11.08.2018 11:16

Hákarlaskipið Hríseyjan EA 10.

Hákarlaskipið Hríseyjan EA 10 var smíðuð úr eik og furu og var 21,35 brl. Tvær heimildir hef ég um smíðastað og ár. Önnur þeirra segir skipið líklega smíðað í Skotlandi á milli 1860-70 og mun hafa verið keypt þar í landi um 1880 af Kristni Stefánssyni í Ystabæ í Hrísey og fl. Hríseyingum. Hin heimildin segir skipið smíðað í Noregi árið 1885. Skipið var í eigu Einars Ásmundssonar í Nesi um tíma, og einnig í eigu Jakobs og Kristinns Havsteen á Oddeyri á Akureyri. Carl Höepfner kaupmaður á Akureyri mun trúlega hafa eignast skipið haustið 1888 og var það lengi gert út til hákarlaveiða af honum, síðast vorið 1918. Einna lengst munu hafa verið þar skipstjórar, Eggert Jónsson í Samkomugerði, Sæmundur Sæmundsson frá Látrum og Kristinn Ásgrímsson úr Fljótum.
Hríseyjan varð einna langlífust allra hinna gömlu hákarlaskipa. Var hún notuð alla þá stund, sem gert var út á hákarl og gekk seinast til veiða vorið 1918. Eftir að hákarlaveiðar hættu með öllu, stóð Hríseyjan lengi uppi á Akureyri, en var að lokum sett á flot og notuð sem geymsluskrokkur undir síldartunnur og annað dót við bryggjur á Siglufirði. Þar mun þetta gamla hákarlaskip hafa grotnað niður.

Í skipaskrá frá árinu 1933 er Hríseyjan sögð vera 48 ára gamalt skip og kemur það heim og saman við það að skipið hafi verið smíðað árið 1885 í Noregi.

Heimildin um að Hríseyjan hafi verið smíðuð í Skotlandi kemur frá Ásgeiri Halldórssyni í Hrísey.


Hákarlaskipið Hrísey á Oddeyrartanga á Akureyri. Þar stóð það lengi.  Ljósmyndari óþekktur.

Hákarlaskipin "Hríseyja" og "Oddeyri"

Undirskrifaður hefir umboð til að selja 2 nýleg góð hákarlaskip, "Hríseyja" og "Oddeyri" ásamt öllum útbúnaði til hákarlaveiða í bezta lagi. Bæði skipin standa her á Oddeyri. Lysthafendur geta snúið sér til mín og fengið að vita um skipin og hvað þeim fylgir, og með hvaða skilmálum þau verða seld.
Oddeyri 12. okt 1888.
J. V. Havsteen.

Lýður. 17 október 1888.


Hákarlaskipið Hrísey EA 10. Sjá má í Aage EA 13 aftan við Hríseyna.         Ljósmyndari óþekktur.

        Hákarlaskipið Hríseyjan

Hákarlaskipið "Hríseyjan" eign C. Höepfners, kom í gærmorgun hér inn á höfnina aflalaus. Skipið var komið á hákarlamið er ofsarokið á vestan skall á þann 3. þ. m. hleypti þá til Grímseyjar og lagðist austan við eyjuna við aðalakkeri sitt. Eftir stutta stund slitnaði keðjan, og tapaðist þannig akkerið og talsvert af keðju. Skipið lagðist síðan við vara akkeri sitt og keðju, sem hvorttveggja var fremur grant, og þorðu skipverjar því ekki að treysta því eingöngu, heldur lágu við stjórafærið líka. Í þessum festum hékk skipið unz rokinu létti, og vindurinn gekk lítið eitt til norðurs; þá var í ráði að komast á Eyjafjörð, en þegar komið var lítið eitt frá eyjunni, skall á sami vestan ofsinn aftur, svo skipið náði hvorki Eyjafirði né Flatey. Því var þá lagt til hafs, en brátt sáu skipverjar sitt óvænna, sneru við og komust við illan leik inn á Húsavík. Náðu þar í skipafestir verzlunarinnar og Iágu við þær óhultir, þar til á miðvikudagsmorguninn, var þá komið bezta veður, og var þá lagt á stað áleiðis hingað. Ís sáu skipverjar engan og vissu ekki neitt um önnur hákarlaskip.

