17.09.2017 07:33

B. v. Egill rauði NK 104. TFKC.

Egill rauði NK 104 var smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1947 fyrir Bæjarútgerð Neskaupstaðar. 656 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 716. Togaranum var hleypt af stokkunum hinn 24 janúar 1947 og kom hann fyrst til heimahafnar sinnar, Neskaupstaðar 29 júní sama ár. Steindór Árnason skipstjóri í Reykjavík sigldi Agli heim, en hann hafði verið ráðinn framkvæmdastjóri útgerðarinnar. Fyrsti skipstjóri á Agli rauða var Hergeir Elíasson. 1 vélstjóri var Þorsteinn Þórarinsson, báðir úr Reykjavík. Norðfjarðartogararnir Egill rauði og Goðanes voru fyrstu íslensku togararnir sem hófu veiðar á því svæði sem þjóðverjar kölluðu "Rosengarten" eða Rósagarðurinn. Á þessu svæði sem er um 90 til 110 sjómílur suðaustur af Stokksnesi,voru að jafnaði fjöldi þýskra togara sem öfluðu vel af hinum fagurrauða karfa sem einkenndi þessa gjöfulu veiðislóð. Egill rauði strandaði undir innra horni Grænuhlíðar, Teistanum í Ísafjarðardjúpi 26 janúar árið 1955. 5 skipverjar fórust en björgunarsveitum frá Ísafirði og víðar tókst að bjarga 29 skipverjum við hinar verstu aðstæður. Á strandstað togarans má ennþá sjá hluta af flaki hans, m.a. hluta af skrokki hans og margt fleira. Ég á mikið af myndum sem ég tók þarna í fjörunni af flakinu þegar ég var þarna á ferð sumarið 2005.


B.v. Egill rauði NK 104 við innri bæjarbryggjuna í Neskaupstað.                     (C) Björn Björnsson.


B.v. Egill rauði NK 104 á toginu.                                                                      (C) Snorri Snorrason.


B.v. Egill rauði NK 104 með fullfermi í óþekktri höfn (erlendis). Sjá má á myndinni að segl hefur verið dregið yfir afla á dekki togarans.                   Ljósmyndari óþekktur.


Egill rauði á siglingu. Séð fram eftir dekkinu fram á hvalbak. Mynd úr safni Gunnars Þorsteinssonar.


Egill rauði í smíðum hjá Alexander Hall haustið 1946.                         Úr safni Hafliða Óskarssonar.


Fyrirkomulagsteikning af Agli rauða NK 104.                                                      Úr safni mínu.

      Egill rauði var tvo sólarhringa                  og 5 klst frá Aberdeen

Egill rauði, fyrsti bæjartogari Neskaupstaðar, kom þangað frá Englandi í fyrradag kl. 5 eftir tveggja sólarhringa og 5 klst. ferð frá Aberdeen. Er þetta fyrsti togarinn af 7 sem fyrrverandi ríkisstjórn samdi um smíði á þar. Hundruð bæjarbúa fögnuðu komu togarans á bryggjunni, sem var fánum skreytt og fánar blöktu við hún um allan bæ.
Kór undir stjórn Sigdórs Brekkan söng kvæði er Guðmundur Magnússon Vinaminni hafði ort í tilefni af komu togarans. Ræður fluttu af stjórnpalli skipsins, Hjálmar Jónsson bæjarstjóri, Bjarni Þórðarson stjórnarform. bæjarstj., Árni Vilhjálmsson erindreki frá Seyðisfirði, er var sérstakur fulltrúi Fiskifélagsins við móttöku togarans, og Lúðvík Jósefsson alþingismaður, en mannfjöldinn hyllti skipshöfn og skip með margföldu húrrahrópi. Að því loknu skoðaði almenningur skipið og þótti sérstaklega mikið til um íbúðir skipshafnar. Um kvöldið hafði bæjarstjórn boð inni fyrir skipshöfnina og bæjarbúa almennt og sóttu það á þriðja hundrað manns. Jóhannes Stefánsson stjórnaði hófinu. Sr. Guðmundur Helgason flutti ræðu en Guðrún Gísladóttir, formaður Slysavarnafélags kvenna flutti kvæði. Þá var almennur söngur. Jón Guðmundsson eftirlitsmaður ríkisstjórnarinnar með smíði togaranna í Englandi gaf glögga lýsingu á skipinu. Kvað hann Egil sérstaklega vandaðan að öllum frágangi og væru nýsköpunartogararnir íslenzku taldir með glæsilegustu fiskiskipum í heimi. Egill rauði er 648 tonn eða 6 tonnum stærri en Ingólfur Arnarson. Ganghraði hans í reynsluför var 13,5 sjómílur. Olíueyðsla er minni en á hinum fyrri togurum, eða 6,7 tonn á sólarhring með 11,4 mílna gangi. Bæjarútgerð Neskaupstaðar er eigandi skipsins, stjórn hennar skipa, Bjarni Þórðarson formaður, Lúðvík Jósefsson og Eyþór Þórðarson. Framkvæmdastjóri er Steindór Árnason. Skipstjóri er Hergeir Elíasson, 1. vélstjóri Þorsteinn Þórarinsson, báðir úr Reykjavík, en 14 menn af áhöfninni eru úr Neskaupstað. Skorsteinsmerkið er hvít stjarna á alrauðum reykháf. Egill rauði leggur af stað til Reykjavíkur í dag en þar á að setja í hann bræðslutæki.

Þjóðviljinn. 1 júlí 1947.

    Norðfjarðartogararnir veiða karfa                         á nýjum miðum

Togarinn Egill rauði kom inn í fyrradag með 330 tonn af karfa, sem fóru til vinnslu á þremur stöðum á Austfjörðum.
Á Seyðisfirði voru lögð upp 140 tonn og voru 40 tonn af þeim hraðfryst. Á Norðfirði losaði togarinn 190 tonn og fóru 58 tonn til Eskifjarðar til hraðfrystingar. Karfi þessi, sem er ekki mjög stór en mjög fallegur, er veiddur á miðum út af Austfjörðum, sem íslenzkir togarar hafa ekki áður sótt, en þar eru hinsvegar að staðaldri um 30 þýzkir togarar, sem kalla miðin Rosengarten eða Rósagarðinn. Á miðunum er 250 til 285 faðma dýpi. Norðfjarðartogararnir, Egill rauði og Goðanes, munu halda áfram karfaveiðum. Þessar veiðar skapa mikla vinnu, um 250 manns á Norðfirði, Seyðisfirði og Eskifirði fengu vinnu við losun og vinnslu aflans úr þessari veiðiferð Egils rauða.

Þjóðviljinn. 5 júlí 1951.

Flettingar í dag: 561
Gestir í dag: 152
Flettingar í gær: 1373
Gestir í gær: 429
Samtals flettingar: 1924927
Samtals gestir: 488262
Tölur uppfærðar: 15.7.2020 23:05:57