15.12.2017 21:40

Björgunarafrekið við Látrabjarg.

70 ár eru í dag síðan eitt mesta björgunarafrek í sögu Íslands var unnið við vægast sagt hrikalegar aðstæður. Björgunarmönnum frá Hvallátrum, Rauðasandi, Patreksfirði og víðar, tókst að bjarga 12 skipverjum af breska togaranum Dhoon FD 54 frá Fleetwood. 3 skipverjar fórust. Furðu sætir að enginn björgunarmanna hafi slasast eða látið lífið. Hlutu þeir verðskuldaðan heiður fyrir, bæði hér heima og erlendis. Óskar Gíslason ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður var ráðinn til að gera heimildarkvikmynd um þennan atburð. Kvikmyndin var frumsýnd í apríl árið 1949. Flest það fólk sem komið hafði að björguninni lék sjálft sig í myndinni. Þegar unnið var að kvikmyndatökunni í Kollsvík, Barðastrandasýslu, komu boð um að breski togarinn Sargon væri strandaður við Hafnarmúla við Patreksfjörð. Fylgdi Óskar "leikurum" sínum á strandstað og náði að festa á filmu björgun þeirra 6 skipverja sem enn voru á lífi.
Upptaka þessi var síðar felld inn í heimildarmyndina, en engar myndir höfðu verið teknar við björgun áhafnarinnar af Dhoon. Ég læt hér orð Arthurs Spenser skipverja af Dhoon fylgja með þegar hann sá til björgunarmanna undir bjarginu;" Ég gat ekki látið mér detta það í hug hvernig þeir hefðu komist á staðinn. Þegar ég svo sá það, hugsaði ég sem svo, að þessum mönnum væri ekki fisjað saman. Í mínum augum voru þessir menn eins og englaflokkur. Stórir og sterkir en þögulir menn, sem vissu hvað þeir voru að gera og hikuðu aldrei eitt andartak."
Þessi orð hins aðframkomna skipbrotsmanns segja allt sem segja þarf um kraft og áræði þeirra björgunarmanna frá Hvallátrum, Bræðrabandinu í Rauðasandshreppi og Patreksfirði sem lögðu líf sitt að veði til bjargar þeim sem ennþá voru á lífi um borð í Dhoon.
Þeir sem fórust um borð í Dhoon hétu:
Fred Kirby skipstjóri, Harry Ellison 1 stýrimaður og Fred Wolfenden háseti.


Björgun skipverja af Dhoon.


Dhoon FD 54.                                                                                                      Mynd úr safni mínu.

         Skipbrotsmenn og björgunarsveit                                   komin til bæja

Björgun skipverjanna af breska togaranum Dhoon lauk seinnihluta dags í gær. Voru þá síðustu mennirnir komnir heim til bæja að Hvallátrum. Björgunarstarfið hefur því staðið síðan á laugardagsmorgun, þar til í gær. Hafa fæstir björgunarsveitamanna tekið á sig náðir í þær rúmar 50 klukkustundir, sem unnið var að björgun skipbrotsmanna.


Skipbrotsmenn einn af öðrum dregnir í land.                                                  Póstkort í minni eigu.

Eins og skýrt var frá hjer í Morgunblaðinu á sunnudag, var búið að ná 7 skipsbrotsmönnum upp á Flaugarnef. Þar voru hjá þeim 7 menn úr björgunarsveitinni. Þar á sillunni gátu menn ekki lagst niður og sofnað, svo lítil var hún. Gátu þeir, sem þar voru hvílt sig með því að halla sjer upp að hamraveggnum. Veður var þá vont, rigning og rok. Upp á silluna voru þeir dregnir í nokkurskonar björgunarstól. Þangað upp eru um 80 metrar. Þessum mönnum var svo hjálpað upp á brúnina, en þangað eru um 150 metrar. Er bratti þarna svo mikill, að vart er hægt að fóta sig, en hægð var höfð á svo skipbrotsmenn myndu ekki lemjast utan í bjargið og hljóta meiðsl.


Björgunarmenn bera einn skipverjann í skjól upp við bjargið.             Úr þrautgóðum á raunastund.  