Norðurland. 29 tbl. 11 apríl 1903.


Hákarlaskipið Hríseyjan EA 10. Líkan Gríms Karlssonar.                            (C) Þórhallur S Gjöveraa.

         "Blikaði voðin, kári söng"

Skip undir seglum er fögur sjón. Ég minnist fiski- og hákarlaskipanna, sem sigldu út og inn Eyjafjörð í mínu ungdæmi, undir hvítum eða rauðbrúnum seglum. Stórar þrímastraðar flutningaskútur sáust einnig auk hinna fjölmörgu litlu fiskibáta, róandi eða siglandi, og svo kváðu við skellirnir í öslandi mótorbátum. Lítum á eyfirskt hákarlaskip. Um skeið færði hákarlinn drjúga björg í bú, meðan lifrin og lýsið voru í háu verði. Beitt var m.a. selspiki og úldnu hrossakjöti. Veiðarfærin ekkert smásmíði, þ.e. sókn (öngull), járnfesti og vaður. Ennfremur krókur (ífæra). Venjulega leyndi sér ekki ef hákarl beit á, en komið gat fyrir að hann hreyfði sig svo lítið að vaðarmaður varð einskis var fyrst í stað, og dró að lokum upp bitinn, jafnvel halfstýfðan skrokk. Höfðu þá aðrir hákarlar ráðist á hinn öngulfasta. Þegar búið var að innbyrða hákarl, var hann umsvifalaust ristur á kvið til lifrar með breddu mikilli, hákarlaskálminni. Lifrin var aðalverðmætið, en flestum skrokkum var fleygt. Fáeinir þó hirtir til kæsingar og matar. Mikill hugur var í hákarlamönnum og gengu þeir berserksgang í aflahrotum. Þótti slæmt að vera sleppifengur, sbr. vísuna sem Guðni gamli spekúlant söng við fiskasteininn:
"Hákarlinn eg missti minn,
mikil voru óhöppin
Ofan í kórinn ufsa inn,
illa fór hann gráni minn."
Hákarl var fyrrum algengur matur með brauði og harðfiski, bæði glær hákarl (af kviðnum) og hinn mjúki bragð- og lyktarsterki skyrhákarl. Börn og óvanir kusu glæran hákarl. Jafnan vildu menn láta hákarlsbeitur hanga lengi uppi og töldu að þá fyrst yrði hann góður matur. Stöku sinnum var gerð stappa úr nýjum, ungum hákarli (gotum), en óhollt þótti að éta mikið af henni. Guðmundur Hannesson læknir kvað vel verkaðan hákarl góðan gegn sumum magakvillum. Viss óholl efni munu hverfa við kæsinguna. Guðmundur taldi kæsingarstaði mjög misgóða og færi það sennilega eftir gerla- og sveppagróðri í bælunum. Var kæst vor eftir vor á sama staðnum ef vel reyndist. Sumir hákarlar eru etnir erlendis, en ekki veit ég hvort kæsing er notuð annars staðar en á Íslandi? Amerískur prófessor hafði frétt af Íslenskri hákarlsverkun og bað um sýnishorn og lýsingu. Fékk hvort tveggja, bauð til sín gestum (prófessorum og læknum) og lét bera hakarl á borð. Aðeins tveir þorðu að bragða hnossgætið og létu allvel yfir. Hinum þótti svakalegt að heyra að hákarlinn hefði verið grafinn i jörð og látið slá í hann, þeir þorðu ekki að smakka, fussuðu bara! Talið var að menn yrðu sterkir af hákarlalýsi, sumir unglingar supu á því sjálfrunnu til að verða hraustir.
Það var hörkulegt lif og lítil þægindi um borð í hákarlaskipum, þetta 15 - 20 smálestir að stærð. Nokkur þó 20 - 30 smálestir, keypt frá Noregi. Einna flest munu hákarlaskipin hafa verið í Eyjafirði og Siglufirði frá 1883 - 1900. Eftir það fór að draga úr útgerðinni.

Tíminn. 11 febrúar 1982.
Ingólfur Davíðsson.



Flettingar í dag: 276
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 1170
Gestir í gær: 69
Samtals flettingar: 720173
Samtals gestir: 53499
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 02:36:45