30.04.2017 11:08

Aage SI 51. TFSK.

Seglskipið Aage SI 51 var smíðaður í Assen í Danmörku árið 1889. Eik. 31 brl. Hjálparvél, stærð og gerð ókunn. Eigandi var Firmað Carl Höepfner á Akureyri frá vori árið 1900. Hét Aage og fékk skráninguna EA 13 nokkrum árum síðar. Skipið var selt 6 júní 1939, Guðmundi Hafliðasyni á Siglufirði, hét hjá honum Aage SI 51. Sama ár var skipið endurbyggt og ný vél, 110 ha. Hundested vél sett í skipið. Selt 24 janúar 1941, h/f Björgu í Reykjavík, hét Græðir RE 76. Selt 11 nóvember 1941, Steindóri Péturssyni í Keflavík, hét Græðir GK 310. 13 febrúar 1942 sigldi bandaríski tundurspillirinn U.S.S Ericsson á Græði GK út af Gróttu með þeim afleiðingum að skipið sökk á svipstundu. 1 skipverji fórst en 6 skipverjum var bjargað um borð í U.S.S. Ericsson.


Aage SI 51.                                                                                           (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Bandaríski tundurspillirinn U.S.S. Ericsson sem sigldi Græði GK niður við Gróttu 13 febrúar 1942.

                 Seglskipið Aage

Í skrá yfir íslenzk skip 1933 eru þessi seglskip talin : »Aage« 44 ára, »Hríseyjan« 48 ára, »Sulitjelma« 47 ára, og »Tjalfe« 59 ára. Af þeim hafa 3 hin síðartöldu, staðið á landi undanfarin ár, en hvort »Aage« verður síðasta seglskipið, sem gengur er ekki fullyrt hér, en að útgönguversinu er komið, það er sýnilegt.

Ægir. 5 tbl. 1 maí 1933.

        Sex sjómenn bjargast naðuglega

                í árekstri undan Gróttu

             Einn maður drukknar 

Það slys vildi til klukkan 1 í fyrrinótt, að amerískur tundurspillir sigldi í myrkri á vjelbátinn ,,Græði  frá Keflavík. Sökk báturinn svo að segja í einu vetfangi, en einn maður af áhöfninni drukknaði. Hann hjet Lárus Marísson, 65 ára gamall, ættaður úr Dalasýslu, en nú til heimilis hjer í bæ. Hann átti fimm uppkomin börn. Sex aðrir menn, sem á ,,Græði" voru, björguðust mjög nauðuglega. Fjórir komust upp á akkeri tundurspillisins og tókst að hefja sig um borð, en tveimur var bjargað úr sjónum, og var annar þeirra, Guðmundur Guðmundsson, Kárastíg 9, formaður á bátnum, meðvitundarlaus, er honum var bjargað. ,,Græðir" var á leið hjeðan  til Keflavíkur, er slys þetta vildi til. Hafði báturinn legið hjer síðan fyrir áramót til viðgerðar, vegna smá óhapps, sem vildi til í vjel báteins, en vegna skipasmiðaverkfallsins hafði viðgerðin dregist svona lengi. Formaðurinn, Guðmundur Guðmundsson, og einn háseta hans voru í stýrishúsinu, er áreksturinn varð. Fjórir hásetanna voru í klefa fram í, en vjelamaður í vjelarrúmi. Alt í einu ,sáu þeir, sem í stýrishúsinu voru, Ijósglampa og í sömu svipan skipið, sem stefndi á þá. Guðmundur formaður kallaði þá þegar" fram í til háseta sinna og bað þá forða sjer, því hann sá hvað verða vildi. Vjelamaður heyrði til  Guðmundar og spurði hann, hvort nokkuð  væri um að vera og svaraði hann að svo væri. Annars bar þetta svo bráðan að, að mennirnir á " Græði" geta ekki gert sjer neina grein fyrir, hvernig slysið bar að, eða hvernig þeir björguðust. Fjórum hásetanna tókst að komast upp á akkeri tundurspillisins um leið og áreksturinn varð, og síðan upp í skipið. Vjelamaðurinn kom  upp í stýrishúsið um leið og áreksturinn varð.
Sá hann stefni tundurspillisins stefna beint á stýrishúsið. Án þess að geta gert sjer grein fyrir með hverjum hætti, tókst vjelamanni að klífa fram á rá, sem lá frá mastrinu að stýrishúsinu. Guðmundur formaður náði taki í tundurspillirinn, en hlaut högg um leið og báturinn sökk, og missti meðvitund. , Nokkur tími leið, þar til skipshöfnin á tundurspillinum setti út bát og náði þeim tveim mönnum, sem í sjónum voru.
Vjeibáturinn "Græðir" var 31 smálest að stærð. Báturinn var gamall, en endurbyggður árið 1939 og vjelin í honum tveggja ára gömul. Var þetta því hið besta skip. Eigandi skipsins var Steindór Pjetursson útgerðarmaður í Keflavík. Keypti hann bátinn s.l. haust. Fyrir jól fór "Græðir" í nokkrar veiðiferðir, en þetta var fyrsta ferð hans eftir viðgerð, eins og fyrr er sagt.

Morgunblaðið. 14 febrúar 1942.

Flettingar í dag: 1473
Gestir í dag: 304
Flettingar í gær: 687
Gestir í gær: 260
Samtals flettingar: 1861552
Samtals gestir: 478876
Tölur uppfærðar: 27.5.2020 20:24:55