10.06.2017 10:39

Ísbjörn ÍS 15. TFCQ.

Ísbjörn ÍS 15 var smíðaður í Skredsvik í Svíþjóð árið 1946. Eik. 80 brl. 215 ha. Polar díesel vél. Eigandi var Samvinnufélag Ísfirðinga á Ísafirði frá júnímánuði sama ár. Skipið var selt 21 desember 1953, Sighvati Bjarnasyni og Óskari Sigurðssyni í Vestmannaeyjum, hét Erlingur lV VE 45. Ný vél (1956) 390 ha. MWM díesel vél. Skipið sökk vestur af Vestmannaeyjum þegar það var á leið á Selvogsbanka 22 mars 1963. Tveir menn fórust en átta menn björguðust við illan leik í gúmmíbjörgunarbát sem var um borð. Stuttu síðar bjargaði áhöfnin á Halkion VE 205 mönnunum um borð og þaðan til lands heilum á húfi.


Ísbjörn ÍS 15 á pollinum á Ísafirði.                                                    (C) Sigurgeir B Halldórsson.


Ísbjörn ÍS 15 á Vestfjarðamiðum.                                                        (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Ísbjörn ÍS 15 að landa síld á Siglufirði.                                        Ljósmyndari óþekktur.

        Svíþjóðarbátur til Ísafjarðar

Hingað til Ísafjarðar kom á miðvikudagskvöld fyrri báturinn, sem Samvinnufjelag Ísfirðinga fær frá Svíþjóð. Heitir hann ísbjörn, ÍS 15. Er hann byggður eftir teikningu Bárðar G. Tómassonar, skipaverkfræðings og er mældur úti 87 brúttó tonn. Í skipinu er 215 hestafla Polar-Dieselvjel. Skipstjóri á skipinu hingað til lands var Bjarni Fannberg, en stýrimaður Ólafur Júlíusson, en hann mun verða skipstjóri á skipinu. Hann hefir verið skipstjóri á Sæbirni frá því hann var byggður. Ísbjörn fór frá Gautaborg 5. júní og reyndist skipið vel. Hinn bátur Samvinnufjelagsins er væntanlegur um mánaðamótin og mun hann bera nafnið Finnbjörn.

Morgunblaðið. 14 júní 1946. 

