21.09.2018 11:09

B. v. Bjarni Ólafsson AK 67. TFAD.

Nýsköpunartogarinn Bjarni Ólafsson AK 67 var smíðaður hjá John Lewis & Sons Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1947 fyrir Bæjarútgerð Akraneskaupstaðar hf á Akranesi. 661 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 203. Kom fyrst til heimahafnar sinnar, Akraness hinn 29 júlí sama ár. 29 janúar árið 1950, bjargaði áhöfn Bjarna Ólafssonar, 14 af 19 manna áhöfn togarans Varðar BA 142 frá Patreksfirði sem sökk í hafi eftir að mikill leki kom að honum. Þessi björgun var talin mikið afrek, því mjög slæmt veður var er slysið varð. 1 júní 1961 var skipið komið í eigu Stofnlánadeildar sjávarútvegsins í Reykjavík. Skipið var selt 30 janúar 1964, Blakki hf í Reykjavík, hét Bjarni Ólafsson RE 401. Skipið var selt 10 desember 1966 til Harstad í Noregi, hét þar fyrst Haakon Hansen. Bar svo nöfnin, Eidsfjord, Gangstad J.R, Liafjell og síðast Lia. Skipið var selt í brotajárn árið 2003.


B.v. Bjarni Ólafsson AK 67 að koma til heimahafnar.                                   (C) Ólafur Árnason.   

         Bæjarútgerð á Akranesi 

Svo sem getið var um í síðasta blaði, verður hér nánar sagt frá hinum nýja togara bæjarins "Bjarna Ólafssyni." Hann kom hingað til bæjarins 29. júlí s.l., beina leið frá Englandi, eftir tæpa þriggja sólarhringa siglingu. Skipið var smíðað í Aberdeen. Það er hið fegursta og fullkomnasta að sjá, og gekk 13,5 mílu í reynzluför, og að jafnaði 12,5 mílu á heimleiðinni. Þetta kvöld var gott veður, og þegar skipið lagðist að hafnargarðinum var þar mikill mannfjöldi saman kominn til þess að fagna því. Fór þar fram móttökuathöfn, þar sem þeir héldu ræður af skipsfjöl, forseti bæjarstjórnar, bæjarstjóri, Guðlaugur Einarsson, og skipstjórinn, Jónmundur Gíslason. Að ræðu skipstjórans lokinni bauð hann öllum viðstöddum að skoða skipið, sem þegar var vel þegið. Þótti öllum það mikið og vandað. Síðar um kvöldið hafði bæjarstjórn boð inni á Hótel Akranes fyrir skipshöfn, bæjarstjórn, útgerðarstjórn og hafnarnefnd. Sátu það um 60 manns. Þar fluttu þeir ræður, Jón Sigmundsson, Hálfdán Sveinsson og Pétur Ottesen. Að því loknu var stíginn dans um stund.


B.v. Bjarni Ólafsson AK 67. Málverk.                                                         Úr safni Ólafs Jónssonar.  

Fór hóf þetta vel og ánægjulega fram. Útgerðarstjórn skipa þessir menn: Þorgeir Jósepsson, formaður, Jón Sigmundsson og Guðmundur Sveinbjörnsson. Bókhald skipsins verður í skrifstofu bæjarins. Skipið ber yfir 4.000 kit af ísuðum fiski. Hér fer á eftir hluti ræðu forseta bæjarstjórnar, Ólafs B. Björnssonar, er hann flutti af skipsfjöl, við komu skipsins til Akraness:
"Góðir Akurnesingar, útgerðarstjórn, skipstjóri og skipshöfn. Þegar Alþingi og ríkisstjórn tók þá ákvörðun, að láta byggja fyrir Íslendinga um 30 nýtízku togara í Englandi, var bæjarstjórnin þegar ráðin í því, og sammála um, að gera ítrustu tilraunir til að bærinn gæti eignast og haldið úti einu af þessum skipum, sem óumdeilanlega marka tímamót í fiskveiðasögu vorri. Í þessum skipakaupum felst stórfelt framtak og langþráð takmark útvegsmanna og allrar þjóðarinnar. Þau uppfylla óskir vorar og vonir hvað aflamöguleika snertir, öryggi og aðbúnað skipshafnar, og taka í heild sinni fram öllu því er áður þekktist um byggingu og búnað togara.


