20.05.2017 10:32

735. Karmöy ÍS 526.

Karmöy ÍS 526 var smíðaður í Noregi árið 1934. Eik og fura. 8 brl. 24 ha. Rapp vél. Eigendur voru Símon Ólsen og Ole Gabriel Syre á Ísafirði frá árinu 1936. Ný vél (1957) 52 ha. Lister díesel vél. Karmöy sökk í Mjóafirði á Ísafjarðardjúpi 25 september 1961 og fórust með honum tveir menn, feðgarnir Símon Ólsen og Kristján Ragnar Ólsen. Báturinn náðist upp og var ekkja Símonar, Magnúsína Ólsen, eigandi bátsins frá janúar 1963. Báturinn var seldur 23 júlí 1964, Kjartani H Sigmundssyni á Ísafirði, hét Reynir ÍS 526. Báturinn sökk 13 ágúst 1974. Áhöfnin, 2 menn, björguðust um borð í Jóhönnu ÍS 159.


Karmöy ÍS 526.                                                                                           Ljósmyndari óþekktur.

  Upphaf rækjuveiða og rækjuvinnslu

Sumarið 1935 byrjuðu Norðmennirnir Símon Ólsen og Ole Gabriel Syre rækjuveiðar með útflutning í huga. Þeir öfluðu ágætlega og um sumarið var selt nokkuð af ísaðri rækju til Englands, en hún líkaði ekki og var því ekki um frekari sölu að ræða. Rækjan sem veiddist í Ísafjarðardjúpi var of smá, til að vera markaðsvara sem ferst vara í Bretlandi. Fyrstu tilraunir til rækjuveiða í Ísafjarðardjúpi gerðu þeir félagar reyndar árið 1924.
Veiðin gekk vel, en ekki reyndist nokkur leið að selja rækjuna, svo að félagarnir snéru sér að öðrum verkefnum. Fjórum árum seinna gerði Sveinn Sveinsson frá Felli tilraun til rækjuveiða, en hún bar lítinn árangur. Árið 1934 gerðu þeir Símon Olsen og Syre svo aðra tilraun sína. Sláturfélag Suðurlands tók þá af þeim ópillaða rækju og hafði til sölu í matardeild félagsins í Hafnarstræti í Reykjavík. En áhugi kaupenda á Íslandi reyndist ennþá takmarkaður. Árið eftir fóru þeir svo að reyna fyrir sér með útflutning í huga, eins og áður sagði. Þeir félagar áttu báðir eftir að koma mikið við sögu þessarar nýju atvinnugreinar á Ísafirði.  

Heimild: Frá línuveiðum til togveiða. Jón Páll Halldórsson 1999.


Rækjuvarpan á Karmöy ÍS 526.                                                         Ljósmyndari óþekktur.

       Rækjuverksmiðjan á Ísafirði

Sumarið 1935 byrjuðu tveir Norðmenn á Ísafirði að veiða rækjur og öfluðu þeir ágætlega. Þá um sumarið var selt lítilsháttar af ísuðum rækjum til Englands, en þær líkuðu ekki og var því ekki um frekari sölu að ræða. Síðan hefir, að minnsta kosti þrívegis, verið reynt til að koma ísuðum rækjum á markað í Englandi, en farið á sömu lund og áður. Talið er að þær rækjur, sem til þessa hafa veiðzt vestra, séu of litlar, til þess að senda þær ferskar á Lundúnamarkaðinn. Síðari hlula sumars 1935, þótti það þegar sýnt, að svo mikið væri um rækjur í Ísafjarðardjúpi, að þeirra hluta vegna væri tiltækilegt að reisa niðursuðuverksmiðju, er gerði þær að markaðshæfri og seljanlegri vöru. Snemma vetrar, þetta sama ár, var svo hafinn undirbúningur að því að verksmiðjan yrði reist. Um miðjan júni 1936 var verksmiðjan komin upp og tók þá þegar til starfa. Ísafjarðarkaupstaður reisti verksmiðjuna með tilstyrk Fiskimálanefndar.


Ekkert op var á pokanum til losunar, heldur var rækjan háfuð úr pokanum með handháf. Feðgarnir Kristján og Símon Ólsen að háfa rækju úr nótinni.     Ljósmyndari óþekktur.
  
