08.08.2018 19:20

Trollið tekið á gömlum gufutogara.

Þarna eru skipverjar að taka trollið á gömlum kolakynntum togara og skipstjórinn fylgist með hvað er í pokanum. Ekki veit ég hvaða togari þetta er en hann er sennilega smíðaður í Englandi á árunum 1910-20, eftir stjórnpallinum að dæma, með 4 glugga á hvorri hlið. Það eru nokkuð margir togarar sem koma til greina. Ég held að þessi mynd sé tekin um borð í Hafnarfjarðartogaranum Ver GK 3. Það er kannski einhver sem kannast við skipstjórann ? Birgir Þórisson og Einar Ásgeirsson vita sjálfsagt hvaða togari þetta er og jafnvel hver skipstjórinn er. 


Trollið tekið og pokinn vænn.                                Guðbjartur Ásgeirsson ?. Ljósmynd í minni eigu.


Ver GK 3. LBMQ / TFXC. Smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir breska flotann. Hét þar Simeon Moon. Smíðanúmer 897. 314 brl. 550 ha. 3 þennslu gufuvél. Seldur sama ár, Hellyers Bros Ltd í Hull, hét General Rawlinsson H 173. Seldur 13 september 1924, Fiskveiðahlutafélaginu Víði í Hafnarfirði, hét Ver GK 3. Skipið var selt 4 september 1931, h/f Ver í Hafnarfirði, hét Ver RE 32. Selt 18 apríl 1936, Togarafélagi Neskaupstaðar í Neskaupstað, hét Brimir NK 75. Seldur 29 júlí 1939, Hlutafélaginu Helgafelli í Reykjavík (Skúli Thorarensen), hét þar Helgafell RE 280. Selt 15 júní 1945, Hlutafélaginu Hrímfaxa í Reykjavík og Hlutafélaginu Sviða í Hafnarfirði, skipið hét Skinfaxi GK 3. Skipið var selt til Færeyja í ágúst 1947, hét þar Miðafell FD 69. Togarinn var seldur í brotajárn til Antwerpen í Belgíu og rifinn þar í október árið 1951.


Flettingar í dag: 797
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 858
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 699194
Samtals gestir: 52777
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 13:11:21