24. Bjarni Ólafsson AK 67.                                                                       Ljósmyndari óþekktur.  

Í dag er þessi ósk og áform Akurnesinga orðið að veruleika. Í dag, á þessari stundu, fögnum vér öll þessu fullkomna fleyi. Vér bjóðum það og skipshöfnina hjartanlega velkomið og vonum að gæfan fleyti því og skipshöfn þess og forði frá öllu grandi. Eins og það er vitanlegt, að þessi skip marki tímamót í íslenzkri fiskveiðasögu, vonum vér að þetta skip marki tímamót í sögu vors kæra bæjar, til margvíslegra bjargráða og blessunar í bráð og lengd. Margra hluta vegna er þetta skip því á sérstakan hátt óskabarn allra bæjarbúa, líka þeirra Akurnesinga, sem búa utanbæjar. Það er engin tilviljun að þessu glæsta skipi var valið nafnið Bjarni Ólafsson.


Landað úr togaranum Bjarna Ólafssyni AK 67 á Akranesi.                       Ljósmyndari óþekktur.
  
Hann var framsækinn dugnaðarmaður og fengsæll, dáða- og drengskaparmaður. Honum var hvort tveggja í senn sýnt um að nota sér áunna reynzlu og það vald og viðgang, sem ný tækni hefur á framfarir og framleiðslu þjóðanna. Sem ungur maður "braut hann í blað" hjá Akurnesingum, er hann sem foringi nokkurra jafnalldra sinna byggði fyrsta dekkaðan mótorbát, sem þá þótti mikið skip, sem miklir möguleikar voru þegar við bundnir, enda varð fljótlega sjón sögu ríkari. Þetta fyrsta skip Bjarna og þeirra félaga hét "Fram." Það var réttnefni. Fól í sér fyrirheit, og var sannarlega táknrænt upp á beina braut Bjarna, sem stórhuga forystumanns, um stöðugt stærri og fullkomnari skip, til lengri sóknar og meiri fanga, á vegum þess atvinnuvegar, sem hvort tveggja er lífæð vor og lyftistöng, til efnalegrar farsældar og frelsis þjóðar vorrar. Þetta fyrsta skip hans var 10 smálestir, en hið síðasta 200 smálestir.


B.v. Bjarni Ólafsson RE 401.                                                                    Ljósmyndari óþekktur.

Herra skipstjóri, Jónmundur Gíslason! Um leið og vér öll bjóðum þig og skipshöfn þína hjartanlega velkomna heim með þetta mikla og góða skip, er mér persónulega, bæjarstjórn, útgerðarstjórn og öllum almenningi, óblandin ánægja að lýsa því yfir, að vér trúum þér og treystum allra manna bezt fyrir þessu glæsta skipi, og fyrir hverri skipshöfn, sem með þér leggur á djúpið, til bjargráða fyrir ykkur sjálfa, þennan bæ og þjóð vora alla. Með þessu er áreiðanlega óvenju mikið sagt, og finnst sjálfsagt ókunngum of sagt. En því mæli ég svo stórt og óhikað, að ég þekki þig sem óvenjulegan mann, með ótrúlega mörgum áþekkum eiginleikum, sem Bjarna Ólafsson prýddu mest. Það er því engin tilviljun að þér sé trúað fyrir þessu skipi og skipshöfn.


Eidsfjord N-1-SO á loðnuveiðum árið 1982.                                                      (C) Frank Iversen. 
  
