22.07.2017 11:18

538. Hagbarður TH 1. TFVO.

Hagbarður TH 1 var smíðaður hjá Slippfélaginu í Reykjavík árið 1946. Eik. 47 brl. 160 ha. Lister díesel vél. Eigandi var Húsavíkurkaupstaður frá 20 júní 1946. Árið 1955 var báturinn lengdur og mældist þá 54 brl. Um leið var sett í hann ný vél, 240 ha. Lister díesel vél. Báturinn var seldur 18 janúar 1956, Útgerðarfélagi Húsavíkur h/f á Húsavík, sama nafn og númer. Um 1960 var umdæmisstöfum bátsins breytt, hét þá Hagbarður ÞH 1. Seldur 8 ágúst 1968, Halldóri G Halldórssyni og Útvör h/f í Keflavík, hét Hagbarður KE 115. Ný vél (1968) 250 ha. Caterpillar díesel vél. Seldur 10 desember 1969, Hag h/f í Keflavík, sama nafn og númer. Seldur 15 nóvember 1971, Gjafa h/f á Höfn í Hornafirði, hét Hagbarður SF 15. Báturinn sökk um 15 sjómílur vestur af Ingólfshöfða 13 október árið 1974. Áhöfnin, 4 menn, bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát og þaðan um borð í Fylki NK 102 frá Neskaupstað, tveimur klukkustundum síðar.


Hagbarður TH 1.                                                                                             (C) Guðni Þórðarson.


Hagbarði TH 1 hleypt af stokkunum hjá Slippfélaginu árið 1946.                       Mynd úr Víkingnum.


Hagbarður TH 1. Málverk.                                                                                           Málari óþekktur.


Áhöfnin á Hagbarði TH 1 vertíðina 1948. Efsta röð frá v: Guðmundur Halldórsson, Bjarni Þorvaldsson, Helgi Héðinsson, Halldór Bjarnason (með kaskeiti), Þórarinn Vigfússon, Þórður Ásgeirsson (framan við Halldór Bjarnason), við hlið hans Helgi Bjarnason og næstur honum er Helgi Ólafsson. Næsta röð frá v: Jósteinn Finnbogason (með hatt), Haukur Sigurjónsson, Guðni Jónsson, bak við hann er Gunnar Jónsson og lengst til hægri er Ingvi Hannesson (með hatt).        Ljósmyndari óþekktur.

           M.b. Hagbarður TH 1

 M.b. Hagbarður, er Slippfélagið í Reykjavík hefur smíðað fyrir Húsavíkurkaupstað, og var báturinn fullgerður fyrir yfirstandandi síldarvertíð. Það er ekki nein nýlunda lengur að sjá ný og glæsileg fiskiskip bætast við skipastólinn, og því hætta á að hverjum nýjum bát sé ekki nægilega mikill gaumur gefinn, en þessum nýja bát frá Slippfélaginu er vert að veita athygli, því hann mun vera eitt vandaðasta skip sinnar tegundar, sem smíðað hefur verið hér á landi, hvað allan útbúnað og frágang snertir. Vistarverurnar í bátnum eru allar þiljaðar með póleruðu birki og mahogany. Niðurgangur í hásetaklefann er afþiljaður og er þar skápur fyrir hlífðarföt. Í hásetaklefanum eru rúmgóðar hvílur fyrir átta menn. Til þæginda er innbyggður klæðaskápur og þvottaskál með rennandi vatni.
Úr hásetaklefanum er innangengt í afþiljað eldhús með olíukynntri eldavél. Eldhúsið er vel útbúið með skápum. Báturinn er 47 brúttósmálestir að stærð með 160 ha. Lister diesel vél. Þá er báturinn búinn sérstrakri Ijósavél, talstöð, dýptarmæli og vökvastýrisútbúnaði. Lyftingin á bátnum er straumlínulöguð og er herbergi skipstjóra þar aftan við stjórnklefann. En þar undir og aftan við vélarúmið er herbergi fyrir 6 menn, hvorutveggja hið vandaðasta. Báturinn er smíðaður úr valdri eik og mjög rammbyggður, enda ekkert til hans sparað.
Skuturinn fyrir ofan þilfar er úr stáli og er það nýlunda og gerir auðveldara að koma við viðgerðum ef afturendi bátsins verður fyrir hnjaski eins og oft vill verða, en það hefur viljað verða dýrt spaug á bátum þar sem böndin ganga langt niður í skip, fyrir utan hvað slíkt er oft orsök til leka sem erfitt er að ráða við og oft verður ekki vart við fyrr en seint og síðar meir þegar allt er orðið fúið. Járnfestingar í bátnum eru úr galvaniseruðu járni eða stáli, og borðin í vistarverunum eru brydduð með ryðfríum stálgjörðum, og annað er eftir því. Sérstaka athygli hefur vakið, hvað segla og reiðaútbúnaður bátsins er vandaður og vel frá honum gengið, og hefur Óskar Ólafsson hjá Slippfélaginu annast uppsetningu á því. Þá er allt fyrirkomulag í bátnum til mestu fyrirmyndar og til mikils sóma fyrir Slippfélagið og þá sérstaklega yfirsmiðinn þar, Peter Wigelund, sem teiknað hefur bátinn og séð um smíðina á honum.

Sjómannablaðið Víkingur. 9 tbl. 1 september 1946.

   Hagbarður SF 15 snarfyllti og sökk

Hagbarður SF 15 sökk um 15 sjómílur vestur af Ingólfshöfða um kl. 23 á sunnudagskvöld eftir að báturinn hafði rekizt á eitthvað í sjónum með þeim afleiðingum að óstöðvandi leki kom að skipinu. Mannbjörg varð. Hagbarður, sem var 45 tonn að stærð, smíðaður 1946, var á vesturleið, þegar slysið varð. Fjórir menn voru á bátnum og voru tveir þeirra sofandi frammi í lúkar þegar óhappið varð, en hinir voru á vakt. 1 vélstjóri var sofandi í lúkarnum, en hann vaknaði við áreksturinn og fór samstundis aftur í vélarrúm. Þá þegar var vélin farin að ausa yfir sig sjó og sýnt var, að dælurnar mundu ekki hafa undan. Var þá strax sent út neyðarkall og svöruðu Fylkir NK og Hornafjarðarradíó strax. Fylkir var með trollið úti að toga, en sleppti þegar úr pokanum og hífði trollið inn til þess að geta haldið á slysstaðinn. Skipverjar á Hagbarði losuðu annan gúmmíbátinn og fóru um borð í hann.
Tóku þeir með sér skipsskjölin og handtöskur ásamt neyðartalstöð, en aðeins liðu nokkrar mínútur frá því áreksturinn varð og þar til mennirnir voru komnir í björgunarbátinn, og nokkrum mínútum síðar sáu þeir Hagbarð sökkva í djúpið. Fylkir náði að miða björgunarbátinn út og eftir tvær klukkustundir fann hann bátinn, en þokusúld var á. Skipverjar voru þá nokkuð blautir og kaldir, en Fylkir kom með þá hingað til Hafnar í Hornafirði, snemma í morgun og voru sjópróf í dag. Ekki er vitað á hvað Hagbarður rakst, en mögulegt er að það hafi annaðhvort verið rekadrumbur eða hvalur.

Morgunblaðið. 15 október 1974.

Flettingar í dag: 322
Gestir í dag: 73
Flettingar í gær: 1392
Gestir í gær: 118
Samtals flettingar: 1782232
Samtals gestir: 460305
Tölur uppfærðar: 29.2.2020 12:57:57