19.04.2018 08:22

1360. Kleifaberg RE 70 í slipp.

Þessi aldni höfðingi er kominn í slipp. Þetta skip var smíðað í Gdynia í Póllandi fyrir um hálfum fimmta áratug og ekki annað að sjá en að það sé í fullu fjöri og fiskar enn sem "unglamb" væri. Kleifaberg RE 70 var smíðaður hjá Stocznia Im Komuny í Gdynia í Póllandi árið 1974 fyrir Ísfell hf í Reykjavík. Hét fyrst Engey RE 1 og kom fyrst til heimahafnar, Reykjavíkur hinn 10 mars það ár. 875 brl. 3.000 ha. Sulzer Zgoda vél, 2.208 Kw. Hér fyrir neðan er í grein farið nánar í sögu skipsins í gegn um tíðina. Ég held að Kleifaberg sé eini pólverjinn sem eftir er í landinu og er í drift. Eldborg RE, hét fyrst Baldur EA 124 og var gerður út frá Dalvík, er búinn að liggja lengi í Hafnarfjarðarhöfn. Myndirnar tvær af togaranum hér að neðan tók ég í gærkvöldi í slippnum í Reykjavík.


1360. Kleifaberg RE 70. TFAC.                                        (C) Þórhallur S Gjöveraa. 18 apríl 2018.


1360. Kleifaberg RE 70 í slipp.                                       (C) Þórhallur S Gjöveraa. 18 apríl 2018.

     Engey RE 1  Kleifaberg ÓF 2 og                         Kleifaberg RE 70 
                   Saga skipsins

Engey RE-1 var smíðað í Stocznia skipasmíðastöðinni í Gdnyia í Póllandi árið 1974 fyrir Ísfell hf í Reykjavík og þótti stórt og mikið skip á þeim tíma. Pólverjar smíðuðu fleiri eins skip fyrir Íslendinga á þessum tíma sem mörg hver hafa verið áberandi í sögu íslenskrar togaraútgerðar. Tveir þessara "Pólverja" og systurskip Engeyjar, Ver og Baldur, tók m.a. virkan þátt í landhelgisbaráttunni á sínum tíma og reyndust vel í þeim slag. Annað skip sem einnig var smíðað í Gdnyia fyrir Hafnfirðinga og hét Guðsteinn áður en það var selt norður í land til stórhuga frænda sem breyttu því í frystitogara og gerðu það út undir nafninu Akureyrin EA-10. Það skip er enn í rekstri og saga Samherja er öllum kunn enda fyrir löngu orðið að stórveldi í sjávarútvegi. Samherji er reyndar ennþá með einn "Pólverja" á sínum snærum í Íslenskri landhelgi, Víði EA-910, sem upphaflega var smíðaður fyrir Skagamenn og hét þá Ver AK, siðan Jón Dan GK, þar á eftir Apríl HF og svo Viðir HF þar til Samherji keypti það. Af fleiri skipum af þessari tegund má nefna þá Ögra og Vigra sem Ögurvík lét smíða fyrir sig og reyndust eigendum sínum og áhöfnum alla tíð vel og svo Hrönn sem Hraðfrystistöð Reykjavíkur eignaðist síðar og gerði út sem Viðey RE-6. Það skip heitir nú heitir Sjóli og er gert út sem þjónustuskip á vegum Sjólaskipa út af ströndum Afríku. Í dag eru aðeins tveir pólsku togaranna gerðir út frá Íslandi, Kleifaberg ÓF-2 og Víðir EA. Eldborg (áður Baldur) sem gerð er út til rækjuveiða á Flæmingjagrunni er ekki skráð hér á landi, Akureyrin í Barentshafi og Sjóli við strendur Afríku. Þeir eru því enn á fullu "Pólverjarnir" á ýmsum vígstöðvum þó aldurinn hafi færst yfir þá.


1360. Kleifaberg ÓF 2 á toginu.                                                                   (C) Þorgeir Baldursson.

