25.03.2017 13:39

B. v. Ísborg ÍS 250. TFRE.

Ísborg ÍS 250 var smíðuð hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1948 fyrir Útgerðarfélag Ísfirðinga h/f á Ísafirði. 655 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 789. Kom fyrst til heimahafnar 5 maí sama ár. Skipið var selt 2 desember 1963, Stofnlánadeild sjávarútvegsins. Skipinu var breytt í flutningaskip árið 1963, gufuvélin og ketillinn tekin úr skipinu og sett í staðinn 750 ha. Scandia díesel vél. Einnig var stýrishúsið fært aftar og lestarrými aukið sem því nam. Skipið var endurmælt þá og mældist 706 brl. Hét áfram Ísborg. Selt 20 apríl 1964, Borgum h/f í Reykjavík. Selt 5 febrúar 1969, Guðmundi A Guðmundssyni h/f í Reykjavík. Skipið var selt til Grikklands og tekið af skrá 17 desember árið 1973. Skipið mun hafa borið nöfnin Maria Sissy, Catera og síðast Nueva Isborg og var skráð í Panama til ársins 1990-91. Hefur sennilega endað í brotajárni fljótlega eftir það, en það er bara ágiskun hjá mér.

123. Ísborg ÍS 250 við komuna til Ísafjarðar 5 maí 1948.                     (C) Ljósmyndasafnið á Ísafirði. 


Móttökuathöfn við komu Ísborgar 5 maí 1948.                                       Ljósmyndasafnið á Ísafirði.


B.v Ísborg ÍS 250 með fullfermi á pollinum á Ísafirði.                           (C) Ljósmyndasafnið á Ísafirði.


Flutningaskipið Ísborg.                                                                           Ljósmyndari óþekktur.


Flutningaskipið Ísborg.                                                                              Ljósmyndari óþekktur.


Ísborg ÍS 250. Líkan á Sjóminjasafninu á Ísafirði.                                (C) Sæmundur Þórðarson.

      Ísborg er glæsilegt og gott skip

Nýsköpunartogari Ísfirðinga, Ísborg, kom hingað til Ísafjarðar þann 5. maí síðastliðinn og lagðist við bæjarbryggjuna klukkan hálf fimm síðdegis. Fagnaði fjöldi bæjarbúa þar komu hans. Fánar voru dregnir við hún um allan bæinn og var auðsætt að bæjarbúar fögnuðu komu Ísborgar af alhug.
Þegar skipið hafði lagst að bryggju söng Sunnukórinn undir stjórn Jónasar Tómassonar tónskálds, Þú álfu vorrar yngsta land. Því næst flutti Sigurður Bjarnason forseti bæjarstjórnar ávarp og bauð skipið og skipshöfn þess velkomið til Ísafjarðar. Er ávarpið birt á öðrum stað hér í blaðinu. Að því loknu var hrópað ferfalt húrra fyrir Ísborg og skipshöfn hennar. Þá söng Sunnukórinn í faðmi fjalla blárra, en síðan þakkaði Halldór Jónsson framkvæmdarstjóri móttökurnar. Að lokinni ræðu hans söng Sunnukórinn Íslandsfáni eftir söngstjórann. Síðan var almenningi boðið að skoða skipið og hagnýttu margir sér það boð þá um daginn og næsta dag á eftir.
Skipstjóri á Ísborgu er Ragnar Jóhannsson, 1. stýrimaður Helgi Jónsson og 1. vélstjóri Baldur Kolbeinsson. Um kvöldið bauð bæjarstjórnin og stjórn togarafélagsins skipshöfn Ísborgar og nokkrum öðrum gestum til kaffidrykkju að Uppsölum. Kjartan Jóhannsson stjórnaði hófinu fyrir hönd togaraútgerðarinnar. Flutti hann við það tækifæri stutta ræðu, sem birt er á öðrum stað hér í blaðinu. Auk hans fluttu þar ræður þeir Sigurður Halldórsson settur bæjarstjóri, sem jafnframt las heillaskeyti frá Ásberg Sigurðssyni bæjarstjóra, þar sem hann óskaði bæjarfélaginu til hamingju með hið glæsilega skip, Halldór Jónsson framkvæmdarstj., Sigurður Bjarnason, Birgir Finnsson, Helgi Hannesson, Ólafur Guðmundsson, Halldór Ólafsson ritstjóri og Ragnar Jóhannsson skipstjóri. Allir ræðumenn óskuðu útgerð skipsins allra heilla. Sungið var á milli ræðanna og stjórnaði frú Jóhanna Johnsen söngnum. Fór samkoman að öllu leyti hið bezta fram.
Ísborg er 25. nýsköpunartogarinn, sem kemur til landsins. Skipið átti upphaflega að vera fullsmíðað 31. júlí 1947. Lengd þess er 177 fet, breidd 30 fet og dýpt 16 fet. Það er 655 brúttosmálestir að stærð og er byggt hjá skipasmiðastöðinni Cook Welton og Gemmel í Beverley í Englandi. Aðalvél þess er 1.300 hestöfl. Var ganghraði þess rúmar 13 mílur í reynsluför. Tveir dýptarmælar eru í skipinu, loftskeytatæki, miðunarstöð og radartæki. Er það þannig búið öllum fullkomnustu öryggistækjum. Mannaíbúðir eru hinar vistlegustu. Ferð Ísborgar frá Englandi tók 4 sólarhringa og 3 klst. Kom skipið beint frá Hull hingað til Ísafjarðar. Kaupverð skipsins er 3,4 miljónir króna án veiðarfæra.
Þessir menn hafa verið ráðnir á skipið auk skipstjóra:
Helgi Jónsson 1. stýrimaður. Pétur Bjarnason 2. stýrimaður. Baldur Kolbeinsson 1. vélstjóri. Hallgrímur Pétursson 2. Vélstjóri. Magnús Eiríksson 3. vélstjóri. Kristján Bjarnason kyndari. Anton Ingibjartsson kyndari. Guðbjartur Finnbjörnsson loftskeytamaður. Halldór Sigurbjörnsspn bátsmaður. Þorsteinn .M. Guðmundsson netamaður. Ellert Eiríksson matsveinn.
Hásetar:
Árni Jónsson. Þórarinn Ingvarsson. Ólafur Ólafsson. Líndal Magnússon. Þorgeir Ólafsson. Steinn Guðmundsson. Annas Kristmundsson. Ólafur Guðjónsson. Garibaldi Einarsson. Hrólfur Þórarinsson. Guðmundur Rósmundsson. Hjörtur Bjarnason. Steindór Arason. Magnús Þórarinsson. Karl Jónsson. Valdimar Þorbergsson.
Ísborg fór til Reykjavíkur kl. 5 á fimmtudag en þar voru sett í hana lýsisbræðslutæki. Þaðan fór skipið beint á veiðar. Vesturland óskar hinu nýja skipi og skipshöfn þess allra heilla um leið og það lætur þá von í Ijós að útgerð þess eigi eftir að verða bæjarfélaginu og almenningi í bænum til gagns og blessunar.

