16.07.2017 08:19

462. Glófaxi NK 54. TFIM.

Glófaxi NK 54 var smíðaður hjá Frederikssund Skibsverft í Frederikssund í Danmörku árið 1955. 64 brl. 260 ha. Alpha díesel vél. Eigandi var Sveinbjörn Á Sveinsson skipstjóri og útgerðarmaður í Neskaupstað frá 17 desember sama ár. Kom til heimahafnar á jóladag 1955. Glófaxi var lengdur í Dráttarbrautinni í Neskaupstað árið 1961. Mældist eftir það 74 brl. Skipið var selt 12 desember 1969, Eskey h/f á Höfn í Hornafirði, hét Eskey SF 54. Ný vél (1970) 431 ha. Caterpillar díesel vél, 313 Kw. Selt 18 október 1982, Geir h/f og Árna Helgasyni á Þórshöfn, hét Geir ÞH 150. Frá 20 desember 1988 var Þór h/f á Þórshöfn eigandi skipsins. 31 desember 1989 er skráður eigandi Geir h/f á Þórshöfn, hét þá Guðrún Björg ÞH 60. Árið 1997 er skipið skráð í eigu Flóka ehf á Húsavík, sama nafn og númer. Skipið var selt árið 2002, Eyjanesi ehf í Garði, hét Eyjanes GK 131. Selt 2003, Kolsvík ehf á Patreksfirði, hét Brokey BA 336. Skipið sökk í Reykjavíkurhöfn 1 desember 2007 en náðist upp aftur en var ónýtur eftir. Skipið var rifið í Gufunesi árið 2008, en ekki tekinn af skipaskrá fyrr en 29 desember árið 2011.

 
Glófaxi NK 54 á síldveiðum sumarið 1959.                                                            (C) Ágúst Blöndal.
 
Glófaxi NK 54 við bryggju á sjómannadag í Neskaupstað.         Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.
 
Glófaxi NK 54 á netaveiðum vertíðina 1960.                                         Ljósmyndari óþekktur.
 

               Glófaxi N.K. 54

Á jóladag kom hingað frá Danmörku nýr fiskibátur, sem hlotið hefur nafnið Glófaxi og einkennisstafina N. K. 54. Glófaxi er smíðaður í Fredriksund 64 brúttólestir að stærð með 240-260 hestafla Alpha-dísilvél. Báturinn er hinn sterklegasti og vandaðasti að sjá og er búinn öllum þeim öryggis og siglingartækjum sem tíðkast í bátum af þessari stærð. Ganghraði bátsins á leið til landsins reyndist 9 sjómílur á klukkustund. Hreppti hann misjafnt veður og féll skipverjum hið bezta við bátinn. Glófaxi verður í vetur gerður út frá Keflavík. Eigandi hans, Sveinbjörn Sveinsson, verður sjálfur skipstjóri. Austurland býður Glófaxa velkominn í norðfirzka bátaflotann og óskar Sveinbirni til hamingju með þennan myndarlega bát. Þess má geta, að Norðfirðingar eiga í smíðum í Danmörku tvo báta af sömu stærð og gerð og Glófaxi er. Mun annar koma ekki löngu eftir áramótin, en hinn að vori.

Austurland. 30 desember 1955.

              Glófaxi stækkaður

Vélbáturinn Glófaxi NK 54 er nú kominn í slipp hér í Neskaupstað. Á að stækka bátinn og verður það gert á þann hátt, að hann verður sagaður sundur í miðju og aukið í hann tveim til tveim og hálfum metrum. Við þetta mundi burðarþol bátsins líklega aukast um nálægt 15 tonn og Glófaxi þá eftir stækkunina verða um 80 tonn. Ekki er gert ráð fyrir að þessi stækkun geri vélaskipti nauðsynleg og mun litið draga úr ganghraða bátsins. Þess er vænzt, að stækkuninni verði lokið fyrir vertíð. Astæðan fyrir því, að eigandi Glófaxa, Sveinbjörn Sveinsson, skipstjóri, ræðst í að láta stækka bátinn, er einkum sú, að hann telur hann full lítinn fyrir kastblökk til síldveiða, en þau tæki koma vafalaust í flesta báta á næstunni. Glófaxi er aðeins fárra ára gamall, smíðaður í Danmörku.

 

Austurland. 15 september 1961.

Flettingar í dag: 1913
Gestir í dag: 256
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 740565
Samtals gestir: 55846
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 16:29:32