 Vélbátur frá Vestmannaeyjum sekkur

         Tveir af tíu manna áhöfn farast   

Í gærmorgun sökk vélbáturinn Erlingur IV VE 45 frá Vestmannaeyjum er hann var á leið á veiðar vestur á Selvogsbanka. Báturinn var kominn um 30 mílur vestur fyrir Vestmannaeyjar. Á bátnum var 10 manna áhöfn, 8 björguðust, en tveggja er saknað. Var þeirra leitað af 16 vélbátum, flugvélum og loks varðskipinu Ægi í gærdag, en án árangurs. Þeir sem fórust voru Samúel Ingvason, háseti og Guðni Friðriksson, 1. vélstjóri. Í gær náði blaðið tali af Óskari Þórarinssyni stýrimanni og Eiði Marinóssyni 2 vélstjóra og fékk frásögn þeirra af Slysinu. Frásögn Óskars er á þessa leið:
Við fórum út á þriðja tímanum í nótt. Ég veit ekki nákvæmlega hvenær, því ég svaf í klefa þeim er ég hef með skipstjóranum undir brúnni. Ferðinni var heitið vestur á Selvogsbanka. Stórsjór var og 8-9 vindstig. Við vorum með þorskanet og báturinn að sjálfsögðu tómur nema hvað ballest var í honum frá því á síldinni en þá voru auk steypunnar sem er í botninum, sett járnstykki undir hillurnar lestinni. Búið var að ræsa kokkinn og var hann farinn að laga morgunverðinn. Í brúnni voru skipstjórinn og Ásberg Lárenziusson og 1 vélstjóri en 2 vélstjóri svaf aftur í káetu. Hásetarnir 5 voru frammi í lúkar. Klukkan mun hafa verið rúmlega 6 þegar brotsjór kom á bakborða aftan til á skipið og kastar því yfir á stjórnborða og sennilega hefir stjórnborðsgangurinn fyllst um leið og það valdið því að skipið rétti sig ekki við. Við þetta vöknuðu allir, enda hentust menn fram úr kojunum. Allt skeði nú með slíkum hraða að erfitt er að gera sér grein fyrir atvikum í smáatriðum.
Ég fór strax upp úr klefanum og upp í "bestikkið. Þá var skipið komið á hliðina og brúin hálf full af sjó og talstöðin á kafi. Það var því ekki hægt að komast að henni til að senda út neyðarkall. Skipstjórinn og vélstjórinn voru að losa gúmmíbátinn og tókst fljótt að ná honum úr kassanum. Reyndur þeir að kippa í spottann til að báturinn blésist upp en það tókst ekki. Þá var skipið að sökkva og var því ekki um annað að gera en kasta sér í sjóinn með bátinn óuppblásinn. Loks tókst að blása hann upp, en þá var mjög af skipstjóranum dregið og hann stórlega skorinn á hendi eftir snúruna og að drukknun kominn við aðfarirnar. Við komumst svo 8 í bátinn en Samúel og Guðni sáust ekki, nema hvað við urðum var við annan þeirra er við vorum að yfirgefa skipið. Ég held að allir hafi verið syndir þótt ég viti ekki um þá Samúel og Guðna.
Sumir mannanna voru fáklæddir aðeins í þunnum nærfötum og varð því fljótt kalt einkum eftir að þeir voru komnir upp í gúmmíbátinn. Ég get ekki sagt nákvæmlega hvað við vorum lengi að velkjast í sjónum en það leið alllöng stund þar til báturinn var upp blásinn. Við skutum upp flugeldum sem voru í bátnum og ég var með reykblys og veifaði því. Þetta varð til að vekja athygli Halkions á okkur þar sem hann sigldi nokkru á eftir okkur. Við vorum svo í gúmmbátnum í um 45 mínútur þar til Halkion kom að okkur. Það hefði ekki mátt tæpara standa því sumir voru þá orðnir svo kaldir. Einn hefði ekki lifað vosbúðina af ef við hefðum þurft að bíða hjálpar lengur. Allir á skipinu voru ungir menn. Þeir sýndu ró og kjark meðan beðið var eftir því að komast í gúmmíbátinn. Þó var ekki þægilegt að velkjast í sjónum í háum og kröppum öldunum, sem færðu okkur í kaf af og til.
Ég vil að síðustu biðja blaðið að koma innilegu þakklæti okkar til skipshafnarinnar á Halkion, sem tók okkur eins og bezt verður á kosið.
Eiður Marinósson, 2 vélstjóri segir svo frá:
Ég svaf aftur í káetu og var þar einn er hnúturinn kom á skipið. Ég vaknaði eiginlega ekki fyrr en ég var kominn fram á gólf og flaut þar í sjónum, sem fossaði inn í káetuna. Ég hafði lagt mig í öllum fötunum. Mér gekk vel að komast upp og þar voru fyrir skipstjóri og vélstjóri á brúnni og voru að eiga við bátinn. Það er óhætt að segja að þarna hefir gúmmíbáturinn bjargað okkur, því engum trébát hefði verið hægt að koma í sjó á þessum tíma. Það voru bara vandræðin með snúruna. Við fórum þó rétt að öllu, enda fór svo að lokum að hún verkaði á gastækið, þótt illa gengi. Við fundum ekki mikið fyrir kuldanum meðan við vorum í sjónum en þegar við komum upp í gúmmíbátinn fórum við fljótt að finna til kuldans. Þarna vantaði okkur illa lítinn neyðarsendi. Ef ekki hefðu verið bátar jafn nálægt okkur hefðu einhverjir farið illa af vosbúðinni. Einn skipsfélaganna er á sjúkrahúsi. Eg vil endurtaka þakklæti okkar til skipshafnarinnar á Halkion fyrir hjálpina.
Strax og vitað var um slysið bauð Landhelgisgæzlan aðstoð sína og var hún von bráðar þegin. Verið var þá að gera við benzínleka á landhelgisvélinni og þar sem engan tíma mátti missa tók landhelgisgæzlan flugvél á leigu hjá Flugfélagi íslands og sendi áhöfn sína á henni til leitar. 16 bátum var raðað upp með 1,5 mílu millibili og síðan flaug vélin fram og aftur yfir bátaröðina og stjórnaði leitinni. Þannig voru leitaðar 6 mílur í vindátt frá þeim stað er báturinn fór niður og farið þrisvar yfir svæðið. Í síðustu umferð var Ægir kominn á vettvang. Leitin bar þó, sem fyrr segir, engan árangur. Brak og annað lauslegt úr bátnum var á reki á sjónum. Skipstjórinn á Erlingi IV var svo þrekaður að ekki var hægt að ná tali af honum í gær. Hann var stórskaddaður á höndum, tognaður í baki og auk þess hætt kominn við baráttuna við að fá gúmmbátinn blásinn upp. Egill Ragnarsson, háseti, sem fluttur var á sjúkrahúsið um hádegið í gær, er Halkion kom til hafnar með skipbrotsmennina, var á batavegi í gærkvöldi. .
Erlingur IV  VE 45 var 80 brúttólestir að stærð, byggður úr eik í Svíþjóð 1946. Báturinn hét áður ísbjörn og hafði fyrir nokkrum árum verið keyptur frá Ísafirði. Hann var eign Sighvatar Bjarnasonar og fl. í Vestmannaeyjum.

Morgunblaðið. 23 mars 1963.                 

             Fimm þeirra farnir niður  

Erlingur IV VE 45 var smíðaður í Svíþjóð árið 1946. Það ár voru þar smíðaðir sjö bátar eftir sömu teikningu. Nú eru aðeins tveir þeirra enn ofansjávar. Bátarnir voru: Hafdís, sem brann og sökk á Selvogsbanka árið 1960, Freydís, heitir nú Sigurfari og er á Patreksfirði, Gunnbjörn, sem síðar var skírður Hamar og hvolfdi á Faxaflóa í bezta veðri s.l. sumar, Ísbjörn, sem síðar var skírður Erlingur IV. og sökk nú, Borgey, sem hvolfdi út af Hornafirði, þegar árið 1946 og fórust þá sex menn, Snæfugl, sem enn er til austur á Reyðarfirði og Ásþór er skírður var síðar Bergur og hvolfdi í vetur á Faxaflóa. Hafa því fjórir þessara sjö báta farizt með líkum hætti.

Tíminn. 23 mars 1963.

Flettingar í dag: 1446
Gestir í dag: 238
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 740098
Samtals gestir: 55828
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 13:33:32