19.09.2018 08:18

2 m. "Sluppen" Guide me FD 510. KCJS / TFXL.

Sluppen Guide me FD 510 var smíðuð í Macduff í Aberdeenskíri í Skotlandi árið 1905-6. Eik og fura. 67 brl. Skipið var selt J. Poulsen, Fuglafirði í Færeyjum árið 1925. 1931 var sett 46 ha. Saffle vél í skipið. Það hefur örugglega heitið sama nafni upphaflega, en fær FD skráninguna við komuna til Fuglafjarðar. Árið 1936 er skipið í eigu Mourentze Poulsen í Fuglafirði. Árið 1937-38 er skipið komið í eigu Ásgeirs Péturssonar útgerðarmanns á Akureyri, en aldrei skráð á hann. Ný vél (1941) 120 ha. Lister díesel vél. Selt í september 1941, Kristjáni Gunnarssyni skipstjóra á Eskifirði og Sigurði Friðrikssyni frá Gamla-Hrauni á Eyrarbakka, en Kristján Gunnarsson var ekki skráður eigandi fyrr en í apríl 1943 og þá var meðeigandi Sigurjón Sigurðsson í Reykjavík, skipið fékk þá nafnið Vífilsfell NS 399. Í ágústmánuði árið 1944, bilaði vél skipsins er það var að síldveiðum út af Melrakkasléttu. Varðbáturinn Óðinn dró skipið til hafnar á Raufarhöfn, en í hafnarminninu kom slinkur á dráttartógið með þeim afleiðingum að stefni Vífilsfells brotnaði af. Var því fleytt upp í fjöru þar sem gert var við það.  Selt 21 nóvember 1944, Jóni Franklínssyni í Önundarfirði og Guðna Bjarnasyni í Reykjavík, hét þá Suðri ÍS 55. 29 maí 1946 seldi Jón Franklínsson sinn hlut í skipinu, Örnólfi Valdimarssyni í Reykjavík. Selt 8 janúar 1952, Þóri hf í Þorlákshöfn, hét Þórir ÁR 10. 22 september 1953 er skipið skráð í Reykjavík, hét þá Þórir RE 251, sömu eigendur. Ný vél (1954) 180 ha. Lister díesel vél. Talið ónýtt og tekið af skrá 25 október árið 1965.


Sluppen Guide me FD 510.                                                                       Ljósmyndari óþekktur.

