24.03.2017 12:28

2. m. Sk. Grettir ÍS 116. LBDM.

Hákarlaskipið Grettir var smíðaður í Vejle í Danmörku árið 1880. Eik. 28 brl. Fyrstu eigendur voru Hjálmar Jónsson kaupmaður og Torfi Halldórsson skipstjóri á Flateyri frá árinu 1880. Frá því um 1890 voru eigendur þeir Ásgeir G Ásgeirsson kaupmaður og útgerðarmaður á Ísafirði og Kaupmannahöfn og Carl Andersen í Kaupmannahöfn. Við andlát Carls Andersens árið 1895 er Ásgeir einn eigandi Grettis. Vél var sett í skipið stuttu eftir aldamótin 1900, 22 ha. Alpha vél. Fær skráningarnúmerið ÍS 116 stuttu síðar. Grettir var svo lengi í eigu Hinna sameinuðu íslensku verslana á Ísafirði. Ný vél (1917) 6 ha. Dan vél. Árið 1918 flutti fyrirtækið Gretti til Flateyrar. Frá árinu 1926 er Grettir gerður út frá Stykkishólmi, sömu eigendur, en í febrúar 1933 eru eigendur Sigurður Ágústsson og fl. í Stykkishólmi, hét þá Grettir SH 116. Ný vél (1939) 100 ha. Alpha vél. Ný vél (1948) 132 ha. Kelvin díesel vél. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá 20 febrúar árið 1959.


Hákarlaskipið Grettir ÍS 116.                                                                         Ljósmyndari óþekktur.

               Hákarlaskipið Grettir


Árið 1880 áttu þeir Hjálmar kaupmaður Jónsson og Torfi Halldórsson á Flateyri fullsmíðaða skútu út í Danmörku. Það mun hafa verið Magnús Össurarson skipstjóri á Flateyri sem sótti skútuna til Danmerkur og sigldi henni yfir hafið og gekk ferðin vel. Hún fékk nafnið Grettir. Héldu þeir skipi þessu út til veiða næstu tvö eða þrjú árin og reyndist hin mesta happafleyta.
Komst Grettir um skeið í eigu Ásgeirsverslunar, en lenti síðan aftur til Önundarfjarðar og var einatt aflasælt. Grettir var eitt þeirra fáu hákarlaskipa sem til voru fram á 6 áratuginn, þó að hann væri mikið breyttur frá upphaflegu útliti.

Skútuöldin lV bindi. Gils Guðmundsson. 1977.

   Hákarlaveiðar frá Flateyri og Dýrafirði árið         1899

Hákarlaveiðaskipin frá Flateyri og Dýrafirði hættu veiðum um og eptir miðjan september, og varð afli þeirra, sem hér segir:
"Lovísa". skipstjóri Kjartan Rósinkranzson á Flateyri, 867 tn. lifrar.
"Sigríður", skipstj. Helgi Andrésson á Flateyri, um 830 tn. lifrar.
,,Grettir", skipstj. Páll Rósinkranzson á Kirkjubóli. um 660 tn. lifrar.
"Guðný", skipstjóri Eyjólfur Bjarnason á Þórustöðum, um 630 tn. lifrar.
"Fiskaren", skipstj. Kristmundur eyfirzki, um 150 tn. lifrar.
Skip þessi eru öll frá verzlun A. Ásgeirssonar, nema "Guðný", sem er eign nokkurra Dýrfirðinga.  "Fiskaranum" var að eins haldið á hákarlsveiðum til júlíloka.

Þjóðviljinn ungi. 6 október 1899.

Flettingar í dag: 217
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 418
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 697756
Samtals gestir: 52748
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 09:16:49