30.03.2017 11:05

892. Víkingur ll ÍS 170. TFQC.

Víkingur ll ÍS 170 var smíðaður í Skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar á Ísafirði árið 1959 fyrir Útgerðarfélagið Víking h/f á Ísafirði. Eik. 60 brl. 280 ha. MWM díesel vél. Báturinn var seldur 19 ágúst 1976, Fræg h/f í Þorlákshöfn, hét Jón Helgason ÁR 12. Ný vél (1983) 385 ha. Caterpillar díesel vél, 283 Kw. Seldur 24 júlí 1985, Rifi h/f í Hrísey, báturinn hét Svanur EA 14. Seldur 28 desember 1990, Jóhanni Sigurbjörnssyni í Hrísey, sama nafn og númer. Seldur 7 apríl 1994, Þórði Jónssyni h/f á Bíldudal, hét Svanur BA 61. Seldur 22 mars 1996, Baldri Þór Bragasyni í Vestmannaeyjum, hét Haförn VE 21. Árið 1999 er skráður eigandi Haförn ehf í Vestmannaeyjum. Árið 2003 er eigandi bátsins Dufþakur ehf í Vestmannaeyjum. Seldur árið 2004, Eyfisk ehf í Hrísey, hét Heddi frændi EA 244.( í skipaskrá 2004 sagður hafa heitið áður Fönix ?) Báturinn var talinn ónýtur og tekinn af skrá 23 febrúar árið 2010. Báturinn lá lengi við bryggju á Höfn í Hornafirði og uppi voru áform um að gera þennan bát upp, en til stóð að brenna hann árið 2008. Hvort það hafi verið gert eða honum hafi verið haldið til haga fyrir uppbyggingu, veit ég ekki.


Víkingur ll ÍS 170.                                                                                  Ljósmyndari óþekktur.


Víkingi ll ÍS 170 hleypt af stokkunum 22 maí 1959.                                   Mynd úr Bæjarins besta.

                 Víkingur ll ÍS 170

Síðastliðinn föstudag, 22. maí, var hleypt af stokkunum 60 smálesta fiskibát í Skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar á Ísafirði. Báturinn hlaut nafnið Víkingur II. Eigandi hans er Víkingur h.f. Ísafirði. Báturinn er hinn vandaðasti að allri gerð og búnaði. Aflvél hans er 300 ha. Mannheim vél. Hann er búinn öllum helztu siglinga og öryggistækjum, svo sem ratsjá, dýptarmæli, miðunarstöð o.fl., auk þess sem hann hefur fisksjá. Skipstjóri á bátnum verður Arnór Sigurðsson. M.b. Víkingur er 31. báturinn, sem smíðaður er í skipasmíðastöð Marsellíusar Bernharðssonar.

Vesturland. 29 maí 1959.

              Vill varðveita Víking II

Ísfirðingurinn Svavar Cesar Kristmundsson vill kanna hvort áhugi sé fyrir að varðveita eikarbátinn Víking II. Víkingur II var smíðaður í Skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar og var sjósettur 1959. Báturinn var smíðaður fyrir þá bræður Arnór og Hermann Sigurðssyni í samvinnu við Norðurtangann. Víkingur II heitir í dag Heddi frændi EA og er við bryggju á Hornafirði. Svavar, sem er gamall Ísfirðingur nú búsettur á Húsavík, segist vera áhugamaður um varðveislu báta og sögu sjávarútvegs. "Með þetta áhugamál er verst að vera ekki milljónamæringur", segir Svavar. Hann segir að báturinn hafi lengi verið bundinn við bryggju á Hornafirði og það að hann hafi alltaf verið á floti hafi bjargað honum frá skemmdum. "Það var hafnarnefndarfundur á Hornafirði í gær og ég veit að til stendur að brenna hann." Í dag er báturinn nær óþekkjanlegur.
Búið að setja á hann hvalbak og bjóðageymslu bakborðsmegin og auk þess var brúin stækkuð. "Ég er með hugmyndir um að koma honum til Húsavíkur í geymslu og það er seinni tíma mál hvort hann verður varðveittur. En honum verður ekki fargað á meðan." Aðspurður hvers vegna varðveisla Víkings II er honum svona mikið hjartans mál segir Svavar að það sé nauðsynlegt að fyrir sögu Ísafjarðar að varðveita til frambúðar eitthvað af bátunum sem voru smíðaðir hjá Marselíusi. "Ég stundaði í gamla daga sem púki að fylgjast með bátasmíðinni hjá Marselíusi og ófáar reynslusiglingar sem maður komst í þegar bátarnir voru sjósettir", segir Svavar.

Bæjarins besta. 31 janúar 2008.

Flettingar í dag: 440
Gestir í dag: 110
Flettingar í gær: 455
Gestir í gær: 139
Samtals flettingar: 1868022
Samtals gestir: 480278
Tölur uppfærðar: 4.6.2020 10:54:17