Með slíkri forystu, með þeirri heill og giftu, sem vér vonum að fylgi þessu nafni, getum vér ekki vænst farsælli eða fyllri árangurs. Vér vonum því, og efumst ekki um, að hinn minnsti skipverji þinn, jafnt þeim sem mest á ríður, á þessu mikla, góða skipi, fylgi þér fast til fengs og farsældar, og að dæmi þitt og þeirra verði djörf og dáðrík fyrirmynd um langa framtíð. Ég óska stjórn fyrirtækisins, bæjarstjórn, skipverjum og öllum bæjarbúum til hamingju með þennan nýja togara, og bið guð að blessa menn og skip. Ég bið að lokum alla viðstadda að óska togaranum "Bjarna Ólafssyni" og skipshöfn hans heilla og hamingju á ókomnum tímum, með ferföldu húrra."

Tímaritið Akranes. Júní-júlí 1947.

        Björgun skipverja af Verði                           einstakt afrek

Nánari fregnir eru nú fyrir hendi af hinum hörmulega atburði er togarinn Vörður frá Patreksfirði sökk s. l. sunnudagskvöld og með honum fimm vaskir sjómenn. Aðdragandinn að slysinu eru í aðalatriðum á þá leið, að kl. 6.30 á sunuudagsmorgunn veitir 1 stýrimaður því eftirtekt, að skipið var tekið að fá á sig óvenjumikla sjóa og hallast á bakborða, en við rannsókn kom í ljós, að leki hafði komið að skipinu fyrir framan fiskilestarnar svo að netjarúm og neðri hásetaklefi var hálffullur af sjó. Allir skipverjar bjuggu hinsvegar aftur í skipinu. Voru þegar gerðar ráðstafanir til þess að ausa skipið. Vegna sjógangs var eigi hægt að beita handdælum "við austur skipsins, en dælt var úr rúminu með vélknúnum dælum frá vélarúmi. Þegar séð varð, að dælurnar höfðu ekki undan kallaði loftskeytamaðurinn á Verði upp togarann Geir sem var í um það bil 60 sjómílna fjarlægð og bað hann koma til aðstoðar, en togarinn Bjarni Ólafsson reyndist vera mun nær staðnum og bauð aðstoð sína. Var hún að sjálfsögðu þegin með þökkum og kom hann að Verði um kl. 2,30 á sunnudag. Brátt tók þá veður að versna og um kl. 6 um kvöldið var vindur orðinn 8 vindstig og þungt í sjóinn.


B.v. Vörður BA 142. Smíðaður í Þýskalandi árið 1936. 625 brl.                     (C) Hafliði Óskarsson.  

Fór Bjarni Ólafsson þá eins nálægt Verði og frekast var unnt, en um þetta leyti hallaðist skipið mjög mikið á bakborða og var sigið niður að framan. Allir skipverjar sem voru fram á, fengu þá fyrirskipanir um að færa sig aftur eftir og losa um björgunartækin. Skipti það þá engum togum að Vörður seig mjög hratt að framan og komust tveir skipverjar eigi upp og sukku með því. Þegar hér var komið voru flestir skipverjar komnir í sjóinn og höfðu níu komist á kjöi björgunarbátsins, og fyrir harðfylgi og einstakan dugnað skipverja á Bjarna, tókst að bjarga mönnum þessum og auk þess fimm öðrum, sem voru á fleka eða í björgunarhringum. Var þá komið versta veður, stórsjór og myrkur. Auk þess var einum skipverja bjargað, sem látizt hafði í bjargbeltinu af vosbúðinni. Voru skipverjar mjög þjakaðir, eins og að líkum lætur, en fyrir ágæta aðhlynningu um borð í Bjarna Ólafssyni hresstust þeir brátt, Bjarni Ólafsson flutti skipverja hingað til Reykjavíkur, en skipstjóri var lagður í sjúkrahús vegna meiðsla, sem hann hafði hlotið. Skipverjar fóru allir vestur á Patreksfjörð í gærkvöldi með Esju að lokinni kveðjuathöfn yfir Jóhanni Jónssyni.

Vísir. 1 febrúar 1950.

                                 
Flettingar í dag: 908
Gestir í dag: 371
Flettingar í gær: 1213
Gestir í gær: 485
Samtals flettingar: 2398673
Samtals gestir: 624729
Tölur uppfærðar: 28.9.2021 14:19:31