26.08.2018 10:42

Seglskipið Skandia frá Marstal í hrakningum.

Flutningaskipið Skandia frá Marstal í Danmörku lagði af stað frá Reykjavík hinn 25 janúar árið 1918  með saltfiskfarm frá hf Kveldúlfi í Reykjavík áleiðis til Spánar. Skipið fékk gott leiði suður á móts við Landsend á Englandi en lenti þá í miklu óveðri sem olli miklum skemmdum á skipinu. Tíu dögum síðar lenti Skandia í öðru óveðri og fékk á sig brotsjó sem braut nánast allt á þilfarinu, tvö möstur og bugspjótið og auk þess braut hann skjólborðin á bæði borð um mitt skipið. Skipverjar á Skandiu voru á hrakningum á Atlantshafi uns skipið náði landsýn út af Vík í Mýrdal eftir 52 sólarhringa hrakninga í hafi. Það var svo togarinn Njörður RE 36 sem dró Skandiu til hafnar í Vestmannaeyjum þar sem það lá um tíma. Skipið var svo dregið til Reykjavíkur og lagt við steinbryggjuna til viðgerðar. Svo illa var skipið útleikið eftir hremmingarnar að það lét ekki úr höfn í Reykjavík fyrr en í október það ár.
Skandia var smíðuð hjá Skibsbygmester Otto Hansen í Stubbeköbing í Danmörku árið 1902 fyrir B.R. Albert Hansen Petersen í Marstal í Danmörku. 183 brl. 103,7 ft. á lengd, 25,2 ft. á breidd og djúprista var 11 ft. Endalok Skandiu voru þau að það sigldi á tundurdufl hinn 5 júní árið 1940 og sökk. 6 skipverjar fórust.


Seglskipið Skandia í Reykjavíkurhöfn. Eins og sést á þessari ljósmynd er skipið vægast sagt illa útleikið, mastrið kubbast af og flest mölbrotið ofanþilja. Aftan við Skandiu sést í kútter Valtý RE 98. Hann fórst svo 2 árum síðar að talið er á Selvogsbanka með allri áhöfn, 30 mönnum. Talinn hafa lent í árekstri við færeyska kútterinn Kristine, því hvorugt skipið sást eftir 28 febrúar 1920.        Mynd úr safni mínu.


Seglskipið Skandia í hremmingunum á Atlantshafi. Portrett mynd eftir Hans Andersen Hansen sem var skipverji á Skandiu þessa örlagaríku ferð.                              (C) Kulturarvsstrelsen.

Ægilegur sjóhrakningur "Skandiu"                         af Marstal

Á þriðjudagskvöld var símað hingað, frá Vík í Mýrdal, að þaðan sæist seglskip, í nauðum statt og þyrfti hjálpar við. "Njörður", togari frá Reykjavík, var hjer staddur á leið til Englands. Hann brá við þegar að vitja skipsins og kom með það hingað á miðvikudagsmorgun. Var það flutt inn í Botninn svo nefndan, og liggur nú þar. Skipið heitir "Skandia", þrísigld skonorta frá Marstal í Danmörku. Skipshöfnin er dönsk, skipstjóri heitir Hansen. það var svo útleikið, er það kom, að á það vantaði tvö möstrin og bugspjótið. Skjólborðið var brotið báðu megin um alla miðju skipsins, báturinn farinn og allt aflaga, sem aflagast gat. Skipið var á leið til Spánar, með fiskifarm, sem það tók hjá hf. "Kvöldúlfi" í Reykjavík, alls um 300 smálestir. Skandia" ljet í haf frá Rvík í lok janúarmánaðar. Hafði góðan byr í vikutíma suður eftir Atlantshafi. þá gerði ofsastorm af útnorðri og fjekk skipið áföll stór, missti bátinn o. fl. Var þá komið á 52. gr. N. Br. og 31. gr. V. L., þ. e. suður á móts við Landsend á Englandi. Tíu dögum síðar gerði annað ofviðrið af útnorðri með ægilegum sjógangi. Tók skipið brotsjó einn svo mikinn að burt svifti möstrunum tveimur, bugspjótinu, skjólborðinu og einum skipverja; hann náðist þó aftur alheill eftir einn fjórðung stundar. Úr því tóku við sífeldir hrakningar. Enskt gufuskip hittu þeir fyrir sjer og vildi það bjarga þeim, en það tókst ekki, því að vjelin í því var biluð. Sáu þeir enska skipið um tíma á hrakningi skamt frá sjer, en vissu ekki hvað um það varð síðast. Síðan reistu þeir upp stöng nokkra í stað framsiglu, gerðu sjer seglbleðla eftir föngum og sigldu jafnan er tækt var. Fyrir nokkrum dögum sáu þeir danskt seglskip fara skamt frá sjer í vesturátt, hugðu það vera á leiðinni til Ameríku og báðust hjálpar með merkjum. En dólgurinn danski Ijet sem hann sæi ekki nauðsyn landa síns, og hjelt leiðar sinnar. Sigldu þeir nú enn og ætluðu að leita sjer bjargar á einhvern hátt, er þeir kæmu í nánd við  Ísland. Nokkru af farminum urðu þeir að kasta fyrir borð til þess að ljetta skipið. Vistir höfðu þeir nægar það sem til þurfti. Að síðustu var afráðið að leita lands í Vík í Mýrdal, og það fór sem áður segir, að þaðan voru boðin gerð hingað. Skipverjar voru furðu hressir eftir allan þennan hrakning er þeir komu hingað 52 dögum eftir að þeir ljetu í haf.

Skeggi. 22 tbl. 23 mars 1918.Flettingar í dag: 349
Gestir í dag: 91
Flettingar í gær: 1558
Gestir í gær: 541
Samtals flettingar: 1960346
Samtals gestir: 496299
Tölur uppfærðar: 9.8.2020 05:57:03