05.09.2017 21:07

Bryggjurnar á Norðfirði.

Þær voru margar bryggjurnar á Norðfirði, sérstaklega á árunum upp úr 1920 og fram undir 1960-65 er þeim tók að fækka. Hver útgerð hafði sína eigin bryggju og má því segja að strandlengjan frá Naustahvammi í botni fjarðarins og alla leið út á Nes væri svo gott sem þakin bryggjum og kannski ekki skrýtið að þær hafi orðið leikvöllur ungu kynslóðarinnar í gegn um áratugina. Nú er lítið eftir sem minnir á sögu þessa liðinna tíma. Fáar eru þær eftir í dag og má nefna eina þeirra, ytri bæjarbryggjuna, en Hafnarhúsið stendur við hana. Þar er nú til húsa Smiðjumunasafn Jósafats Hinrikssonar og málverkasafn Tryggva Ólafssonar svo eitthvað sé nefnt. Innri bæjarbryggjan, aðalbryggja Norðfirðinga, þar til uppfyllingin neðan við Steininn og Kastalann var tekin í notkun árið 1963-64, var talsvert vestar. Á síldarárunum seinni var söltunarstöðin Sæsilfur með aðstöðu sína þar og reisti stálgrindarhús á henni. Síðar var það hús notað af trillusjómönnum á Norðfirði þar sem þeir höfðu aðstöðu til beitningar og fleira.


Ytri bæjarbryggjan á Norðfirði. Við bryggjuna liggja Magnús NK 84 og Stella NK 61. Til vinstri sér í vesturgafl Hafnarhússins. Myndin er tekin á Sjómannadaginn árið 1943.  (C) Björn Björnsson.


Húsið til vinstri er Steinninn, en þar fram af var gerð mikil uppfylling á árunum 1961-63 eða 64 og fékk það virðulega nafn að vera kölluð"bæjarbryggja". Stóri vélbáturinn í fjörunni neðan við Þórhólinn er Íslendingur NK 58, smíðaður í Neskaupstað árið 1936. Hann fórst í Faxaflóa 1 mars 1973 og með honum áhöfnin, 2 menn. Hét þá Íslendingur HU 16 og var gerður út frá Hvammstanga. Myndin er trúlega tekin um 1940.        (C) Björn Björnsson.
Flettingar í dag: 1533
Gestir í dag: 391
Flettingar í gær: 798
Gestir í gær: 301
Samtals flettingar: 1963985
Samtals gestir: 497385
Tölur uppfærðar: 12.8.2020 14:36:31