En snúum okkur þá að Engey. Eins og áður sagði var það smíðað í Gdnyia árið 1974 fyrir ísfell hf. í Reykjavík en Hraðfrystistöðin í Reykjavík gerði skipið síðan út frá árinu 1984. Engey var eins og systurskip þess að Vigra og Ögra undanskildum, búin afar öflugri aðalvél, 3.000 hestafla Sgoda-Sulser vél sem þótti vel í lagt á þeim tíma og fannst mörgum nóg um. Þessar vélar hafa hins vegar reynst mjög vel í alla staði eins og best sést á því að þær eru enn á fullum afköstum í þessum skipum og í engu þeirra hefur þurft að skipta um aðalvél þrátt fyrir að hafa verið í botnlausu álagi í meira en þrjá áratugi. Ólíkt öðrum skipum þar sem aðalvélarnar eru oftast nær aftast í skipunum, eru aðalvélar þessara togara framan við mitt skip, beint undir matsal og vistarverum skipverja sem þykir ekkert sérstaklega aðlaðandi í dag. Mjög mikill hávaði er frá vélum og öðrum búnaði þeim tengdum eins og menn geta ímyndað sér. Það er ekki mjög þægilegt til lengdar að vera með 3.000 hestafla vél lemjandi við kojustokkinn dögum og vikum saman. En menn hafa látið sig hafa það eins og margt annað til sjós.
Engey var upphaflega ísfisktogari og mikið í siglingum á sínum tíma og sigldi tíðum á erlendar hafnir, aðallega með karfa á Þýskalandsmarkað. Skipið hefur bæði verið lengt og breytt í frystitogara auk þess sem efra þilfari þess var lyft til að fá aukna lofthæð á vinnsludekk. Engey og Viðey runnu inn í sameiningu Hraðfrystistöðvarinnar í Reykjavík við Granda á sínum tíma og voru þá bæði gerð út undir merkjum þess síðarnefnda. Undir lok þess tíma sem Grandi gerði Engey út var skipið sent til smokkfiskveiða við Falklandseyjar þar sem fyrirtækið hugðist hasla sér völl. Sú útgerð gekk hins vegar ekki eins og til var ætlast af ýmsum ástæðum.


1360. Kleifaberg ÓF 2 að veiðum.                                                             (C) Björn Valur Gíslason.

Undir lokin voru menn þó farnir að ná tökum á því verkefni undir stjórn Guðmundar Mugga Kristjánssonar sem nú er hafnarstjóri á Ísafirði. En þolinmæði útgerðarinnar var þrotin og skipið selt til Þormóðs ramma - Sæbergs í Ólafsfirði sem þá var nýtt félag eftir sameiningu Sæbergs hf. í Ólafsfirði og Þormóðs ramma hf á Siglufirði, sem Grandi var m.a. hluthafi í. Það var því ekki um annað að ræða fyrir Mugga og félaga en að sigla aftur til norðurs, heim til Íslands og færa nýjum eigendum skipið. Engey RE-1 var afhent nýjum eigendum í júlí 1997 og hélt þá strax til karfaveiða á Reykjaneshrygg. Til að byrja með hélt skipið sama nafni og númeri en fékk fljótlega nafnið Kleifaberg ÓF-2. Nafnið vísar til lítillar byggðar vestan og utarlega í Ólafsfirði sem heitir Kleifar og var áður gert út frá. Bergsnafnið er tilkomið frá Sæbergi og skipum þess sem öll hafa borið bergs-nöfn, t.d. Sólberg, Múlaberg, Hvannaberg og Mánaberg. Útgerð Kleifabergs hefur alla tíð gengið afar vel og skipið ætíð verið í hópi aflahæstu skipa landsins og þeirra sem skilað hafa mestu verðmæti á hverju ári. Kleifabergið var gert út undir merkjum Þormóðs ramma - Sæbergs hf. í tæp tíu ár og aflaði á þeim tíma ríflega 50.000 tonna að verðmæti meira en 8 milljarða króna. Við sameiningu Sæbergs og Þormóðs ramma urðu allnokkrar breytingar á högum áhafna skipa félaganna. Sólberg og Múlaberg sem áður voru í eigu Sæbergs og höfðu verið á bolfiskveiðum fóru nú á rækju sem skip Þormóðs ramma, Stálvík, Sigluvík og Sunna, höfðu stundað um árabil. Áhöfn Kleifabergsins var því að mestu samtíningur af skipum Sæbergs auk annarra sem bættust í hópinn. Fljótlega fór áhöfnin að láta á sér bera á öðrum sviðum en fiskveiðum og vinnslu, svo eftir var tekið. Stofnuð var um borð hljómsveitin, Roðlaust og beinlaust, sem í dag hefur sent frá sér þrjá geisladiska sem seldir hafa verið til stuðnings björgunar- og öryggismálum, sér í lagi þó Slysavarnaskóla sjómanna. Geisladiskarnir þrír, Bráðabirgðalög, Brælublús og Sjómannasöngvar hafa allir selst feyki vel og verið í hópi söluhæstu diska hverju sinni.


Hljómsveitin Roðlaust og beinlaust á tónleikum.                                            (C) Mynd úr Víkingnum.

