01.07.2018 13:51

Dúx KE 38. TFEN.

Vélskipið Dúx KE 38 var smíðað í Gautaborg í Svíþjóð árið 1943 sem Anglia GG 338. Eik. 54 brl. 180 ha. Skandia vél. Skipið var selt 25 júlí 1945, Verslunarfélagi Drangness í Strandasýslu, hét Anglía ST 104. Selt 23 júní 1948, Hlutafélaginu Þristi í Reykjavík, hét Þristur RE 300. Selt 11 júní 1952, Jóhanni Guðjónssyni í Keflavík, hét Dúx RE 300. Árið 1953 fær skipið skráningarnúmerið KE 38. Ný vél (1953) 240 ha. GM díesel vél. 29 júní árið 1963 kom upp mikill eldur í skipinu þegar það var á humarveiðum um 12 sjómílur norður af Eldey. Áhöfninni, 6 mönnum var bjargað um borð í vélbátinn Tý frá Keflavík. Það var síðan vélbáturinn Ingólfur frá Sandgerði sem tók Dúx í tog til lands en eftir um 20 sjómílna siglingu, sökk Dúx í Sandgerðissundi. Einar Gíslason útgerðarmaður í Sandgerði hafði tekið skipið á leigu fyrir humarvertíðina.


Dúx RE 300. Varð svo síðar KE 38.                                                        Ljósmyndari óþekktur.

Anglia GG 338.                                                                                   (C) Óskar Franz Óskarsson.

   Tveir sænskir vélbátar komnir hingað

Tveir fyrstu vélbátarnir,  sem keyptir eru í Svíþjóð komu hingað til bæjarins gærmorgun. Áður var einn sænskur bátur kominn til hafnar á Siglufirði. Eru þetta bátar sem keyptir voru fullbúnir. Vöktu þeir athygli manna við höfnina í gærmorgun og var fjöldi manna að skoða þá í gærdag. Eigendur þessara báta eru: Verslunarfielagið Drangsnes í Steingrímsfirði og Ingvar Pálmason, skipstjóri o. fl. "Anglía". Bátur Verslunarfjelagsins Drangsnes heitir "Anglia" og eru eigendur þessa félags þeir Kristján Einarsson, framkæmdarstjóri og Ólafur H Jónsson, forstjóri í Alliance. Báturinn er rúmlega 55 smálestir og hefir 180 ha. Scandia vél. Ganghraði er 11 sjómílur. Báturinn, sem er tveggja ára gamall hefir togútbúnað og dragnótatæki. Í lest bátsins eru kælitæki, sem sennilega veða tekin úr bátnum, að minnsta yfir síldveiðitímann. Báturin fer strax á síldveiðar. Sænsk áhöfn sigldi bátnum hingað til lands.
Hinn báturinn heitir "Rex" . Er hann 73 smálestir með 160 ha. vjel. Er þetta stór og föngulegur bátur og var einn af stærstu fiskibátum Svía. Skipið er 12 ára gamalt.

Morgunblaðið. 24 júlí 1945.


Dúx KE 38. Líkan Gríms Karlssonar.                                                            (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Dúx KE 38 brennur. Björgunarskipið Sæbjörg dælir sjó á brennandi skipið.               (C) Tíminn.

       ,Dux' frá Keflavík brennur og                        sekkur út af Sandgerði

Keflavík, 1. júlí. M.b. Dux var á humarveiðum norður af Eldey á laugardag sl. Um kl. 19.30 kom upp eldur í vélarrúmi, svo snögglega og svo magnaður, að við ekkert var ráðið. Skipverjar tæmdu öll slökkvitæki, sem um borð voru, en það reyndist árangurslaust, og magnaðist eldurinn svo skjótt og breiddist um stýrishúsið, að ekki varð komizt í talstöð, og dælum ekki komið við, því drifreimar í vélarhúsi brunnu sundur. Mikil hætta skapaðist á sprengingum í olíutönkum, sem eru til hliðar við vélarrúm. Eldur komst í neyðarrakettur, sem geymdar voru í stýrishúsi og varð sprenging af því. Þegar sýnt var að skipverjar réðu ekki við eldinn, blésu þeir upp annan gúmbjörgunarbátinn og fóru allir, 6 að tölu, í bátinn. Flugvél frá Loftleiðum, flaug yfir brennandi bátnum og tilkynnti strax flugturninum í Reykjavík og þeir aftur Keflavíkurflugvelli, sem náði sambandi við Keflavíkurradíó, og þannig barst fregnin til nærstaddra báta. M.b. Týr frá Keflavík, kom þar fyrstur að, og tók mennina úr björgunarbátnum, en gat ekkert annað aðhafst. Skömmu síðar kom m.b. Ingólfur frá Sandgerði á staðinn, og var þá ætlunin að draga hinn brennandi bát til lands. Fóru skipverjar aftur um borð í Dux til að festa dráttartaugar og höggva vörpuna frá, því áður höfðu skipverjar ekki getað náð vörpunni inn, vegna þess að aflreimar brunnu og vél stöðvaðist. Þetta tókst vel og fóru skipstjóri, Helgi Kristófersson, og vélamaður, Guðmundur Stefánsson, um borð í Ingólf, en aðrir skipverjar urðu eftir í Tý, sem kom með þá til Keflavíkur á sunnudagskvöld. Drátturinn gekk vel, því logn var og sléttur sjór. Eldurinn magnaðist stöðugt og urðu sprengingar í bátnum og þegar búið var að draga Dux um 20 mílur, sökk báturinn snögglega, rétt sunnan við Sandgerðissund. Var líkt og hann gliðnaði sundur, því þá hefur innviður verið brunninn sundur.
Einar Gíslason í Sandgerði hafði bátinn á leigu til humarveiða, en eigandi hans var Jóhann Guðjónsson, útgerðarmaður í Keflavík. Dux var 54 lestir að stærð, smíðaður úr eik í Gautaborg árið 1943. Engu varð bjargað úr bátnum, og misstu skipverjar allan sinn farangur, en flestir þeirra voru ekki heimamenn í Sandgerði og höfðu því meiri föt og farangur um borð, en venjulega gerist, og hafa því orðið fyrir talsverðu tjóni. Dux var vátryggður í Vélbátatryggingu Reykjaness, og frekar lágt tryggður sem eldri bátur.

Morgunblaðið. 2 júlí 1963.









Flettingar í dag: 13
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 479
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 722678
Samtals gestir: 53643
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 00:41:38