25.12.2017 15:26

1435. Haraldur Böðvarsson AK 12. TFBF.

Skuttogarinn Haraldur Böðvarsson AK 12 var smíðaður hjá Storvik Mekaniks Verksted A/S í Kristiansund í Noregi árið 1975. 299 brl. 1.500 ha. MaK díesel vél, 1.104 Kw. Smíðanúmer 67. Hét áður Batsfjord F-60-BD. Eigandi var Haraldur Böðvarsson & Co h/f á Akranesi frá júnímánuði sama ár. Árið 2004 sameinast H.B. & Co, Granda h/f í Reykjavík og heitir eftir það H.B. Grandi h/f. Togarinn var seldur 2005, Salar Íslandica ehf á Djúpavogi sem er fiskeldisfyrirtæki í Berufirði. Fékk nafnið Stapaey SU 120 og var lagt innarlega í Berufirði og notað sem fóðurprammi fyrir fiskeldið. Árið 2012 er skipið komið í eigu Fiskeldi Austfjarða h/f sem skráð er á Seltjarnarnesi, en með aðstöðu á Djúpavogi og í Berufirði. Stapaey var lagt núna í haust og bíður örlaga sinna við bryggju á Reyðarfirði ásamt 1622. Nökkva ÞH 27, en til stendur að Nökkvi dragi Stapaey erlendis í vor og bæði skipin endi í pottinum illræmda. Myndirnar af Stapaey sendi mér Ingvar Hrólfsson Hraundal, skólabróðir minn frá Neskaupstað og þakka ég honum kærlega fyrir þær.

1435. Haraldur Böðvarsson AK 12.                                                                  (C) Snorri Snorrason.

                Nýr skuttogari                            Haraldur Böðvarsson AK

Skuttogarinn Haraldur Böðvarsson AK 12 kom í sína heimahöfn "Krossvík" kl. 6 í gær, eftir rúmlega þriggja sólarhringa siglingu frá Bódö í Noregi. Þaðan keypti Haraldur Böðvarsson & Co. h.f. skipið sem hét áður "Bátsfjord" og er systurskip togarans "Skinney" sem keypt var til Hornafjarðar nýlega. Lengd skipsins er 46,45 m, breidd 9 m og dýpt 6,50 m. Aðalvélin er 1500 ha. MAK, 8 strokka. Togarinn er búinn öllum þeim fullkomnu tækjum, sem áður um getur í sambandi við innflutning slíkra skipa. Það var talað um það að þorskurinn og ýsan mættu nú fara að vara sig, ef stofnarnir ættu að halda lífi að óbreyttum aðgerðum í friðunar- og ræktunarmálum.
Við móttöku togarans flutti Jón M. Guðjónsson f.v. sóknarprestur ávarp, þar sem hann bauð skip og skipshöfn velkomna til hafnar og óskaði þeim öryggis og velfarnaðar í bráð og lengd. Hann minntist einnig Haralds Böðvarssonar og óskaði fyrirtækinu hagsældar og Akranesi atvinnuöryggis. Skipið fer á veiðar eftir tvo til þrjá daga.
Skipstjóri er Kristján Pétursson og vélstjóri er Jón Kristjánsson.

Morgunblaðið. 2 ágúst 1975.


Haraldur Böðvarsson AK 12 við bryggju á Akranesi.                            (C) Sveinn Ingi Thorarensen.


      Haraldur Böðvarsson AK 12

30. júlí s. l. kom skuttogarinn Haraldur Böðvarsson AK 12 til Akraness í fyrsta sinn. Þetta er 3. skuttogarinn, sem Akurnesingar eignast en fyrir eru á staðnum Krossvík AK og Ver AK. Skuttogari þessi, sem áður bar nafnið Batsfjord, var keyptur frá Noregi og var afhentur fyrri eigendum í apríl á þessu ári. Skipið er byggt hjá Storviks Mek. Verksted A/S Kristiansund, nýbygging nr. 67 hjá stöðinni, og er svonefnd R-155 A gerð frá Storviks. Þetta er fimmti skuttogarinn í flota landsmanna sem umrædd stöð hefur byggt og sá fjórði af þessari gerð, hinir þrír eru: Dagstjarnan KE 9, Framtíðin KE 4 og Skinney SF 20. Stálvík h.f. hefur byggt tvo skuttogaara af þessari gerð, en það eru Stálvík SI 1 og Runólfur SH 135. Haraldur Böðvarsson AK er í eigu samnefnds hlutafélags á Akranesi. Haraldur Böðvarsson AK mælist 299 rúmlestir, mesta lengd 46.45 m, breidd 9.00 m, dýpt að efra þilfari 6.50 m og dýpt að neðra þilfari 4.35 m. Lestarrými er um 280 m3 , brennsluolíugeymar 124 m3 og ferskvatnsgeymar 47 m3 .
Aðalvél er frá MAK, 1.500 hö, með Hjelset skiptiskrúfubúnaði og skrúfuhring. Hjálparvélar eru tvær Mercedes Benz, 160 ha, með 124 KVA Stamford rafölum. Stýrisvél er frá Tenfjord. Í skipinu eru tvær DIA8U togvindur (splitvindur), sambyggð akkeris- og grandaravinda og tveir kapstan frá Brattvaag svo og flotvörpuvinda frá Norwinch. Kapalvinda fyrir netsjártæki er frá Elac, rafdrifin. Af öðrum búnaði má nefna ferskvatnsframleiðslutæki, lifrarbræðslutæki svo og blóðgunarkör, þvottakar og færibönd á vinnuþilfari. íbúðir eru samtals fyrir 17 menn. Undir neðra þilfari (framskips) eru fjórir 2ja manna klefar og einn eins manns klefi. Á neðra þilfari eru tveir 2ja manna klefar og einn eins manns klefi. í þilfarshúsi (á efra þilfari) eru tveir eins manns klefar fyrir yfirmenn og íbúð skipstjóra. Helztu tæki í stýrishúsi eru: Ratsjá: Decca, gerð RM924, 48 sml. Ratsjá: Decca, gerð RM926, 64 sml. Miðunarstöð: Taiyo, gerð TD-A130. Loran: Decca DL 91, sjálfvirkur Loran C. Gyroáttaviti: Anschiitz. Sjálfstýring: Anschutz. Vegmælir: Bergen Nautik, gerð FDU.
Dvptarmælir: Simrad EQ 38. Dýptarmælir: Elac LAZ 71 m/botnstækkun. Fisksjá: Elac LAZ 61. Netsjá: Elac. Talstöð: Sailor T122/R106, 400 W SSB Örbylgjustöð: Simrad VHFon, gerð PC 3, 25 W.
Að öðru leyti er vísað í lýsingu á Skinney SF (14. tbl. '75), en þessir tveir skuttogarar eru byggðir eftir sömu teikningu, fyrirkomulag það sama og véla- og tækjabúnaður, þó með vissum undantekningum. Í Haraldi Böðvarssyni AK er flotvörpuvinda og einn kapstan umfram, en aftur á móti er ekki losunarkrani. Tæki í brú eru af sömu gerð, nema fiskileitartæki. Hvílur eru fyrir 17 í umræddu skipi á móti 19 í Skinney SF, en íbúðarrými er þó hið sama.
Skipstjóri á Haraldi Böðvarssyni AK er Kristján Pétursson og 1. vélstjóri Jón Skafti Kristjánsson. Framkvæmdastjóri útgerðar er Sturlaugur Böðvarsson.

