20.08.2018 18:42

Ingólfur Arnarson RE 19. TFEQ.

Vélskipið Ingólfur Arnarson RE 19 var smíðaður í Marstrand í Svíþjóð árið 1946 fyrir Ágúst Snæbjarnarson hf í Reykjavík. 91 brl. 260 ha. Polar díesel vél. Kom fyrst til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur hinn 30 júli sama ár. Skipið strandaði niður af Ragnheiðarstöðum, vestan við Þjórsárósa 14 mars árið 1950. Áhöfninni, 11 mönnum, var bjargað af björgunarsveitarmönnum frá Stokkseyri. Skipið eyðilagðist á strandstað.


Vélskipið Ingólfur Arnarson RE 19.                                                              Mynd úr Íslensk skip.

         Ingólfur Arnarson RE 19

Nýr bátur frá Svíþjóð kom til Reykjavíkur í gær. Hefir hann verið nefndur Ingólfur Arnarson RE 19. Báturinn er 91 smálest að stærð og var verð hans um 500 þúsund krónur. Ágúst Snæbjarnarson hf í Reykjavík er eigandi bátsins.

Vísir. 31 júlí 1946.

         Síldveiðiskip aðstoðuð

Hinn 13. þ. m. varð mb "Ingólfur Arnarson", RE 19, fyrir vjelarbilun upp í Hvalfirði, er hann var að síldveiðum þar og hafði 800 mál síldar innanborðs. Bað skipstjórinn, Ágúst Snæbjarnarsson, um aðstoð, og dró varðbáturinn "Faxaborg" "Ingólf" til Reykjavíkur. Hinn 18. þ. m. brotnaði stýri á mb "Farsæli" AK 59, er hann var að síldveiðum í Hvalfirði, og hafði 550 mál síldar innanborðs. Bað skipstjórinn, Jóhann Guðjónsson, um aðstoð, og dró varð báturinn "Faxaborg" "Farsæl" til Reykjavíkur.

Morgunblaðið. 21 febrúar 1948.

        Björgun skipshafnarinnar                   á Ingólfi Arnarsyni gekk vel
    Dýptarmælirinn sýndi 20 faða dýpi, skömmu                            áður en báturinn strandaði

Björgun skipbrotsmanna af vjelbátnum Ingólfi Arnarsyni, sem strandaði í fyrrinótt, gekk mjög greiðlega. Tíu menn voru á bátnum, og bjargaði björgunarsveitin frá Stokkseyri þeim öllum, og var björgunarstarfinu lokið eftir um fjórar klukkustundir. Báturinn er talinn ónýtur. Ingólfur Arnarson strandaði ekki við Knarrarósvita, eins og talið var í fyrstu, heldur skammt frá Ragnheiðarstöðum, sem eru um fimm kílómetrum fyrir austan vitann. Björgunarsveitin sem Helgi Sigurðsson stjórnar, fór á strandstað í þremur bílum. Við Loftstaðahól var numið staðar og gengið þar upp, til að skyggnast eftir hinum strandaða báti. Sáu menn hvar hann lá, og að því er virtist, alllangt frá landi, skipbrotsmenn höfðu kynnt bál á hvalbak. Var nú haldið, eins og leið liggur að Ragnheiðarstöðum, og síðar fram sandinn, sem var greiður yfirferðar, vegna þess hve frosinn hann var. Klukkan mun hafa verið um þrjú, þegar komið var niður í fjöruna. Snjeri báturinn stefni að landi og voru um 200 metrar út að honum. Undirbúningur að sjálfu björgunarstarfinu gekk vel, og fyrsta björgunarlínan hæfði skipið. Hófst þá skömmu síðar björgun mannana. Vegna þess hve langt var út í skipið slakknaði svo á línunni, er mennirnir voru dregnir í land í björgunarstólnum, að hver einasti þeirra fór á kaf í sjóinn. Skipstjórinn, Ágúst Snæbjarnarson, yfirgaf síðastur skip sitt, nokkru fyrir klukkan átta. Á strandstað var upphitaður bíll er mönnunum var hjúkrað í eftir þörfum. Enginn þeirra var meiddur en kalt var þeim orðið enda talsvert frost Skipbrotsmönnunum mun öllum hafa tekist að bjarga einhverju af fatnaði sínum og var hann dreginn í land í björgunarstólnum.
Brim var nokkurt, og tilgangslaust að ætla sjer að setja bát á flot. Það varð skipbrotsmönnum þessum til lífs, að þeir skyldu bíða björgunarsveitarinnar í skipinu. Stokkseyringar telja ekki líkur til þess, að Ingólfi Arnarsyni verði bjargað. Báturinn liggur á skeri, og er botn hans nokkuð brotinn. Skipstjóri var enn þar eystra í gærkveldi, og nokkrir af mönnum hans. Á vjelbátnum voru þessir menn:
Ágúst Snæbjarnarson skipstjóri. Laugaveg 135,
Sveinn Magnússon stýrimaður, Skipasundi 17,
Jón Jónasson 1. vjelstjóri, Mávahlíð 9,
Hilmar Valdimarsson 2. vjelstjóri, Kamp Knox G-6,
Jóhann Í. Guðmundsson matsveinn, Lindargötu 63,
Halldór Karlsson háseti, Hofteigi 6,
Guðjón Einarsson háseti, frá Moldnúpi Rangárvallasýslu
Ágúst Steindórsson, háseti Ási í Hrunamannahreppi
Björn Jónsson, háseti, Hofsósi,
Magnús Jónsson háseti, Höfðaborg 51 
Björgvin Guðmundsson, háseti, frá Hólmavík.
Skipbrotsmenn hafa skýrt svo frá, að þeir hafi verið á siglingu er báturinn strandaði, og hafi dýptarmælirinn sýnt 20 faðma dýpi, rjett í þann mund er báturinn strandaði.

Morgunblaðið. 15 mars 1950.


Flettingar í dag: 685
Gestir í dag: 244
Flettingar í gær: 798
Gestir í gær: 301
Samtals flettingar: 1963137
Samtals gestir: 497238
Tölur uppfærðar: 12.8.2020 03:08:48