13.01.2018 08:24

Þormóður rammi SI 32.

Vélbáturinn Þormóður rammi SI 32 var smíðaður af Antoni Jónssyni á Akureyri árið 1925 fyrir Skafta Stefánsson á Siglufirði. Eik og fura. 10,48 brl. 26 ha. Hein vél. Ný vél (1939) 50 ha. June Munktell vél. Báturinn strandaði á Ásbúðartanga út af Hrauni á Skaga 16 mars árið 1942 og eyðilagðist. Áhöfnin, 5 menn, fleyttu sér á lóðabelgjum til lands, en var bjargað um borð í bát frá Hrauni sem tók þá upp á leiðinni til lands.


Þormóður rammi SI 32 er fremstur á myndinni. Báturinn innan við hann er Úlfur Uggason SI 34, báðir í eigu Skafta Stefánssonar. Þekki ekki bátinn til vinstri.                   (C) Vigfús Sigurgeirsson.


Þormóður rammi SI 32. Líkan.                                          Smiður og myndahöfundur óþekktur.

     Fleyttu sjer á lóðarbelgjum til lands
    Þegar "Þormóður rammi " strandaði

Frjettaritari vor á Siglufirði hefir skýrt blaðinu frá hvernig vjelbáturinn "Þormóður rammi" strandaði og hvernig mennirnir björguðust. Báturinn er nú sokkinn, en liggur á grunnu vatni og gera menn sjer  vonir um að hægt verði að ná honum upp. "Þormóður rammi" fór í róður á sunnudagskvöld. Veður var gott. Um nóttina kl. 2, kenndi báturinn grunns á Ásbúðartanga út af Hraunum á Skaga. Báturinn var á fullri ferð er hann tók niðri, en ekki kom samt leki að honum strax. Ákváðu mennirnir því að vera um kyrrt í bátnum. Með morgninum fór að falla að og fór báturinn þá að láta illa á skerinu. Skipshöfnin, sem voru 5 menn, ákvað þá að yfirgefa bátinn. Ekki höfðu þeir ljettbát og ætluðu því að ná landi með því að fleyta sjer á lóðabelgjum.
Var þetta í birtingu um morguninn. Um þetta leyti sást til þeirra úr landi og var sendur bátur þeim til aðstoðar. Voru mennirnir þá lagðir á stað á lóðabelgjunum og voru teknir upp á miðri leið til lands. Seinna um daginn rann "Þormóður rammi af skerinu og sökk, en á mjög grunnu vatni. Eigandi bátsins, Skafti Stefánsson, fór vestur í gær til að athuga möguleika á að ná bátnum upp.

Morgunblaðið. 18 mars 1942.

Flettingar í dag: 979
Gestir í dag: 400
Flettingar í gær: 952
Gestir í gær: 419
Samtals flettingar: 2388450
Samtals gestir: 621437
Tölur uppfærðar: 17.9.2021 19:13:41