Auk þess hefur Roðlaust og beinlaust sent frá sér tvö jólalög sem notið hafa mikilla vinsælda. Annað lagið var síðar gefið út á færeysku fyrir þarlendan markað. Árið 2005 var hljómsveitinni boðið að leika á sjómannalagahátíð í bænum Paimpol í Frakklandi þar sem fram komu hundruð tónlistarmanna og sótt var af meira en 120.000 gestum. Þessi magnaða skipshljómsveit hefur margsinnis spilað opinberlega við ýmis tilefni hér á landi og verður með mikla og skemmtilega dagskrá á Hátíð hafsins í Reykjavík um næstu sjómannadagshelgi. Tiltölulegar litlar breytingar hafa verið í áhöfn Kleifabergsins frá því að það komst í hendur norðanmanna. Sömu yfirmenn eru í öllum stöðum jafnt í brú og vél, utan þeirra sem hætt hafa sökum aldurs. Reyndar er aldur afstæður sem slíkur eins og messaguttinn Gógó hefur sýnt og sannað. Gógó eða Ragnar Sigtryggsson eins og hann heitir víst, hóf störf sem messi á Kleifaberginu á áttræðisaldri og lét ekki af störfum fyrr en á síðasta ári þá kominn yfir áttrætt. Vaktformenn og lykilmenn á dekki eru allir þeir sömu og fyrir tíu árum og sáralitlar breytingar hafa orðið í öðrum stöðum á skipinu. Það er því greinilegt að áhöfn skipsins er góður og samstilltur hópur hvort sem um er að ræða við veiðar og vinnslu eða söng og spilamennsku.

Sjómannablaðið Víkingur. 6 tbl. 1 júní 2007.


1360. Kleifaberg RE 70 við Miðbakkann.                        (C) Þórhallur S Gjöveraa. 13 janúar 2016.


1360. Kleifaberg RE 70 að taka olíu í Örfirisey.                      (C) Þórhallur S Gjöveraa. 2 júní 2016.

             Brim kaupir Kleifaberg

Þormóður rammi Sæberg hefur selt frystitogara sinn Kleifaberg ÓF 2 til Brims hf. Áhöfninni hefur verið boðið að halda plássum sínum, að minnsta kosti út árið. Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Þormóðs ramma Sæbergs, segist ánægður með þessi viðskipti og ánægður með að áhöfninni hafi verið tryggt pláss á skipinu áfram. Hann vill ekki gefa upp söluverð skipsins. Fyrirtækið á von á tveimur nýjum frystiskipum, því fyrra í nóvember 2008. Til þess tíma munu hin frystiskipin í eigu félagsins, Sigurbjörg ÓF og Mánaberg ÓF, sjá um bolfiskveiðar fyrirtækisins. Kleifabergið er selt án aflaheimilda og verður afhent 30. marz næstkomandi. "Þetta er eðalskip og við ætlum að halda útgerð þess áfram með sama hætti og Þormóður rammi Sæberg hefur gert. Við eigum nægar veiðiheimildir fyrir skipið og þurfum ekki að draga úr hjá öðrum," segir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims. Hann segir að þetta sé bara viðbót við flota Brims og öllum verðið boðið að halda áfram um borð. En hvar verður skipið skráð? "Það er ekki ákveðið, en mér skilst að það sé gott að vera með togara á Ólafsfirði."

Morgunblaðið. 15 febrúar 2007.


1360. Engey RE 1 við komuna til landsins 10 mars árið 1974.                                     Mynd úr Ægi.

                  Engey RE 1

10. marz s. l. kom skuttogarinn Engey RE 1 til heimahafnar sinnar í fyrsta sinn. Skuttogari þessi er byggður hjá Gdynia Shipyard, Gdynia Póllandi og er 3. skuttogarinn, sem þar er smíðaður fyrir Íslendinga. Tveir þeir fyrstu voru sem kunnugt er smíðaðir fyrir Ögurvík h.f., en Engey RE er sá 1. í röðinni af 5 skuttogurum, sem samið var um á eftir Ögurvíkur-skuttogurunum, og hafa verið gerðar nokkrar breytingar á umræddum 5 skuttogurum frá fyrstu tveimur. Engey RE er eign Ísfells h.f.
Rúmlestatala 742 brl.
Mesta lengd 60,60 m
Lengd milli lóðlína 53,00 m
Breidd 11,30 m Dýpt að efra þilfari 7,30 m
Dýpt að neðra þilfari 5,00 m
Djúprista (KVL) 4,60 m
Særými (djúprista 4.85 m) 1542 tonn.
Burðarmagn ( " ) 500 tonn.
Lestarrými 530 m3
Brennsluolíugeymar 145 m3
Brennsluolíu- eða sjókjölfestugeymar 137 m3
Kjölfestugeymar (stafnhylki) .. 14 m3
Ferskvatnsgeymar 57 m3
Ganghraði (reynslusigling) ... . 16,2 sjómílur.

Ægir. 10 tbl. 1 júlí 1974.


Flettingar í dag: 537
Gestir í dag: 46
Flettingar í gær: 681
Gestir í gær: 32
Samtals flettingar: 723883
Samtals gestir: 53719
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 15:06:38