Vesturland. 13 maí 1948.

      Tveir togarar gerðir út til flutninga

Togararnir eru nú farnir, að fara undir hamarinn í tvennum skilningi, þannig að þeir verða hamraðir til annarra verka en þeim var ætlað, eftir að uppboðshamarinn hefur fallið. Nýlega keyptu þeir Guðfinnur Þorbjörnsson vélstjóri, Guðmundur Kristinsson skipamiðlari og Bjarni Pálsson vélstjóri Ísborgina af Stofnlánadeild sjávarútvegsins. Togarafélag Ísfirðinga gerði Ísborgina út, en lenti í þrotinu eins og fleiri útgerðarfyrirtæki upp á síðkastið. Ísborgin er byggð í Englandi 1948 og er 650 lesta skip brúttó. Hún liggur nú á Ísafirði, en verður flutt til Reykjavíkur eftir helgina og breytt í flutningaskip, gufuvélin og ketillinn tekinn úr henni og 750 hestafla Skandia dísilvél sett í staðinn. Skipið á að léttast um 200-300 lestir og lestin að stækka um 50-60%. Að þessu verður unnið á ýmsum stöðum hér syðra, og gert er ráð fyrir, að breytingunni verði lokið í haust. Blaðið talaði í gær við Guðfinn Þorbjörnsson, sem skýrði frá kaupunum. Fyrir nokkru var myndað félag í Njarðvíkunum um kaup á togaranum Guðmundi Júní til að breyta honum í flutningaskip. Guðmundur Júní er byggður um 1926. Einar (ríki) Sigurðsson gerði hann út, en togarinn hafði legið hér í höfninni í Reykjavík þar til fyrir skömmu að hann var fluttur suður í Njarðvíkur. Tryggvi Ófeigsson hefur keypt Keili, en hann er nú gerður út á þorskanet undir nafninu Sírius. Axel í Rafha átti togarann og gerði hann út, en fjármálaráðuneytið seldi Tryggva hann í vetur. Keilir var byggður í Þýskalandi árið 1950. Honum hefur ekki verið breytt, en togveiðum hans er lokið, að minnsta kosti um sinn. Þá er Bæjarútgerðin að búa Hallveigu Fróðadóttir til síldveiða með kraftblökk. Hún liggur nú hér í höfninni með öðrum togurum, en fer til síldveiða eftir næstu helgi.

Tíminn 27 apríl 1962.

      Ms. Ísborg reyndist vel í fyrstu ferð

Lokið er nú við að breyta Ísborginni í flutningaskip og hefur hún nú farið í sína fyrstu ferð eftir breytinguna. Skipið hefur reynzt mjög vel eftir breytinguna, og er skipshöfnin mjög ánægð með það. Ísborgin er byggð í Englandi 1948, en skipinu var nú breytt samfara 12 ára klössun. Ísborgin er mjög sterkbyggð, og hefur hún alla tíð þótt hið bezta sjóskip. Það var í aprílmánuði 1962, sem skipið var keypt frá Ísafirði, og skömmu síðar var byrjað að breyta því. Gífurlega miklar breytingar hafa verið gerðar, m. a. sett í það ný vél, þvi áður var gufuvél í skipinu, og var brúin einnig færð aftur. Verkið hefur tekið nokkuð lengri tíma en áætlað var, og kostnaðurinn hefur verið mikill, en að sögn eigenda ekki meiri en svo, að skipið geti staðið undir honum. Öll breytingin hefur verið framkvæmd hér heima, en aðallega hafa unnið við skipið, Vélsmiðjan Járn, vélsmiðja Kristjáns Gíslasonar h.f., Vélsmiðjan Héðinn h.f., Stálsmiðjan h.f. og Slippfélagið hf. Stofnlánadeild sjávarútvegsins hefur lánað fé til verksins og veitt margþætta fyrirgreiðslu. Skipstjóri á Ísborginni er Haukur Guðmundsson, 1. stýrimaður Georg Franklínsson, 1. vélstjóri Agnar Hallvarðsson og bryti Svanur Jónsson.

Vísir. 25 janúar 1964.

Flettingar í dag: 167
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 1058
Gestir í gær: 85
Samtals flettingar: 725757
Samtals gestir: 53826
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 01:50:43