúfur fyrir handvömm. Þeir vildu ekki gugna eða sleppa taki á hugmyndinni og keyptu tvö sauðnaut til viðbótar frá Noregi veturinn 1929-30, kvígu og tarf. Í fyrstu voru þau höfð uppi í Skorradal og virtust þau una sér vel þar. Veturinn varð snjóþungur og vildi þá svo illa til að bolinn fór niður um snjóhengju og hafði aðframkominn af sulti étið mold, þegar hann fannst. Drapst hann litlu síðar.


Kort af leið Grænlandsfaranna sumarið 1929.  

Kvígan var síðan flutt austur í Gunnarsholt og þar biðu hennar sömu örlög og hinna sauðnautanna. Lauk þessum tilraunum þar með.
Gotta hafði staðið sig vel í leiðangrinum og þolað með prýði hörð átök við ís og stórsjó. Verður að teljast við hæfi og minnst sé að lokum þessa ágæta farkosts, sem byggður var í Faxe í Danmörku árið 1916. Gotta var 35 lestir, 16,86 m á lengd og búin 75 hestafla Seffle-mótor. Í fyrstu hét skipið Sigurður I.; var gert út frá Reykjavík, og átti að fiska með troll, en það gekk illa. Áttu menn erfitt með að hífa upp trollið vegna þekkingarskorts og lélegs búnaðar. Eigandi skipsins var Árni Böðvarsson rakari og útgerðarmaður í Vestmannaeyjum og leigði hann Eiríki rauða skipið til Grænlandsfararinnar.
Gotta var gerð út til fiskveiða frá Eyjum og oftast á troll. Hún þótti gott skip og var í ágætu lagi, þegar hún var dæmd til eyðileggingar. Reglur mæltu svo fyrir, að skip yrði að brenna eða eyðileggja til þess aö hægt væri að fá fyrirgreiðslu hjá opinberum aðilum vegna nýrra skipakaupa. Betur hefði Gotta hafnað á sjóminjasafni og átti hún betri málalok skilið ekki síður en sauðnautin, sem hún bar heilu og höldnu til landsins.

Lesbók Morgunblaðsins. 23 júní 1979.

Flettingar í dag: 135
Gestir í dag: 40
Flettingar í gær: 975
Gestir í gær: 205
Samtals flettingar: 1535726
Samtals gestir: 414782
Tölur uppfærðar: 16.9.2019 02:32:25