                  Ferðasaga
   Kristján Gunnarsson, skipstjóri

Um miðjan september árið 1941 fórum við Sigurður Friðriksson frá Gamla-Hrauni við Eyrarbakka með áætlunarbíl til Akureyrar og síðan með bát til Siglufjarðar. Við höfðum frétt það á skotspónum að Ásgeir Pétursson útgerðarmaður vildi selja vélskipið "Guide me" sem hafði verið á síldveiðum þá um sumarið og var þá búið að vera í eign Ásgeirs í 3 ár og aðeins gert út á síldveiðar við Norðurland. Skipið átti heima í Færeyjum, en var yfir veturinn í slipp á Akureyri. Ferðin norður gekk samkvæmt áætlun. Við ákváðum að kaupa skipið á þrjátíu og fimm þúsund krónur í því ástandi sem það var. Engin veiðarfæri fylgdu skipinu en síldardekk og segladruslur. Útborgun var kr. 15 þúsund en hitt að mig minnir til fjögurra ára, og greiddum við hvor kr. 7.500. Næst lá fyrir að fá vélstjóra til þess að fara með okkur suður. Okkur tókst að útvega vélstjóra til Akureyrar en þangað þurftum við að fara til þess að sækja síldardekkið og ýmislegt fleira.
Vélstjóri sá sem við fengum með okkur inn á Akureyri var Sölvi Valdimarsson, var hann þá að mig minnir vélstjóri í frystihúsi á Siglufirði. Strax og samningar höfðu verið undirritaðir var farið um borð og átti að fara strax til Akureyrar. Áður höfðum við sett vélina í gang og fært skipið að Bæjarbryggjunni. Okkur brá nú heldur í brún þegar við komum um borð, því þá var kominn mikill sjór í skipið, það mikill að ekki var viðlit að setja vélina í gang. Tvær allgóðar handdælur voru á skipinu, sín hvoru megin við mótorhúskappann. Var nú hamast á dælunni þar til hægt var að setja í gang. Kom þá í ljós að lekið hafði inn með skrúfuöxlinum og lagaðist það er skipt var um pakkningu í pakkdósinni. Um miðnætti var haldið af stað inn á Akureyri og gekk ferðin samkvæmt áætlun. Á Akureyri létum við Eið Benediktsson skipstjóra lagfæra seglin þannig að við höfðum sæmilega fokku og messa, en ekkert stórsegl var. Næsta dag var svo farið frá Akureyri til Siglufjarðar og gekk ferðin vel enda gott veður.
Á Siglufirði var ráðinn vélstjóri, Anton að nafni, hann var að fara til Reykjavíkur og var ráðinn þar til vinnu í vélsmiðju. Síðari hluta dags var lagt af stað. Veður var gott, austan andvari og hlýtt í lofti. Guide Me var með 40 hesta Sáffle mótor, engin raflýsing var, engin talstöð og náttúrlega enginn dýptarmælir. Ekkert bar til tíðinda fyrsta klukkutímann en er við vorum staddir út af Haganesvík heyrðist að vélin var farin að þyngja á sér og reykti óeðlilega mikið. Var vélin nú stöðvuð og farið að athuga, kom þá í ljós að brætt var úr sveifaráslegu. Ýmislegt var af varastykkjum í vélina og þar á meðal sveifaráslegur. Ekki var hægt að kalla í talstöð því hún var engin og ekkert skip sjáanlegt. Nú var kominn asakaldi og heistum við messann og fokkuna og skiptum þannig verkum, að ég var við stýrið en Sigurður og Anton fóru að rífa sundur vélina. Var nú siglt í sjö klst. og vorum við komnir vestarlega á Húnaflóa þegar vélin fór í gang.
Ekki var eitthvað í lagi með kælivatnið og var vélin stöðvuð aftur en þá vildi það til að vélstjórinn missti sogventilinn úr dælunni niður í kjalsog, en þannig háttaði til að vélin var mjög hátt í bátnum og ógerningur var að ná ventlinum aftur, var þá tekinn ventill úr lensidælunni og settur í kælivatnsdæluna. Nú var sett í gang aftur og var nú allt í lagi nema talsverður sjór kom í skipið og þurfti oft að dæla með dekkdælunni. Um morguninn vorum við komnir fyrir Horn, veðrið hélst svipað, kaldi eða stinningskaldi á austan. Okkur fannst ekki gott að þurfa alltaf að vera að dæla með dekkdælunni því talsvert lak með skrúfuöxlinum. Sigurður sagðist skyldi smíða ventil úr tré og masonit ef hann fengi ventil til að smíða eftir. Var þá stoppuð vél útaf Hælavíkurbjargi og eftir klukkutíma var ventillinn tilbúinn og sett í gang og var allt í lagi með lensidæluna. Var slík listasmíði á ventlinum að hann var lengi notaður eftir þetta, þó búið væri að fá venjulegan koparventil. Þeir voru góðir smiðir Gamlahraunsmenn. Gekk nú allt eins og í sögu þar til komið var í opinn Dýrafjörð, þá tókum við eftir því að skipið var farið að hægja mjög á sér og vélin gekk óeðlilega létt. Var þá reynt að þyngja skrúfuna en það dugði ekki. Var þá frátengt og kom þá í ljós að skiptilegan var biluð, vindur hafði nú gengið til SA en var hægur.
Togarinn Karlsefni var að toga stutt frá okkur og heistum við flagg og kom hann brátt til okkar og báðum við hann að draga okkur til Þingeyrar. Við vorum þrjá daga á Þingeyri og framkvæmdi Guðmundur Sigurðsson viðgerðina sem kostaði kr. þrjú hundruð. Sláturtíðin stóð sem hæst og fengum við nýtt kjöt og slátur fyrir sáralítinn pening, og matreiddi Sigurður eins og besti matsveinn. Við vorum þarna í besta yfirlæti og dyttuðum að ýmislegu um borð. Að viðgerð lokinni var strax lagt af stað, og segir nú ekki af ferðum fyrr en komið var suður fyrir Látrabjarg. Við höfðum fyllt tankana af brennsluolíu á Siglufirði og tókum þar einnig eitt fat af smurolíu og var smurolíutunnan á stokkum aftan við stýrishúsið, og var olían tekin í brúsa jafnóðum og nota þurfti, en mótorinn eyddi talsverðri smurolíu. Síðast þegar vélstjórinn tók olíu hafði hann annað hvort ekki látið tappann á eða þá svo lauslega að hann síðar hafði losnað úr, nema tunnan var tóm þegar næst átti að sækja olíu. Nú var ekki um annað að gera en að reyna að ná næstu höfn. Vildi okkur nú til eins og fyrri daginn að veðrið hélst gott og náðum við upp undir Sand og hittum við þar tvo menn á árabát sem voru með handfæri í Sandabrúnum. Við báðum þá að fara fyrir okkur í land og ná í 10 lítra af smurolíu. Þeir brugðust vel við og komu brátt aftur með olíuna og við borguðum þeim vel fyrir og héldum svo ferðinni áfram. Vindur hafði nú gengið í norðaustan strekking og fengum við góðan byr yfir Faxaflóa og lentum í Reykjavík að morgni þess 24. september. Strax daginn eftir gerði óveður sem stóð í marga daga.

Sjómannadagsblaðið. 1 júní 1980.


Vífilsfell NS 399.                                                                                             Ljósmyndari óþekktur.


919. Þórir RE 251.                                                   (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

              "Vífilsfell" laskast

Síldveiðiskipið, Vífilsfell var s. l. föstudag statt út af Kópaskeri með bilað stýri og var varðbáturinn Óðinn sendur því  til aðstoðar. Kom Óðinn dráttartaug í Vífilsfell og dró það áleiðis til Raufarhafnar. En þegar komið var í hafnarmynnið á Raufarhöfn, slaknaði á tauginni og þegar Óðinn tók aftur í, brotnaði stefnið af Vífilsfelli við átakið og varð þá að renna því í land. Vífilsfell er gamalt tréskip og var einu sinni eign Færeyinga. Hét það þá "Guide me" .

Þjóðviljinn. 29 ágúst 1944.


Flettingar í dag: 830
Gestir í dag: 63
Flettingar í gær: 1186
Gestir í gær: 63
Samtals flettingar: 725362
Samtals gestir: 53799
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 19:10:57