24.06.2018 07:03

927. Þorsteinn NK 79. TFMU.

Vélbáturinn Þorsteinn NK 79 var smíðaður hjá Frederikssund Skibswærft A/S í Frederikssund í Danmörku árið 1946. Eik. 37 brl. 100 ha. Hundested vél. 15,25 x 5,12 x 2,20 m. Báturinn var gerður út frá Danmörku til ársins 1954 af þarlendum, þar til  hann var seldur Skildi h/f á Siglufirði í mars það ár. Hét fyrst Björg SI 96 hér á landi. Seldur 18 febrúar 1959, Jóhannesi Jóhannessyni í Keflavík, hét Þorsteinn KE 79. Ný vél (1959) 215 ha. MWM díesel vél. Seldur 10 desember 1961, Stapa hf í Neskaupstað, sem Samvinnufélag Útgerðarmanna (S.Ú.N) í Neskaupstað átti að stórum hluta. Seldur 1965, Eyrum hf á Eyrarbakka, sama nafn og númer. Seldur 1968, Rafni Péturssyni á Flateyri, sama nafn og númer. Sama ár er báturinn kominn í eigu útibús Landsbankans á Ísafirði. Seldur 8 apríl 1969, Sigurpáli Aðalgeirssyni, Ólafi Sigurpálssyni og Sverri Vilbergssyni í Grindavík, báturinn hét Vörðunes GK 45. Seldur 22 nóvember 1971, Skúla Magnússyni Langholti í Vestur Skaftafellssýslu og Sigurði Rúnari Steingrímssyni í Grindavík, sama nafn og númer. Seldur 23 desember 1975, Magnúsi Þorlákssyni, Jóni Sæmundssyni og Jóni Ásgeirssyni í Grindavík, hét Hafursey GK 84. Báturinn sökk út af Reykjanesi 3 október árið 1976. Áhöfnin, 2 menn, bjargaðist um borð í olíuflutningaskipið Kyndil frá Reykjavík. Það var svo Hrafn Sveinbjarnarson ll GK 10 sem kom með mennina til Reykjavíkur.

 
927. Þorsteinn NK 79.                                                                (C) Vigfús Markússon. Brimbarinn.

  Leit hafin af rækjumiðum í Eyjafjarðarál
        Hafrannsóknarskip fann þar rækju 1948
         en miðin hafa aldrei verið könnuð fyrr

Siglufirði. Frá fréttaritara Þjóðviljans. Verið er þessa dagana að útbúa vélbátinn Björgu SI 96, til leitar að rækjumiðum. Er ætlunin að leita á 240- 440 metra dýpi í Eyjafjarðarál og hér í grennd við Siglufjörð. Árið 1948 varð hafrannsóknaskipið Dana vart við rækjur í Eyjafjarðarál, en það hefur ekkert verið kannað til hlýtar hvort um nokkurt magn hafi verið að ræða þar. Björg er tilbúin á veiðar í dag og er ráðgert að halda leitinni áfram í 3 vikur a.m.k. eftir því sem veður leyfir. Skipstjóri á Björgu verður Jón H. Jónsson frá Ísafirði. Fiskimálasjóður hefur veitt styrk til þessara tilrauna, enda er hér um að ræða könnun á nýrri atvinnugrein hér í bæ, sem ef vel gæfist myndi skapa mikla atvinnu í landi og töluvert útflutningsverðmæti.

Þjóðviljinn. 23 september 1954.


Þorsteinn NK 79 að landa afla sínum í Grimsby árið 1963.      (C) Jón Ólafur Þorsteinsson.
 

Seldi fyrir 899 þús. krónur í 4 ferðum

Neskaupstað, 23. September. Vélbáturinn Þorsteinn frá Neskaupstað, 38 tonn að stærð, hefur nú farið 4 söluferðir til Englands í sumar, í þessum ferðum hefur hann selt fyrir 899 þúsund krónur og gerir það 17,60 á hvert kíló af fiski þeim sem hann seldi, mest megnis rauðsprettu, sem var ísuð í lest. Síðasta ferð Þorsteins tók 16 daga frá því hann fór héðan og þar til hann var kominn aftur. Tafðist báturinn af þrálátum stormum.

Morgunblaðið. 24 september 1963.



927. Hafursey GK 84.                                                                                     Ljósmyndari óþekktur.
 

              Hafursey hvarf í djúpið er                                  skammt var til lands

Börðust í fjóra tíma við að halda bátnum á floti

Seint í gærkvöldi sökk vélbáturinn Hafursey GK 84 suður af Reykjanesi, eftir að tveir menn sem voru á bátnum svo og skipverjar á olíuskipinu Kyndli og vélbátnum Hrafni Sveinbjarnarsyni, höfðu í nær fjóra tíma hamast við að halda bátnum á floti og koma honum í höfn. Hafursey fór frá Grindavík um klukkan fimm í gærdag og var hugmyndin að sigla til Njarðvíkur. Þegar komið var norður fyrir Reykjanes, tilkynntu skipverjar loftskeytastöðinni í Reykjavik, að leki væri kominn að bátnum og báðu um aðstoð. Í ljós kom að olíuskipið Kyndill var þarna á næstu slóðum og hélt hann þegar á staðinn. Náðu skipverjar að koma taug yfir í Hafursey og var síðan snúið við og haldið aftur til Grindavíkur. Sú ferð gekk seint því að þungt var í sjó og erfiðlega gekk að stöðva lekann í Hafursey. Vélbáturinn Hrafn Sveinbjarnarson ll, hélt á móti skipunum frá Grindavík, en gat litla aðstoð veitt. Um klukkan átta í gærkvöldi voru skipverjarnir tveir á Hafursey dregnir á gumbát yfir í Kyndil, en um klukkan ellefu hvarf Hafursey í djúpið. Hafursey sem áður hét Vörðunes GK var 37 tonna eikarbátur, byggður í Danmörku árið 1946.

Vísir. 4 október 1976.
 

         "Vorum aldrei í neinni hættu"

"Það var ágætt veður allan tímann en dálítil kvika, en við vorum aldrei í neinni hættu", sagði Magnús Þorláksson skipverji á Hafursey GK sem sökk í gærkvöldi, er Visir ræddi við hann í morgun. "Eftir að við höfðum tilkynnt um leka kom olíuskipið Kyndill og tók okkur í tog. Það hefur verið um hálf átta leytið. Þegar hann byrjaði að toga virtist okkur sem lekinn ykist. Við höfðum björgunarbát tilbúinn á dekkinu og þegar báturinn lagðist á hliðina þorðum við ekki annað en fara að yfirgefa bátinn og fórum í gúmmíbátnum yfir í Kyndil. Það var svo um ellefu leytið í gær að báturinn sökk. Okkur varð ekkert meint af þessu. Blotnuðum aðeins þegar við fórum um borð í gúmmibátinn, en svo fór ágætlega um okkur um borð í Kyndli"

Vísir. 4 október 1976.


Flettingar í dag: 583
Gestir í dag: 36
Flettingar í gær: 1170
Gestir í gær: 69
Samtals flettingar: 720480
Samtals gestir: 53512
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 08:07:26