25.06.2017 08:51

181. Sigurður Bjarnason EA 450. TFSW.

Togskipið Sigurður Bjarnason EA 450 var smíðaður hjá V.E.B. Schiffswerft í Stralsund í Austur Þýskalandi árið 1958. 249 brl. 800 ha. MWM díesel vél. Smíðanúmer 402. Eigandi var Súlur h/f á Akureyri (Leó Sigurðsson útgerðarmaður). Skipið kom til heimahafnar, Akureyrar 21 desember 1958. Skipið var selt 6 október 1970, Útgerðarfélaginu Höfn á Siglufirði, skipið hét Hafnarnes SI 77. Selt 25 ágúst 1975, Æðarsteini h/f á Djúpavogi, hét Mánatindur SU 95. Selt 2 mars 1981, Fiskverkun Garðars Magnússonar h/f í Njarðvík, hét Mánatindur GK 240. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá 27 október árið 1983.


Sigurður Bjarnason EA 450.    (C) Snorri Snorrason.    Úr safni Hauks Sigtryggs Valdimarssonar.


Skipinu gefið nafn 30 ágúst 1958.                     Mynd úr safni mínu.


Sigurður Bjarnason EA 450 í reynslusiglingu.                                                Mynd úr safni mínu.


Brú skipsins að innan.                                                                                  Mynd úr safni mínu.


Sigurður Bjarnason EA 450. Líkan.                                        (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


Mánatindur GK 240. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra.                         (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Fyrirkomulagsteikning af HRB-42 (Tappatogara)                                       (C) Hjálmar R Bárðarson.

      Samið um smíði 12 togskipa í               Stralsund í Austur Þýskalandi

Þegar ríkisstjórn Hermanns Jónassonar tók við af ríkisstjórn Ólafs Thors 1 júlí 1956 varð Lúðvík Jósepsson sjávarútvegs og viðskiptaráðherra. Þá var áhveðið á Alþingi með lögum frá 27 desember 1956 að ríkisstjórninni væri heimilt að láta smíða í Austur Þýskalandi 6 og síðar önnur 6, 150 til 250 rúmlesta stálfiskiskip, sem síðan yrðu afhent sveitarfélögum eða útgerðarfyrirtækjum. Jafnframt var ríkisstjórninni heimilað að taka lán f.h. ríkissjóðs til þessara skipasmíða og jafnframt að endurlána allt að 80% af andvirði hvers skips.
Samkvæmt þessari heimild fól ríkisstjórnin hlutafélaginu DESA í ársbyrjun 1957 að hafa milligöngu við stjórnvöld Austur Þýskalands um smíði skipanna. Samningur var gerður 14 janúar 1957 um smíði fyrstu skipanna og síðan viðbótarsamningur í maí mánuði sama árs. Jafnframt voru gerðir samningar um kaup á aðalvélum, togvindum og verulegum hluta af öðrum búnaði skipanna frá vesturlöndum (Vestur Þýskalandi, Danmörku, Noregi, Hollandi og Bretlandi) svo sem díeselvélar, sjálfvirkur stýribúnaður, losunarvindur, akkerisvindur, vökvadrifnar vindubómur, ratsjártæki, fisksjár, astictæki, áttavitar, dýptarmælar, plastklæðning, koparskrúfur, álgluggar, eldhústæki og fl.
Þessi 12 skip voru smíðuð í skipasmíðastöðinni í Stralsund, sem nefndist V.E.B. Schiffswerft Stralsund (Volks Eigene Betrieb, þ.e. Þjóðarinnar eigið fyrirtæki). Árið 1958 var tekið 50 milljón króna lán í Sovétríkjunum, sem átti að nota til að fjármagna skipakaup íslenska ríkisins í Austur Þýskalandi. Þetta lán var aldrei nýtt nema að hálfu leyti, þ.e. sá hluti lánsins sem fékkst í yfirfæranlegum gjaldeyri, þar sem að Íslendingar áttu verulega inneign á jafnkeypisreikningum í Austur Þýskalandi. Sá búnaður sem keyptur var á vesturlöndum þurfti að greiðast í frjálsum gjaldeyri og taldist því einungis hluti af verðmæti austur þýsku skipanna með í jafnvirðisviðskiptum milli Íslands og Austur Þýskalands.
Stjórnarráðið fól Hjálmari R Bárðarsyni Skipaverkfræðingi að teikna þessi skip, semja smíðalýsingu og aðstoða DESA sem tækniráðunautur við samninga og framkvæmd þessara fiskiskipakaupa. Þessi gerð fiskiskipa nefndist síðan HRB-42 til aðgreiningar frá öðrum gerðum skipa. Þessi 12 skip voru öll eins í aðalatriðum, nema hvað 2 þeirra voru ekki búin sérstaklega til togveiða. Form bols skipanna allra var eins. Aðalmál skipanna voru þessi; Heildarlengd 38,65 m., lengd milli lóðlína 34 m., breidd á bandi 7,30 m. og dýpt 3,60 m. Skipin mældust rétt innan við 250 rúmlestir brúttó.

Þættir úr þróun Íslenskra fiskiskipa. Hjálmar R Bárðarson 2007.

      Nýja togskipið, Sigurður Bjarnason
          kemur á morgun til Akureyrar

Fallegt og traustbyggt skip og hið fyrsta þeirra Austur-þýzku togskipa, sem kemur til Norðurlands. Eigandi er Súlur h.f. á Akureyri. Framkvæmdastjóri er Leó Sigurðsson útgerðarmaður á Akureyri.
Leó Sigurðsson, útgerðarmaður á Akureyri, er kominn heim fyrir nokkrum dögum frá Þýzkalandi, þar sem hann fylgdist með lokasmíði skipsins og tók á móti því. Nafn þess er Sigurður Bjarnason. En skipið kemur væntanlega hingað til Akureyrar á morgun. Blaðið náði sem snöggvast tali af Leó Sigurðssyni í gær. Sagðist hann vona að skipið næði hingað á áætluðum tíma og færi það á togveiðar upp úr áramótum. Hann sagði einnig að þessi nýju togskip, sem nú eru að koma til landsins, væru falleg og smíði þeirra hin vandaðasta, um sjóhæfni vissi hann ekki, en þó hefði Guðmundur Péturs, hið nýja skip þeirra Bolvíkinga, hið fyrsta þeirra 12, 250 smálesta skipa, reynzt gott í sjó. Tíu hinna nýju skipa eru útbúin til togveiða, þeirra á meðal hið nýja skip, Sigurður Bjarnason. En tvö eru útbúin til línu og þorskveiða aðeins. Skipstjóri er Tryggvi Gunnarsson, stýrimaður Steingrímur Aðalsteinsson og fyrsti vélstjóri Þorsteinn Magnússon. Allir eru menn þessir héðan úr bænum svo og aðrir þeir skipverjar, sem fara á hinu nýja skipi til veiða eftir áramótin, 14 manna áhöfn alls. Sigurður Bjarnason verður gerður út héðan. Eyfirðingar fagna komu hins nýja skips og óska því og áhöfn þess heilla. Nýja skipið, sem fara á til Dalvíkur, mun vera á leiðinni til landsins.

Dagur. 20 desember 1958.

Flettingar í dag: 283
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 196
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 722469
Samtals gestir: 53631
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 16:30:35