Þegar upp kom voru allir skipbrotsmenn meira og minna skrámaðir, svo og hinir íslensku björgunarmenn. Á sunnudag voru þessir sjö er verið höfðu á sillunni fluttir heim til bæja, að Hvallátrum og að Breiðuvík. Þar var vel um þá búið. Nú víkur sögunni aftur til þeirra er voru á laugardagskvöld niðri í fjörunni. Þar voru fimm skipbrotsmenn og þrír úr björgunarsveitinni. Fór vel um þá þar um nóttina.
Á sunnudag tókst að ná öllum upp á brúnina, en ekki vannst tími til að komast heim til bæja. Var því gist í upphituðu tjaldi á bjargbrúninni, en í gær var svo lagt af stað til bæja á hestum og komið þangað seinnipart dags. Eins og skýrt frá frá í blaðinu á sunnudag, voru skipstjóri og stýrimaður, sem voru í brúnni og tók þá út, er alda reið yfir skipið, skömmu eftir strandið. Með þeim var og einn hásetanna og tók hann út um leið.


Þeir Látramenn, Þórður Jónsson, Hafliði Halldórsson og Daníel Eggertsson ráða ráðum sínum á brún Látrabjargs.     Mynd úr þrautgóðum á raunastund.  

Aðrir skipverjar kusu heldur að vera á hvalbak. Þann sólarhring er mennirnir voru á hvalbak eða undir honum höfðu þeir það eitt að nærast á, nokkra súkkulaðimola og tvær flöskur af rommi, til að halda á sjer hita. Björgun skipverja úr skipinu gekk mjög greiðlega, eins og þegar hefur verið frá skýrt. Skipið lá um það bil tvær skipslangdir undan landi. Línan af línubyssunni hæfði þegar í fyrsta skoti. Björgunarsveitin lætur mjög vel yfir dugnaði hinna bresku sjómanna og þreki þeirra.
Síðan 1912 hafa strandað á þessum stað 4 skip, "Dhoon" er fjórða skipið. Þetta er í fyrsta skipti, sem tekist hefur að bjarga mönnum lifandi á þessum stað. Með hinum þrem skipunum fórust allir, sem á þeim voru.

Morgunblaðið. 16 desember 1947.


Hlúð að skipbrotsmönnum upp á Flaugarnefi.                                 Mynd úr þrautgóðir á raunastund.


Grimsbytogarinn Sargon GY 858 strandaðu undir Hafnarmúla í Patreksfirði 1 desember 1948. Þá var Óskar Gíslason kvikmyndatökumaður staddur í Kollsvík ásamt björgunarmönnum skipverjanna af Dhoon við tökum á heimildarmyndinni, Björgunarafrekið við Látrabjarg. Hann slóst í för með þeim á strandstaðinn og tók þessar einstæðu myndir sem síðan voru felldar inn í heimildarmyndina.


Dagskrá eða "prógram" sem fylgt hefur heimildarmyndinni.                                         Í minni eigu.


Albert Head bátsmaður á Dhoon. 


Páll Heiðar Jónsson blaðamaður ræðir við Albert Head á heimili hans í Fleetwood.


Þórður Jónsson tekur við silfurbikar úr hendi Guðbjarts Ólafssonar forseta Slysavarnafélags Íslands. Bikar þessi var gefinn af félagi íslenskra botnvörpuskipaeigenda. Mynd úr þrautgóðum á raunastund.

   Slysavarnarfjelagið þakkar frækilegt                            björgunarafrek

Stjórn Slysavarnafjelagsins samþykti á fundi sínum í dag eftirfarandi ávarp til björgunarmannanna á Látrabiargi:
"Slysavarnafjelag íslands vottar björgunarsveit Slysavarnadeildar Bræðrabandsins í Rauðasandshreppi og öðrum, sem unnu að björgun skipshafnarinnar af breska togaranum "Dhoon", hjartanlegt þakk - læti og aðdáun fyrir þetta frábæra afrek, sem vafalaust er hið frækilegasta, sem unnið hefir verið hjer á landi. Jafnframt því að leggja líf ykkar í mikla hættu, hafið þið sýnt slíka hreysti og fórnfýsi, að þið hafið með því aflað ykkur sjálfum virðingar alþjóðar og íslensku þjóðinni allri heiðurs og velvildar út á við.
Stjórn Slvsavarnafjelags íslands. "

Morgunblaðið. 16 desember 1947.

Flettingar í dag: 228
Gestir í dag: 69
Flettingar í gær: 408
Gestir í gær: 137
Samtals flettingar: 1920281
Samtals gestir: 486896
Tölur uppfærðar: 10.7.2020 05:37:37