Ægir. 21 tbl. 1 desember 1975.


Stapaey SU 20 við bryggju á Reyðarfirði.                                        (C) Ingvar Hrólfsson Hraundal.


Stapaey SU 120. Sér í Nökkva ÞH 27 lengst til hægri.               (C) Ingvar Hrólfsson Hraundal.


Stapaey SU 120.                                                                            (C) Ingvar Hrólfsson Hraundal.


Stapaey SU 120.                                                                            (C) Ingvar Hrólfsson Hraundal.

           Fiskeldi Austfjarða hf.

Fiskeldi Austfjarða hóf starfsemi árið 2012 og hefur síðan þá unnið markvisst að uppbyggingu á laxog regnbogasilungseldi á Austfjörðum. Áætlanir fyrirtækisins gera ráð fyrir umtalsverðri framleiðsluaukningu á eldisfiski. Það er liður í að styrkja núverandi starfsemi á Austfjörðum og gera rekstur fyrirtækisins arðbæran og samkeppnishæfan til lengri tíma. Áform fyrirtækisins byggja á því að framleiðsla og afurðir fyrirtækisins verði umhverfisvænar og framleiddar í sem mestri sátt við vistkerfi framleiðslusvæða. Félagið er með umhverfisvottunina AquaGap á framleiðslu og vinnslu félagsins. Slík vottun gerir miklar kröfur um sjálfbærni og er notkun allra ónáttúrulegra vinnsluefna bönnuð. Sveitarfélagið Djúpivogur hefur fengið vottun um umhverfisvænan rekstur frá Cittaslow og er hafin vinna við að Fiskeldi Austfjarða fái slíka vottun á sína starfsemi. Fiskeldi Austfjarða hefur nú þegar starfsemi í tveimur fjörðum, þ.e. Berufirði og Fáskrúðsfirði.
Í Berufirði hefur fyrirtækið leyfi til að framleiða 6.000 tonn af laxi og 2.000 tonn af regnbogasilungi á tveimur svæðum, Glímueyri og Svarthamarsvík. Í Fáskrúðsfirði hefur fyrirtækið leyfi til að framleiða 3.000 tonn af regnbogasilungi á þremur svæðum, Eyri, Fögrueyri og Höfðahúsabót. Samtals gerir þetta 11.000 tonn af laxi og regnbogasilungi. Áætlanir gera nú ráð fyrir að eingöngu verði alinn lax og að árleg í slátrun úr fiskeldinu aukist úr 11.000 tonnum í 21.000 tonn. Í ljósi burðarþolsmata fyrir Berufjörð og Fáskrúðsfjörð hafa áætlanir verið uppfærðar. Í Berufirði er því áætlað að ala 10.000 tonn af laxi í stað 6.000 tonna og 2.000 tonna af regnbogasilungi og í Fáksrúðsfirði er áætlað að ala 11.000 tonn af laxi í stað 3.000 tonna af regnbogasilungi. Útsetningaráætlun Fiskeldis Austfjarða, mun bjóði lög svo, taka mið af nýju áhættumati Hafrannsóknarstofnunar. Samkvæmt matinu munu 10.000 tonn sem áætlað er að ala í Berufirði, verða 6.000 tonn frjór lax og 4.000 tonn verða geldlax. Í Fáskrúðsfirði munu 6.000 tonn verða frjór lax og 5.000 tonn verða geldlax. Heildarmagn framleiðslunar verður eins og áður sagði í samræmi við nýtt áhættumat vegna hættu á erfðablöndun milli eldisfiska og náttúrulegra laxastofna.

Ice Fish Farm 2017.Flettingar í dag: 1999
Gestir í dag: 683
Flettingar í gær: 1092
Gestir í gær: 456
Samtals flettingar: 2034833
Samtals gestir: 520622
Tölur uppfærðar: 29.9.2020 23:11:02