Þorvaldur Guðmundsson var ráðinn til þess að veita verksmiðjunni forstöðu. Snemma á árinu 1935 sigldi Þorvaldur til Danmerkur og Þýzkalands, til þess að kynna sér ýmiskonar niðursuðu. Dvaldi hann aðallega í niðursuðuverksmiðjum og rannsóknarstofum, er snertu þessa grein framleiðslunnar. Í þessari sömu ferð fór hann og einnig til Noregs og athugaði þar margar verksmiðjur. Í fyrstu eftir að rækjuverksmiðjan tók til starfa stundaði aðeins einn bátur rækjuveiðar, Karmöy, en þeim fjölgaði brátt upp í 7 og voru þeir allir við veiðar fram á haust, en þá fækkaði þeim aftur og hafa ekki verið nema þrír og fjórir í vetur. Veiðin hefir yfirleitt gengið ágætlega og mikla betur en menn bjuggust við í upphafi. Mestur afli, sem komið hefir á einn bát á dag er um 1400 kg. Til samanburðar má geta þess, að í Danmörku er það talin góð veiði, ef bátur fær 100 -200 kg á dag.

Ægir. 30 árg. 1 mars 1937.


Toggálginn á Karmöy.                                                                Ljósmyndari óþekktur.

    Báts er saknað í Ísafjarðardjúpi

              Feðgar eru á bátnum

Rækjuveiðabátsins Karmöy frá Ísafirði er saknað frá því í gær. Haldið hefur verið uppi leit að bátnum á sjó og landi í dag, en án árangurs. Á bátnum eru tveir menn , feðgar, Símon Olsen og Kristján sonur hans.
 Karmöy, sem er 8 tonn að stærð fór frá Ísafjarðardjúpi í gærmorgun og veiddi í Mjóafirði. Veður var allhvasst af NA. Er báturinn kom ekki að landi á tilskildum tíma í gær, var reynt að hafa talsamband við hann, en það tókst ekki. Var þá hafin leit að bátnum. Snemma í morgun fór vélbáturinn Hrönn frá Ísafirði út að leita hans. Sigldi Hrönn um allt Ísafjarðardjúp og inn í alla firði, en skipverjar urðu einskis varir. Símasaband var haft við alla bæi í djúpinu, sem símasamband er við, og fólk beðið um að skyggnast eftir Karmöy. Fyrir hádegi í dag fór flokkur manna frá Ísafirði inn í Djúp, til að ganga á fjörur, þar sem engin byggð er nærri, en þegar síðast fréttist höfðu þeir ekki heldur orðið varir við nokkuð, sem bent gæti til afdrifa bátsins og mannanna tveggja. Veður er mjög slæmt til leitar. NA stormur og dimmviðri. 
Síðustu fréttir Seint í gærkvöldi fregnaði mbl að fundizt hefðu snemma í gærmorgun rækjukassar í Þernuvík, sem ugglaust væri talið að væru af Karmöy.

Morgunblaðið. 27 september 1961.

      Feðgarnir á "Karmöy" taldir af

Fullvíst er nú talið, að rækjuveiðabáturinn Karmöy frá Ísafirði hafi farizt og með honum tveir menn, feðgarnir Simon og Kristján Ragnar Olsen. Eins og skýrt var frá í blaðinu í gær, fór báturinn til veiða á mánudagsmorgun í og út af Mjóafirði. Veður var vont, og þegar báturinn kom ekki fram um kvöldið, var hafin leit og leitað alla nóttina. Á þriðjudagskvöld fundust svo hlutir í Þernuvík, utarlega í Mjóafirði, og grennd, sem eru ugglaust úr Karmöy. Þar á meðal má nefna rækjukassa, hluta af lúkarkappa, lestarhlera og reimuð stígvél.
Í gær var lítt sem ekkert hægt að leita á fjörum vegna veðurs, en ekki er talið, að mennirnir séu lengur á lífi. Simon Olsen var 63 ára að aldri, ættaður frá eynni Körmt (Karmöy) í Noregi. Hann ásamt öðrum Norðmanni var upphafsmaður rækjuveiða hér við land og því höfundur merkilegs kafla í atvinnusögu Íslands. Hann lætur eftir sig konu og 2 uppkomin börn. Kristján Ragnar, sonur hans, var 23 ára gamall. Hann lætur eftir sig konu og barn á fyrsta ári.

Morgunblaðið. 28 september 1961.
Flettingar í dag: 222
Gestir í dag: 79
Flettingar í gær: 426
Gestir í gær: 129
Samtals flettingar: 2392266
Samtals gestir: 622007
Tölur uppfærðar: 21.9.2021 13:34:00